23.10.1961
Neðri deild: 7. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 277 í C-deild Alþingistíðinda. (2719)

2. mál, samningar milli læknafélaga og sjúkrasamlaga

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Þegar mál þetta var hér síðast á dagskrá, lagði ég eina fyrirspurn fyrir hæstv. félmrh. Ég spurði hann um, hvort það væri rétt, sem læknarnir héldu fram í sambandi við þessa deilu, að hann sem ráðherra hefði sett brbl. án þess að hafa nokkru sinni rætt við læknana um þessi deilumál.

Ég benti hér á, að ég hefði veitt því athygli og fleiri hlytu að hafa tekið eftir því, að læknarnir hefðu einmitt lagt á það höfuðáherzlu, að það virtist vera svo, að hæstv. ráðherra hefði aðeins kynnt sér sjónarmið annars aðilans og farið eftir því, sem forsvarsmenn Sjúkrasamlags Reykjavíkur hefðu sagt honum um deiluna, en hins vegar hefði hann aldrei haft beint samband við forsvarsmenn læknanna.

Ég taldi, að ef hér væri rétt frá skýrt af hálfu læknanna, væri það í rauninni vítavert af hæstv. ráðherra að setja brbl. þau, sem hann setti, og á þann hátt, sem það var gert. Nú hefur hæstv. félmrh. orðið að staðfesta hér í þessum ræðustól, að læknarnir skýri í þessum efnum rétt frá, hann hafi aldrei átt beint samtal við þá um þessi deiluatriði, en eigi að síður hafi hann skorizt í þessa deilu á þann hátt, sem allir vita, og sett brbl., með þeim afleiðingum, sem læknarnir hafa nú bent á, og ég hygg, að flestir telji, að einnig muni verða, að málið muni verða miklu torleystara á eftir. Hæstv. ráðherra segir að vísu, að hann hafi kynnt sér afstöðu beggja aðila í deilunni, en þó þannig, segir hann, að hann hafi aldrei haft beint samband við forsvarsmenn læknanna, Það er þá sem sé alveg sýnilegt mál, að hann hlýtur að hafa kynnt sér afstöðu læknanna fyrir milligöngu einhverra allt annarra aðila. Ég vakti líka athygli á því í umræðunum, sem fram fóru á síðasta fundi um þetta mál, að það var undarlegt, hvað hæstv. ráðh. vitnaði oft í það í þessum umræðum, sem forsvarsmenn Sjúkrasamlags Reykjavíkur héldu fram, eins og ráðherraun sagði, að þeir segðu þetta og segðu hitt.

Ég held, að það sé enginn vafi á því eftir það, sem nú er komið fram í þessu máli, að hæstv. ráðherra hefur gert hina mestu skyssu í þessum efnum og í rauninni staðið alveg óforsvaranlega að málinu. Það að grípa til brbl. í vinnudeilu og það um jafnviðkvæmt mál og þetta mál var er alveg óverjandi, án þess að ríkisstj. hafi gengið til botns í því, hvort hægt er með því að hafa beint samband við viðkomandi aðila að ná sættum í deilunni.

Ég hafði ekki tekið þátt í þessum umræðum að neinu verulegu leyti, en lagði fyrst og fremst fram þessa spurningu. Ég vil í tilefni af því, sem nú er fram komið, aðeins lýsa því yfir sem minni afstöðu, að ég tel, að að þessu leyti hafi verið farið mjög illa að í þessu máli og beri að vita það. Það er mjög alvarlegt, ef ríkisstj. er að þarflausu að skerast í leikinn í sambandi við vinnudeilur og setja lög þar um. Slíkt ber vitanlega að forðast. Og ég álít, að það verði að vera alveg sérstaklega þung rök, sem fram eru færð fyrir því að grípa inn í slíkar deilur með setningu laga.

En það er nú orðið sem orðið er í þessum efnum. Eftir stendur málið gersamlega óleyst, eins og allir vita. Sá tími, sem átti að vinnast, hefur ekki unnizt öðruvísi en svo, að engar viðræður munu fara fram á milti þessara aðila og málið í rauninni standa verr en nokkru sinni fyrr. Hvað á svo að gera, þegar þessi brbl. renna út? Framlengja þau með nýjum bráðabirgðalögum, — eða hvað? Málið þarf að leysa, og það verður ekki gert án þess að tala við þá aðila, sem í deilunni standa, og vilji ríkisstj. beita sér fyrir því að fá lausn, þá verður hún að gera það.

Ég vil nú vænta, að hæstv. félmrh. sjái, að hann hafi farið hér ranglega að, líklega eftir leiðsögn annarra, og að hann reyni að bæta fyrir það, sem rangt er gert í þessu, með því að hafa nú samband við læknana á beinan hátt og kynna sér afstöðu þeirra beint og milliliðalaust frá þeim og leita síðan eftir því að leysa málið, því að málið þarf að leysast.