20.11.1961
Efri deild: 19. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 231 í C-deild Alþingistíðinda. (2664)

41. mál, jarðgöng á þjóðvegum

Frsm. meiri hl. (Jón Þorsteinsson):

Herra forseti. Samgmn. hefur athugað þetta frv., sem hér liggur fyrir um jarðgöng á þjóðvegum, og mælir meiri hluti nefndarinnar með því, að frv. verði samþykkt óbreytt.

Þetta frv. er ekki nýtt af nálinni. Á síðasta þingi var flutt hér frv. í þessari deild af þeim hv. 3. þm. Vestf. og hv. 6. þm. Norðurl. e. Í meðförum samgmn. og deildarinnar var sú breyt, gerð á því frv., að inn í það var bætt ákvæðum um tekjuöflun til þess að mynda sjóð til jarðgangagerðar, og þannig breytt var þetta frv. á síðasta þingi samþykkt samhljóða í þessari deild. Því frv. lyktaði hins vegar svo, að. það fór ekki í gegnum Nd., heldur var því vísað þar til ríkisstj.

Það frv., sem hér er flutt, er alveg samhljóða frv. frá fyrra ári um jarðgöng á þjóðvegum, eins og það var samþykkt héðan úr deildinni, þannig að hv. dm. er efni þessa frv. vel kunnugt og þess vegna ekki þörf á að ræða um þetta í löngu máli.

Jarðgöng hafa fram að þessu naumast þekkzt hér í vegagerð. Hins vegar eru uppi nú allháværar raddir um það, að jarðgöng þurfi að gera a.m.k. á tveimur stöðum á landinu, og það hefur reynslan sýnt, að þau byggðarlög, sem eru þannig sett, að þau þyrftu helzt að tryggja góðar samgöngur á landi með jarðgangnagerð, hafa orðið út undan, en hins vegar þau byggðarlög orðið miklu betur sett, sem hafa þurft að brúa fljót til að tryggja góðar samgöngur á landi til sín.

Það er á allan hátt eðlilegt að setja jarðgöngin á bekk með brúm, eins og gert er í frv., og leggja til, að 3 aurar af hverjum benzínlítra af hluta ríkissjóðs af benzínskatti skuli renna í brúasjóð, og skuli Kostnaður við jarðgöng, sem lengri eru en 35 m, greiddur af þessum tekjum brúasjóðs, og má ekki verja þeim á annan hátt. Í jarðgangafrv. í þeirri mynd, sem það var upphaflega, þegar það var flutt á fyrra þingi, var ekki gert ráð fyrir neinum sérstökum tekjum til jarðgangagerðar, heldur aðeins sagt, að kostnaður af þeim skyldi greiddur úr brúasjóði, án þess að afla brúasjóði nokkurra tekna á móti. Nú er það vitað, að brúasjóður er mjög fjárþurfi og það er búið að taka ákvarðanir um verk og ráðstafa þeim sjóði þó nokkur ár fram í tímann, þannig að þó að jarðgöngunum hefði verið bætt á þennan sjóð, þá var þann veg allt of löng bið eftir því, að út úr því hefðu komið nokkrir möguleikar til þess að byggja jarðgöng.

Jarðgöng eru í sjálfu sér mjög kostnaðarsöm, og bæði af fjárhagslegum ástæðum og verkfræðilegum ástæðum þarf yfirleitt að gera jarðgöng í einum áfanga. Það er ekki hægt að taka kafla og kafla í einu, það yrði allt of dýrt að flytja öll þau verkfæri að og til, þau dýru verkfæri og tæki, sem til þess þarf að gera þetta, heldur þvert á móti talið, að við jarðgangagerð nýtist vinna og verkfæri bezt með því, að unnið sé í vöktum allan sólarhringinn. Jarðgöng er því naumast hægt að gera, nema það sé fyrir fram búið að safna í sjóð til þess að tryggja a.m.k. nokkurn hluta af kostnaðinum við verkið, og þá yrði sennilega jafnframt að fara þá leið að taka einhvern hluta af kostnaðarverðinu að láni. Ef ætti t.d. að taka allt kostnaðarverð jarðganga að láni, þá gæti það orðið svo dýrt, að t.d. vextirnir af láninu einir saman yrðu naumast greiddir með þeim venjulegu fjárframlögum, sem tíðkast á fjárlögum af hálfu ríkissjóðs, þannig að það væri alveg óhjákvæmilegt, að þar væri komin nokkur sjóðmyndun fyrir, sjóður, sem hefði fastar tekjur upp á að hlaupa í framtíðinni. Þessir 3 aurar af hverjum benzínlítra eru taldir munu gefa 1800 þús. kr. á ári í sjóðinn.

Nú er því auðvitað ekki að neita, að með því að taka þannig 3 aura af benzínlítra af hluta ríkissjóðs, þá er það í sjálfu sér tekjuskerðing fyrir ríkissjóð. Hitt verður maður þó jafnframt að hafa í huga, að af benzínskattinum eða innflutningsgjaldi af benzíni, sem alls mun nema af hverjum benzínlítra 147 aurum, fara 14 aurar, aðeins 14 aurar í vegasjóð, 19 aurar í brúasjóð, en allt hitt, eða kr. 1.14, rennur í ríkissjóð, þannig að þarna er yfirgnæfandi meiri hluti af þessu gjaldi, sem rennur í ríkissjóð, og væri auðvitað eðlilegt, að því yrði breytt í framtíðinni. En það verður líka að líta á fleira. Innflutningsgjald af benzíni hygg ég að á yfirstandandi ári, árið 1961, hafi verið áætlað 58 millj. kr., og á fjárlögum þeim, sem nú eru til meðferðar hér á Alþingi, er gert ráð fyrir sömu upphæð í innflutningsgjald af benzíni árið 1962. Nú er það hins vegar svo, að m.a. vegna þess, að bílainnflutningur hefur verið gefinn frjáls, þá álít ég, að reikna megi með talsvert aukinni benzínnotkun á árinu 1962, og ég hygg, að þegar það er haft í huga, þá mundi ríkissjóður ná þeirri upphæð, sem áættuð er í fjárlögum fyrir árið 1962, þó að þessir 3 aurar væru teknir af og þeim varið til jarðgangagerðar.

Á Alþingi í fyrra var samþykkt þáltill., þar sem segir svo, að Alþingi álykti að fela ríkisstj. að láta fara fram athugun og endurskoðun á gildandi lögum um opinbera vegi og brýr og láta jafnframt athuga möguleika á öflun fastra tekjustofna til vega- og brúargerða. Í þessari till. er ekkert minnzt berum orðum á jarðgöng, og mér virðist það á engan hátt liggja ótvirætt fyrir, að nefndin taki það verkefni til meðferðar að athuga möguleika á föstum tekjustofnum til jarðgangagerðar, þó að það kunni hins vegar svo að vera. Nú má hins vegar búast við því, að þessi nefnd verði lengi að ljúka störfum, það geti sjálfsagt dregizt, að hún ljúki a.m.k. öllum sínum verkum, í eitt, tvö eða jafnvel þrjú ár, og eftir því er ekki hægt að bíða fyrir þau byggðarlög, sem sérstaklega þurfa á jarðgöngum að halda. Þar er full þörf á því, að farið sé að safna í sjóðinn strax, Svo að nefnt sé dæmi, þar sem einna brýnust þörfin er fyrir jarðgöng, í gegnum Stráka við Siglufjörð, þá hugsa ég, að þau jarðgöng með núverandi verðiagi komi til með að kosta sem lágmark 15 millj, kr., og væri vissulega ekki vanþörf á því, að farið væri að safna í sjóð til þess að standa undir kostnaði af þeirri vegagerð, enda þegar lengra er litið fram í tímann, þá er í sjálfu sér ekki hér um tekjuskerðingu fyrir ríkissjóð að ræða, þegar ríkissjóður þarf auðvitað, þegar til lengdar lætur, að standa undir kostnaðinum af jarðgangagerð, hvort sem það er gert með því að safna í sjóð eða á annan hátt, þó að sjóðsöfnunin sé á allan hátt miklu heilbrigðari og líklegri til þess að gefa árangur.