09.04.1962
Neðri deild: 87. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 210 í C-deild Alþingistíðinda. (2647)

27. mál, vegalög

Frsm. meiri hl. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs fyrst og fremst til þess að mótmæla harðlega þeim furðulega málflutningi, sem hv. 4. landsk. (HV) viðhafði í ræðu sinni áðan. Við erum ýmsu vanir frá þessum hv. þm., en heyrðum það óvenjulega vel, hvernig sannleikurinn gufar upp í orðum hans og hann er kominn út á hálan ís ósanninda og blekkinga, áður en hann sjálfur veit af. Ég skal nefna dæmi.

Það er tiltekið skv. upplýsingum vegamálastjóra í nál., og ég gat þess áðan, að þeir vegir, sem lagt er til að gera að þjóðvegum, mundu ná til 419 bæja. Svo byrjar hv. þm. að bæta við sinni eigin útgáfu. Jú, þeim þykir 419 lítið, segir hann. Það sagði ég ekki, og það hefur vegamálastjóri ekki sagt heldur.

Svo segir hann, að þeim finnist, að þessir 419 megi bíða, fólkið sé svo fátt þar, svona séu embættismenn og svona sé meiri hl. Þetta er hreinn uppspuni, það hefur ekkert slíkt verið sagt, hvorki í skriflegu nál. né framsögu.

Hv. þm. stígur einu skrefi lengra: Það er eins og þessir vondu menn, vegamálastjóri og meiri hl. n., vilji leggja bæina í eyði, af því að þeir megi ekki fá vegi !

Ég verð að segja, að það er furðulegt, að einn þm. skuli flytja mál á þennan hátt, þar sem einfaldar staðreyndir liggja fyrir og hver hv. þm. getur sannreynt, hvað um er að vera. Mér fannst sjálfum, þegar ég skrifaði nál. og þegar ég flutti framsöguræðuna, talan 419 um sveitabæi á Íslandi vera býsna há. Þeir eru ekki nema 6 þús. eða þar um bil allt í allt. Og ég skil ekki, hvernig hv. þm. getur fundið það út úr orðum, sem ég hef aldrei sagt og ekki standa í nál., að okkur finnist þetta svo litið, að ekki sé hægt að skipta sér af því. Hann er visvitandi að snúa hlutunum við. Mér finnst 419 bæir vera mikið og fyllsta ástæða, eins og hverjum einasta þm. á þessu þingi, til að láta einskis ófreistað til að lengja vegakerfið, strax og fjármunir eru til þess. Þar að auki vil ég benda hv. þm. á, að það stendur í nál. og grg. vegamálastjóra að þeir 845 km, sem nú er lagt til að verði þjóðvegir, nái til 419 bæja, en af þessum 845 km eru 2/3 eða yfir 600 km þegar færir velgir, svo að það liggur ekki fyrir, hve margir af þessum 419 bæjum hafa ekki vegasamband og hve margir hafa það með öðrum vegum en þjóðvegum.

Sama máli gegndi um það, sem hv. þm. sagði um störf vegamálanefndar. Hann flutti úr sínum huga alls konar yfirlýsingar um það, hvað n. ætti að gera og hvað ekki að gera. Hann lýsti því yfir, að það komi n, ekkert við, hvaða vegir séu þjóðvegir og hvaða vegir ekki. Ég vil aðeins benda hv. þm. á, að hann hefur ekki umboð til að gefa neinar yfirlýsingar um það, hvað þessi n. á að gera. Henni er falið almennt að endurskoða lög um vegi og brýr og engin takmörkun þar á sett. Ég hef reynt að útskýra fyrir honum á nefndarfundi, að eitt af því, sem hlýtur að koma mjög til álita og hefur verið rætt í n., er að flokka vegi miklu meira en gert hefur verið hingað til, þannig að það, sem nú eru þjóðvegir á Íslandi, gætu vei orðið eins og í öðrum löndum 3 eða 4 mismunandi flokkar vega. Mundu þá vegir, sem fyrir eru og ólagðir eru, flokkast eftir því, hvers konar vegur þarf að koma á viðkomandi svæði.

Ég vil enn fremur segja, að ég álít persónulega ekki, að þetta kerfi, sem við höfum haft um ákvörðun þess, hvað eru þjóðvegir og hvað ekki, sé svo dásamlegt, að það megi ekki íhuga endurskoðun á því. Hingað til hefur það verið háð samþykki Alþ., en í rauninni farið eftir því, hvað þm. hafa verið duglegir að koma sínum vegarspottum áfram, hvar þjóðvegum hefur fjölgað og hvar ekki. Við vitum vel, að árangurinn af þessu er sá, að til eru stór svæði á landinu, þar sem nálega hver einasta heimreið að sveitabæ er þjóðvegur, og önnur svæði, þar sem nauðsynlegir vegir í sambandi milli byggðarlaga eru ekki orðnir þjóðvegir enn þá. Mér finnst þetta dæmi eitt vera næg sönnun þess, að það er fyllsta ástæða til að endurskoða þetta kerfi. Það eru vissulega margar færar leiðir til að endurskoða það án þess að skerða það grundvallarvald, sem Alþingi hefur yfir því, hvaða vegir eru lagðir og hvaða vegir ekki.

Ég vil svo að lokum benda á, að þótt vegur sé tekinn í þjóðvegatölu, er ekki þar með ákveðið, að það verði byrjað að leggja hann í sumar eða haust. Þetta veit hv. þm. ósköp vel. Þess vegna felst í afstöðu til þessa máls enginn dómur um það, hvort þessi vegur eða hinn er nauðsynlegur eða ekki, enginn dómur um það, að einn eigi að bíða og annar ekki. Það er ákveðið fyrst og fremst við afgreiðslu fjárlaga, hvaða vegaframkvæmdir er ráðizt í á næsta ári. Fari svo, sem allar líkur benda til, að endurskoðun vegalaganna verði lögð fyrir Alþ. á komandi hausti, þá mun sjást mynd þeirrar endurskoðunar, sem væntanlega getur jafngilt opnun vegalaga og vel það, um leið og fjárlög eru afgreidd í haust. Þannig er vegur engu nær að verða lagður eða endurbættur, þó að hann sé tekinn í þjóðvegatölu nú, þegar tækifæri verða til þess fyrir afgreiðslu fjárlaga á næsta hausti.

Ég vil ítreka mótmæli mín gegn þeim furðulega málflutningi, sem hér var viðhafður, og neita því algerlega, að þær skoðanir, sem hv. þm. gerði vegamálastjóra og meiri hl, n. upp, eigi við nokkur rök að styðjast.