12.04.1962
Neðri deild: 90. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 241 í C-deild Alþingistíðinda. (2686)

41. mál, jarðgöng á þjóðvegum

Landbrh. (Ingólfur Jónason):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. — Í sambandi við þetta. frv. hefur helzt verið rætt um Siglufjarðarveg, þ.e. veginn um Stráka. Og það er rétt, sem hv. síðasti ræðumaður sagði, að það hefur oft verið rætt um þennan veg. Siglfirðingar þrá að fá hann. Það mun líka vera rétt, að vegurinn kosti a.m.k. 20 millj. kr. eða jafnvel meira en það. Það er því vitað mál, að hann verður ekki lagður á einu ári, og tæplega heldur á tveimur árum.

Nú hefur verið frá því skýrt, að ríkisstj. er að undirbúa fimm ára áætlun í vegamálum og öðrum framkvæmdum. Það liggur einnig hér fyrir bréf frá vegamálastjóra, þar sem hann segir sitt álit á þessu máli og minnir á, að nú starfar mþn. í vegamálum, sem gerir till. um aukin fjárframlög til vegamála. Þessi n. mun skila af sér, áður en næsta reglulegt Alþ. kemur saman. Þegar að þessu er gætt, að þessi vegur mun verða í 5 ára áætluninni og að því er unnið nú af n. að leggja fram till. um aukin fjárframlög til vega almennt, þá hygg ég, að það væri ákaflega lítill stuðningur við þetta mál, þó að þetta frv. út af fyrir sig næði fram að ganga, sem gerir ráð fyrir 3 aura benzíngjaldi af hverjum lítra, ekki aðeins til Siglufjarðarvegar, heldur vitanlega til margra annarra vega. Þessir 3 aurar gera 11/2 millj. kr. eða kannske rúmlega það yfir árið, þannig að hlutur Siglufjarðarvegar yrði ekki ýkja mikill á þessu ári, þó að þetta frv. væri samþ.

Ég hygg, að þeir, sem sækja það fastast að fá Siglufjarðarveg sem fyrst, geti að athuguðu máli, þegar þeir hugleiða það, hvað er í undirbúningi í sambandi við þetta, sætt sig við þá afgreiðslu, sem meiri hl. hv. samgmn. leggur hér til að hafa.