09.04.1962
Neðri deild: 87. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 202 í C-deild Alþingistíðinda. (2644)

27. mál, vegalög

Frsm. meiri hl. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Það er ekki óeðlilegt eftir venju á Alþ., að allmikið af till. hafi verið lagt fram um að setja tiltekna vegi í þjóðvegatölu. Samgöngumálanefndir beggja deilda hafa sent frv. og brtt. um þessi mál til vegamálastjóra og óskað eftir umsögn hans. Hann hefur tekið saman, hversu mikið hér er um að ræða, og samkv. upplýsingum, sem hann hefur sent samgmn. þessarar hv. deildar, gera frumvörp og brtt. í báðum d., sem fram hafa komið til þessa dags, ráð fyrir 845 km af nýjum vegum, sem setja ætti í þjóðvegatölu, ef allt yrði samþ. Þar af eru nú í tölu sýsluvega 675.8 km, í tölu hreppavega 47.7 km, en 121.5 km í engum vegaflokki, þ.e.a.s. hvorki þjóðvegir, sýsluvegir né hreppavegir, og er því um að ræða einkavegi eða fjallvegi. Af þessum vegum eru nú 285.5 km taldir lagðir vegir, en 317.1 km ruddir vegir, og 242.4 eru ekki akfærir nú, þegar þessi mál eru flutt. Samtals mundu þessir vegir, sem nú ættu að koma í þjóðvegatölu, ná til 419 bæja, og eru þar 77 óbrúaðar ár.

Í marzmánuði s.l. ár var samþ. þál. um endurskoðun á gildandi lögum um vegi og brýr. Nokkrum vikum siðar skipaði samgmrh. nefnd samkv. þessari ályktun, og hefur sú nefnd starfað siðan. Er allt útlit á því, að nefndin muni ljúka störfum nú á komandi sumri og þá leggja till. sínar fyrir hæstv. ráðherra, sem væntanlega mun þá geta lagt þær fyrir næsta reglulegt Alþ. Þar sem alger endurskoðun á gildandi vega- og brúalögum er svo langt komin, þykir ekki ástæða til þess að opna vegalög nú seint á þessu þingi; og hefur meiri hl. samgmn. því lagt til á þskj. 635, að frv. og brtt. verði vísað til ríkisstj.