19.10.1961
Neðri deild: 5. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 263 í C-deild Alþingistíðinda. (2713)

2. mál, samningar milli læknafélaga og sjúkrasamlaga

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Hæstv. forseti ég vissi það fyrir fram, að hv. 4. landsk. þm. var skoðanalipur maður og fljótur að skipta um skoðun. En að hann gerði það svona fljótt, eins og í þessari ræðu, það hefur ekki verið venjulegt hjá honum, það hefur orðið að líða nokkru lengra á milli, þótt maður hafi orðið að horfa upp á, að það blési úr einni átt í dag og annarri á morgun. Hann byrjaði ræðu sína með því, hv. þm., að tala um verkamennina, sem hefðu verið órétti beittir með brbl. um flugið, og að þeir hefðu átt að fá fyrst og fremst tíma til að semja. Þessum fátæku mönnum hefði ekki verið það of gott, þótt þeir fengju þarna 17–20% í launabót, og virtist mér hann bera það tvennt fyrir brjósti, að láglaunamenn í þeim hópi fengju nokkra hækkun og að þessi hækkun færi fram á þann hátt, að það yrðu gerðir um hana samningar á milli aðila, en hún ekki ákveðin öðruvísi. Svo vendir hann sér í einu kasti yfir í læknana. Öll ræða hans var í þá átt að víta það harðlega, að þessi brbl. voru sett, til þess að það gæfist tóm til samningsumleitana, og þá var ekki verið að hugsa um hag þeirra fátæku verkamanna, sem þyrftu að greiða fyrir læknishjálp kannske 100% hærra verð en áður. Hann sem sagt var fljótur að skipta um skoðun eftir því, hvor brbl. voru, brbl. um flugið eða brbl. um læknana, og fór þá mjög sitt í hvora áttina. Annars lagði hv. þm. mesta áherzlu á það í öllum sínum málflutningi, að það væri það einasta rétta að semja sig áfram að niðurstöðu, en ekki að ná henni með valdboði.

Hann vildi líka reyna að láta líta svo út, að það væri Sjúkrasamlagi Reykjavíkur að kenna, að það hefði ekki verið unnið ötullega að því að reyna að fara samningaleiðina. En ég held nú, að hann geti ekki komið þeirri sök yfir á sjúkrasamlagið, vegna þess að sjúkrasamlagsstjórnin heldur því fram og ég ætla með réttu, að nefndarhluti læknanna í þessari endurskoðunarnefnd hafi hliðrað sér hjá því að eiga nokkurt samstarf við fulltrúa samlagsins þrátt fyrir nokkra eftirgangsmuni af hálfu framkvæmdastjóra samlagsins við formann nefndarhluta Læknafélagsins og ábendingu um það, að nú væri unnið að endurskoðun almannatrygginganna og væri því kjörið tækifæri, ef samstaða yrði í samninganefndinni um skipulagsbreytingar, sem útheimtu lagabreytingu. M.ö.o.: því er slegið föstu, að það var ákveðið í samningum á milli Læknafélags Reykjavíkur og Sjúkrasamlags Reykjavíkur í maímánuði 1960, að skipulag þessarar læknaþjónustu skyldi endurskoða og að það skyldu kosnir menn af beggja hálfu til þess að ganga til endurskoðunar á þessu máli. Sjúkrasamlag Reykjavíkur gengur eftir því æ ofan í æ við stjórn Læknafélags Reykjavíkur og þá menn, sem Læknafélagið hafði kosið til þessara starfa, að þeir gengju nú saman til athugunar á málinu og reyndu að koma sér niður á því, hvað ætti að gera. Nei, þeir fengu þetta ekki fram. Læknafélag Reykjavíkur og samninganefnd þess hliðraði sér hjá því að vinna með stjórn Sjúkrasamlags Reykjavíkur og samninganefnd þess að lausn málsins. Og það er fyrst um miðjan ágústmánuð, sem nefndin afhendir Sjúkrasamlagi Reykjavíkur uppkast, sem er einhliða samið af endurskoðunarnefnd Læknafélagsins. Þetta er það, sem gerðist, og þetta er það, sem hefur tafið framgang málsins svo, að það er ekki komið nema á byrjunarstig, þegar samningurinn á milli sjúkrasamlags og læknafélags er að falla úr gildi. Það er þetta, sem mér finnst vera aðalatriði málsins, að Sjúkrasamlag Reykjavíkur óskar eftir því, að það verði gengið til endurskoðunar á fyrirkomulagi læknaþjónustunnar, en fær það ekki, en fær svo framan í sig, þegar samningurinn er að renna út, uppkast um þetta, sem er einhliða unnið af Læknafélaginu.

Hv. þm. sagði, að þetta mál og umr. um það hefðu verið opnar í heilt ár og meira til, og það er rétt. En af hverju var ekki unnið að samningi um málið? Það var af því, að það var eingöngu annar aðilinn, sem var viljugur til þess að ganga til samkomulags. Hann sagði, hv. þm., að. það væri að ganga á snið við sannleikann, þegar væri talað um nauman tíma. Það má sjálfsagt lengi deila um það. En þessi tími, sem hann segir að hafi verið til stefnu, var alls ekki fyrir hendi. Tíminn, sem er til stefnu til þess að ræða um skipulagsbreytinguna, er hálfur annar mánuður, því að þá er fyrst lagt fram af hálfu Læknafélagsins þetta uppkast. Og tíminn, sem er fyrir hendi til þess að ganga frá launum fyrir þessa læknaþjónustu, er ekki nema ein vika, því að það er fyrst einni viku áður en samningurinn fellur úr gildi, sem kröfur læknanna eru lagðar fram. Og það vildi ég telja að hv. þm. væri ljóst, sem eigandi aðild að ýmsum kjaradeilum launþega í einu og öðru formi, að ein vika til svo mikilla samninga eins og hér áttu sér stað er hvergi talin hæfileg.

Ég tel mig svo ekki þurfa að ræða þetta meira. Málið lá einfaldlega þannig fyrir, að við blasti, að allir samningar á milli læknafélags og sjúkrasamlags gengju úr gildi. Það hafði ekki gefizt tími eða tóm til þess að ræða þá nema mjög skamman tíma, og það var ekki unnt að komast hjá því að gefa út þessi brbl., ef ekki átti, eins og ég tók fram áðan, að grípa til annarra og harðhentari ráða, því að í lögum um réttindi og skyldur lækna er heimild fyrir ríkisstj. til þess beinlínis að setja taxta. Úr því að ekki var gripið til þess ráðs og þótti ekkí eðlilegt að grípa til þess ráðs og þarf vonandi aldrei að grípa til þess, þá var ekki um aðra leið en þessa að ræða, ef ekki átti að láta brjóta niður þá þjónustu, sem sjúkrasamlögin í landinu hafa veitt og ég tel æskilegt að þau veiti. Og það þykir mér koma úr hörðustu átt, ef hv. 4. landsk. telur sig nú þess umkominn að beita sér fyrir málstað þeirra, sem vilja ekki una við það, að sjúkrasamlögin starfi áfram í landinu.