28.11.1961
Efri deild: 24. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 235 í C-deild Alþingistíðinda. (2669)

41. mál, jarðgöng á þjóðvegum

Forseti (SÓÓ):

Vegna ummæla hv. þm. vil ég taka fram, að 20. þ.m. var umrætt frv. tekið á dagskrá og var til umr., en umr. frestað, eins og þá var tekið fram, samkv. tilmælum hæstv. fjmrh. Ég skal taka það fram, að ég gekk út frá því, að hæstv, ráðh. mundi tala við mig um þetta mál frekar, vegna þess að hann óskaði eftir því, að það yrði tekið út af dagskrá þá. Það hefur hann ekki gert enn. Ég skal einnig játa það, að ég hef ekki innt hann eftir því, hvort hann mundi vera tilbúinn til þess, að málið yrði tekið á dagskrá aftur, svo að það er ekki samkv. hans ósk, að það hefur ekki verið tekið á dagskrá síðan, heldur eingöngu af því, að ég gerði ráð fyrir, að hann mundi að fyrra bragði tala við mig um þetta.

Hvað viðvíkur því að taka málið fyrir á næsta fundi, skal ég lofa að athuga og tala við hæstv. ráðh. um það. En ég mun ekki treysta mér til þess að taka það á dagskrá nema tala við hann áður vegna beiðni hans, sem hann hefur ekki gert frekar grein fyrir við mig.

En hvað snertir ummæli hv. þm. um það, að þetta væri óvenjuleg meðferð á máli, þá má e.t.v. segja það. En stundum vill það nú til og er ekki neitt einsdæmi, að mál hafi verið í athugun í ríkisstj., þó að það hafi verið komið til l. eða 2. umr.. og hafi svo stöðvazt á vissu stigi, ef á hefur staðið samkomulagi innan ríkisstj. um það. Ég hygg, að þetta sé ekki neitt einsdæmi. En sem sagt, ég skal athuga þetta við hæstv. ráðh. nú fyrir næsta fund og taka það þá á dagskrá, ef það er í lagi.