19.10.1961
Neðri deild: 5. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 265 í C-deild Alþingistíðinda. (2714)

2. mál, samningar milli læknafélaga og sjúkrasamlaga

Þórarinn Þórarinsson:

Hæstv. forseti. Mér finnst það ekki úr vegi að byrja mál mitt um þetta frv. með því að varpa fram þeirri spurningu, hvers vegna það er í fyrsta sinn í þingsögunni, sem slíkt deilumál liggur fyrir eins og þetta, — hvers vegna það er í fyrsta sinn í þingsögunni, að reynt er að útkljá deilumál milli sjúkrasamlaganna og læknanna um kjör læknanna með brbl. eins og þeim, sem hér liggja fyrir. Hvers vegna hefur þetta aldrei áður komið fyrir á undanförnum árum, á þeim tíma, sem sjúkrasamlögin hafa starfað? Hvað er það, sem veldur því, að slíkt mál liggur nú fyrir Alþ. í fyrsta sinn? Svarið við þeirri spurningu er ákaflega einfalt. Það liggur í efnahagsmálastefnu hæstv. ríkisstj. og liggur í vinnubrögðum hæstv. ríkisstj. í sambandi við kjarasamninga.

Efnahagsmálastefnan, sem hæstv. ríkisstj. tók upp fyrir tæpum tveimur árum, hefur haft það í för með sér, að stórfelld skerðing hefur orðið á kjörum allra launastétta í landinu, jafnt þeirra, sem eru vel launaðar, og hinna, sem eru lakar launaðar. Og það á að sjálfsögðu sinn mikla þátt í því, að læknarnir hafa nú farið af stað með kröfur sínar og sett fram meiri kröfur en þeir hafa áður gert og mundu ella hafa gert. Þessar efnahagsaðgerðir hæstv. ríkisstj. hafa jafnframt leitt til þess, að launabilið á milli sambærilegra launastétta hér á landi og í öðrum löndum hefur aukizt alveg stórkostlega, þannig að t.d. verkamenn hér á landi hafa nú miklu lakari kjör en áður, miðað við stéttarbræður þeirra í öðrum löndum. Og þetta gildir um íslenzka lækna einnig. Vegna efnahagsaðgerðanna, sem hæstv. ríkisstj. hefur framkvæmt, hefur aukizt mjög bilið á launum lækna hér á landi og lækna annars staðar. Þar sem hins þegar svo háttar til, að víða erlendis er skortur á læknum, þá hlýtur þetta að leiða til þess, að ef kjör íslenzkra lækna fást ekki bætt, þá sækja þeir til starfa í öðrum löndum og ráða sig þangað. Og það er ein hin alvarlegasta hætta í sambandi við þessar efnahagsaðgerðir hæstv. ríkisstj., að stórkostlega hefur aukizt bilið milli launa sérmenntaðra manna á Íslandi og í öðrum löndum, og það veldur því, að sérmenntaðir menn íslenzkir stunda nú í vaxandi mæli störf í öðrum löndum. Þetta gildir ekki sízt um lækna og verkfræðinga, sem nú eru mest eftirsóttu sérmenntuðu stéttirnar. Á þennan hátt hefur stefna hæstv. ríkisstj. skapað hér mjög mikið og alvarlegt vandamál, sem er ein af meginorsökum þeirrar deilu, sem hér er háð, því að það er ekki hægt að vænta þess til lengdar, að Íslendingum takist að haldast á sérmenntuðum mönnum í landinu, ef ekki er hægt að bjóða þeim sambærileg kjör við það, sem annars staðar er hægt að fá. Það verður að vera ein af okkar meginstefnum, og þeirri stefnu er hægt að fullnægja, ef rétt er stjórnað í landinu, að ekki aðeins sérmenntuðum mönnum, heldur líka hinu vinnandi fólki séu tryggð jafngóð kjör og annars staðar. Þetta bil hefur hins vegar stórkostlega aukizt að undanförnu vegna þeirrar efnahagsstefnu, sem ríkisstj. hefur fylgt. Og það er ein af meginorsökum þeirrar deilu, sem hér liggur fyrir.

Önnur aðalorsök deilunnar liggur í því, hvernig hæstv. ríkisstj. tekur venjulega á kröfum um kjarabætur eins og þeim, sem hér liggja fyrir. Menn munu áreiðanlega minnast þess, hvernig hæstv. ríkisstj. tók á kröfum verkamanna fyrr á árinu. Fyrstu viðbrögð hennar voru þau, þegar verkamennirnir, láglaunamennirnir í landinu, báru fram kröfur sínar, að segja: Það er alls enga kauphækkun hægt að veita og það verður engin kauphækkun veitt, það verður engin kjarabót veitt, og þannig var þetta mál látið dragast á langinn mánuðum saman. Þegar ríkisstj. svo fór að sjá fram á, að það mundi ekki vera hægt að stöðva þessar eðlilegu kröfur verkamanna og láglaunastétta í landinu, þá var boðin 3% kjarabót eða 3% launahækkun. Þannig var svo látinn líða alllangur tími. Þegar sýnt var, að þetta mundi ekki heldur ná fram að ganga, þá var boðin 6% kauphækkun. Og svo endaði þetta að sjálfsögðu með því, að það kom til stórfelldra verkfalla, vegna þess að stjórnin vildi aldrei taka skynsamlega á þessum málum, heldur flæktist á undan með tilboð, sem hún vissi að ekki mundi verða gengið að. Endalokin urðu svo þau, að það var samið um kauphækkanir, sérstaklega hjá þeim stéttum, sem eru betur settar, um vafalaust verulega meiri kauphækkanir en sennilega mundu hafa fengizt fram, ef ríkisstj. hefði í upphafi samið, án þess að til verkfalla hefði komið, Og það eru ákaflega svipuð vinnubrögð, sem hæstv. ríkisstj. hefur valið í því máli, sem hér liggur fyrir.

Eins og hér hefur verið rakið á undan og bæði hefur komið fram í ræðu hæstv. ráðh, og sérstaklega í ræðu hv. 4. landsk. þm., er það ekki aðalkrafa læknanna í þessu máli að fá bætt launakjör. Það er ekki aðalkrafan, þó að það sé ein af þeirra kröfum. Aðalkrafa þeirra er að fá bætt starfskjör, og það er sú krafa, sem þeir hafa sett fram á undan kröfunni um bætt launakjör. Það var viðurkennt af þeim ræðumönnum báðum, sem hér töluðu á undan mér, að þessar meginkröfur læknanna um bætt starfskjör hefðu legið fyrir strax 12. ágúst í sumar, og þá var hægt að byrja samninga um þessa aðalkröfu læknanna. En það mál var lagt í salt. Það var alls ekki gefinn kostur á því að ræða við læknana um þessa aðalkröfu þeirra. Það var látið liggja í salti, í stað þess að sjúkrasamlagið hefði strax átt að hefja viðræður við læknana á þessum grundvelli, því að það lá fyrir, að ef samkomulag næðist við læknana um bætt starfskjör þeirra, þá mundi verða miklu auðveldara að jafna sjálft launaspursmálið á eftir eða kröfur þeirra um launahækkun, því að meginatriðið hjá þeim var að fá bætt starfskjör. En í stað þess að hefja samninga við læknana um þetta af hálfu sjúkrasamlagsins er það dregið á langinn og ríkisstj., sem að sjálfsögðu á að hafa milligöngu um þetta mál, skiptir sér ekki neitt af því. Þannig leið allur ágústmánuður og þannig leið fram í september. Og svo þegar átti að fara að vinna að málinu þá og eðlilegast var, að ríkisstj, hefði haft milligöngu um að reyna að leysa það, þá var þannig ástatt vikum saman, að hæstv, ríkisstj. var ekki starfhæf. Meiri hluti hennar var alltaf utanlands og jafnvel stundum 3/4 ríkisstj., og hún gat þess vegna ekkert sinnt þessum málum. Þessu fylgdi að vísu sá kostur, eins og hefur komið fram í einu stjórnarblaðinu, Alþýðublaðinu, að landið var veizlulaust á meðan, vegna þess að það var enginn ráðherrann heima til að standa fyrir veizlufagnaði, — en af þessu leiddi jafnframt það, að stjórnin var óstarfhæf til þess að vinna að samningamálum eins og þessu, þ.e. að leysa deilu læknanna og sjúkrasamlaga. Og það átti sinn þátt í því, að þetta mál dróst á langinn og komst í eindaga um mánaðamótin september–október, eins og hér hefur verið lýst.

Ég hygg, að þegar nánar er litið á þessi mál, þá hljóti það ekki aðeins að vera óskir læknanna sjálfra, heldur óskir fólksins í landinu, að starfskjör læknanna séu þannig, að þeir geti veitt góða og örugga þjónustu. Við vitum það mjög vel, sem fylgjumst með störfum læknanna, að margir þeirra og sennilega flestir þeirra hafa lengri vinnudag en flestir eða allir aðrir menn í landinu og þeir verða að vera tilbúnir til starfa sinna jafnt á nótt sem á degi. Okkar er líka kunnugt um, að það eru margir hinna efnilegustu lækna þessa lands, sem hafa fallið í valinn fyrir aldur fram, vegna þess að þeir lögðu of hart að sér. Þess vegna er ég alveg sannfærður um, að það mundi ekki hafa mætt neinni andstöðu fólksins í landinu, — neinni andstöðu almennings hér í Reykjavík eða í Kópavogi, — þó að það hefði verið gengið til móts við læknana um það að bæta starfskjör þeirra. En það er meginatriðið í kröfum þeirra, þeir leggja megináherzluna á starfsskilyrðin. Sjálft launamálið hafa þeir látið koma í annarri röð. Og ég er ekki viss um það, þó að hæstv. ríkisstj. álíti sig geta aflað kjörfylgis á því að tala um, hve læknarnir hafi há laun, og reyni að æsa á móti þeim á þeim grundvelli, að þá sé það vilji almennings í landinu, að læknum sé ofþrælkað og þeir geti þess vegna ekki veitt þá öruggu þjónustu, sem nauðsynlegt er. Ég held, að ríkisstj. græði ekki á því að standa á móti óskum læknanna um bætt starfskjör, hvað sem svo kann að líða launaspursmálinu sjálfu á eftir.

Jú, það kom að vísu út úr þessu hjá sjúkrasamlaginu, áður en endanlega slitnaði upp úr, — það er rétt að geta þess, — að læknum var boðin 13% kauphækkun, en engin breyting á starfskjörum, sem var þó aðalkrafa þeirra. En hvað var að gerast í landinu á sama tíma? Hvers konar samningar áttu sér stað á sama tíma? Á sama tíma og þetta gerðist, að læknum var boðið upp á 13% kauphækkun, sem átti ekki aðeins að vera bein kauphækkun þeirra, heldur standa undir stórauknum kostnaði við ýmsan rekstur, sem starfi þeirra er samfara, eins og bílum og ýmsum tækjum, — á sama tíma og læknum er boðið upp á þessi 13% er yfirmaður sjúkrasamlaganna í landinu, hæstv. félmrh., að ganga frá samningum um það við yfirmenn á strandferðaskipunum og yfirmenn á varðskipunum, að þeir fái 27% kauphækkun. En þessir menn þurfa þó ekki að hafa neinn rekstrarkostnað samfara sínu starfi, eins og t.d. læknar þurfa að hafa. Og það gerðist meira. Á þessum sama tíma og læknunum var boðið 13%, bæði til launabóta og til að mæta auknum rekstrarkostnaði við starf sitt, þá er verið að semja við flugmenn um það, að þeir fái raunverulega 33 % kauphækkun. Í báðum þessum tilfellum, hjá flugmönnum, sem fá um 33% kauphækkun, og hjá yfirmönnum á varðskipum og strandferðaskipum, sem fá 27% kauphækkun, er miðað við það kaupgjald, sem þeir höfðu, þegar viðreisnarlöggjöfin gekk í gildi fyrir tæplega tveimur árum. Hins vegar er sá taxti, sem kjör læknanna eru miðuð við, miklu eldri en þetta og að því er ég man bezt frá 1952, og hafa, eins og alkunnugt er, stórkostlegar breytingar á verðlagi átt sér stað síðan. Það, sem ríkisstj. gerir svo, þegar þannig er komið út í óefni, vegna þess að ekki er reynt neitt til þess á alvarlegan hátt að ná samkomulagi við læknana, — það, sem hún gerir þá, er að gefa út þau brbl., sem hér liggja fyrir. Í þessum brbl. felst engin lausn, aðeins þriggja mánaða frestur. Og það er áreiðanlegt, eins og hefur komið fram hér í ræðu hv. 4. landsk. þm., að slíkar aðferðir verða ekki til þess að greiða fyrir samkomulagi í þessu máli, þó að það vonandi náist á sínum tíma. Ég held, að það hefði verið miklu hyggilegra af hæstv. ríkisstj, og það hefðu náðst miklu hagkvæmari samningar fyrir alla aðila, ef strax hefði verið gengið til móts við læknana, þegar þeir settu fram sínar meginkröfur 12. ágúst s.l. þá setzt að samningaborðinu með milligöngu ríkisstj. Ég er sannfærður um það, að ef sú vinnuaðferð hefði verið viðhöfð, þá hefði náðst miklu hagkvæmara samkomulag en það, sem kemur til með að nást endanlega, eftir að búið er að setja þá stífni og þrjózku í þetta mál, sem eðlilega leiðir af þeim vinnubrögðum, sem sjúkrasamlagið og hæstv. ríkisstj. hefur í frammi haft við læknana. Sú vinnuaðferð verður ekki til að greiða fyrir lausn þessa máls frekar en sú vinnuaðferð, sem hæstv. ríkisstj. beitti við verkamenn fyrr á árinu, þar sem fyrst var sagt, að þeir fengju ekki neinar uppbætur, þar næst 3%, svo 6%, svo var látið koma til stórkostlegra verkfalla, og þá var samið vafalaust um meiri hækkun a.m.k. til þeirra, sem eru betur settir, heldur en mundi hafa verið samið um án verkfalla, ef fyrr hefði verið gengið í það að ná samkomulagi um lausn þessara mála.

En í sambandi við þessa deilu er ekki ófróðlegt að reyna að gera sér nokkra grein fyrir því, hvernig horfur eru með læknahald í landinu á komandi árum og hvaða áhrif hún getur haft á það, ef hún leysist ekki sómasamlega.

Nú mun þannig hátta til að áliti fróðra manna, að það mun vera nauðsynlegt, að 12–15 nýir læknar bætist við á ári hverju, bæði til þess að mæta auknum fólksfjölda, auknu spítalahaldi og svo til að koma í stað þeirra lækna, sem hætta störfum. Ástandið mun vera þannig í landinu, að það mun ekki vera meira en svo, að þeir læknar, sem fyrir eru, fullnægi þeim þörfum, sem nú eru, og víða er það ekki, eins og kunnugt er í sambandi við læknaskort víða úti um land. Það munu vera horfur á því á næsta ári, að það útskrifist nægilega margir nýir læknar til þess að fullnægja þörfinni á því ári, ef þeir setjast hér að. Hins vegar þegar kemur til næstu áranna þar á eftir og ef miðað er við þá læknanema, sem nú eru á miðstigi og seinasta stigi, þá mun sú aukning, sem þá verður, ekki nægja fullkomlega til þess að mæta þeirri þörf fyrir fjölgun lækna, sem verður á þessum árum, þannig að þótt jafnvel allir þeir læknanemar, sem ljúka námi á næsta ári, setjist hér að, má búast við því, að heldur vaxi læknaskortur í landinu. Ef það bætist svo við, að margir þessara manna leiti sér atvinnu í öðrum löndum og jafnvel þeir læknar, sem nú eru hér starfandi, sem mikil hætta er á að geti orðið, ef þetta mál leysist ekki sómasamlega, þá má búast við því á næstu árum, að hér verði verulegur læknaskortur. Ég hygg, að hæstv. ríkisstj. og stuðningsmenn hennar hefðu gott af því að gera sér grein fyrir þessari staðreynd, að vel getur svo farið, að ef ekki er haldið með fullri sanngirni og eðlilegri sanngirni á þessum málum læknanna, þá komi þjóðin til með að búa við verulegan læknaskort á komandi árum. Þetta verður að hafa mjög vel í huga í sambandi við það, þegar þessi deila verður leyst.

Ég held, að það væri svo heppilegt í sambandi við þetta mál, fyrst það hefur komið hér til þingsins kasta, að það verði látin fara fram athugun á öllu tryggingakerfinu í landinu, á sjúkratryggingakerfinu og öðru tryggingakerfi. Það gengur orðrómur um það, — ég skal ekki fullyrða neitt um það og hef ekki aðstöðu til að fullyrða um það, hve réttur hann er, — að það sé óþarflega mikið starfsmannahald, sem eigi sér stað í sambandi við rekstur sjúkrasamlagsins hér í Reykjavík og í sambandi við rekstur Tryggingastofnunarinnar, og að með bættum starfsháttum hjá þessum stofnunum megi koma fram verulegum sparnaði. En þetta er þingmönnum alveg ókunnugt um, því að störfum þessara stofnana, t.d. Tryggingastofnunarinnar, hefur verið þanni,g háttað, að ríkisendurskoðunarmenn og Alþingi hefur enga aðstöðu haft til að fylgjast með því, hvernig rekstri þessara stofnana er fyrir komið. Ég skal ekki fullyrða neitt um það, hvort þessi rekstur er aðfinnsluverður, en þrátt fyrir það er hann að mínum dómi rannsóknarverður, vegna þess að Alþingi ber að fylgjast vel með því á hverjum tíma, hvernig starfsháttum slíkra stórra ríkisstafnana er háttað. Ég held, að við hefðum einnig gott af því, að það væri gerður nokkur samanburður á því, hvernig rekstri þessara mála er háttað hér á landi og t.d. á Norðurlöndum, þar sem sennilega er helzt að leita fyrirmynda um framkvæmd þessara mála.

Mér er sagt, að í mörgum efnum sé verulegur munur á því, hvernig rekstri slíkra stofnana sé háttað hér á landi og annars staðar á Norðurlöndum, og t.d. sé mikill munur á því, hvernig rekstri sjúkratrygginganna er háttað í Svíþjóð og er svo háttað hér á landi. Ég held, að það væri ærið rannsóknarefni fyrir okkur að kynnast því, hvernig t.d. fyrirkomulag sænsku sjúkratrygginganna er. Ég held, að það sé þess vegna mál til komið, fyrst þetta mál hefur komið hér inn í þingið, að t.d. Alþ. skipaði sérstaka mþn. til þess að athuga allt tryggingakerfið í landinu, hvernig því er fyrir komið, leita eftir fyrirmyndum annars staðar frá, þar sem þær eru beztar fáanlegar, eins og á Norðurlöndum, og athuga síðan, hvaða æskilegar breytingar væri rétt og nauðsynlegt að gera á þessum málum.

Það, sem ég vildi svo seinast gera að umtalsefni, er sú fullyrðing, sem nokkuð ber á og mér virtist koma fram í orðum hæstv. félmrh. hér áðan, þegar hann hóf mál sitt. Þessi fullyrðing er sú, að það sé ekki hægt að veita sérmenntuðum mönnum, eins og læknum og verkfræðingum, sæmileg kjör hér á landi eða sambærileg við það, sem annars staðar þekkist, vegna þess að það verði þá að ganga út yfir láglaunafólkið og skammta því minni skammt. Ég mótmæli fullkomlega þessari afturhaldskenningu. Ég hef þá trú á þessu landi og þessari þjóð, að ef rétt sé stjórnað, þá sé fullkomlega hægt að gera það hvort tveggja í senn, að láta sérmenntaða menn, sem við höfum mikla og vaxandi þörf fyrir í framtíðinni, búa við sambærileg kjör við það, sem annars staðar þekkist, og láta jafnframt verkafólk og bændur og annað vinnandi fólk í landinu búa við sambærileg kjör og annars staðar þekkist. Það á að vera takmark okkar Íslendinga að stefna að því, að við getum boðið okkar sérmenntuðu mönnum og okkar vinnandi fólki sambærileg kjör við það, sem annars staðar þekkist. Og það skulum við líka gera okkur ljóst, að ef okkur tekst ekki að búa þessu fólki, bæði því sérmenntaða og því, sem hefur ekki eins mikla menntun, hliðstæð kjör á við það, sem annars staðar þekkist, þá erum við illa komnir og þá getur orðið hætta á því í komandi framtíð, að það verði ekki aðeins sérmenntaða fólkið, sem kemur til með að leita héðan, en örugglega komum við þá til með að missa það, Nei, það er alveg óhætt fyrir okkur að kasta öllum átrúnaði á þessa afturhalds- og barlómsstefnu, sem nú er haldið uppi af hæstv. ríkisstj. og stuðningsflokkum hennar. Ísland er svo gott land, Íslendingar eru svo dugmikil þjóð, að það er hægt að tryggja sérmenntuðum mönnum hér á landi jafngóð kjör og annars staðar, hægt að tryggja vinnandi fólki jafngóð kjör og annars staðar, ef hér er rétt stjórnað og horfið er frá þeirri kreppu- og afturhaldsstefnu, sem nú ríkir í landinu, og aftur tekin upp sú framkvæmda- og framleiðslustefna, sem áður var.