02.11.1961
Neðri deild: 11. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 339 í C-deild Alþingistíðinda. (2751)

22. mál, áburðarverksmiðja

Lúðvík Jósefsson:

Háttv. forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir, felur í sér tvær meginbreytingar. Hin fyrri er sú að heimila aðrar afskriftarreglur hjá áburðarverksmiðju ríkisins en raunverulega hafa verið bundnar í lögum, og hin er sú að leggja niður áburðarverzlun ríkisins. Þær umr., sem hér hafa farið fram um þetta frv., hafa miklu meir snúizt um síðara atriðið, um þá ákvörðun, sem felst í frv. um að leggja niður áburðareinkasöluna. En þessi tvö atriði, sem frv. raunverulega fjallar um, eru alleinkennileg að því leyti til. að bæði eru þau þannig, að hæstv, ríkisstj. eða hæstv. landbrh. heldur því fram, að þessi atriði séu bæði bundin í lögum á þann hátt, sem hann er nú að leggja til í þessu sérstaka frv. Hann viðurkennir, að þær afskriftareglur hafi verið notaðar hjá verksmiðjunni, og hann segir, að það styðjist við lög, sem lagt er nú til að binda ákveðið með þessu lagafrv. Hann játar, að þessar afskriftareglur hafi verið viðhafðar árin 1959 og 1960, og eflaust er ætlunin að nota þær áfram 1961. Um hitt atriðið, um það að leggja niður áburðareinkasöluna, segir hann, að það sé greinilega til heimild í l. um áburðareinkasölu til þess að leggja niður þá stofnun. Maður verður að játa, að það er alveg furðulegt að flytja og það æ ofan í æ frv. á Alþingi um efni, sem jafnframt er fullyrt að séu til skýr lagaákvæði um, og um efni, sem farið er að framkvæma, áður en til kasta Alþ. kemur að taka afstöðu til þess frv., sem lagt er fyrir Alþingi. Það er í rauninni alveg furðulegt, að hæstv. landbrh. skuli svo halda því fram hér á eftir, að þetta séu ekki ávenjuleg vinnubrögð. Mig langar til að víkja að þessum tveimur efnisatriðum frv. nokkrum orðum sérstaklega.

Hið fyrra er um afskriftareglurnar. Hæstv. landbrh. vill halda því hér fram, að áburðarverksmiðjan hafi leyfi til þess samkv. gildandi lögum að afskrifa á reikningum sínum þannig, að hún miði við endurkaupsverð á eignum sínum á því verðlagi, sem gildir á hverjum tíma. En í l. stendur alveg greinilega, hvernig haga skuli bessum fyrningarafskriftum. Þar stendur, að til fyrningarsjóða skuli greiða 21/2% af kostnaðarverði húsa, lóðar og annarra mannvirkja og 71/2 % af kostnaðarverði véla og annarra áhalda. Liggur nú einhver vafi á því, hvernig löggjafinn hefur skilið þessi orð fram til þessa, hvað er kostnaðarverð á húsum, sem fyrningarafskriftir skutu miðaðar við, og hvað er kostnaðarverð á vélum, sem fyrningarafskriftir skulu miðaðar við? Þetta orðalag er ekkert einstakt fyrir áburðarverksmiðjuna. Þetta er sama orðalagið og gildir um öll önnur fyrirtæki í landinu í sambandi við þeirra afskriftir. En afskriftir eru í lögum nokkuð misjafnlega háar. En þetta orðalag að tilnefna tiltekinn hundraðshluta sem fyrningarafskrift af kostnaðarverði mannvirkja, af kostnaðarverði véla, þetta er bundið í lögum og þetta er búið að framkvæma árum saman gagnvart öðrum aðilum í þjóðfélaginu. Og þetta kostnaðarverð, sem lagt er til grundvallar og hefur verið lagt til grundvallar, er sá stofnkostnaður, sem var á þessum eignum, þegar lagt var í stofnkostnaðinn á sínum tíma, þegar húseignirnar voru byggðar, þegar vélarnar voru keyptar. Við þetta hafa allir þurft að binda sig samkv. framkvæmd skattalaga. En nú bregður svo einkennilega við, að einn aðili, sem er líka alveg greinilega bundinn af þessu orðalagi með lögum, skutlar sér út úr þessu og segist ekki vera bundinn af þessum skilningi þessara hugtaka. Og eina smugan, sem menn eru að reyna að fara hér í gegnum, er sú, að á öðrum stað í þessum lögum er sagt, að verðlag á áburði skuli miða við kostnaðarverð á framleiðslu vörunnar, þegar nauðsynlegar og lögákveðnar fyrningarafskriftir hafa farið fram. En í sérstakri grein, sem fjallar um fyrningarafskriftir, er búið að segja nákvæmlega, hvernig þetta skuli fara fram. Og þá er að nota þetta ákvæði. Jú, þarna stendur orðið „nauðsynlegt“, og það er nauðsynlegt að afskrifa enn þá meira, og í krafti þess afskrifum við eins og okkur sýnist, eins og við teljum að það muni kosta að byggja upp þetta mannvirki aftur. Hér er auðvitað alveg ljóslega verið að brjóta gildandi lagafyrirmæli, og á þennan hátt hefur áburðarverksmiðjan tekið sér vald til þess að telja í sínum árlega kostnaði miklu hærri fyrningarafskriftir en hún hefur raunverulega haft heimild til frá löggjafans hálfu, og á þennan hátt hefur hún gert áburð í landinu dýrari en hún hafði leyfi til samkv. lögum. Að þessu er búið að finna. Hæstv. ráðh. hefur reynt hér áður að sýna brtt. í þessum efnum og ekki fengið sínu máli framgengt á Alþ., en samt skulu lögin vera brotin í framkvæmd ár eftir ár. Það er í rauninni harkalegt, að þetta skuli geta átt sér stað, og vaknar þá vitanlega sú spurning: Hvernig stendur á því, að aðrir aðilar í landinu mega ekki fara eftir sömu aðferðum í þessum einum? Hvernig stendur á því, að þeir mega þá ekki breyta sínum afskriftum líka, fyrst þessi eini getur það?

En þegar þetta atriði þessa frv. er athugað, kemur auðvitað upp í hugum manna, að menn hafi ekki verið á eitt sáttir um það, hver raunverulega ætti þetta mikla mannvirki. Það er að vísu ljóst, að það stendur í lögum áburðarverksmiðjunnar, að hún sé sjálfseignarstofnun, og það hefur alltaf verið litið svo á, að slík stofnun, sem stofnuð er samkv. lögum frá Alþingi og samkv. forgöngu ríkissjóðs og er ákveðin sem sjálfseignarstofnun í lögum, sé raunverulega eign ríkisins. En nú vill svo til, að í þessum sömu lögum um áburðarverksmiðjuna er að finna grein, sem segir, að hlutafélag skuli annast rekstur verksmiðjunnar, og hlutafélag var þar með samkv. ákvæðum laganna stofnað um rekstur verksmiðjunnar. Einstaklingar áttu þar kost á því að kaupa hluti upp á 4 millj. kr. og ríkið á móti upp á 6 millj. kr., og þar með var það 10 millj. kr. hlutafé, sem var stofnféð í sambandi við rekstur þessa mannvirkis. En mannvirkið kostaði á sinum tíma 135 millj. kr., að talið er. Ríkið útvegaði auðvitað allt féð nema þessar 4 millj. En svo eru menn farnir að leggja þann skilning í þetta sumir hverjir að segja: Raunverulega er það þetta hlutafélag, sem á fyrirtækið, á áburðarverksmiðjuna. Hluthafarnir, sem þarna eiga 4 millj. af 10, 4/10 hluta af þessu hlutafé, eru að kasta eign sinni á 4/10 hluta af þessu mikla mannvirki. Eftir tiltölulega stuttan tíma eiga þessir hluthafar óumdeilanlega samkvæmt þessari skýringu áburðarverksmiðjuna að 4/10 hlutum, því að svo er gert ráð fyrir í lögum um verksmiðjuna, að hún kemur til með að eignast sjálfa sig að fullu og öllu eftir vissan tíma. Nú er talið, að áburðarverlamiðjan muni kosta fullar 300 millj. kr. Þessir 4/10 hlutar mundu því eiga verðmæti í þessari verksmiðju, miðað við núverandi verðlag, upp á 120 millj. kr. Þær hafa rentað sig heldur vel þessar 4 millj., sem menn lögðu fram sem hreint gervifé á sínum tíma, ef þeir ættu að eignast 120 millj. kr. af verðmæti þessarar verksmiðju á þennan sérstaka hátt.

Þegar menn vita, að það er uppi nokkur ágreiningur um skilning á þessum efnum, á eignarafstöðunni til þessarar verksmiðju, þá er skiljanlegt, að menn vilji líka ganga nokkuð fastar eftir því, hvernig þessi verksmiðja er rekin í sambandi við gróðasöfnun hennar.

Það er auðvitað alveg gefið mál, að ef stjórn verksmiðjunnar heppnast að fá að brjóta lögin um fyrningarafskriftir hjá þessari verksmiðju, þá eignast samkvæmt þessum skilningi þetta hlutafélag verksmiðjuna á nýju endurkaupsverði á miklu styttri tíma.

Ég tel, að það sé enginn vafi á því, að það er ríkið, sem raunverulega á þessa verksmiðju. Hlutafélagið hefur aldrei verið nema um reksturinn. Og það á vitanlega að taka af öll tvímæli í þessum efnum, og það ber hv. Alþingi skylda til að gera, fyrst uppi eru skoðanir nm það og fullyrðingar um það, að þetta hlutafélag eigi verksmiðjuna.

Ég kem svo að hinu meginatriðinu í þessu frv., sem er um það að leggja niður áburðareinkasölu ríkisins. Það vill svo einkennilega til, að stjórn áburðarverksmiðjunnar virðist leggja á það eitthvert ofurkapp, að áburðareinkasala ríkisins verði lögð niður og að áburðarverksmiðjan fái í sínar hendur alla verzlun með áburð í landinu. M.ö.o.: Þeir aðilar, sem alveg sannanlega hafa haldið hér uppi hærra áburðarverði í landinu en þeim var heimilt samkvæmt lögum, þeir aðilar, sem brotið hafa alveg skýlaus ákvæði laga um fyrningarafskriftir og þar með ákvörðun um kostnaðarverð á áburði, hafa haldið áburðinum of dýrum, þeir vilja fá einir allra aðstöðu til þess að verzla með áburð í þessu landi.

Það er ósköp skiljanlegt, að þeim sé að sumu leyti illa við það, að áburðareinkasalan sé til við hliðina á þeim og fáist nokkuð við þessi mál. Þeir, sem hafa sannanlega haldið uppi of háu áburðarverði, tala svo djarft um það núna, að þeir ætli að lækka áburðarverðið, og hæstv. landbrh. reynir að afsaka gerðir sínar í þessum efnum, að hann hafi bréf upp á það frá þessari stjórn áburðarverksmiðjunnar, að hún ætli að lækka hvert tonn af innfluttum áburði um 100 kr. Það hafa svo sem heyrzt svona rök áður. Ég minnist þess t.d., að það var djarft um það talað hér fyrir nokkrum árum, m.a. af stuðningsmönnum hæstv. landbrh., að það væri t.d. hægt að lækka fargjöld hér í landinu, ef við legðum niður Skipaútgerð ríkisins og afhentum t.d. Eimskipafélaginu allan þann rekstur. Það væri svo sem í beinu framhaldi af þessu að nota slík rök síðar meir, að segja: Nú höfum við fengið bréf frá Eimskipafélaginu, sem lofar því að lækka flutningsgjöld nokkuð, og út á það leggjum við niður Skipaútgerð ríkisins og alla þá þjónustu, sem hún hefur haft með að gera. — En á meðan Eimskipafélagið þurfti að keppa við Skipaútgerð ríkisins, sýndi það sig ekki að því að vera lægra í verðlagningu. Og án efa, meðan áburðarverksmiðjan fékkst beint við áburðarsölu, þá sýndi hún sig ekki að því að halda verðinu svo langt niðri sem henni bar þó raunverulega skylda til.

Það eru auðvitað gerviástæður að leggja fram einhver bréf, sem eiga að sýna, að verð sé lækkað í bili. Það trúir enginn á þá verðlækkun hjá þeim aðila, sem hefur sýnt sig að því að halda uppi of háu verði, jafnvel þó að hann kunni að gera það í bili.

Hæstv. landbrh. segir í þessum umræðum, að hann hafi heimild til þess samkvæmt 4. gr. laganna um áburðarverzlun ríkisins að leggja þá verzlun niður og fela öðrum aðila þessa starfsemi. Það má vel vera, að í þeim lögum séu ákvæði, sem heimila ráðh. að leggja niður áburðareinkasöluna og fela öðrum aðila þau störf, sem hún hefur haft með höndum. En finnst hæstv. landbrh. það eðlilegur gangur mála að flytja fyrst frv. á Alþingi um það að leggja niður áburðareinkasöluna, og láta Alþingi hafa það mál til meðferðar, en á meðan málið liggur fyrir Alþingi, þá tekur hann ákvörðun samkvæmt þessari lagagrein og leggur niður stofnunina eða alla starfsemi hennar? Finnst honum þetta vera eðlileg vinnubrögð? Er þetta ekki óvirðing við Alþingi? Auðvitað var það eðlilegt, að Alþingi fengi að segja sitt orð um það, hvort Alþingi vill leggja niður þessa stofnun eða ekki. Það var það eðlilega. Það ætlaði hæstv. ráðherra sér að gera í upphafi, en hann mátti ekki vera að því að bíða eftir því. Honum fannst undirtektir Alþingis vera það daufar við hans mál. Og hæstv, ráðherra segist hafa haft heimild til þess að fela áburðarverksmiðjunni þessa starfsemi. Ég fyrir mitt leyti dreg í efa, að hann hafi nokkurs staðar í lögum heimild til þess að fela áburðarverksmiðjunni að hafa með höndum þessa sölu á áburði. Það er alveg þvert á móti í 8. gr. laganna um áburðarverksmiðju, þar er beinlínis tekið fram á þessa leið:

„Áburðarsala ríkisins kaupir af verksmiðjunni áburð til notkunar innanlands fyrir kostnaðarverð:

Það er beinlínis gert ráð fyrir því í lögunum um áburðarverksmiðju ríkisins, að hún annist ekki sjálf söluna á sinni framleiðslu til innlendra kaupenda, heldur er gert ráð fyrir því í lögunum, að það sé Áburðarsala ríkisins, sem á að kaupa af áburðarverksmiðjunni framleiðsluna fyrir innanlandsmarkaðinn. Ég hef hvergi fundið í lögunum um áburðarverksmiðju heimild til þess, að hún annist þessa verzlun. Og ég vil nú spyrja hæstv. landbrh.: Á hvaða ákvæðum í lögunum um áburðarverksmiðju byggir hann þá framkvæmd sína að fela henni þennan rekstur? Í lögunum um áburðarverksmiðju er auðvitað starfssvið verksmiðjunnar markað, hvað hún á að gera. Hvar er það að finna í þeim lögum, að ætlazt sé til þess, að hún geti rekið svona starfsemi? Eins og ég hef bent á, þá er þvert á móti í þeim lögum að finna ákvæði um það, að til þess sé ekki ætlazt, að hún annist þessa starfsemi, heldur að áburðareinkasala ríkisins hafi þetta með höndum.

Ég tel því, að bæði þessi ákvæði, sem er að finna hér í þessu lagafrv. til breytinga frá gildandi lögum, hið fyrra um að breyta fyrningarafskriftum áburðarverksmiðjunnar og hið síðara um það að leggja niður áburðareinkasöluna, ég álít, að bæði þessi atriði séu þess eðlis, að það eigi ekki að samþykkja þau á þann hátt, sem þau koma hér fyrir í þessu frv. Það á ekki að breyta þeim fyrningarafskriftum, sem bundnar eru í lögum hjá áburðarverksmiðjunni, og það er engin ástæða til þess að leggja áburðareinkasölu ríkisins niður. Það hefur þvert á móti komið skýrt fram hér í þessum umræðum, að áburðareinkasalan hefur verið vel rekin og að engin samtök bænda hafa óskað eftir því sérstaklega að leggja þá stofnun niður. Þá stofnun, sem er vel rekin og virðist vera fullkomlega í sátt við þá aðila, sem hún á að skipta við, virðist ekki vera ástæða til að leggja niður, — og allra sízt á þann hátt, sem nú er gert, með því fyrst að sýna Alþingi tillögur um málið, en bíða ekki eftir úrslitum á Alþingi um málið, heldur leggja hana niður með sérstöku bréfi.

Það er heldur hvimleitt að verða var við það hjá núv. hæstv. ríkisstj., hvað hún virðist hafa mikla trú á því að stjórna hér með beinum tilskipunum og bréfum. Hún gefur út bréf um, að það megi brjóta lög í sambandi við fyrningarafskriftir. Hún gefur út bréf um, að það eigi að leggja niður tiltekna stofnun, sem Alþingi er að fjalla um, hvort skuli starfa áfram eða ekki. Og hún gefur út í sífellu bráðabirgðalög út af öllu, jafnvel þeim málum, sem hún hefur ekki kynnt sér, hvernig raunverulega standa, eins og hér hefur verið upplýst í umræðum nú á þessum vetri. Þetta er hvimleitt. Hið eðlilega er auðvitað það, að Alþingi fái að afgreiða slík mál sem þessi eftir réttum þingreglum, þegar tími líka gefst til þess.

Hæstv. landbrh. sagði hér í umræðunum, að verð á áburði frá áburðarverksmiðjunni væri bundið samkvæmt lögum sem kostnaðarverð, og vildi þar með láta líta svo út, að um þetta verð gæti ekki verið neinn ágreiningur. En eins og ég hef vikið hér að áður, ef stjórn verksmiðjunnar hefur samkvæmt þessum orðum: „nauðsynlegum og löglegum afskriftum,“ heimild til þess að breyta þeim fyrningarafskriftum, sem annars eru festar í lögum, þykir mönnum þá ekki þetta kostnaðarverð vera nokkuð hlaupandi, að í rauninni geti stjórn verksmiðjunnar ákveðið það svo að segja hvað sem henni sýnist? Og er hepplegt, að stjórn verksmiðjunnar, sem þannig hefur framkvæmt þetta og þannig litur á þessi mál, fái einræðisvald í sambandi við verðlagningu á áburði? Er það heppilegt? Getur það verið til hagsmuna fyrir bændur landsins, sem eiga að kaupa áburð, að fela slíkri stjórn, sem þannig hefur haldið á málunum, í rauninni eftirlitslitið vald á því, hvernig áburðurinn er verðlagður í landinu, sá innflutti líka?

Ég álít fyrir mitt leyti, að það eigi að vísu að afgreiða það frv., sem hér liggur fyrir, en það eigi að fella það, því að bæði ákvæðin, sem það fjallar um, eru þess eðlis, að samþykkt frv. mundi ekki verða þeim til góða, sem fyrst og fremst þurfa að kaupa áburð í þessu landi.

Að lokum vil ég svo spyrja hæstv. ráðherra að því, í tilefni að því, sem nú hefur hér komið fram: Er það ekki ætlun hans og ríkisstj., að þetta mál, sem hér liggur fyrir, fái hér endanlega þinglega afgreiðslu, þrátt fyrir það þó að hann hafi nú tekið upp að framkvæma þau mál, sem frv. fjallar um, á þann hátt, sem honum þykir henta? Er það ekki ætlunin, að málið fái hér þinglega afgreiðslu og síðan verði þá farið eftir því, sem Alþingi ákveður í þessum efnum? Eða á bara að leika sér hér að umræðum um málið og svo fari ríkisstj. sinu fram, hvað svo sem Alþingi segir? Og ef ríkisstj. fellst á það, að hér skuli afgreiða þetta mál, getur hún þá ekki fallizt á það að biða með framkvæmd á t.d. niðurlagningu á áburðareinkasölunni, þar til Alþingi hefur við afgreiðslu þessa máls sagt álit sitt um, hvort meiri hl. er hér á Alþingi fyrir því að leggja þessa stofnun niður eða ekki? Getur ekki ríkisstj. fallizt á að bíða með þá framkvæmd, þar til Alþingi hefur afgreitt þetta mál hér að fullu í þinginu? Ég vænti, að hæstv. landbrh. vilji m.a. svara þessum spurningum mínum.