23.10.1961
Neðri deild: 7. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 279 í C-deild Alþingistíðinda. (2721)

2. mál, samningar milli læknafélaga og sjúkrasamlaga

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Ég skal nú ekki eyða löngum tíma í að ræða við hv. 4. landsk. þm. um galeiðuþrældóm læknanna. Það fer álíka vel í munni og þegar talað var hér um móðuharðindin á síðasta þingi, og er hvort tveggja álíka réttnefni. En ég get ekki stillt mig um að endurtaka það, sem ég sagði áðan, að einhvers staðar þurfa læknarnir að fá sín laun frá, og það er alveg gefið, að ef þeir fá laun sín hækkuð, eins og þeir óskuðu eftir, þá hlýtur það á einn hátt eða annan, beint og óbeint, að koma niður á þeim, sem erfiðasta aðstöðu eiga í þjóðfélaginu, því að það eiga þeir sennilega, sem mest þurfa á aðstoð læknanna að halda.

Báðir þessir hv. þm., sem nú töluðu hér, sögðu, að það væri eiginlega vítavert að gefa út brbl. og að manni skildist að ráða málinu til lykta með lögum. En málinu er alls ekki ráðið til lykta. Það, sem gert er, er það, að það er unninn tími fyrir samningsaðilana til þess að tala saman. Ég skal rifja það hér upp aftur, sem ég sagði síðast, þegar mátið var á dagskrá hér í þessari hv. deild, að samninganefnd læknanna og samninganefnd sjúkrasamlagsins ræddu það mjög ýtarlega, hvernig væri hægt að lengja það tímabil, sem til umráða væri til samninga. Samninganefnd læknanna var búin að komast að samkomulagi við samninganefnd sjúkrasamlagsins um að framlengja frestinn um tvo mánuði eða jafnvel lengur til þess að geta rætt um málið betur sín á milli. Stjórn Læknafélagsins hafði líka gengið inn á þetta. En það er fundurinn, félagsfundurinn, sem fellir það, og sýnir þetta, að það hafa verið margir einmitt í hópi læknanna, sem vildu, að þessum samtölum yrði haldið áfram, þó að fresturinn, sem rann út 1. okt., væri útrunninn.

Ég get því ekki séð neitt vítavert í því, þó að það sé greitt fyrir því, að samningarnir geti haldið áfram. Ef það væri með þessum brbl. verið að setja niður deiluna til fulls og ákveða læknunum laun í framtíðinni, þá mætti segla, að það væri eðlilegt og sjálfsagt að tala við báða málsparta beint og gera sér alveg grein fyrir, hvernig málið stæði. En þegar aðeins er um það að ræða að vinna tíma til þess að geta freistað þess enn um stund, hvort ekki næst samkomulag, þá sé ég ekki neitt vítavert í því, heldur alveg þvert á móti. Það er verið að hjálpa til að gera það, sem samninganefnd læknanna og stjórn Læknafélagsins vildu að gert yrði.

Ég þarf ekki að skýra það fyrir hv. þingmönnum, hvað hefði gerzt, ef ekkert hefði verið gert í þessu af hálfu ríkisstj. Samningarnir runnu út 1. okt., og sjúkrasamlagið var þar með sett út úr „funksjón“. Borgarar bæjarins hefðu orðið að leita til læknanna beint, án aðstoðar sjúkrasamlagsins, og greiða þeim þann taxta, sem þeim þá þóknaðist að setja upp. Þá hygg ég, að mörgum fátæklingnum hefði þótt þröngt fyrir dyrum. Og ég verð að segja það sem mitt álit, að ég tel, að svona tilræði við sjúkrasamlagið, þá þörfu stofnun, sé svo skaðlegt, að það meira en réttlæti þær aðgerðir, sem gerðar hafa verið með þessum brbl. Það lá alveg ljóst fyrir, þegar brbl. voru sett 30. sept., að það náðist ekki samkomulag og að læknisþjónustan, eins og hún hafði verið framkvæmd áður, var þar með niður fallin, læknisþjónusta á vegum sjúkrasamlagsins, því að við sjúkrasamlagið var enginn samningur. Og það var það, sem ríkisstj. taldi háskalegast af öllu, ef starfsemi sjúkrasamlagsins félli að meira eða minna leyti niður, eins og blasti við, þegar samningurinn hefði átt að falla úr gildi.