02.11.1961
Neðri deild: 11. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 349 í C-deild Alþingistíðinda. (2755)

22. mál, áburðarverksmiðja

Halldór E. Sigurðsson:

Hæstv. forseti. Hæstv. landbrh, var að ljúka hér máli sínu, og það fyrsta, sem hann kom að, var það, hvert væri meginefni þessa frv., sem hér er til umr. Hæstv. ráðh. sagði, að það væru tvö atriði, sem væru ástæða til hess, að þyrfti að fá þetta frv. afgreitt frá Alþ. Í fyrsta lagi, segir hæstv, ráðh., er það að leggja áburðareinkasöluna niður. Þetta atriði kemur ekki fram fyrr en í 3. gr. frv. Það er þó að dómi hæstv. ráðh. aðalatriði frv. Fer það aftan að siðunum, að aðalatriði frv. birtist í síðustu grein þess. Í öðru lagi, segir hæstv. ráðh., er að fá það skýrt og undandráttarlaust, að menn geti ekki deilt um það ákvæði, hverjar afskriftirnar eigi að vera af áburðarverksmiðjunni. Þetta atriði kemur fram í 2. gr. frv. En af hverju nefndi hæstv. ráðh. ekki 1. gr. frv.? Það er þó venja, að í 1. gr. frv. sé aðalatriði þess. En hæstv. ráðh. nefndi ekki 1. gr. frv., eins og hún væri feimnismál. En af hverju nefndi hæstv. ráðh. ekki 1. gr. frv.? Af því að 1. gr. er um að breyta 8. gr. l. um áburðarverksmiðju ríkisins, og hún byrjar svo, með leyfi hæstv. forseta, hér í frv.:

„Áburðarverksmiðjan selur framleiðslu sína innanlands á kostnaðarverði.“

Hér er mergur málsins. Það er höfuðatriði þessa frv. að heimila áburðarverksmiðjunni að selja framleiðsluvörur sínar innanlands. Það getur hún ekki samkv. gildandi lögum, og svar hæstv. ráðh. við spurningu minni áðan breytir engu þar um, því að hann fór að tala um allt önnur lög en ég var að spyrja um.

Í 8. gr. áburðarverksmiðjulaganna segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Áburðarsala ríkisins kaupir af áburðarverksmiðjunni áburð til notkunar innanlands fyrir kostnaðarverð:

Hér er það atriði, sem hæstv. ráðh. þarf að fá lagaheimild fyrir til þess að geta gert það kleift, sem hann er búinn að gera með bréfinu sæla. Og það er þess vegna ekki undarlegt, þó að það væri feimnismál hjá hæstv. ráðh. að nefna það atriði, sem er aðalatriði þessa frv.

Út af þeim svörum, sem hæstv, ráðh. gaf við mínum spurningum, vil ég segja það í fyrsta lagi, að hann sýndi ekki fram á það með neinum rökum, að það væri neitt það atriði í grein dr. Björns Jóhannessonar, sem minnkaði hann, því að hann ræðir þar mál með rökum og sýnir fram á, hvaða möguleika þessi leið hafi og hvaða möguleika aðrar leiðir hafi. Og það sýnir bezt, að hæstv. ráðh. gat ekki hnekkt þessu, að hann fór hér alveg fram hjá þriðju spurningu minni, en hún var um það, hvort fyrir lægju útreikningar hjá áburðarverksmiðjunni um það, að henni væri kleift að selja áburðinn ódýrara en hann er nú. Hæstv. ráðh. gekk alveg fram hjá því að svara þessu.

Þá taldi hæstv. ráðh., að það væri vegna þess, að það hafi verið bæjarfógeti landbrh., sem hefði verið hægt að koma fram eðlilegum lögskýringum í sambandi við áburðarverksmiðjulögin 1959. En man ekki hæstv. ráðh. það, að fyrirrennari þess ráðh. var fyrrv. lögreglustjóri, svo að þar hallast nú ekki á, ef á að fara út í þess háttar skýringar?

Þess vegna er það, að í svörum hæstv. ráðh. var ekki að finna neitt, sem réttlæti það, sem hann hefur haldið fram í sínum málflutningi hér. Það er hvergi að finna í lögum um áburðarverksmiðju ríkisins, að hún megi selja áburð, heldur hið gagnstæða, og þess vegna er hæstv. ráðh. að fá lög afgreidd frá Alþingi til þess að reyna að gera það löglegt, sem hann er nú búinn að gera án lagaheimildar.