14.04.1962
Efri deild: 90. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 249 í C-deild Alþingistíðinda. (2706)

45. mál, almannatryggingar

Frsm. minni hl. (Alfreð Gíslason tæknir):

Herra forseti. Ég verð að lýsa undrun nokkurri á afstöðu hv. 1. þm. norðurl. e. gagnvart 2. gr. frv., því ákvæði að verðtryggja bætur almannatrygginga. Ég skil afstöðu hans að vissu leyti. Hún mótast af afstöðu hans til málsins, þegar um er að ræða atvinnutekjur manna. Hér er ekki um atvinnutekjur að ræða. Við getum kallað það laun, við getum kallað það styrk, sem þessir öryrkjar fá, en það eru ekki atvinnutekjur. Það eru tekjur, sem þeir fá vegna atvinnumissis. Hér gegnir allt öðru máli, enda eins og ég tók fram áðan, að þótt bætur almannatrygginga yrðu verðtryggðar eða vísitölutryggðar, þá mundi það ekki hafa nokkur áhrif á verðbólguna í landinu, hvorki nú né síðar. Ég veit ekki, hvort hv. þm. finnst það eðlilegra, sem gengur og gerist í okkar þjóðfélagi, ef auðugur maður lánar fátækum manni peninga, þá getur hann vísitölutryggt auð sinn með því, hann hefur rétt til þess. Er þetta nokkuð eðlilegra en að rétta öryrkjunum hjálparhönd? Það gilda í mörgum samningum um skuldir þau ákvæði, að upphæðir skuli greiðast í samræmi við vísitölu.