02.11.1961
Neðri deild: 11. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 345 í C-deild Alþingistíðinda. (2753)

22. mál, áburðarverksmiðja

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umræður, enda hef ég ekki nema stuttan athugasemdartíma, og ég þarf ekki heldur að víkja nema að örfáum atriðum í ræðu hæstv. landbrh.

Hæstv. landbrh. sagði, að ég hefði verið að leggja til, að sett yrði á laggirnar ný nefnd til að ákveða áburðarverðið. Það má vel vera, að það sé hægt að leysa þetta mál án þess, að ný nefnd sé sett á laggirnar til þess að taka þessa ákvörðun, og sennilega er það rétt, eins og ég skal víkja að. En ég álít, að það sé með öllu óforsvaranlegt að láta aðila, sem hefur einokunaraðstöðu, ráða því, hvaða verð er á vöru hans og þjónustu, og því fremur álít ég það vera með öllu óforsvaranlegt, þar sem Sjálfstfl. viðheldur í dag stórkostlegum verðlagshöftum gagnvart flestum einkafyrirtækjum í landinu, sem heyja þó samkeppni sín á milli um vöruverðið. Hvers vegna er þá ekki miklu frekar ástæða til þess, að sé haft verðlagseftirlit með aðila, sem hefur einokunaraðstöðu?

Ég tel, að sá aðili. sem ætti að fara með þetta vald í sambandi við áburðinn, sé fyrir hendi. Það er núna hlutverk 6 manna nefndarinnar svokölluðu að meta dreifingarkostnað hjá þeim fyrirtækjum, sem fara með verzlun á landbúnaðarvörum. Hvers vegna gæti þessi nefnd ekki alveg eins metið framleiðslu- og dreifingarkostnaðinn hjá áburðarverksmiðju ríkisins? Ég held, að það væri alveg upplagt mál að hafa það þannig. En ég trúi því ekki, fyrr en ég tek á, að Sjálfstfl. sé á móti því, að haft sé verðlagseftirlit með fyrirtæki, sem hefur einokunaraðstöðu, en vill hins vegar halda í stórkostleg verðlagshöft gagnvart einkafyrirtækjum, sem heyja þó samkeppni um vöruverð og þjónustu. Þar væri vissulega miklu minni ástæða til þess að hafa verðlagshöft en þó í hinu tilfellinu.

Hæstv. ráðherra gerði nú talsvert meira úr þekkingu minni á þessum málum en áður, því að hann taldi, að við mundum vera nokkurn veginn jafnsnjallir og værum þess vegna færir um að reikna þessi mál út, ef við legðum saman. En hann vildi hins vegar ekki taka neitt aftur af því, sem hann hafði sagt um þekkingu dr. Björns Jóhannessonar, en það verð ég að telja mjög miður farið, vegna þess að ég er sannfærður um, að þó að ráðherrann léti þessi orð falla um Björn, sem hann hefur látið hér falla, þá veit hann ósköp vel, að það er enginn maður hér á landi, sem veit meira, ekki aðeins um áburðarnotkun, heldur um áburðarverzlun, en einmitt þessi maður, enda reyndi hæstv. ráðherra ekki hið minnsta til þess að hnekkja þeim ummælum, sem dr. Björn hefur látið frá sér fara um þessi mál. Þrátt fyrir sleggjudóma hæstv. ráðh. stendur það jafnt óhrakið, sem dr. Björn Jóhannesson hefur um þessi mál sagt, og þarf ég þess vegna ekki að fara frekar út í það.

Ég kem þá að því atriði hjá hæstv. ráðherra, þar sem hann var að afsaka það, að hann hefði ekki framið lögbrot með þeirri ákvörðun að fela áburðarverksmiðjunni að annast áburðarsöluna. Þessu til sönnunar vitnaði hæstv. ráðherra í lögin um áburðarsöluna. Það er rétt. Samkvæmt þeim lögum hefur landbrh. heimild til þess að fela verzlunarfyrirtækjum meðferð og sölu á erlendum áburði. En hæstv. ráðherra gleymdi að minnast á önnur lög og það þau lög, sem meginmáli skipta. Hann gleymdi að minnast á lögin um áburðarverksmiðju ríkisins. Í þeim lögum er skýrt tekið fram, að áburðarverksmiðjan skuli láta áburðarsöluna annast verzlun með framleiðsluvörur sínar, sem þýðir ekkert annað frá hendi löggjafans en það, að áburðarverksmiðjan á að starfa hreinlega sem framleiðslufyrirtæki, en ekki sem verzlunarfyrirtæki, enda var það beint tekið fram í grg., þegar frv. að þessum lögum var f;yrst lagt fram hér á Alþingi. Þar er það beinlínis tekið fram, að þetta ákvæði sé sett í lögin til þess að tryggja það, að áburðarverksmiðjan sé ekki verzlunarfyrirtæki. Og þegar þáv. landbrh., Vilhjálmur Þór, mælti fyrir þessu máli á Alþingi, þá tekur hann beint fram í ræðu sinni, að þetta ákvæði sé sett inn í frv. til að tryggja það, að áburðarverksmiðjan sé ekki verzlunarfyrirtæki. Og hvers vegna er líka hæstv. ráðherra búinn að biðja um það þrisvar sinnum hér á Alþingi að fá heimild til þess að fela áburðarverksmiðjunni þessa verzlun? Var það vegna þess, að hann áliti, að heimildin væri fyrir hendi? Sannarlega ekki. Það var vegna þess, að ráðherrann gerði sér þá ljóst, að hann hafði ekki þessa heimild. Þess vegna bað hann um hana, og þess vegna er það, sem það liggur alveg ljóslega fyrir, að hæstv. ráðh. hefur brotið lög eða hefur a.m.k. sniðgengið lög með þessari ákvörðun sinni.

Ég kem þá að því atriði, sem hæstv. ráðherra var að reyna að mótmæla, sem sagt því, að ekki væri verið að leika skrípaleik með Alþingi með því háttalagi, sem hæstv. ráðherra hefur hér haft í frammi. Hvað er það annað en skrípaleikur að vera að biðja Alþingi um heimild til ákveðinnar framkvæmdar og gera svo þessa framkvæmd, áður en Alþingi er búið að segja sitt orð um það, hvað það vill gera í þessum efnum? Hvað er verið að gera annað með Alþingi en að leika skrípaleik með það með þessu háttalagi? Til hvers er hæstv. ráðherra að biðja Alþingi um heimildina og bíður svo ekki eftir því að vita um vilja þess? Hvers vegna tók hann ákvörðun, áður en hann fékk að vita, hver niðurstaða Alþingis yrði? Hvers vegna fer hann með Alþingi á þennan hátt? Einfaldlega vegna þess, að hæstv. ráðh. veit, að það mundi verða sama niðurstaðan nú, ef þingmenn væru fullkomlega frjálsir, eins og hefur orðið á tveimur undanförnum þingum, að hann mundi ekki fá þessa heimild samþykkta. Þess vegna tekur hann þessa ákvörðun upp á sitt eindæmi, lætur fylgismenn, þingmenn Sjálfstfl. og Alþfl., standa frammi fyrir þeirri staðreynd, að ráðherrann sé búinn að gera þetta og þess vegna eigi þeir raunverulega ekki um annan kost að velja en að fylgja ráðherranum, úr því sem komið er, eða láta hann fara frá, því að það mundi ráðherrann verða að gera, ef Alþingi vildi ekki fallast á að veita þessa heimild. En ég verð að segja það, að ef það væri einhver dugur í hv. þm.. Sjálfstfl. og Alþfl. að halda uppi virðingu Alþingis og láta ekki ófyrirleitna stjórnarherra fara með Alþingi eins og þeim sýnist, þá eiga þeir ekki annan sæmilegan kost en að fella þetta frv. Annars taka þeir þátt í þessum skrípaleik með Alþingi, sem hæstv. ráðherra hefur byrjað á.