28.11.1961
Efri deild: 24. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 235 í C-deild Alþingistíðinda. (2670)

41. mál, jarðgöng á þjóðvegum

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. forseta fyrir þessar upplýsingar og fyrir þær undirtektir hans undir þetta mál, að það verði tekið fyrir á fimmtudag, ef ekki stendur þá neitt sérstakt í vegi. Ég hef að sjálfsögðu enga löngun til þess að fara að deila við hæstv. forseta um meðferð þessa máls. Ég veit, að hann er sanngjarn maður og réttsýnn. En eins og ég sagði áðan, þá álít ég það eðlilega ósk af hálfu ráðh., að máli sé frestað, ef hann er bundinn við umr. eða störf annars staðar, en hins vegar felli ég mig ekki við þann hugsunarhátt, að ráðh. geti stöðvað mál þingmanna, sem nefnd hefur skilað áliti um í þinginu, á þeirri forsendu eða með þeirri röksemd, að hann eða ríkisstj. þurfi að athuga það nánar. Það má þó í sambandi við þetta mál kannske að einu leyti til sanns vegar færa, að hæstv. ríkisstj. vilji taka það til athugunar, og það er einmitt af þeirri sömu ástæðu sem það var borið fram snemma þings. Það er sem sé nauðsynlegt eða a.m.k. æskilegt, að það sé tekin afstaða til þessa frv., áður en fjárlög eru afgreidd, og ef það væri svo, að hæstv. fjmrh. væri að hugsa um einhverjar aðrar leiðir til þess að leysa þetta mál og gæti bent á aðra leið, sem jafngóðum árangri skilaði, þá mundi ég fyrir mitt leyti fagna því. En þá verð ég að telja það eðlilegt, að hæstv. fjmrh. gæfi um slíkt yfirlýsingu eða a.m.k. hefði samráð um það við flm., en að málinu væri ekki frestað svona þegjandi dag frá degi.