24.10.1961
Neðri deild: 8. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 286 í C-deild Alþingistíðinda. (2736)

22. mál, áburðarverksmiðja

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Frv. svipað þessu hefur verið áður flutt hér í hv. Alþingi og er því þingmönnum að nokkru kunnugt. Breyting hefur þó verið gerð á frv. frá því, sem það áður var. Áður var gert ráð fyrir, að Áburðarverksmiðjan h/f fengi einkarétt til þess að flytja inn áburð, en nú hefur þessu verið breytt þannig, að aðrir, sem vildu taka það að sér, gætu það, enda þótt þetta frv. verði að lögum. Í 2. mgr. 1. gr. segir orðrétt:

„Þar til Áburðarverksmiðjan h/f hefur fullnægt þörfum landsmanna á tilbúnum áburði með eigin framleiðslu, getur ríkisstj. falið henni að flytja inn tilbúinn áburð, enda verði áburðurinn seldur á kostnaðarverði, sem háð er samþykki landbrh.

Þegar frv. líkt þessu var til umræðu hér á síðasta þingi, var það gagnrýnt að gefa einum aðila og þá sérstaklega áburðarverksmiðjunni, sem virðist ekki vera allt of vinsæl í augum nokkurra þingmanna, einkarétt til þess að annast þetta. Með þessu móti geta aðrir flutt inn áburð og keppt við áburðarverksmiðjuna, og við skulum þá segja, að það verði nokkur trygging fyrir því, að hér verði ekki nein okurstarfsemi á ferðinni frá hendi áburðarverksmiðjunnar. Hins vegar er það ljóst, að á hverjum tíma verður að vera einhver aðili, sem örugglega tekur það að sér að sjá bændum fyrir nægilegum áburði. Þess vegna er nauðsynlegt, að ríkisstj. feli þeim aðilanum að taka við pöntunum og annast innflutning nægilegs áburðarmagns, ef áburðareinkasalan verður lögð niður. En þetta frv. gerir ráð fyrir því að leggja niður áburðareinkasöluna, ekki vegna þess, að áburðareinkasalan sé illa rekið fyrirtæki, heldur vegna þess, að það hlýtur að vera praktískara að hafa innflutning áburðarins á hendi sama fyrirtækis og framleiðir áburðinn. Áburðareinkasalan hefur raunverulega ekkert starf á hendi nema tvo mánuði ársins. Það þarf að vísu að gera pöntun á áburðinum í október- eða nóvembermánuði, eins og venjulega, en starfsemin er svo aðallega í maí og júní, og þá þarf að taka á móti áburðinum og afgreiða hann. Eigi að síður verður að hafa hér skrifstofuhald allt árið og starfslið. Það leiðir því af sjálfu sér, að það verður einhver sparnaður að því að leggja þetta niður

Við skulum segja, að áburðarverksmiðjan taki svo að sér innflutning alls áburðar, og það hygg ég að verði. Þótt heimild sé fyrir hendi fyrir aðra að keppa við áburðarverksmiðjuna, þá hygg ég, að hún hafi betur aðstöðuna til þess að láta bændur hafa ódýran áburð, og þar kemur margt til. Áburðarverksmiðjan er með sitt starfslið. Hún þarf ekki að bæta við skrifstofuplássi, þótt hún taki að sér að annast innflutning á áburði. Hún þarf ekki að bæta við sig skrifstofuliði, þó að hún taki þetta að sér. Í Gufunesi er bryggja, sem áburðarverksmiðjan á, og þá sjá allir, að það hlýtur að vera ódýrara að skipa áburðinum upp þar heldur en hér í Reykjavík. Í Gufunesi koma til með að verða nægilegar áburðargeymslur. Ekki þarf að leigja pakkhús hér í Rvík, eins og áburðareinkasalan gerir, sé áburðurinn fluttur þangað. Það miðar þess vegna allt að því, að það sé hentugt og það sé tímabært að fela áburðarverksmiðjunni að gera þetta. En þeim, sem tortryggja hana og telja öryggi í því, að hún hafi aðhald, ætti að vera fullnægt með því, að eins og 2. mgr. 1. gr. nú er orðin, getur SÍS eða önnur félög og kaupmenn tekið að sér innflutning á áburðinum, ef þeir treysta sér til þess að gera það á ódýrari hátt en áburðarverksmiðjan. Verði áburðarverksmiðjunni falinn innflutningurinn, verður auglýst eftir pöntunum. Bændurnir ráða því þá sjálfir, hvort þeir panta áburðinn hjá áburðarverksmiðjunni eða einhverjum öðrum aðila, og við getum þá verið sammála um, að þetta sé frjálslegast og frv. í því formi, sem það er nú, frjálslegra en það var áður, — ég get alveg fallizt á það, um leið og ég er sannfærður um, að eftir sem áður verði það áburðarverksmiðjan, sem annast innflutninginn á áburðinum, vegna þess að hún hefur betri aðstöðu til þess en nokkur annar með þeirri aðstöðu, sem hún hefur í Gufunesi. Svo er eðlilegt, að menn vænti þess, að í framtíðinni og kannske í náinni framtíð fari áburðarverksmiðjan að framleiða fleiri áburðartegundir og það verði stöðugt minnkandi magn af erlendum áburði, sem við þurfum að flytja inn. Því minni ástæða er þá til að hafa sérstakt innflutningsfyrirtæki eins og áburðareinkasölu, sem hefur þetta starf með höndum.

Ég hef skilið það þannig, og ég vil leyfa mér að vona, að það sé þannig, að hv. þingmenn vilji keppa að því, að framleiðsla á þeim áburði, sem við þurfum að nota, í fyrsta lagi það, sem við þurfum að nota, áður en við förum að keppa að því að framleiða áburð til útflutnings, verði framleitt hér. Ég vænti, að mönnum hafi ekki snúizt svo hugur, að þeir telji nú ekki ómaksins vert að keppa að þessu marki. Ég vænti, að það sé óbreytt skoðun hv. þingmanna, að það beri að keppa að þessu marki, enda þótt það hafi sézt á prenti nú síðustu vikurnar ýmislegt, sem ég vil telja algerlega óréttmæta gagnrýni á áburðarverksmiðjuna. Ég hef lengi verið í stjórn áburðarverksmiðjunnar, þótt ég sé það ekki núna, og þar hefur verið góð samvinna. Og ég held, að það verði að segja um þetta fyrsta stóriðnaðarfyrirtæki hér á landi, að það hafi tekizt með ágætum að reka það. Hitt kom mér alveg á óvart, þegar ég sá í einu blaði um daginn, að það var verið að gagnrýna mistökin á því, að kornastærðin á áburðinum væri ekki eins og átti að vera. Gagnrýnin er út af fyrir sig réttmæt, vegna þess að kornastærðin á að vera meiri en hún hefur verið. En tónninn í þessum skrifum og málflutningurinn var ekki við hæfi, og hann var ekki á neinn hátt réttmætur.

Nú er það svo, að stjórn áburðarverksmiðjunnar, — mér er kunnugt um það, — hefur gert ráðstafanir til þess, að kornin verði stækkuð, og það má vænta þess, að sú endurbót á verksmiðjunni verði fullgerð á næsta vori. Að þetta hefur ekki verið gert fyrr, er eingöngu vegna þess, að það hefur ekkert fyrirtæki enn verið fáanlegt til þess að gera þessar endurbætur. Það hafa verið ýmsir erfiðleikar á því. En nú á s.l. ári hafa verksmiðjustjórinn og vélaverkfræðingur verksmiðjunnar á sínu ferðalagi um Bandaríkin náð samkomulagi við eitt stórt firma í Bandaríkjunum, sem býðst til þess að gera þetta og hefur gert slíkt við eina verksmiðju í Bandaríkjunum og það tekizt vel. Þessi verksmiðja er nefnilega ekki sú eina, sem hefur ekki framleitt áburð af réttri kornastærð. Það gerðist líka í Bandaríkjunum, um það leyti sem var verið að byggja verksmiðjuna hér, og það er nú fyrir tveimur árum, sem þeim tókst að endurbæta kornastærðina í sínum áburði. Það ætti þess vegna að geta tekizt eins hér.

Það, sem hefur gerzt, síðan áburðarverksmiðjan í Gufunesi tók til starfa, er það, að hún hefur fullnægt þörfinni innanlands á köfnunarefnisáburði. Verðlag áburðarins hefur aldrei verið hærra en sambærilegur innfluttur áburður hefði kostað, stundum lægra, og enda þótt kornastærð áburðarins hafi ekki verið eins og bændur hafa óskað, hefur efnasamsetningin verið eins og hún átti að vera, þ.e. 33% köfnunarefni, enda kvarta bændur ekki undan því, að ekki spretti sú jörð, sem þessi áburður er borinn á. Það kvarta ekki aðrir bændur undan því en þeir, sem bera á eingöngu köfnunarefnisáburð ár eftir ár. Það hlýtur að hefna sín, því að þá fær jörðin ekki þau efni, sem hún þarf til þess að geta borið ávöxt. Þess vegna verður að bera steinefnaáburð á jörðina með. En það er einmitt þannig verksmiðja, sem okkur vantar og æskilegt er að við getum komið upp. Það er þess vegna einnig, sem sízt er ástæða til að vera að halda í einkasölu á áburði, þegar áburðarveritsmiðjan er starfandi, áburðarverksmiðjan, sem ríkið á meiri hluta í, á 3/5 hluta í, en aðrir aðilar 2/5. Og það væri vissulega rangt, ef því væri haldið fram, — reyndar hefur það verið gert, því hefur verið haldið fram, — að þetta fyrirtæki væri okurstofnun. En það var fyrst á árinu 1960, sem hluthafarnir fengu 6% vexti af skuldabréfunum. Allt frá því 1951, þegar hlutaféð var greitt, hafa þeir átt hlutaféð í verksmiðjunni vaxtalaust, fengu 6% vexti 1960. Þetta er nú sá hagnaður, sem hluthafarnir hafa fengið. Þeir hafa ekki heldur gert kröfu til þess, því að þegar þeir lögðu sitt fjármagn í þetta fyrirtæki, var það ekki í því skyni að hagnast persónulega á því, heldur til þess að hjálpa til að koma upp þjóðnýtu og góðu fyrirtæki, og það er það, sem áburðarverksmiðjan er, fyrsti vísirinn að stóriðnaði, vísir, sem hefur ekki brugðizt, heldur lofar góðu og ætti að verða til uppörvunar, til þess að prjóna við fleira af slíku tagi.

Það er gert ráð fyrir því í þessu frv., að eignum þeim, sem áburðareinkasalan á, sem munu vera um 5 millj. kr., verði varið til vísindastarfsemi í þágu landbúnaðarins, til jarðvegsrannsókna og til þess að reisa rannsóknarstofur og önnur þau húsakynni, sem slíkri starfsemi eru nauðsynleg, og með frv. er prentuð greinargerð eftir dr. Björn Jóhannesson jarðvegsfræðing. Þetta er eitt af því nauðsynlegasta fyrir landbúnaðinn, að það séu gerðar jarðvegsrannsóknir og að það geti legið ljóst fyrir, hvað þarf að bera mikinn áburð og hvaða áburðartegundir á hvern blett, sem á er borið, því að ef það er borið skakkt á völl, þá er verið að sóa verðmætum. Það er kannske borinn allt of mikill áburður á sums staðar, gæti fengizt eins mikill ávöxtur, þó að það væri borið allt að því helmingi minna, og það eru bornar skakkar áburðartegundir á hina ýmsu bletti í hinni ræktuðu jörð, vegna þess að það vantar nauðsynlegar upplýsingar. Þessum sjóði, sem safnazt hefur á rúmlega 30 árum hjá áburðareinkasölunni, verður ekki varið betur á annan hátt og mundi ávaxtast örugglega vel í þágu landbúnaðarins með þessum hætti.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða að svo stöddu meira um þetta, en legg til, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. fjhn.