02.11.1961
Neðri deild: 11. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 347 í C-deild Alþingistíðinda. (2754)

22. mál, áburðarverksmiðja

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það var nú ekki margt, sem þarf að svara.

Hv. 7. þm.. Reykv. var að tala um, hvers vegna væri verið að leggja þetta frv. fram, sem hér er til umræðu, það væri í þriðja skipti nú. Ég vænti þess, að hv. þm.. hafi lesið frv., og hann sér, að það er tvíþætt. Það er í fyrsta lagi það að leggja niður áburðareinkasöluna. Það verður ekki gert nema með lögum. Það er í öðru lagi það að gera lagaákvæðin um afskriftir svo skýr, að hv. 7. þm.. Reykv. og aðrir, sem tala um, að alltaf sé verið að fremja lögbrot í verksmiðjunni, skilji þessi lagaákvæði. Þess vegna er þetta frv., sem hér er verið að ræða um, ekkert skylt þeirri stjórnarathöfn að fela áburðarverksmiðjunni rekstur áburðareinkasölu ríkisins. Það er alveg rangt, og það er leitt, að hv. þm.. skuli misskilja svo mjög það, sem hér er um að ræða. Hv. 4. þm.. Austf. talar um, að ég hafi lagt niður áburðareinkasöluna. Áburðareinkasalan verður ekki lögð niður, nema þetta frv. verði samþykkt. En áburðarverksmiðjunni hefur samkvæmt lögunum verið falinn rekstur áburðareinkasölunnar, og hv. 7. þm.. Reykv. segir, að það hafi ekki verið leyfilegt, alls ekki verið leyfilegt, þrátt fyrir það þótt skýrt sé tekið fram í 4. gr. laga um innflutning og verzlun með erlendan áburð, að ríkisstj. geti falið SÍS eða öðru fyrirtæki, er henta þykir, þessa starfsemi. Hv. 7. þm.. Reykv. vissi, að hann var að segja ósatt. Þess vegna bætir hann frá eigin brjósti við einu orði inn í lagagreinina og segir: verzlunarfyrirtæki. Ég vil biðja hv. þingmenn að fletta upp í lögunum, og þá sjá þeir, að það er ekki talað um verzlunarfyrirtæki. Það er sagt: „SÍS eða öðru fyrirtæki, er henta þykir“. Það er ekkert undan tekið og þess vegna er það skrípaleikur, sem hv. 7. þm.. Reykv. er að leika hér, þegar hann með því að bæta orði inn í lagagreinina frá eigin brjósti hefur það sem forsendu fyrir þeirri niðurstöðu, sem hann vill fá. Ég segi bara: Það er ekki leyfilegt að haga málflutningi á þennan veg, alls ekki. Og ég undrast, að hv. þm.. skyldi gera þetta, enda þótt ég hafi lesið greinina fyrir honum áðan. Það er hægt að fyrirgefa mönnum fljótfærni, það er hægt að afsaka það, þótt menn viðhafi fullyrðingar án þess að hafa kynnt sér málsatriðin nákvæmlega og vel. Það er hægt að afsaka. En ég get ómögulega afsakað hv. 7. þm.. Reykv., eftir að ég hef lesið fyrir hann lagagreinina, að hann skuli samt gerast svo djarfur að bæta orði inn í til þess að breyta merkingu lagagreinarinnar. Þetta er ekki leyfilegt og þetta mætti kalla að væri verið að misbjóða Alþ. Eða hver er það, sem vili ekki átelja það, þegar þannig er vísvitandi skrökvað? Það hefur hv. þm. gert núna.

Hv. 3. þm.. Vesturl. kom hér með nokkrar spurningar, sem hann óskaði eftir að fá svarað. Ég skrifaði þær niður í flýti, ég held, að ég hafi náð þeim.

Hann spyr: Hvað er það í grein dr. Björns Jóhannessonar, sem minnkar hann? Hvað er það í greininni? Ég hef nú ekki blaðið fyrir framan mig. Ég vona, að hv. þm.. fyrirgefi, þó að ég haldi ekki svo mikið upp á Tímann, að ég geymi hann. En það vill nú svo til, að það þarf ekki að lesa greinina að nýju til þess að geta alveg sannfærzt um það, því að dr. Björn Jóhannesson leyfir sér það að fara með fullyrðingar í greininni, sem hann getur á engan hátt staðið við. Hann fullyrðir í greininni, að það eigi að flytja inn lausan áburð, hvort sem það borgar sig eða ekki. Þetta er sleggjudómur, og þegar hv. þm.. eru að tala um, að ég hafi farið óviðeigandi orðum um þennan fræðimenn, þá er það alls ekki rétt. Ég hef einmitt veitt þessum manni viðurkenningu sem fræðimanni. En þegar hann fer út á þau svið og ætlar að fara að skrifa um mál, sem hann hefur ekki sérþekkingu á og sízt meiri en þeir, sem eru í stjórn áburðarverksmiðjunnar, og fara með fullyrðingar, beinlínis fullyrðingar eins og þær, að það eigi að flytja inn lausan áburð, hvort sem það borgar sig eða ekki, þá segi ég: Þessi maður, sem ég hef mætur á sem fræðimanni, hefur minnkað sig að óþörfu.

Þá er það önnur spurning, sem hv. 3. þm.. Vesturl. spyr. Hann spyr: Hvernig stendur á því, að það var byrjað á þessum afskriftum 1959 og afskrifað með þessum hætti meira en skýrt er tekið fram um prósentuna? Ég hélt, að þessi hv. þm.. þyrfti ekki að spyrja um þetta. Man ekki þessi þm.. árið 1958? Man hann ekki þá miklu gengisfellingu, sem þá kom? Veit hann ekki, að einmitt með ráðstöfunum 1958 var kostnaðarverð allra véla áburðarverksmiðjunnar næstum tvöfaldað? Og það var einmitt eftir þessar ráðstafanir, sem nauðsynin kom til þess að auka afskriftir verksmiðjunnar, ef það ætti að vera mögulegt að endurnýja vélakostinn og byggja fyrirtækið upp. Ég vænti þess, að þetta sé nægilegt svar til hv. þm.. Og þetta svar og þessi skýring er vitanlega fullnægjandi og kveður enn á ný niður þá fullyrðingu hv. 1. þm. Norðurl. v., þegar hann talaði um, að afskriftirnar hafi verið auknar, vegna þess að það var bæjarfógeti, fulltrúi Alþfl, í landbrh.-sæti þetta ár. Það var smekklegt að fullyrða, að það hafi verið notað tækifærið, af því að það var reyndur lögfræðingur í starfinu.

Þá er það þriðja spurningin: Hvar stendur í lögum, að áburðarverksmiðjan megi verzla með áburð? Hvernig stendur á, að hv. þm.. er að spyrja um þetta? Hvernig stendur á, að hv. þm.. lætur sér ekki nægja að lesa lög um sölu og innflutning á áburði, þar sem heimilað er að fela SÍS eða öðru fyrirtæki, er henta þykir, í þessu tilfelli verður það áburðarverksmiðjan, — innflutning áburðar? Eða ætlar hv. 3. þm.. Vesturl. sér að leika það eftir hv. 7. þm.. Reykv. að bæta orði inn í lagagreinina, þegar hann kemur hér upp næst, til þess að breyta skilningnum sér í vil? Ég vona, að hv. 3. þm.. Vesturl. taki ekki að þessu leyti hv. 7. þm.. Reykv. sér til fyrirmyndar og láti sér nægja að lesa greinina óbreytta og eins og hún er, og þar er ekkert undanskilið, það má fela það hvaða fyrirtæki sem er, enda ekki talað um, að það sé verzlunarfyrirtæki.

Og þá var fjórða spurningin, af hverju væri beðið um heimild samkv. 2. gr. frv., sem hér er um að ræða. Því hef ég svarað áður. Það er vegna, þeirra, sem eru í dag og alltaf með fullyrðingar um, að þetta samrýmist ekki löggjöfinni, þá þykir sjálfsagt að gera þessi lagaákvæði svo skýr, að enginn efist um, að þarna sé um réttmæta heimild að ræða.

Ég hef nú svarað þessum spurningum öllum og því, sem á góma hefur borið hjá þessum hv. þm.., og tel ekki ástæðu til að fjölyrða meira um þetta. Ég hef verið að velta því fyrir mér og reyndar fleiri hv. þm., hvað veldur því, að þetta mál er sótt með svona miklu kappi hjá þessum hv. þm.., sem tala í móti frv. og eru á móti því, að áburðarverksmiðjan taki við rekstri áburðareinkasölunnar, á meðan lög um áburðareinkasölu eru fyrir hendi. Það er ekki vegna þess, að þeir trúi því, að bændur fái ekki eins góða þjónustu og áður með áburðarkaup. Það er ekki vegna þess, að þeir trúi því, að áburðurinn verði ekki ódýrari með þessu fyrirkomulagi. En hver getur þá ástæðan verið? Vissulega ætti hv. 4. þm.. Austf. að óska þess eindregið, alveg eins og aðrir þm., .að áburðurinn geti orðið sem ódýrastur, og stuðla að því eins og aðrir hv. þm., að fyrirkomulagið með áburðarverzlunina verði gert sem einfaldast, en það er það, sem verið er að gera með þessu móti.

Ég hef oft tekið undir það, að áburðareinkasalan út af fyrir sig hefur alls ekki verið illa rekin. Það er ekkert verið að klaga upp á það. Ekki er verið að ofsækja forstjóra áhurðareinkasölunnar, það veit hann sjálfur bezt. Það verður ekki farið illa með hann. En hlutverk áburðareinkasölunnar er stöðugt að minnka, og það er orðið svo lítið, að það borgar sig ekki lengur að halda þessu fyrirtæki við. Það borgar sig ekki að leigja sérstakt skrifstofuhúsnæði hér í Reykjavík til þessarar starfsemi, sem raunverulega er ekki nema tvo mánuði á ári. Það borgar sig ekki að greiða hafnargjöld og uppskipun á áburði hér í Reykjavík, þegar hægt er að komast hjá því, og það vitanlega borgar sig ekki að vera að greiða pakkhúsleigu hér í Reykjavík, ef hægt er að komast hjá því. Og þegar áburðarverksmiðjan hefur skrifstofupláss, hefur starfslið, hefur bryggju og hefur geymslur, þá getur hún gert þetta með hagkvæmara móti en verið hefur. Ég er sannfærður um það, að síðar meir, þótt nú sé deilt um þetta mál, verða menn sammála um, að þetta er réttmæt og sjálfsögð ráðstöfun. Og það er einmitt vegna þessarar sannfæringar minnar, sem mér er svo hjartanlega sama um öll hnýfilyrði og hrópyrði þeirra manna, sem eru svo smekklegir að ráðast gegn þessu máli.