13.11.1961
Efri deild: 14. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 27 í B-deild Alþingistíðinda. (27)

74. mál, lækkun aðflutningsgjalda

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Þetta frv. fjallar um lækkun aðflutningsgjalda á ýmsum vörum. Í grg. frv. er rakin allýtarlega saga aðflutningsgjalda síðan tollskrá var fyrst sett hér árið 1939. Sú tollskrá markaði á ýmsa lund tímamót í sögu tollmála, eins og nánar er rakið í grg. En á þessum tveim áratugum, sem síðan eru liðnir, hafa margvíslegar breytingar verið gerðar varðandi aðflutningsgjöldin. Árið 1947 var lögfest álag á vörumagnstoll og á verðtoll, og hafa þau álög síðan verið aukin og hækkuð. Árið 1948 var innleiddur innflutningssöluskattur. Árið 1951 var tekið upp bátagjaldeyriskerfið með sínum álögum. Árið 1956 var í fyrstu innleitt framleiðslusjóðsgjald, síðar innflutningsgjald sérstakt og yfirfærslugjald einnig á því sama ári, sem síðar var hækkað á árinu 1958. Vegna þess, hve ýtarlega þetta mál allt er rakið í athugasemdum við frv., skal ég ekki rekja Þetta frekar hér að sinni. En nú er svo komið, að á flestum aðfluttum vörum hvíla eftirtalin gjöld: Vörumagnstollur og álag á hann, verðtollur og álag á hann. Álagið á vörumagnstollinn er nú 340% og á verðtollinn 80%. Innflutningssöluskattur, sem nú er 15%. Innflutningsgjald, sem er mismunandi hátt eftir því, um hvaða vörutegundir er að ræða. Tollstöðvagjald 1%. Gjald í byggingarsjóð ríkisins 1%. Enn fremur eru innheimt sérstök aðflutningsgjöld af nokkrum vörum, svo sem innflutningsgjald af benzíni og hjólbörðum, rafmagnseftirlitsgjald og matvælaeftirlitsgjald.

Strax þegar núv. ríkisstj. hafði tekið við störfum í nóv. 1959, var hafizt handa um endurskoðun tollskrárinnar. Var sú endurskoðun falin fjórum embættismönnum, þeim ráðuneytisstjórunum í fjármála- og efnahagsmálaráðuneytinu, tollstjóranum í Reykjavík og hagstofustjóra. Þegar hefur verið lögð mikil vinna í endurskoðun tollskrárinnar. Í stað þess að hin gildandi tollskrá var í öndverðu byggð á nafnaskrá eða svokallaðri nomenclature Þjóðabandalagsins gamla, verður henni nú breytt og samin eftir hinni svokölluðu Brüssel-nafnaskrá, sem flestar vestrænar þjóðir hafa nú tekið upp. Ég geri ráð fyrir, að þessari tollskrárendurskoðun, sem er geysimikið verk, verði lokið á næsta ári og að frv. til nýrrar tollskrár megi leggja fyrir haustþingið 1962.

En jafnhliða hinni almennu endurskoðun tollskrárinnar hefur verið unnið að athugun á sérstöku vandamáli, sem er ólöglegur innflutningur vara eða smyglið. Á fyrri hluta ársins 1960 var hafin sérstök athugun á þessu máli með aðstoð hagstofunnar. Það var reynt að gera sér grein fyrir því, hvaða vörutegundir það væru, sem helzt væru fluttar inn ólöglega, án þess að greiða af þeim lögmælta tolla, og í öðru lagi að reyna að gera sér einhverja hugmynd um það í stórum dráttum, hversu miklu þessi ólöglegi innflutningur mundi nema. Að sjálfsögðu er ákaflega erfitt að slá hér nokkru föstu, en ýmis atriði voru höfð til hliðsjónar. Það var í fyrsta lagi athugaður innflutningur samkvæmt verzlunarskýrslum um nokkur undanfarin ár. í öðru lagi var höfð hliðsjón af því, sem talin var eðlileg notkun landsmanna á þessum vörutegundum, sem um var að ræða. Í þriðja lagi að sjálfsögðu árleg fjölgun landsmanna og aukin notkun eða neyzla af þeim ástæðum. Í fjórða lagi höfð hliðsjón af framleiðslu íslenzkra iðnaðarvara. Og margvíslegar aðrar upplýsingar og viðmiðanir var reynt að nota til að gera sér einhverjar hugmyndir um þetta.

Það kom m.a. í ljós, að strax af könnun verzlunarskýrslna mátti sjá, að hinn löglegi innflutningur hafði dregizt stórlega saman á vissum vörutegundum, þó að vitað væri, að notkun þeirra vörutegunda væri sízt minni en áður hefði verið, jafnvel heldur meiri, og án þess að aukning innlendrar framleiðslu gæti gefið hér skýringu á. Niðurstöður þessara athugana voru þær, að varðandi allmargar vörutegundir væri um ólöglegan innflutning í mjög stórum stíl að ræða. Má þar nefna sem dæmi margs konar ytri fatnað, kvensokka, úr og fjölmargt fleira, sem ég skal ekki upp telja, en margar þessara vara eru taldar í því frv., sem hér liggur fyrir.

Það var því ljóst af þessari athugun, að hér var um að ræða tugmilljónatap fyrir ríkissjóð á ári hverju, miðað við það, ef innflutningur væri að öllu eða mestu löglegur á þessum vörum. Hér var ekki eingöngu um að ræða stórfellt tap fyrir ríkissjóð í misstum tolltekjum, heldur einnig í ýmsum greinum verulega gjaldeyrissóun, vegna þess að töluvert af þessum smyglaða varningi er erlendis keypt í smásölu og því greidd að óþörfu smásöluálagning, sem á mörgum vörum er mjög há í öðrum löndum og miklu hærri en hér, í stað þess að ef þessar sömu vörur væru keyptar að löglegum leiðum og fluttar inn af innflutningsfyrirtækjum, mundu þær keyptar að sjálfsögðu með miklu hagkvæmari kjörum og mætti m.a. komast hjá hinni erlendu smásöluálagningu. Hér var því um hvort tveggja að ræða, stórfellt tap fyrir ríkissjóð og óþarfa gjaldeyriseyðslu.

Nú skal ég ekki rekja hér, hverjar muni vera meginorsakir smyglsins eða hins ólöglega innflutnings. Til þess liggja að sjálfsögðu ýmsar orsakir. En á því er enginn vafi og öll reynsla bendir til þess, að jafnskjótt og gjöld af aðfluttum vörum tóku að hækka verulega umfram það, sem ákveðið var í tollskránni upphaflega, hafi ólöglegur innflutningur á hátollavörum aukizt, án þess að tollyfirvöld fengju rönd við reist. Það má ætla, að eftir að innflutningsgjaldið var lögleitt í árslok 1956, hafi þó ólöglegur innflutningur á þeim vörum ýmsum, sem það tók til, aukizt stórlega.

Það er skoðun allra þeirra, sem um þessi mál hafa fjallað, að meginorsök hins ólöglega innflutnings sé sú, að heildaraðflutningsgjöldin á mörgum vörum séu orðin svo há, að þess muni vart dæmi annars staðar í vestrænum löndum. Auk þess hafa að sjálfsögðu verzlunarhöft og það, að innkaup á ýmsum vörutegundum voru bundin við ákveðin lönd, vöruskiptalönd, undanfarin ár, haft sína þýðingu í þessu efni. Hið margfalda gengi, uppbótakerfið, gjaldeyrisfríðindi hafa að sjálfsögðu einnig stuðlað hér nokkuð að. Þessi atriði skal ég ekki rekja hér frekar, en aðeins taka fram, að ég tel, að óhjákvæmilegt sé að ráðast til atlögu gegn smyglinu og að það mál þoli enga bið. Það er einnig svo hér eins og annars staðar, að ef aðflutningsgjöld ganga úr hófi fram, skapar það andsnúið almenningsálit. Afleiðingin verður virðingarleysi fyrir lögunum og almenn viðleitni til að komast hjá greiðslu gjaldanna. Það skapar einnig atvinnusmyglurum mikla gróðavon og möguleika til að leggja fram mikið fé og fyrirhöfn og leggja í nokkra áhættu til starfsemi sinnar vegna þess, hve ábatavonin er mikil á hinn veginn. Og þessi öfl hafa verið hér að verki á undanförnum árum og leitt til stórfelldra tolllagabrota, ríkissjóði til tjóns og heilbrigðum viðskiptarekstri til verulegs baga.

Til þess að reyna að draga verulega úr hinum ólöglega innflutningi, tel ég, að verði að fara tvær leiðir samtímis. Önnur er sú að lækka aðflutningsgjöld á ýmsum þeim vörum, sem vitað er að flytjast í stórum stíl ólöglega til landsins, og samtímis þessu að herða tollgæzlu og tolleftirlit.

Varðandi aðflutningsgjöldin er nú svo komið, að á fjölda vara og það nauðsynjavara eru aðflutningsgjöldin í heild komin á annað hundrað prósent, á mörgum vörum eru þau á milli 200 og 300% og hæst munu þau komast nú upp í 344% á einstaka vörutegund.

Ég tel, að strangara tolleftirlit og tollgæzla ein út af fyrir sig nægi ekki, það hefur verið reynslan yfirleitt í öllum löndum, þar sem aðflutningsgjöld hafa verið orðin mjög há, heldur þurfi þetta tvennt, sem ég nefndi, að haldast í hendur. Aðalsjónarmið þessa frv. er sem sagt að lækka verulega aðflutningsgjöld á hátollavörunum, og í því sambandi vil ég taka fram, að í þetta frv. er engin vara tekin, sem nú ber minna en 100% heildargjöld. Í fyrsta lagi koma hér til greina ýmsar vörur, sem engin framleiðsla er á hér innanlands og aðflutningsgjöld eru há á og að talið er í verulegu magni smyglað til landsins. Í öðru lagi koma svo ýmsar vörur, sem fluttar eru ólöglega í stórum stíl til landsins, en einnig eru framleiddar hér á landi. Þar kemur tillit til hins íslenzka iðnaðar og tollvernd sú, sem eðlilegt þykir að veita íslenzkum iðnaði. Nú er það svo, að ýmsar greinar íslenzks iðnaðar njóta hér mjög mikillar tollverndar. Aðrar iðnaðargreinar njóta hins vegar engrar verndar og bera sig vel engu að síður. Nú er rétt að taka fram og hafa í huga, að sú mikla tollvernd, sem sumar greinar íslenzks iðnaðar eiga við að búa, er ekki til komin eftir óskum iðnaðarins, heldur fyrir fjárþörf ríkissjóðs og útflutningsatvinnuveganna. Hins vegar hefur í skjóli þessara háu aðflutningsgjalda vaxið hér upp margvíslegur iðnaður. Og þess ber auðvitað að gæta, að þótt slík tollvernd sé ekki á komin eftir óskum iðnaðarins, verður að sjálfsögðu að fara í það varlega og í áföngum að draga verulega úr þeirri vernd, sem iðnaðurinn hefur notið um mörg undanfarin ár.

Varðandi þetta mál má að sjálfsögðu hafa mikinn stuðning af áliti þeirrar nefndar, sem skipuð var fyrir nokkrum árum og skilað hefur ýtarlegu áliti. Þessi nefnd var skipuð til að rannsaka þjóðhagslegt gildi neyzluvöruiðnaðarins og skilaði áliti í des. 1960, en þar er að finna mjög mikinn fróðleik um íslenzkan iðnað og hversu háttað er vernd eða verndarleysi einstakra greina hans. Í því yfirliti kemur það m.a. Í ljós, hversu feikilega er misjafnlega háttað um vernd iðnaðarins. Út í þetta mál skal ég ekki fara hér almennt, vegna þess að það kemur fyrst og fremst til athugunar í sambandi við hina almennu endurskoðun tollskrárinnar, þar sem að sjálfsögðu verður að kanna þetta í hverri einstakri grein sem nákvæmlegast.

Nú er það töluvert ólíkt, hversu hinn erlendi kostnaður við framleiðslu á iðnaðarvörum hér á landi er há hundraðstala af verði vörunnar. Stundum er erlendi kostnaðurinn eða erlendu hráefnin kannske 40–45% af heildarverði vörunnar. Stundum er erlendi kostnaðurinn upp undir 70%. Og við ákvörðun þess, hvert á að vera hlutfallið milli tolla á vörunni fullunninni og tolla á efnivöru til sams konar iðnaðarframleiðslu hér, þarf m.a. að hafa hliðsjón af þessu, hversu stór hundraðshluti hinn erlendi kostnaður er í verði hinnar fullunnu íslenzku iðnaðarvöru. Í þessu sambandi skal ég aðeins nefna eitt, að það er almenn regla í þessu frv., sem hér liggur fyrir, að þar sem fullunna varan er t.d. með 100% heildargjöldum, er hráefni til sams konar vöru sett með 90% heildargjöldum eða 10% lægra. Með þessu er að sjálfsögðu engu slegið föstu um það, hver eigi að vera framtíðarreglan um hlutfallið milli aðflutningsgjalda á fullunninni vöru og hráefni, það mál þarf miklu nákvæmari rannsóknar við. Í sambandi við lækkun samkvæmt þessu frv. á aðflutningsgjöldum af fullunninni vöru, sem einnig er framleidd hér á landi, hefur verið leitazt við eftir föngum að lækka þá einnig aðflutningsgjöld á viðkomandi hráefni. Þar sem hins vegar er mjög mikið ósamræmi í núgildandi tollalögum um álögur á innfluttar vörur og hráefni, hefur þótt réttara til öryggis að setja inn 3. gr. í þetta frv., sem er á þá leið, að ef í ljós kemur, að aðflutningsgjöld á innfluttri vöru, sem lög þessi taka til, reynast lægri en aðflutningsgjöld á efnivöru í sams konar vöru framleidda innanlands, þá sé heimild til að lækka gjöld á efnivörunni, ef verðmæti hennar er verulegur þáttur í kostnaðarverði innlendu iðnaðarvörunnar. Þetta ákvæði er sjálfsagt að hafa í frv. til öryggis fyrir íslenzkan iðnað, ef það kæmi í ljós úr hinu mikla völundarhúsi tollamálanna íslenzku nú í dag, að einhverjar efnivörur kynnu að vera hærra tollaðar en innflutta varan fullunnin.

Meginflokkar varanna, sem ræðir um í þessu frv., eru því annars vegar innfluttar vörur, sem alls ekki eru framleiddar hér á landi, en talið er að smyglað sé að verulegu leyti, og í öðru lagi innfluttar vörur, sem einnig eru framleiddar hér, og þá hafa þessi sjónarmið verið höfð í huga, sem ég hér hef getið, og við undirbúning þessa frv. haft náið samráð við þá aðila eða þau samtök, sem þetta mál snertir mest, og hefur verið leitað álits og haft samráð bæði við Félag íslenzkra iðnrekenda og Samband ísl. samvinnufélaga í sambandi við þetta mál.

Auk þessara vara, sem eru meginefni þessa frv., hafa verið teknar með nokkrar vörur, sem ekki er talið að séu fluttar í stórum stíl ólöglega til landsins, ef til vill lítils háttar smyglað, en þar sem aðflutningsgjöld eru mjög há, hefur þótt rétt að taka þær með, en eins og ég gat um, fjallar þetta frv. ekki um neinar þær vörur, sem bera nú lægri heildargjöld en 100%.

Sú aðferð hefur verið höfð við undirbúning þessa máls og samningu þessa frv., að annars vegar hefur verið reiknað út, hver eru heildaraðflutningsgjöld á hverri einstakri vörutegund, sem frv. nær til, og í grg. á bls. 8, þar sem fjallað er um 2. gr. frv., er talið upp um alla helztu vöruflokkana, hver heildargjöldin séu nú og hvað lagt er til að þau verði. Hins vegar þótti sú aðferð hentugri varðandi sjálft frv. að ákveða þar einn verðtoll og verðtollsprósentu, sem komi í staðinn fyrir núgildandi verðtoll, verðtollsálag, vörumagnstoll, álag á vörumagnstoll og innflutningsgjald, og þær prósentur, sem greinir í 2. gr. frv., eru á þessu byggðar.

Þetta þurfa menn að hafa í huga við samanburð á 2. gr. og svo yfirlitinu í aths. við Þá grein. M.ö.o.: í þeim prósentum, sem notaðar eru í 2. gr. varðandi verðtollinn, er þar fyrir utan innflutningssöluskattur, tollstöðva- og byggingarsjóðsgjald og rafmagnseftirlits- og matvælaeftirlitsgjald, eftir því sem við á.

1 grg. um 2. gr. er einnig skýrt frá því, hvernig þessar tölur svara hverjar til annarra, þannig að þegar t.d. heildargjöldin eru lækkuð niður í 125%, þá samsvarar það í 2. gr. frv. 92% verðtolli o.s.frv., eins og þarna er nánar greint. Eða m.ö.o. þýða 125% heildargjöld, að verðtollurinn er ákveðinn 92%, 100% heildargjöld samsvara 70% verðtolli, 90% samsvara 62%, 80% samsvara 54%, 75% heildargjöld samsvara 52% verðtolli, 52% heildargjöld samsvara 30%. Ég vænti þess, að hv. þdm. fái nægar skýringar á þessum samanburði í grg., sem frv. fylgir.

Þetta frv. mun leiða til verðlækkunar á þeim vörum, sem það tekur til. Ég skal nú gefa hér yfirlit eða nokkur dæmi um það, hvernig sumar vörutegundir munu lækka í verði. Nokkrar þeirra, sem í frv. eru taldar, eru síðan 2. sept. í haust óháðar verðlagsákvæðum, álagning þeirra er frjáls, en af viðræðum við forráðamenn kaupsýslumanna veit ég, að það er vilji þeirra og stefna að stilla álagningu á slíkar vörur mjög í hóf, og þau dæmi, sem ég mun nefna hér, eru byggð á upplýsingum frá samtökum kaupsýslumanna, sem reikna með því, að framkvæmdin verði almennt þessi, þótt einstakar verzlanir hafi óbundnar hendur varðandi hinar álagningarfrjálsu vörur.

Af fatnaðarvöru má nefna, að regnkápur, sem nú kosta um 1940 kr., munu lækka um ca. 430 kr. Kvenkápur, sem nú kosta 2580 kr., munu lækka um ca. 630 kr. Hattar, sem nú kosta um 640 kr., munu lækka um 160 kr. Vettlingar, sem nú kosta 185 kr., munu lækka um ca. 26 kr. Kvensokkar, nælonsokkar, sem kosta nú um 68 kr., lækka um ca. 20 kr. Kjólaefni úr gerviefnum, sem nú kosta 78 kr. metrinn, lækka um ca. 10 kr.

Af matvöru má nefna sem dæmi dós af niðursoðnum ávöxtum, sem nú kostar 60 kr., mundi lækka um ca. 11 kr. Súpur í pökkum, sem kosta nú um 18 kr., mundu lækka um tæpar 3 kr.

Af öðrum vörum má nefna lampa, sem nú kosta 1080 kr., munu lækka um ca. 110 kr. Baðker, sem nú kosta 3160 kr., munu lækka um ca. 270 kr. Úr, sem nú kosta 2170 kr., munu lækka um ca. 990 kr. Ódýrar ljósmyndavélar, sem nú kosta um 700 kr., munu lækka um ca. 250 kr. íþróttatæki t.d., sem nú kosta um 620 kr., munu lækka um 200 kr. Æfingaföt íþróttamanna, sem nú kosta um 400 kr., munu lækka um 130 kr.

Þessi dæmi sem ég hér nefni, eru tekin varðandi verð á einstökum vörutegundum nú og eru samkvæmt upplýsingum frá samtökum kaupsýslumanna, hvernig verðið mundi verða, ef þetta frv. verður að lögum.

Sú spurning rís að sjálfsögðu: Þolir ríkissjóður þann tekjumissi, sem mundi leiða af þessari tollalækkun? Ég hef látið reikna það út, að ef innflutningur á þeim vörum, sem frv. tekur til, yrði óbreyttur á næsta ári frá því, sem hann var 1960, mundi tekjutap ríkissjóðs vera 46 millj. kr. Þetta er miðað við það, að þetta frv. hefði engin áhrif til þess að draga úr hinum ólöglega innflutningi. Hins vegar miðar þetta frv. að því og aðrar þær aðgerðir, sem í undirbúningi eru varðandi bætt tolleftirlit og tollskoðun, — þetta miðar og stefnir í þá átt, að verulega dragi úr smyglinu og löglegur innflutningur þessara vara aukist stórlega. Þetta frv. er því ekki byggt á þeirri hugsun, að ríkissjóður tapi tekjum við samþykkt þess, heldur að ríkissjóður verði fyrir engu tapi, ef þessar ráðstafanir ná tilgangi sínum. Meginsjónarmiðið er það að gerbreyta svo því ástandi sem nú er um innflutning þessara vörutegunda, að ríkissjóður verði ekki fyrir neinu tapi þrátt fyrir hinar miklu tollalækkanir.

Varðandi hina hliðina á þessu máli, sem er umbætur á tolleftirliti, þá er hafinn undirbúningur að endurskoðun á löggjöfinni um tollheimtu og tolleftirlit. Það er hafin endurskoðun þessarar löggjafar og undirbúningur að margvíslegum umbótum í framkvæmd og skipulagi þessara mála, því að til þess að vinna bug á smyglinu eða draga stórlega úr því verður auðvitað jafnframt tollalækkuninni að gera ákveðnar ráðstafanir í þá átt að styrkja eftirlitið, tollgæzluna.

Ég skal ekki fara hér ýtarlega út í það, hvaða ráðstafanir eru á döfinni, aðeins geta um örfá atriði, sem til athugunar koma sérstaklega: Það verður að koma á auknu eftirliti með flutningi á ótollafgreiddum vörum innanlands. Það hafa hingað til engar hömlur verið á því, að skipafélög eða aðrir farmflytjendur hafi getað skilað af sér vörum á hvaða höfn sem er, ef þeir hafa þar aðeins skráða afgreiðslu. Um hitt hefur ekki verið sinnt, hvort nokkur aðstaða hefur verið til tolleftirlits með vörunum á viðkomandi höfn. Vöruskoðun hvarvetna þarf að auka, bæði í Reykjavík og utan Reykjavíkur. Í sambandi við tollmeðferð á verzlunarvörum er það til athugunar að herða ábyrgð vörueigenda á efni innflutningsyfirlýsingar og þeirra skjala, sem lögð eru fram henni til staðfestingar. Í lögum er nú heimild til þess að merkja vörur við tollafgreiðslu til að auðkenna þær frá ólöglegum varningi, sem kynni að vera á markaðinum. Þessu hefur dálítið verið beitt, en það er athugandi, hvort ekki er ráðlegt að auka þessar aðgerðir til þess að geta betur fylgzt með þessum málum. Það er nú of lítil aðstaða til að gera verðsamanburð á aðfluttum vörum við tollafgreiðslu eða staðreyna sannleiksgildi þeirra upplýsinga, sem gefnar eru um innkaupsverð og tollverð vöru. Á þessu þarf að verða breyting. Mjög auknar samgöngur á seinustu árum hafa valdið því í nágrannalöndum okkar, að eldri aðferðir við tolleftirlit hafa reynzt ófullnægjandi, og hefur í flestum grannlöndum okkar verið breytt mjög um framkvæmd tolleftirlits og teknar upp nýjar aðferðir. Víða hefur verið komið upp við tollgæzluna sérstökum eftirlitsdeildum, sem fylgjast með framboði á vörumarkaðinum og reyna að rekja tolllagabrot út frá dreifingunni innanlands. En tolleftirlitið hér á landi hefur hingað til aðallega beinzt að því að finna smyglvöru í þeim flutningatækjum, sem hún er flutt í til landsins, eða þegar hún er að koma til landsins. En ef smyglið hefur tekizt og varan sloppið í gegnum hendur tolleftirlitsins, hafa verið minni brögð að því að reyna að fylgja eftir. Þessar sérstöku eftirlitsdeildir, sem stofnsettar hafa verið í ýmsum nágrannalöndum okkar, t.d. Danmörku, með mjög góðum árangri, eiga að fylgjast með framboðinu á markaðinum og, eins og ég gat um, reyna að rekja smyglið og tolllagabrotin út frá dreifingunni innanlands, og þessar nýju aðferðir hafa gefið mjög góða raun og til athugunar að taka það einnig upp hér.

Varðandi þá höfn, sem langmest af varningi fer um, Reykjavíkurhöfn, þá er aðstaðan hér með öllu óviðunandi fyrir tolleftirlitið. Hér þarf gerbreytta aðstöðu. Það þarf að byggja hér tollstöð með vöruskemmu á hentugum stað við höfnina, til þess að þar sé hægt að taka inn, strax þegar skip kemur í höfnina, allar vörur úr skipinu, en til þess er ekki nokkur aðstaða eins og nú er. Um nokkurra ára skeið hefur verið lagt sérstakt gjald, tollstöðvagjald, á innfluttar vörur og safnað í sjóð. Því miður hefur enn ekki verið hafizt handa um byggingu slíkrar tollstöðvar eða skemmu, en í þessum sjóði eru nú um 20 millj. kr., svo að fjárskortur ætti ekki að hamla því, að hægt sé að ráðast hér í nauðsynlegar aðgerðir.

Ýmsar af þeim ráðstöfunum, sem ég hef nefnt og eru í athugun, eru skipulagsatriði, sem hægt er að framkvæma án lagabreytinga, en um sumt þarf lagabreytingar, og ýmsum breytinganna verður ekki komið á án nokkurs aukins kostnaðar og talsvert róttækra breytinga á núverandi starfsháttum. En það er trú mín, að sá kostnaður, sem kann að verða nauðsynlegur til að koma í framkvæmd betra og raunhæfara tolleftirliti en nú er, muni skila sér margfaldlega í auknum ríkistekjum og bættri aðstöðu fyrir heilbrigt athafna- og viðskiptalíf í landinu.

Ríkisstj. væntir þess, að þetta frv. og þær ráðstafanir, sem því munu fylgja, fái góðar undirtektir, bæði hér á hv. Alþingi og hjá öllum almenningi í landinu. Það er að sjálfsögðu mikið fjárhagsmál, mikið hagsmunamál og kjaramál fyrir fólkið, að það takist, sem hér er gert ráð fyrir. Það er líka mál, sem varðar sæmd okkar Íslendinga, að reynt sé að uppræta með sem beztum árangri það ófremdarástand, sem nú ríkir í þessum málum, sem eru þjóðinni sannast sagna til vansæmdar. Fyrir almenning er þetta frv. að sjálfsögðu nokkur kjarabót, því þó að hér séu ekki fyrst og fremst vörur, sem ganga inn í vísitöluna. — en sá hefur verið hátturinn undanfarin ár og áratugi að hugsa fyrst og fremst um að borga niður eða lækka gjöld á vísitöluvörum, — þó að ekki nema sumar þessara vara gangi inn í vísitöluna, þá ætla ég þó, að sérhver fjölskylda í landinu noti eitthvað af þeim vörum, sem frv. fjallar um, og þetta frv. er flutt og þessar ráðstafanir gerðar í trausti þess, að með þeim takist að draga úr hinum ólöglega innflutningi og beina honum inn á brautir laga og heiðarleika. Þetta frv. er þess eðlis, að það þarf að fá skjóta afgreiðslu á Alþingi. Öll tollafgreiðsla á þeim vörum, sem frv. tekur til, hlýtur að stöðvast nú þegar og þangað til frv. er orðið að lögum. Ég vil því beina þeim tilmælum til hv. fjhn., sem fær þetta mál væntanlega til meðferðar, að hún geri sér far um að hraða athugun þess og afgreiðslu hjá sér, og að sjálfsögðu standa henni til boða þær upplýsingar, sem hún óskar eftir að fá. Ég vænti þess einnig, að hv. þdm, fallist á að láta þetta frv. fá greiða göngu í gegnum þessa hv. deild. Ég legg svo til, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. fjhn.