19.10.1961
Neðri deild: 5. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 256 í C-deild Alþingistíðinda. (2712)

2. mál, samningar milli læknafélaga og sjúkrasamlaga

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Hér eru nú fyrir Alþingi til staðfestingar ein af þeim mörgu bráðabirgðalögum, sem hæstv. ríkisstj. hefur sett á milli þinga. Formálinn að þessum brbl. flestum er á líka lund, hann er um það, að ástand hafi skapazt, sem af hljóti að leiða mikil vandræði, og þetta margnefnda vandræðaástand, sem sagt er vera í sköpun, er síðan haft sem forsenda fyrir þeirri bráðu nauðsyn, sem á því sé að afstýra vandanum, bæta úr honum með setningu bráðabirgðalaga.

Á þennan hátt var forsendan fyrir bráðabirgðalögunum, sem hér voru rædd fyrir nokkrum dögum, þ.e.a.s. lögunum um bann gegn verkfallsaðgerðum í sambandi við flugfélögin eða utanlandsflug þeirra. Þar var sagt, að svo mikið vandræðaástand hefði skapazt, að á þann hnút hefði orðið að höggva með setningu bráðabirgðalaga af hæstv. flugmálaráðherra. — Jú, það var svo mikið vandræðaástand, sem þá hafði skapazt, að fjárhagur flugfélaganna hlaut að fara í kaldakol, var sagt, ef ekki yrði afstýrt vandræðunum með brbl., flugfélögin að stöðvast, verða gjaldþrota, og alveg óskaplegt ástand, sem hefði af því leitt, ef ekki hefðu verið sett brbl., sagði hæstv. ráðherra þá. Og um hvað var að ræða í því tilfelli? Það var um það að ræða, að flugfélögin þurftu að semja við örfáa verkamenn á lægstu launum um það að laga svolítið laun þeirra og áttu þess fullan kost. En í stað þess að beita ríkisvaldinu til þess, að málið yrði leyst með hinni einu eðlilegu og sjálfsögðu og löglegu leið, að leysa kaupgjaldsmál hinna fáu verkamanna, sem voru í þjónustu flugfélaganna, með samningum, þá var beitt valdboði á þá, að þeir mættu ekki nota sinn verkfallsrétt, mættu ekki hafa sinn verkfallsrétt sem bakhjali við sinn samningsrétt, og flugfélögin skyldu fljúga áfram án þess að semja við þessa örfáu verkamenn. Skyldi ekki hafa verið heldur eðlilegri lausn á þessu vandamáli að segja við flugfélögin: Þetta er ykkur ekkert fjárhagsspursmál, þið farið ekki á hausinn fyrir það, þó að þið semjið um 12–15% hækkun við ykkar lægst launuðu menn, sem eru örfáir í ykkar þjónustu? Nei, það var ekki fær leið frá sjónarmiði ríkisstj. Það varð að taka réttinn af verkamönnunum og útskýra það með því, að óskaplegu vandræðaástandi hefði verið afstýrt með löggjöf. Það var gert með því að níðast á rétti verkamannanna, níða rétt verkamannanna af þeim með lagasetningu.

Ég verð að játa, að ég er að vísu ekki eins nákunnugur læknamálinu. En þó sýnist mér, að þar hafi verið forðazt að fara þá einu leið, sem sjálfsögð er í launamálum stétta, sem sé að fara samningaleið, samninga og aftur samninga, þrautreyna þá, ætla sér til þess nógu langan tíma og lenda ekki í þeim bobba, sem hæstv. ríkisstj. hefur lent í gagnvart læknastéttinni.

Ég tók eftir því, að hæstv. félmrh., Emil Jónsson, talaði um það áðan, að tíminn hefði verið svo ósköp naumur og þess vegna hefði orðið að leysa þetta mikla vandræðaástand, sem svo kirfilega er lýst í forsendum bráðabirgðalaganna, með setningu brbl. Ég lýsi því yfir sem minni skoðun, að svona mál, hvaða stétt sem í hlut á, hvort sem hún er láglaunuð eða hálaunuð, verði ekki leyst með brbl., það sé aðeins ein leið til fyrir hendi: að ná samningum. Ég er hræddur um, að þeirri eðlilegu lausn, samningaleiðinni, sé að mestu leyti lokað, þegar búið er að setja brbl. og skapa þann hita, sem þá skapast á milli þeirra, sem eiga að semja friðsamlega um þessi mál. Ég held, að það sé búið að stórspilla öllum möguleikum til samninga, þegar slíkt hefur gerzt í millitíðinni, þegar hnefi ríkisvaldsins hefur verið rekinn í borðið á milli samningsaðilanna.

Þetta mál læknanna er í eðli sínu sprottið af því, að læknastéttin telur sig búa við ósæmileg launakjör og óviðunandi vinnutíma og vinnuskilyrði. Og mér skilst, að þetta mál hafi staðið opið á annað ár og ríkisvaldinu a.m.k. fyrir meira en ári verið fullkunnugt um það, að læknar mundu ekki una hag sínum án þess að fá þar leiðréttingu á. Þess vegna held ég, að það sé gengið nokkuð á snið við sannleikann, þegar það er gert að höfuðafsökun, að tíminn hafi verið naumur til að leysa þessi mál með eðlilegum hætti.

Læknarnir hafa um s.l. aldarfjórðung orðið að leysa sín stéttarmál með samningum við sjúkrasamlögin, og það hefur jafnan tekizt þangað til nú. Nú vildu læknarnir gera tilraun til að fá leiðréttingu á ekki aðeins sínum launakjörum, heldur einnig sínum vinnutíma, og vildu í leiðinni ná samningum um ýmiss konar breytingar á vinnutilhögun sinni, að því er þeir töldu til bóta. Læknarnir gera grein fyrir því, að heimilislæknar sem samningsaðilar við Sjúkrasamlag Reykjavíkur verði að annast margvísleg störf, þeir verði að starfa sem almennir heimilislæknar, þeir verði að starfa sem heimilissérfræðingar, einkanlega eru það augnlæknar og hálslæknar, og í þriðja lagi sem sérfræðingar í hinum ýmsu greinum. Læknar segja mér, að þessir síðasttöldu, þ.e.a.s. sérfræðingar í hinum ýmsu sérgreinum læknisfræðinnar, stundi aðallega rannsóknir sjúklinga eftir tilvísun heimilislækna, en megi hins vegar ekki fást við meðferð sjúklinga á kostnað Sjúkrasamlags Reykjavíkur. Þó kváðu vera nokkrar undantekningar frá þessu að því er snertir húðlækningar. Þá eiga hinir almennu heimilislæknar í Reykjavík einnig að skipta með sér að vera á læknisverði, þ.e.a.s. á kvöldum, nóttum og helgidögum, og annast þá læknaþjónustu, sem kallar að hinum almennu heimilislæknum. Þetta eru þeir skyldugir að gera, allt þangað til þeir eru fimmtugir. Svona margþætt hafa verið störf heimilislæknanna í Reykjavík, og telja þeir, að þetta eigi ýmsar orsakir, en þó einkum og sér í lagi það, að þeir verði tilneyddir að sinna svona margvíslegum störfum vegna launakjara sinna. Það mun ekki vera óalgengt, að sami læknirinn hér í Reykjavík starfi á vegum Sjúkrasamlags Reykjavíkur sem heimilislæknir, sem sérfræðingur að einhverju leyti og jafnvel einnig sem spítalalæknir. Og þetta hrúgast á hinn sama mann, af því að hann verður að vera á snöpum eftir þessum þáttum starfsins til þess að geta framfleytt sér og sínum að mati læknanna. Mér er tjáð, að þeir hafi nú í meira en ár lagt mikla áherzlu á að fá breytingar á þessari starfstilhögun læknanna í Reykjavík með samningum, en orðið lítið ágengt í því efni.

Þá halda læknarnir því fram, að þeir hafi dregizt aftur úr í launum. Fyrir stríð er mér tjáð, að sjúkrasamlagslæknir, heimilislæknir, hafi haft 12 kr. á ári fyrir hvern fullorðinu samlagsmann, sem hann átti að sinna, en nú í haust, áður en 13% álagið kom á laun þeirra, hafi þeir haft kr. 139.90 fyrir sjúkrasamlagsmeðlim fullorðinn. M.ö.o.: það er viðurkennt af þeim, að laun þeirra hafi frá því fyrir stríð tólffaldazt að því er þennan þáttinn snertir. Hins vegar benda þeir á, að læknir hér í Reykjavík komist ekki hjá því að hafa geysilega mikinn tilkostnað í sambandi við að framkvæma sín læknisstörf, og þá kemur það fyrst og fremst til, að þeir verða að hafa góða og örugga bifreið til þess að geta innt læknisstarfið af hendi, og ég hygg, að menn verði að viðurkenna, að hjá því verði ekki komizt. Þeir segja, að fyrir stríð hafi þeir getað keypt góða bifreið fyrir 5000 kr., en það þýðir, að þeir þurftu ekki að vinna nema örfáa mánuði, til þess að hún væri fullgreidd með nokkurra mánaða launum. En nú segja þeir, — og það fer ekki fjarri réttu, að til þess að fá jafngóðan bíl þurfi þeir að borga 300–350 þús. kr., og það þýðir, að í flestum tilfeltum er það meira en brúttóárstekjur læknis í Reykjavík. Læknarnir segja því, — þetta er ein af þeirra röksemdafærslum um, að laun þeirra hafi rýrnað, — að þessi útgjaldaliður þeirra, sem þeir meta nokkuð stóran, hafi sjötugfaldazt frá því fyrir stríð, en laun þeirra um það bil tólffaldazt.

Annar útgjaldaliður, sem læknarnir telja að hvíli allþungt á þeim hér í Reykjavík, er kostnaður í sambandi við lækningastofur. Sé þarna um að ræða lækni, sem nú er að fá lækningastofu, ungan lækni eða lækni nýkominn í bæinn, eða lækni, sem hefur orðið að skipta um læknisstofu, fær hann varla slíka aðstöðu, gott herbergi með biðstofu á tiltölulega góðum stað í bænum, fyrir meira en 2500–3000 kr. á mánuði, fyrir húsnæðið sjálft án ljóss og hita og ræstingar. Það er því sýnt, að þessi liður í sambandi við rekstur læknis í Reykjavík kostar nokkuð marga tugi þúsunda á ári. Læknarnir telja, að þessi stóri útgjaldaliður við sitt starf hafi a.m.k. þrítugfaldazt frá því fyrir stríð. Við sjáum því, að vegna þeirrar verðlagsþróunar, sem hefur verið í landinu, verða allstórir mínusar, sem dragast frá launum læknanna, þó að mörgum finnist brúttótekjur þeirra vera allháar.

Í þriðja lagi segja læknarnir, að fyrir þær tekjur, sem þeir hafi, verði þeir að vinna óhóflega langan vinnudag. Sumir læknarnir kalla þetta bókstaflega þjökun, vinnuþunginn, sem á þeim hvílir nálgist það að vera réttnefnd þjökun. Til stuðnings þessari fullyrðingu sinni segja þeir, að heimilislæknir hjá Sjúkrasamlagi Reykjavíkur sé skyldugur til þess að vinna 10 tíma á dag fimm daga vikunnar, en 4 stundir á dag á laugardögum. Þessi skyldustarfstími þeirra gerir 54 stundir á viku. Látum það nú vera, ef þeir gætu látið sér þetta nægja. En þeir segjast ekki komast af með þennan vinnutíma, ef afkomu þeirra og fjölskyldu þeirra eigi að vera sómasamlega borgið. Læknarnir hika því ekki við, ef þeir eiga þess kost, að taka að sér önnur störf, meiri störf, leggja á sig lengri vinnudag, og telja, að nú sé svo komið, að það sé áreiðanlega ekki hollt heilsu læknanna sjálfra, og það sem verra sé, ofþreyttur læknir veiti ekki næga tryggingu fyrir því að veita örugga og góða læknisþjónustu sjúklingum, sem til hans leita. Og það mundu þó flestir verða að viðurkenna, að sé um það að ræða, að læknar séu ofþjakaðir með of löngum vinnutíma, þá er það alvarlegasta hliðin á því máli, það er það, sem snýr að sjúklingunum, sem þeir eiga að lækna. Ég hygg, að það yrði að viðurkennast, að æskilegast væri, að svo væri búið að læknum, að þeir kæmust sómasamlega af fjárhagslega með ekki miklu meira en 8 stunda vinnudegi.

Á miðju sumri núna hafði Læknafélag Reykjavíkur, eftir því sem mér er sagt, tilbúnar tillögur sínar til breytinga á skipulagi læknaþjónustunnar hér í Reykjavík, og í ágúst voru þessar tillögur lagðar fyrir Sjúkrasamlag Reykjavíkur, en það taldi sig þá ekki við því búið að athuga þessar tillögur þá þegar, heldur bað um nokkurra mánaða frest til þess að athuga þær.

Þetta mun hafa strax hleypt heldur illu blóði í forsvarsmenn læknanna, því að þeir töldu, að það væri öruggt, að Sjúkrasamlag Reykjavíkur og forsvarsmenn þess hefðu átt að vera vel kunnugir því, í hverju aðalóskir læknanna til breytinga á starfstilhögun voru fólgnar. Til sönnunar því benda þeir á, að í maímánuði 1960 hafi verið tilnefndir menn í nefnd, sameiginlega nefnd Læknafélags Reykjavíkur og Sjúkrasamlags Reykjavíkur, til þess að endurskoða skipulag læknaþjónustunnar. En það er hins vegar upplýst, að lítið hafi orðið úr störfum þessarar sameiginlegu nefndar, sem átti að taka til starfa í maí 1960, og mér er tjáð, að fulltrúar Sjúkrasamlags Reykjavíkur hafi lítt eða ekki tekið þátt í þessu nefndarstarfi og fulltrúar Læknafélags Reykjavíkur því unnið verkið einir, það að breyta læknaskipuninni og þannig vinnuaðstöðu læknanna, sem þeir hafa lagt mjög mikla áherzlu á, hafi ekki fengið neinar undirtektir.

Þegar nú leið fram í byrjun septembermánaðar í haust, þótti auðsætt, að ekki mundi takast að ná samningum um breytingar á læknaþjónustunni fyrir 1. okt., og þá gerðist það, sem hæstv. ráðh. vék að í sinni framsöguræðu, að stjórn Læknafélags Reykjavíkur og samninganefnd félagsins boðuðu til fundar þann 13. sept., og þar var flutt tillaga af stjórn og samninganefnd, sem sögð var að fæli í sér eiginlega úrslitakosti Sjúkrasamlags Reykjavíkur, þ.e.a.s., að ekki yrði lengra komizt samningaleið við sjúkrasamlagið. Í þessari tillögu fólst, að því væri lýst yfir, að samkomulag hefði náðst milli Læknafélags Reykjavíkur og Sjúkrasamlags Reykjavíkur til bráðabirgða um, að samningar aðilanna frá 19. maí 1960, sem höfðu að vísu þá um skeið legið uppsagðir miðað við 1. okt. í haust, skyldu framlengjast til 1. des. 1961, með þeim breytingum, að allar greiðslur til meðlima Læknafélags Reykjavíkur samkv. þeim samningi skyldu greiðast frá 1. okt. í haust til 1. des. með 13% álagi, en samningurinn síðan að falla úr gildi 31. des. 1961 án uppsagnar. Ég tók eftir því áðan, að þegar hæstv. ráðh. skýrði frá þessu, minntist hann ekki á, að í þessari till., sem var felld — kolfelld, hafi verið boðið aðeins, að kauphækkunin næði til 1. okt. Hann sagði, að það hefði verið boðið, að hún næði til 1. júli. Ég hygg, að þetta sé rétt, að í þessari tillögu, sem felld var, hafi staðið, að kaupið skyldi hækka um 13% frá 1. okt. að telja, en ekki frá 1. júlí, eins og algengast var um launaendurskoðun á þessu ári hjá flestum stéttum og þar á meðal opinberum starfsmönnum. Þetta mun heldur hafa spillt samkomulagsmöguleikum, að þeim var boðið upp á það, að launahækkunin ætti að koma miklu seinna en hjá öðrum, og er því verulegt atriði í þessu deilumáli, sem hefur orðið illvígara stig af stigi. Þá mun hafa verið fallizt á það, að í stað 1. okt. kæmi 1. júlí, en það er fyrst eftir að það hefur valdið leiðindum, ef ekki vonzku, að fyrsta boðið var það, að þeir fengju ekki neina kaupbreytingu fyrr en 1. okt.

Læknarnir halda því einnig fram, að þeir hafi oft fengið að heyra það hjá gagnaðilum sínum, samningstímum Sjúkrasamlags Reykjavíkur, að það væri óhætt að þjarma nokkuð að þeim í samningum, því að læknarnir í Reykjavík, sérstaklega eldri læknarnir, þyrðu ekki að búa við það að vera samningslausir, þeir teldu það mikið öryggi í að fá hinar ákveðnu tekjur frá sjúkrasamlaginu, þó að þær væru lágar, að án þess mundu þeir ekki vilja vera og mundu þess vegna sætta sig við flest. Læknarnir telja, að það hafi verið beitt við þá í raun og veru nauðungaraðstöðu út frá þessu og það hafi gert þá enn ákveðnari og harðari í því að sækja fastar sitt mál og láta það sýnast og sjást, að þetta væri á misskilningi byggt. En svo mikið er vist, að meðan á þessum umræðum stóð, var neitað öllum viðræðum við læknana um að fallast á breytingar á læknatilhögun, en á það lögðu þeir ekki siður áherzlu en sín launamál. Nú heyrðist mér þó hæstv. ráðh. segja það hér áðan, að sumt í þessum tillögum læknanna hefði verið óaðgengilegt, en annað í þeim tillögum hefði verið mjög athyglisvert, og er því merkilegt, að engar viðræður skyldu fást um þau atriðin, sem hæstv. ráðh. segir að hafi verið athyglisverð í þessum tillögum.

Eftir að tillagan hafði verið felld á fundi Læknafélagsins 13. sept., komu þessi mál næst á fund í félaginu 22. sept., og þar var borin fram ósk um það, að læknarnir veittu enn frest til 1. des. Þessi fundur mun hafa verið mjög fjölmennur, en þá var sú stífni komin í málið, að þeirri tillögu um að veita frest til 1. des. var vísað frá með miklum atkvæðamun.

Frá því hefur verið skýrt opinberlega, — ég held bæði í útvarpi og blöðum, — að launakröfur læknanna væru ofsalegar, þær væru um yfir 100% hækkun. Læknarnir játa, að þeirra kröfur séu allháar. En þeir gefa þá skýringu á sinni kröfugerð, að um 70—80% krafnanna leiði af þeim breytingum, sem Læknafélag Reykjavíkur vilji gera á fyrirkomulagi við læknisþjónustuna, en aðeins 20—30% af kröfum þeirra beri að skoða sem beina kauphækkun þeim til handa. Og þeir fullyrða, að þeir hafi a. m. k, dregizt aftur úr, miðað við margar aðrar stéttir, á síðustu 25 árum, sem nemi 20—30%. Það er líka kunnugt, að opinberir starfsmenn hafa látið sérfræðinga í tölvísi reikna það út, að þeir hafi yfirleitt dregizt aftur úr og þurfi að gera launakröfur um 30—34%.

Eitt af því, sem læknarnir benda sérstaklega á að hafi valdið launaskerðingu hjá þeim, er lagabreyting, sem gerð var 1955. Þá var það tekið inn í tryggingalögin, að lækni skyldu greiddar 5 kr. fyrir viðtalið og 10 kr. fyrir sjúkravitjun, en læknarnir halda því fram, og ég hygg, að það muni vera rétt, að bein laun þeirra hafi samtímis verið lækkuð um 14%. Nú skulum við segja, að þegar þetta var gert, hafi 5 og 10 kr. gjaldið bætt upp þessa lækkun á launum þeirra, það hafi staðizt á, En hitt mun vera staðreynd, að 5 kr. gjaldið og 10 kr. gjaldið hafa staðið óbreytt nú í 6 ár, og það hlýtur að viðurkennast, að það verður launalækkun. Hafi 5 og 10 kr. bætt upp 14% af föstu laununum þeirra fyrir 6 árum, þá gera 5 og 10 kr. það ekki nú, úr því að það gjald hefur ekki hækkað. Þess vegna er það, og sjálfsagt af mörgum fleiri ástæðum, sem læknarnir halda því fram, að þeir þurfi að fá a.m.k. 30% hækkun á sín beinu laun.

Óefað halda samningamenn Sjúkrasamlags Reykjavíkur því fram, að launakröfur læknanna, eins og þær séu fram settar, séu ekki aðgengilegar. Það er oftast nær venja í upphafi samninga, að kröfurnar séu mun hærri en menn að síðustu sætta sig við, oft er það a.m.k. svo, og vafalaust hefði því verið, ef menn hefðu gefið sér góðan tíma til ýtarlegra samninga, hægt að komast að eitthvað betri kjörum við læknana en hinum upphaflegu kröfum nam. Hins vegar munu samningamenn sjúkrasamlagsins vitanlega halda því fram, að efnahagur sjúkrasamlagsins leyfi ekki, að þeir slaki til við læknana og hækki laun þeirra eða breyti þeirra vinnutilhögun á þann hátt, að til aukinna útgjalda verði. En þá segja læknarnir m.a., að ef Sjúkrasamlag Reykjavíkur fylgdi fram sinni lagalegu aðstöðu til að innheimta samlagsiðgjöld, en á því sé mikill misbrestur, telja þeir, þá mundi Sjúkrasamlag Reykjavíkur fara langt með það að ná inn tekjum upp í þann kostnað, sem af meginþunga af kröfum læknanna leiddi. En fyrst og síðast undirstrika læknarnir það, að Sjúkrasamlagi Reykjavíkur hafi um langan tíma verið vel kunnugt um óánægju læknanna með laun sín og önnur starfsskilyrði, og benda því til sönnunar á, að sagt hafi verið upp samningum á miðju ári 1960, sú samningsuppsögn hafi að vísu verið dæmd ógild af gerðardómi, en allt frá þessum tíma hafi Sjúkrasamlag Reykjavíkur samt vitað það vel, að læknarnir mundu ekki una óbreyttum kjörum samkv. þessum samningum, heldur nota fyrsta tækifæri til þess að segja þeim upp. Þetta hefði því engum þurft að koma á óvart og sé því alls ekki um það að ræða, að Sjúkrasamlag Rvíkur hafi þurft að vera í neinum tímaskorti um það að þrautreyna samninga við læknana. En auk þess hafi ekki fengizt af stað viðræður um ýmsa þætti þeirra mála, sem þeir hafi viljað láta samningana snúast um, engu síður en um launakjörin, nefnilega um læknisþjónustuna og fyrirkomulag hennar, og þar hafi þeim verið mætt af stirðbusaskap, — það er þeirra skoðun.

En sé það aðalafsökunin fyrir hæstv. ráðh., að hann greip til þess óyndisúrræðis að setja brbl. til þess að fresta vandræðum þessa máls, að ekki hafi gefizt nógur tími til samninga, þá er það óafsakanlegt — alveg óafsakanlegt, allra helzt þegar vitað var um það frá miðju ári 1960, að þarna væri risið vandamál, sem yrði að leysa.

Nú sagði hæstv. ráðh. í lok ræðu sinnar, að þessi brbl. hefðu verið sett og skuli gilda til næstu áramóta, ef ekki takist nýir samningar milli þessara aðila innan þess tíma. Nú spyr ég að því: Eru þessir samningar í gangi, — það líður fljótt tíminn til áramótanna, — eða er komið svo, eins og ég gæti frekast búizt við, að vegna setningar brbl. sé búið að eyðileggja alla möguleika til samninga og að þeir komist alls ekki í gang? Það mundi gleðja mig alveg sérstaklega, ef hæstv. ráðh. gæti sagt: Samningarnir eru í fullum gangi og einhverjar vonir til þess, að þeim verði lokið, áður en ævi þessara brbl. lýkur, þ.e.a.s. fyrir áramót.

Nei, það, sem hér hefur gerzt, er sannarlega þess efnis, að þess er ekki að vænta, að læknarnir séu fúsari til samninga og verði samningaliprari eftir það, sem gerzt hefur. Þeir hafa verið úrskurðaðir til þess að inna sína læknisþjónustu af hendi, og þeim hefur verið skömmtuð þóknunin fyrir það. Þeir orða það sjálfir þannig, að þeir hafi verið dæmdir í galeiðuþrældóm hjá hæstv. félmrh., Emil Jónssyni, og það er mikið satt í því. Og það finnst mér eðlilegast af öllu, að læknar vilji ekki una neinum galeiðuþrældómi hjá þessum ágæta galeiðustjóra.

Ég lýk svo máli mínu um þetta mál með því að endurtaka, að ég tel í slíkum málum, launamálum stétta, enga lausn til nema samninga og aftur samninga, og að slík mál verði að leysa í okkar þjóðfélagi með samningum, frjálsum samningum. Setning brbl. í svona málum er engin lausn. Það er aðeins frestun á þeim vanda, sem skapazt hefur, og sennilega er vandinn þó alltaf gerður verri með slíku tiltæki. Ég held, að það eigi eftir að sýna sig, að hæstv. ríkisstj, leysi hvorki mál læknanna né verkfræðinganna né láglaunastéttanna með löggjöf. Sú löggjöf skapar aukin vandræði og verður alltaf endanlega brotin niður.