12.04.1962
Neðri deild: 90. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 238 í C-deild Alþingistíðinda. (2682)

41. mál, jarðgöng á þjóðvegum

Gunnar Jóhannsson:

Herra forseti. Á þinginu í fyrra var þetta frv. flutt í Ed., og þar náði það samþykki, en hér í Nd. dagaði málið uppi. Frv. var aftur flutt í Ed. í vetur og hlaut þar sömu afgreiðslu, þ.e.a.s. það var samþ. og því vísað hingað til Nd. Nú hefur samgmn. tekið málið fyrir til afgreiðslu og meiri hl. n, leggur til, að því verði vísað til hæstv. ríkisstj. Aftur leggur minni hl. til, að frv. verði samþ.

Ég þarf ekki að fara inn á efni frv. nema að litlu leyti. Þar er gert ráð fyrir, að stofnaður verði jarðgangasjóður. Taka skal 3 aura af hverjum benzínlítra, sem skulu renna í sjóðinn, sem bera skal kostnað við jarðgöng, sem eru lengri en 35 m.

Það er öllum ljóst, að á ýmsum stöðum á landinu er þannig háttað með vegasamband, að það verður tæplega leyst á viðunandi hátt nema með mjög dýrum aðgerðum, m.a. með því að sprengja göng í gegnum fjöll. Þetta á t.d. við Siglufjörð, og að nokkru leyti má segja það sama um aðra staði, m.a. á Vestfjörðum. Nú er það vitað mál, að þó að farið yrði inn á þá braut, sem frv. gerir ráð fyrir, að taka vissan hluta af benzínskattinum til myndunar jarðgangasjóðs, yrði það á engan hátt til að leysa samgönguvandræði viðkomandi staða til fullnustu. En það sýndi þó vilja Alþ. til að gera eitthvað raunhæft í málinu.

Á undanförnum þingum hefur lítið verið rætt um þessi vegamál og því minna framkvæmt. Ég verð að segja það, að mér finnst, að allar framkvæmdir Alþ. í þessum málum auðkennist af furðulegri tregðu til þess að leysa þessi mál á viðunandi hátt. Á sama hátt og staðið hefur verið í vegi fyrir því, að nokkuð raunhæft væri gert í þessum málum, þannig að hrinda þeim áleiðis til hagsbóta fyrir þessi bæjarfélög, sem verst eru stödd með vegasamgöngur, hefur verið lagt í það að byrja á mjög dýru mannvirki, sem er að steypa veg frá Hafnarfirði til Keflavíkur. Slík vegarlagning kemur til með að kosta eitthvað á annað hundrað millj. kr. Það er þó vitað, að í þessu byggðarlagi er sæmilega góður vegur, og sízt hefði mátt ætla, að meira lægi á því að leggja þangað steinsteyptan veg heldur en að leysa hin miklu samgönguvandræði, sem ýmsir aðrir hafa við að búa.

Ég hef margsinnis áður hér á Alþ. lýst því, hvernig vegasambandið er við Siglufjarðarkaupstað, og þarf ekki að, endurtaka það hér. Ég verð að segja það, að mér kemur mjög einkennilega fyrir afgreiðsla meiri hl, samgmn. á þessu frv. Þar er sagt m.a., að göng gegnum fjöll eða undir ár séu einn þáttur vegagerðar og lagaákvæði þar að lútandi eigi að eðlilegum hætti heima í heildarlagabálki um samgöngur á landi. Verði því að sníða ákvæði um jarðgöng á þjóðvegum þannig, að það geti fallið inn í það frv., sem vænta verður að senn komi frá endurskoðunarnefnd vegalaga. Það má vel vera, að slík nefnd sé eitthvað að starfi, en a.m.k. hefur ekkert frá henni heyrzt, sem hægt er að byggja á, og jafnvel þó að vegamálastjóri hafi í viðtali og bréfi til nefndarinnar mælt á móti þessu frv., þá verð ég að segja, að mér kemur einkennilega fyrir, að hann skuli hafa tekið þá stefnu í málinu, sem raun er á. Það er vitað mál, að fyrir frv. þessu er mjög mikill áhugi á viðkomandi stöðum. Það er líka vitað, að vegasambandið við Siglufjörð verður ekki leyst á annan hátt en með jarðgöngum, enda hefur því verið marglofað af forustumönnum allra flokka. Það verður sízt til þess að auka virðingu Alþ. á meðferð mála, að það skuli geta komið fyrir þing eftir þing, að frumvörp, sem Ed. hefur afgr., skuli Nd. ýmist fella eða vísa frá. Ég vil enn taka það fram, að þetta frv. er á engan hátt fullkomin lausn á vandamálunum, þótt að lögum yrði, en er þó til bóta frá því, sem nú er. Ég verð að mótmæla nál. meiri hl, og tel það í alla staði óforsvaranlegt að afgr. ekki frumvarpið jákvætt, eins og Ed. hefur gert.