14.04.1962
Efri deild: 90. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 248 í C-deild Alþingistíðinda. (2705)

45. mál, almannatryggingar

Karl Kristjánsson:

Herra forseti. Ég skrifaði undir nál. minni hl. með fyrirvara og vil nú í örfáum orðum gera grein fyrir því, hver fyrirvari minn er.

Ég er alveg fyllilega samþykkur 1. gr. frv. og tel það réttlætismál, að dregið sé úr þeim mun, sem er nú á bótum til þeirra, sem verða fyrir slysum, og hinna, sem verða fyrir orkutapi af sjúkdómsástæðum.

Ég er einnig alveg samþykkur 3. gr., um það, að landið verði gert að einu verðlagssvæði. Ég tel það sjálfsagt réttlætismál, eins og nú er komið, þar sem verðlag og lífskostnaður í landinu má teljast svipaður í öllum landshlutum. En munur var á, þegar landinu var uppihaflega skipt í verðlagssvæði. Ég tel þær reglur úreltar og valdi á ýmsan hátt erfiðleikum, t.d. að því er snertir búsetu í landinu. Hún hefur truflandi áhrif, sú regla. Þeir, sem eru bóta- og lífeyrisþegar, leita vitanlega frekar þangað, sem meiri bætur er að fá.

En aftur á móti er það 2. gr., sem er um það að taka upp vísitölu í sambandi við bótaupphæðir, láta þær hreyfast eftir vísitölu, þar er ég ekki á sama máli. Ég sé ekki, að það sé rétt að láta vísitölu verka á þennan þátt, úr því að vísitalan er ekki lengur hrein regla í launamálum, enda er það svo gölluð regla frá mínu sjónarmiði, að varla er hægt að hafa vísitölu nema til hliðsjónar, svona eins og veðurspámaður hefur loftvog til hliðsjónar. Það er eins og nefndin sagði, sem var vitnað til áðan, að það er hægt að leiðrétta bótagreiðslur, ef þær skerðast af dýrtíðar völdum, með öðrum hætti. Og slíkar leiðréttingar á að gera, þegar svo ber við, og ég trúi ekki öðru en það sé til þess að gera, ef menn bara gera sér þess grein, auðvelt að fá samstöðu um slíkt, vegna þess að það er þó yfirleitt mjög ríkt mannúðarsjónarmiðið hjá okkur Íslendingum, og hér er um slíkt að ræða.

Fyrirvari minn er þá gagnvart 2. gr. frv. Ég býst ekki við að greiða henni atkv., en frv. tel ég að öðru leyti réttmætt og meira en það þýðingarmikið.