24.10.1961
Neðri deild: 8. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 297 í C-deild Alþingistíðinda. (2738)

22. mál, áburðarverksmiðja

Ágúst Þorvaldsson:

Herra forseti. Þetta frv., sem hér er til umræðu, er nú gamall kunningi okkar hér í þessari hv. deild. Mig minnir, að það hafi tvisvar sinnum áður verið flutt hér. Hæstv. landbrh. sagði að vísu áðan, þegar hann mælti fyrir þessu frv., að nú hefði verið gerð nokkur breyting á, þar sem í frv. væru nú ákvæði um það, að fleiri aðilar en áburðarverksmiðjan geti komið til með að flytja inn áburð og verzla með hann. Ég var að lesa frv. og leita að ákvæðunum um þetta og finn ekki. 2. mgr. 1. gr. er svo hljóðandi:

„Þar til Áburðarverksmiðjan h/f hefur fullnægt þörfum landsmanna á tilbúnum áburði með eigin framleiðslu, getur ríkisstj. falið henni að flytja inn tilbúinn áburð, enda verði áburðurinn seldur á kostnaðarverði, sem háð er samþykki landbúnaðarráðherra:

Ríkisstj. getur falið áburðarverksmiðjunni einni að flytja inn og selja tilbúinn áburð. Og í athugasemdum um þetta segir svo um 1. gr.:

„Í samræmi við framanritað gerir 1. gr. frv. ráð fyrir, að áburðarverksmiðjan annist sjálf sölu framleiðsluvara sinna til kaupenda á kostnaðarverði, sem háð er samþykki landbrh. Í 2. mgr. er ríkisstj, síðan heimilað að fela verksmiðjunni innflutning á tilbúnum áburði. Áburður þessi skal sömuleiðis seldur á kostnaðarverði, sem háð er samþykki landbrh:

Sem sagt, ég fæ ekki annað skilið en það sé um það eitt að ræða í þessu frv. að leggja niður áburðareinkasöluna og afhenda áburðarverksmiðjunni í Gufunesi innflutning og sölu tilbúins áburðar, aðrir aðilar geti þar ekki komið til greina, og ég vil biðja hæstv. landbrh. að skýra það fyrir mér og þingheimi, hvar þau ákvæði er að finna í frv., sem gera ráð fyrir öðru.

Annars vildi ég segja um þetta mál, að mér þykir afar einkennilegt, að það skuli vera lögð svo mikil áherzla á að leggja niður þetta gamla fyrirtæki, aldarþriðjungsgamalt ríkisfyrirtæki, sem að allra dómi, sem hafa haft viðskipti við það, hefur reynzt framúrskarandi vel, verið heiðarlegt og gott til fyrirgreiðslu á allan hátt. Ég veit ekki til þess, að nokkur bóndi t.d., og það eru eingöngu bændurnir, sem skipta við þetta fyrirtæki, — hafi óskað eftir, að þetta yrði gert. Ég veit ekki heldur til þess, að samtök bændanna, hvorki Búnaðarfélag Íslands, sem er nú þeirra faglegi félagsskapur og ætti að hafa forustu í þeim málum, sem að þessu lúta, hafi nokkru sinni óskað eftir þessu, og ekki heldur Stéttarsamband bænda.

Mér er kunnugt um það, að Búnaðarfélag Íslands og þau samtök óska vitanlega eftir því, að hið opinbera reyni að koma á fót sem fullkomnustum jarðvegsrannsóknum til þess að leiðbeina bændum um notkun hins tilbúna áburðar, því að sannleikurinn er sá, að við höfum allt of lítið enn þá af slíkum rannsóknum. Ég þekki ofur lítið til um þetta, vegna þess að ég er í tölu þeirra fáu bænda á landinu, sem hafa notið slíkrar fyrirgreiðslu. Atvinnudeild háskólans hefur á undanförnum árum verið með dálítinn hóp jarða til athugunar í þessu sambandi, og ég hef verið í þeim hópi, og ég veit, hversu geysiþýðingarmikið það er, að jarðvegsraunsóknir séu stundaðar og að bændurnir geti fengið glöggar leiðbeiningar um það, hvernig þeir eigi að nota áburðinn. Þess vegna vil ég taka undir það, sem hæstv. landbrh. sagði um það mál áðan. En mér finnst, að það hljóti að verða að leysast á annan hátt en þann að leggja niður þetta gamla, góða fyrirtæki og ætla að byggja upp úr rústum þess eða reytum, sem mér skilst að séu ekki sérstaklega miklar, framkvæmdir á þessu sviði. Ég held, að framkvæmd á því sviði, ef á að tryggja fullkomnar jarðvegsrannsóknir í landinu, hljóti að vera yfirgripsmikið starf og kosta verulegt fé, sem ég að vísu vil óska að verði sem fyrst komið í framkvæmd. Það tel ég alveg nauðsynlegt.

Þegar áburðarverksmiðjan í Gufunesi var stofnuð eða frv. um hana var borið fram hér á Alþingi, mælti Vilhjálmur Þór, þáv. ráðherra, fyrir því máli, og þá sagði hann við 1. umr. um málið í Nd. Alþingis, 15. sept. 1944, eftirfarandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Það er gert ráð fyrir, að verksmiðjan verði ekki verzlunarfyrirtæki, heldur afhendi hún áburðinn til Áburðarsölu ríkisins, sem annist söluna eins og hingað til. Það kom til mála að láta verksmiðjuna sjálfa selja áburðinn, en mér finnst eðlilegast og réttast, að áburðarsalan haldi áfram að starfa, þar sem einhver aðili verður að hafa á hendi innflutning og verzlun með aðrar tegundir áburðar en þær, sem framleiddar eru í verksmiðjunni. Verksmiðjan ætti þá aðeins að framleiða og afhenda áburðinn til verzlunarinnar, eins og hún hefur áður fengið áburð sinn frá útlöndum:

Mér finnst þetta skjóta nokkuð skökku við þá hugmynd, sem nú er uppi og landbrh. hæstv. beitir sér nú fyrir um það að leggja þetta fyrirtæki niður og afhenda það til áburðarverksmiðjunnar.

Það er áður búið að minnast á það hér í þessum umræðum, hv. 3. þm. Reykv. gat um það, að um 80% af innfluttum áburði væri flutt um aðrar hafnir til bændanna en Reykjavíkurhöfn, aðeins 20% af áburðinum færu hér um Reykjavíkurhöfn og væri ekið héðan á bifreiðum til bænda. Ég get ekki séð, ef það er hugmyndin að flytja þennan tilbúna útlenda áburð inn ósekkjaðan og koma upp starfsemi til þess í Gufunesi, annað en það hljóti að verða mjög kostnaðarsamt og flutningarnir til bændanna og allt það umstang, sem þessu fylgir, hljóti að leiða af sér gífurlega aukinn kostnað, í staðinn fyrir að á undanförnum árum hafa bændur búið við miklu hagstæðari skilyrði að þessu leyti en áður, vegna þess að áburðurinn hefur komið til þeirra á næstu höfn við þá. Ég veit það t.d. af nokkurri reynslu í sambandi við það, þegar farið var að flytja hinn tilbúna áburð um Þorlákshöfn, hversu vel það hefur reynzt okkur bændum á Suðurlandi að fá hann fluttan þar upp og hversu mikið hagræði það hefur verið okkur.

Nú vildi ég leyfa mér að beina þeirri fsp. til hæstv. landbrh., hvort það sé gert ráð fyrir því að flytja áburðinn inn ósekkjaðan og sekkja hann og dreifa honum frá Gufunesverksmiðjunni og hvað það muni kosta að reisa byggingar þar, sem til þess þarf, kaupa vélar og bæta þau löndunarskilyrði, sem þar eru fyrir hendi, til þess að hægt sé að framkvæma þetta verk. Ég vil biðja hann um að skýra frá því, hvað er áætlað að þetta muni kosta. Þetta er það, sem mér liggur fyrst og fremst á hjarta að vita nú í sambandi við þetta, og enn fremur: ég tæki því með fegins hendi að fá einnig að heyra það, ef óskir hafa einhvers staðar komið frá bændum í landinu, fá að heyra, hverjir það eru eða hvaðan þær óskir hafa komið um að gera þessa breytingu, sem fyrirhuguð er: