09.04.1962
Neðri deild: 87. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 211 í C-deild Alþingistíðinda. (2648)

27. mál, vegalög

Frsm. minni hl. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að segja nokkur orð til andsvara þeim tveim hv. þm., sem nú hafa talað.

Það má vera furðulegt minnisleysi bv. form. samgmn., þegar hann leyfir sér að fullyrða, að ég hafi aldrei kvartað um það, að ekki væru kallaðir saman fundir í n. Það var liðið eitthvað fram yfir miðjan vetur, þegar ég sneri mér til hans beint og óskaði eftir fundi í n., en þá var hv. þm. að fara vestur til Ameríku og kom því ekl:i í verk, áður en hann fór í sína Ameríkureisu, að halda þennan fund. Mundi þetta nú ekki rifjast upp fyrir hv. þm., ef hann hugleiðir það? Eða vili hann segja, að það sé ósatt? Nei, þetta er satt, ekki varð af fundarhaldi, áður en hann fór í sína Ameríkuför. Svo kom varamaður. Þá sneri ég mér til varamannsins og óskaði eftir fundi. Hann kallaði eftir nokkurn tíma saman fund, og það var einasti fundurinn, sem þá hafði verið haldinn í samgmn., frá því að afgr. voru flóabátastyrkirnir í sambandi við fjárlög, en það varð að afgreiðast þá. Þá var því komið í verk að senda málið til umsagnar, en það hafði legið ósnert fram yfir miðjan vetur. Þegar svo hv. form. n., hv. 2. þm. Vesturl. (SÁ), kom aftur heim frá Ameríku, óskaði ég einnig eftir fundi, í n. Upp úr því hélt hann, eftir nokkurn tíma, fund aftur. Og það er sá fundur, sem leiddi til þess, að ein 3 eða 4 mál voru afgreidd frá n. En þetta er á seinni skipunum gert, því verður ekki neitað. Og það verða ekki bornar fram neinar sómasamlegar afsakanir fyrir þessu. Þetta eru engin vinnubrögð. Nú skyldum við segja t.d., að hv. þd. samþ. að opna vegalögin, samþ. það frv., sem hér er til umr. Er þá ekki orðinn ærið knappur tími fyrir n. að athuga þær till. til breytinga á frv., sem hér liggja fyrir? Það er ekki búið að koma því í verk að taka neina afstöðu til neinna brtt. við frv. Jú, það er hætt við því, að fólk segi þá: Það er komið alveg að þingslitum, og það er enginn tími til að athuga brtt., og við verðum þess vegna, af því að við erum komnir í ótíma, að þetta við að afgreiða málið. — Þetta eru ekki góð vinnubrögð, og hv. form. átti ekki að mannskemma sig á því að reyna að mæla þessu bót eða herma upp á mig ósannindi í samhandi við það, að ég hafi ekki rekið á eftir honum, því að það hef ég gert, — gert bæði við hann og þann mann, sem settist í formannssæti n, í hans fjarveru. Þar að auki á ekki að þurfa neinn eftirrekstur til við formenn n., þeir eru verkstjórarnir í n. og eiga að annast störfin, án þess að nm. séu á hælunum á þeim að reka á eftir þeim.

Þá kemur að efnishlið málsins. Við erum á móti því, segir hv. form. samgmn., að vegalögin séu opnuð, af því að það vantar fjármagn. Nú hefur það oft skeð náttúrlega, að vegalög hafa verið opnuð. Ég spyr: Hafa þá legið fyrir yfirlýsingar um það frá stjórnarvöldunum, að nú væri hægt að opna vegalög, af því að nú væru til nóg fjárframlög til að gera alla þá vegi, sem hafa verið teknir í þjóðvegatölu? Nei, hver einasti þm. veit, að slik yfirlýsing hefur aldrei legið fyrir. Það hefur aldrei legið fyrir nein skuldbinding af hendi Alþ. um, að það væri til nóg fjármagn til þess að byggja þá vegi, sem vegalög gætu talið í þjóðvegatötu. Þetta er því hrein fjarstæða. Þingið hefur opnað vegalögin með nokkurra ára millibili, alveg án tillits til þess, hvort menn vissu, að það væri til nóg fjármagn til þess að gera vegina, — alveg án tillits til þess. Síðan hefur verið ákveðið við afgreiðslu fjárlaga á hverju ári, hvað mikil upphæð yrði ákveðin til þess að gera vegi, úr hópi hinna gömlu þjóðvega eða þeirra nýju, allt eftir ákvörðun þings og í samráði við þm. kjördæmanna.

Þetta er því annar fyrirslátturinn og öllu aumlegri en sá fyrri og óskynsamlegri. Það var þó á yfirborðinu hægt að skjóta sér á bak við það, að það væri milliþn. að starfa og hefði það verkefni að athuga vegalögin og þess vegna væri bezt að bíða eftir því, að menn heyrðu, hvað hún segði. En að koma með þetta, hlaupa frá hinum fyrirslættinum, því að fyrirsláttur er það og ekkert annað með endurskoðunina og er notað til að skjóta sér á bak við, en að skjóta sér á bak við fjármagnsskortinn í þessu sambandi, það er hlálegt, því að Alþ. hefur aldrei ákveðið nægilegt fjármagn til að leggja hina nýju þjóðvegi á því þingi, sem nýir vegir hafa veríð teknir í þjóðvegatölu. Það gerist í sambandi við afgreiðslu allt annarra laga, sem sé fjárlaganna, eins og allir vita.

Ég spyr: Ef þetta er höfuðástæðan fyrir því, að nú er ekki lagt til, að vegalög séu opnuð, að ekki er fjármagn fyrir hendi, á þá að bíða með að opna vegalögin, þangað til nægilegt fjármagn liggur á borðinu til þess að gera þá vegi, sem heita þjóðvegir? Er það ætlunin? Það hlýtur að vera tilætlunin, úr því að fjármagnið verður að vera fyrir hendi. Þá virðist vera verið að gefa fyrirheit um, að það verði beðið með að opna vegalög, þangað til nægilegt fjármagn sé fyrir hendi. Þá hygg ég, að ýmsir þm. verði farnir að verða langeygðir eftir vegalagabreytingum.

Jú, hv. þm. gaf í skyn, að það mundi ekki langt undan, að fjármagnið kæmi. Ég vona, segir hann, að þegar vegalagan, lýkur störfum, þá komi fram stóraukið fjármagn til vegagerðar þá sé óhætt að opna vegalögin. — Það mundi gleðja mig alveg sérstaklega mikið, ef það kæmi stórkostleg fjárveiting til vegamála fljúgandi í fangið á okkur við það, að þessi vegalaganefnd skilaði áliti. Það væri alveg sérlega óvenjulegt og ánægjulegt, það verð ég að segja.

En hv. form. samgmn., sem er áhrifamikill þm. í liði stjórnarinnar, sagði: Það er ákveðin von mín, að stóraukið fjármagn komi til vegamála, þegar vegalaganefndin lýkur störfum. Hún lýkur væntanlega störfum á þessu ári. Hún var skipuð í fyrra. Væntanlega lýkur hún störfum á þessu ári, svo að þetta er ekki langur tími, sem við þurfum að biða eftir að fjármagnið komi.

Ef þetta er nú sannleikur hjá hv. þm., að fjármagnið sé rétt ókomið, það komi á þessu ári, um leið og vegalaganefndin skili af sér störfum, var þá ekki einmitt sjálfsagt núna að opna vegalögin og bæta ýmsum þeim vegum í þjóðvegatölu, sem aðkallandi þörf væri talin fyrir úr héruðunum og af þm., að lagðir væru einmitt á næstunni? Ég hefði haldið það, því að suma þeirra vega, sem nú eru ekki í þjóðvegatölu, er orðið meira aðkallandi að leggja en ýmsa af þeim, sem verið hafa lengri eða skemmri tíma í tölu þjóðvega. Það fer nokkuð eftir því, hvernig vegakerfið í kjördæmunum hefur breytzt, síðan vegalögin væru seinast endurskoðuð.

Ég hefði einmitt haldið, að ef við sæjum hilla undir aukið fjármagn til vegamála á næsta þingi eða fyrir næsta þing, þá hefði einmitt verið tímabært að opna vegalögin núna. Og ég kemst hér að allt annarri niðurstöðu en hv. þm., út frá einmitt þeim upplýsingum, sem hann gaf, að fjármagnið mundi koma, mjög mikið fjármagn til vegagerða, þegar vegalaganefndin lyki störfum.

Hann talaði um, að ég hefði haldið því fram, að drátturinn á þessu máli væri gerður til bekkni við stjórnarandstöðuna. Það sagði ég alls ekki. Þar hefur hv. þm. ekki hlustað nógu vel. Ég vék að því, að þessi aðferð væri viðhöfð í allt of ríkum mæli til þess, að sómasamlegt gæti talizt viðvíkjandi ýmsum málum stjórnarandstöðunnar, að liggja á þeim í n. frá byrjun þings og til þingloka og stundum þing eftir þing, og taldi að því engan sóma fyrir þingið, því að meiri hl. á alveg hiklaust að geta staðið fyrir sinni afstöðu og afgr. málin með eðlilegum hætti í n. til þingdeildanna, verið með þeim, afgr. þau með rökstuddri dagskrá, vísað þeim til stjórnarinnar eða á hvern annan þinglegan hátt, en ekki að níðast á málum stjórnarandstöðunnar. Það er óþinglegt í alla staði og óviðurkvæmilegt.

Hins vegar er búið að beita þetta mál þessum vinnubrögðum. Það er búið að liggja á þessu máli frá því í októbermánuði og þangað til nú í apríl. Númerið á þskj. ber það með sér, þetta er þskj. 27, 27. mál, en stjórnin lagði fram á annan tug mála á fyrsta degi þingsins. Þetta er með fyrstu málum, sem þm. báru fram á þinginu, og er fyrst nú að koma til 2. umr, sökum þeirra vinnubragða, sem hafa verið í n., því að mátið fór snemma til nefndar.

Hv. 5. þm. Vesturl. sagðist koma hér í ræðustól til þess að mótmæla harðlega ósannindum og blekkingum, sem ég hafi farið með, og staldraði svo við tölu býlanna, sem hv. vegamálastjóri hafði gefið upp í bréfi sínu til n. að væru 419, sem kæmu til með að njóta þeirra vega, sem teknir yrðu í þjóðvegatölu, ef allar till. þm. yrðu samþ. Hitt þurfti ekkert að hrærast saman í höfði hv. þm., að ég lét í ljós þá skoðun mína, að þessi tala um 419 býlin væri sett í bréfið til þess að rökstyðja það, sem var rauði þráðurinn í bréfinu öllu, að það væri ekki tímabært að opna vegalögin. Hvað átti þá talan á býlunum að þýða annað en að það eitt með öðru, að það væru ekki nema 419 býli, sem kæmust í vegasamband, mælti með þessari niðurstöðu, sem var verið að rökstyðja, að nú væri ekki þörf á að opna vegalögin? Af þessu varð ljós afstaða embættismannsins, hún var þessi í gegnum allt bréfið: Það liggur ekki á. Annars skal ég segja það, að ég man aldrei eftir bréfi frá vegamálastjóra, þegar samgmn. hefur fjallað um það, hvort ætti að opna vegalög, — ég man aldrei eftir bréfi frá vegamálastjóra, sem hafi mælt með opnun vegalaga. Þeir hafa alltaf getað sagt, þeir góðu embættismenn: Ja, það eru svo og svo mörg hundruð kílómetrar í viðurkenndum þjóðvegum, sem er ekki búið að gera enn þá, og það liggur nær að ganga á þá vegi og leggja þá heldur en að bæta nýjum við. — Þeir hafa alltaf verið tregir, eðlilega. En það geta verið gild rök fyrir því, að það sé orðin meiri nauðsyn að gera veg, sem er alveg nýtekinn í þjóðvegatölu, heldur en þörfin, sem liggur fyrir því að gera veg, sem búinn er að vera tíu ár í tölu þjóðvega, ef vegakerfið hefur þróazt þannig. Þetta vita allir þm. Það er alls ekki hægt að ganga á að framkvæma vegalög á þann hátt að taka þjóðvegina eftir þeirri aldursröð, eftir því ártali, þegar þeir voru teknir inn sem þjóðvegir. Í því væri auðvitað ekkert vit. Nei, það getur verið orðin miklu meira aðkallandi þörf á að geta veitt á næsta þingi fjárveitingu í kjördæmi til vegar, sem hefur verið tekinn í þjóðvegatölu á þessu þingi, heldur en í annan veg, sem tekinn var í þjóðvegatölu t.d. fyrir tíu árum.

Hv. 5. þm. Vesturl. hafði engu að mótmæla. Ég hafði tilfært rétt úr bréfi vegamálastjórans, bæði þessa tölu um, að býlin væru 419, og aðrar tölur, sem í því bréfi voru því til rökstuðnings frá hendi embættismannsins, að ekki lægi á að opna vegalögin. En ég dró af því allt aðrar ályktanir og var frjáls að því. Ég þarf ekki að spyrja hv. 5, þm. Vesturl. að því, hvaða skoðanir ég hafi á vegaþörfinni, þegar upplýst sé, að 419 sveitabæir búi við vegleysur. Hann segir nú, að hann telji þetta háa tölu. Í n. var m.a. lagt út af því, að hér væri ekki um að ræða nema 419 bæi, sem kæmust í akvegasamband, þó að frv. væri samþ. Það var einmitt tekið í n. sem rökstuðningur fyrir því, að það væri óhætt að bíða. hað er bara svona fátt fólk, sem fær bættar samgöngur við þetta. Er það nokkur nauðsyn? Þetta var andinn í n., alveg í samræmi við anda bréfsins. En nú, þegar hv, þm. kemur hér í d., þá vill hann láta það sjást eftir sér í þingtíðindum, að hann hafi alls ekki tekið afstöðu á móti málinu vegna þess, að fólk í dreifbýli og fámenni hafi átt við málið að búa og hann hafi verið á móti opnun vegalaga þess vegna, af því hvað hausarnir voru fáir. Bréfið frá vegamálastjóranum studdi allt að þeirri afstöðu meiri hl., að nú væri aðgerðaleysi það eina, sem ætti við, það þyrfti ekki að opna vegalögin.

Ég held, að ég hafi nú svarað því, sem svara þarf frá hendi þessara þm. En ég endurtek það. að vinnubrögð samgmn. á þessu þingi hafa ekki verið til fyrirmyndar. Og það er ekki hægt með sanni að bera það fyrir sig, að nm. hafi ekki rekið eftir formanni sínum, því að það hefur verið gert hvað eftir annað. Og nú er svo komið, að málið er svo seint á ferð, að væri frv. samþ., þá á n. eftir að taka afstöðu til allra brtt., og yrði þá vafalaust sagt: Til þess er ekki tími. Málið verður því að deyja drottni sínum, því að n. hefur ekki tíma til að starfa. Svo mikið hefur verið hangsað í n., að málið er komið í tímaþröng undir þinglok, en var borið fram með fyrstu þingmannafrv. á þessu Alþingi.

Ég endurtek svo afstöðu okkar í minni hl. Ég tel fyllstu rök mæla með því, að vegalög verði opnuð, og mæli með því, að frv. verði samþ.