31.10.1961
Neðri deild: 10. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 317 í C-deild Alþingistíðinda. (2744)

22. mál, áburðarverksmiðja

Þórarinn Þórarinsasn:

Herra forseti. Ég vildi fyrst beina þeirri spurningu til hæstv. landbrh., hvort hann sé ekki að leika hér skrípaleik með Alþ.? Á tveimur undanförnum þingum hefur legið fyrir frv. frá hæstv. ráðh. um það að leggja áburðarsölu ríkisins niður. Nú flytur hann þetta frv. í þriðja sinn, og það er nú til 1. umr. í fyrri deildinni. En ég hef fengið þær fréttir, og ég hygg, að þær séu réttar, að á sama tíma og þetta mál er hér til 1. umr. í fyrri d., þ.e. frv. um að leggja áburðarsölu ríkisins niður, þá hafi hæstv. ráðh. með bréfi, sem hann ritaði áburðarverksmiðju ríkisins í gær, tekið ákvörðun um það, að áburðarsalan sé lögð niður sem sérstakt fyrirtæki og áburðarverksmiðju ríkisins hafi verið falið verksvið hennar. Ef þessar fréttir eru réttar, sem ég hef ástæðu til að halda, þá finnst mér, að hæstv. ráðh. leiki hér alveg furðulegan skrípaleik með Alþ. Hann tekur ákvörðun, sem hann bæði nú og tvívegis áður hefur borið undir Alþ. og ekki fengið þar jákvæðar undirtektir, — hann gerir sér lítið fyrir og tekur ákvörðunina upp á eigin eindæmi, áður en hann er búinn að fá nokkra vitneskju um það, hvaða viðhorf Alþingi hefur til málsins, aðra en þá, sem hefur komið fram á tveimur undanförnum þingum, að frv. hans um þetta efni hefur dagað uppi. Mér finnst, að það hefði verið óhjákvæmilegt fyrir ráðh., fyrst hann lagði þetta mál fyrir Alþ. á annað borð og taldi nauðsynlegt, að Alþ. fjallaði um það, að bíða eftir ákvörðun þess um þetta efni, en ekki taka þá ákvörðun einhliða með stjórnarúrskurði, að þetta skyldi gert, sem hann þykist hér vera að bera undir Alþingi.

Þeim mun fráleitara finnst mér þetta líka vera hjá hæstv. ráðh. vegna þess, að í þeim umr., sem hér hafa farið fram á Alþ., hefur hann engin rök fyrir því, að þessi ráðstöfun sé eðlileg og hana beri að gera. Ef slík ráðstöfun eins og þessi væri eðlileg, þá þyrfti a.m.k. tvennt að liggja fyrir. Það þyrfti að liggja fyrir í fyrsta lagi, að það væri einhver ósk frá þeim aðilum, sem mest varða þessi mál, um þá breytingu, sem hér er ráðgerð, og þar á ég við bændastéttina. Það hafa komið fyrirspurnir um það til hæstv. ráðh. hér í umr., hvort nokkrar slíkar óskir hafi komið fram. Og hæstv. ráðh. hefur ekki bent á eina einustu ósk um þetta efni. Hann hefur ekki getað nefnt einn einasta bónda, sem óskaði eftir þessu, ekki einn einasta fund, þar sem bændur hafi verið saman komnir, sem óskuðu eftir þessu, ekki einn einasta félagsskap, sem bændur eru riðnir við, sem óski eftir þessari breytingu. Það liggur þess vegna eins ljóst fyrir og verða má, að sú breyting, sem lagt er til að gera í þessu frv. og hæstv. ráðh. mun nú vera búinn að gera, er ekki gerð eftir óskum frá bændastéttinni, sem mest á þó undir því, að þessi mál séu sæmilega af hendi leyst. Hæstv. ráðh. hefur ekki getað bent á neina slíka ósk.

Annað, sem mætti nota til réttlætingar fyrir umræddri breytingu, væri það, að það væri hægt að sýna fram á, að hér væri raunverulega um sparnað að ræða fyrir þá, sem þessarar þjónustu eiga að njóta, bændurna. Hæstv. ráðh. hefur ekki fært nein rök að því, að þessi ráðstöfun verði líkleg til þess að hafa sparnað í för með sér. Það liggur fyrir í reikningum áburðarsölu ríkisins, að allur rekstrarkostnaður hennar á seinasta ári var 340 þús. kr. Ég hygg, að það sé ekki hægt að búast við því, að þessi kostnaður geti orðið lægri en hann hefur verið á seinasta ári undir stjórn áburðarsölu ríkisins, og þó að nýtt fyrirtæki taki þetta að sér, muni sá kostnaður alls ekki geta orðið lægri, enda hefur sjálfur ráðh. viðurkennt það í umr., að áburðarsala ríkisins hafi verið og sé mjög vel og hagsýnilega rekið fyrirtæki, og ekki fært nein rök að því, að það mundi geta leitt einhvern sparnað af þessari ráðstöfun frá því, sem nú er. Og þar með er þessi önnur aðalröksemd, sem gæti legið að þessu frv., fallin um sjálfa sig.

Ég hef hins vegar haft fréttir af því, að áburðarverksmiðjan hafi sótt þetta mál af slíku ofurkappi eða sá meiri hluti, sem ræður þar, að hann hafi boðizt til þess að selja erlenda áburðinn eitthvað lægra verði, ef hann fengi söluna í sínar hendur. En ef svo er, að áburðarverksmiðjan ætlar að selja erlenda áburðinn eitthvað lægra verði en áður hefur átt sér stað, þá getur það ekki stafað af því, að rekstrarkostnaður við sjálfa söluna á erlenda áburðinum verði lækkaður, heldur að það verði lagt þeim mun meira á þann áburð, sem verksmiðjan sjálf framleiði., á meðan er verið að koma því í kring, að áburðarverksmiðjan taki að sér söluna á erlenda áburðinum.

Það hefur í blaðagrein, sem sá maður, sem er fróðastur um þessi mál og bezt þekkir til, hefur nýlega skrifað, verið sýnt fram á það, að þær ráðstafanir, sem áburðarverksmiðjan hefur uppi í sambandi við þessi mál, muni verða til þess að gera erlenda áburðinn dýrari og verða til þess, að þjónustan við bændur verði að öllum líkindum lakari en hún hefur áður verið. Sá maður, sem ég á hér við, er dr. Björn Jóhannesson, sem hefur fylgzt betur með þessum málum og hefur meiri þekkingu á þessum málum en nokkur annar hérlendur maður. Þær fyrirætlanir, sem áburðarverksmiðjan virðist hafa með höndum, eru í stuttu máli þær að flytja áburðinn inn ósekkjaðan hingað til lands og sekkja hann svo hér í því húsnæði, sem hún kynni að koma upp í Gufunesi. En mér skilst, að þetta eitt, að gera þessa breytingu, að flytja áburðinn inn ósekkjaðan, það sé líklegt til að hafa strax í för með sér stofnkostnað upp á 10–12 millj. kr. Ef á að fara að flytja áburðinn þannig inn ósekkjaðan, þá þarf bæði að stækka bryggjur og styrkja bryggjur í Gufunesi, þá þarf að koma þan upp sérstöllum uppskipunartækjum, þá þarf að koma þar upp sérstakri bryggju fyrir umsekkjunina og til geymslu á erlenda áburðinum, og þá þarf að kaupa sérstök sekkjunartæki. Og mér hefur skilizt það á kunnugum mönnum, að þegar búið sé að koma þessu öllu saman upp, verði hér um stofnkostnað að ræða, sem komi til með að skipta millj. kr. eða jafnvel kosta 10–12 millj. kr. Hér er lagt í stofnkostnað, sem er algerlega óþarfur, ef það fyrirkomulag væri haft á áburðarkaupunum, sem nú er haft, þ.e. að flytja áburðinn inn sekkjaðan. Annað kemur svo til greina í þessu sambandi, að nú er sú skipan komin á, að áburðurinn er fluttur beint frá útlöndum til hafna úti um land, þar sem bændur taka á móti honum. Ef aftur á móti áburðurinn er fluttur inn ósekkjaður til Gufuness, þá þarf að skipa honum þar upp og skipa honum út aftur, og þar kemur til sögunnar nýr, dýr umskipunarkostnaður, sem hlýtur að hafa það í för með sér, að áburðurinn verður dýrari en ella, auk þess sem það er ekki eins tryggt, að hann geti komið til bænda í tæka tíð til hafna úti um landið, eins og verið hefur að undanförnu, þegar hann hefur verið fluttur beint sekkjaður frá útlöndum. Og t.d. hygg ég, að bændur á Suðurlandi muni telja það betur farið, að áburðurinn verði fluttur beint frá útlöndum til Þorlákshafnar, eins og átt hefur sér stað á undanförnum árum, heldur en að hann sé fluttur hingað til Gufuness og þeir þurfi að sækja hann þess vegna mun lengri leið en áður, en það hlýtur að sjálfsögðu að hafa aukinn flutningskostnað í för með sér fyrir þá.

Ég held þess vegna, að það liggi nokkurn veginn ljóst fyrir, að þær breyt., sem hér eru ráðgerðar af hæstv. ráðh. og meiri hluta stjórnar áburðarverksmiðjunnar, verði til þess að gera áburðinn dýrari en nú er, þó að áburðarverksmiðjan, meðan hún er að ná þessum innflutningi undir síg, þykist geta selt hann eitthvað ódýrari en gert hafi verið að undanförnu. Það fyrirkomulag, sem á að taka upp, er þannig vaxið, að það hlýtur óhjákvæmilega að hafa meiri kostnað í för með sér en það fyrirkomulag, sem áður hefur verið á þessum málum.

Það mætti halda áfram að rekja þetta lengra, en þess gerist ekki þörf. Það, sem ég hef bent hér á, nægir til að sýna það tvennt, sem er meginatriði í þessu máli. Í fyrsta lagi það, að enginn bóndi, enginn þeirra, sem eiga hagsmuni sína undir þessari verzlun, hefur óskað eftir þessari breytingu, og að það er óhjákvæmilegt, að sú breyting, sem hér er fyrirhuguð, hlýtur að leiða til aukins kostnaðar, en ekki til sparnaðar.

Og ég verð að segja það að síðustu, að þá er í raun og veru ekki verið annað að gera en að leika hér hreinan skrípaleik með Alþingi. Eftir að slíkt mál eins og þetta er tvívegis búið að daga hér uppi og eftir að það er komið lengra að þessu sinni í hv. Alþingi en til 1. umr. í fyrri deildinni, þá rýkur hæstv. landbrh. til og notar hæpin lagaákvæði til að taka það völd í sínar hendur að gera þá breyt., sem þetta frv. fjallar um, áður en hann fær nokkuð að vita um endanlegan vilja Alþingis í málinu. Til hvers var hæstv. ráðh. þá að leggja þetta mál fyrir Alþingi, ef hann taldi sig hafa vald til að gera það og þyrfti ekki að spyrja Alþingi neitt um það? Hvað kemur honum til að gera það? Það stafar að sjálfsögðu einfaldlega af því, að ráðh. er alls ekki viss um, að hann hafi þetta vald í sínum höndum, og telur þess vegna eðlilegra, að þingið fái að skera úr um það. Eftir að hann sennilega kemst svo að raun um, að það sé vafasamt, hvort hann muni koma málinu fram á Alþingi, þá rýkur hann í það að taka þessa ákvörðun, sem er í raun og veru ekkert annað en hreinn skrípaleikur með Alþingi og sýnir viðhorf núv. ríkisstj. til Alþingis, hvernig hún sniðgengur það á allan hátt, þar sem hún telur sér það mögulega fært, og gerir hað á jafnhæpinn hátt og hæstv. landbrh. hefur gert nú að þessu sinni. Og menn hljóta að spyrja: Ef ráðherrar leyfa sér að gera slíka hluti eins og þessa, að bera mál undir Afþingi og afgreiða það svo, taka ákvarðanir um það, áður en þingið er búið um það að fjalla, — hvað kann sú ríkisstj. ekki að leyfa sér að gera í áframhaldi af þessu?

Ég held þess vegna, að það væru eðlileg viðbrögð Alþingis í tilefni af því, sem hæstv. ráðh. hefur nú gert, að fella þetta frv. og jafnframt að ógilda þá ráðstöfun, sem hann hefur gert, –ráðstöfun, sem tvímælalaust er í andstöðu við þá stétt, sem mestra hagsmuna á að gæta í þessu sambandi, og verður henni líka fyrirsjáanlega til aukins kostnaðar og óþæginda. Ég held, að hæstv. ráðh. hafi með aðgerð sinni teflt þessu máli þannig, að Alþingi eigi ekki neinn annan kost, ef það ætlar að gæta ekki aðeins réttar bændanna, heldur sóma sjálfs sín í þessum málum og gefa ekki ófyrirleitnum ráðh. fordæmi til þess að troða á rétti Alþingis.