30.10.1961
Neðri deild: 9. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 351 í C-deild Alþingistíðinda. (2759)

28. mál, síldarútvegsnefnd

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Hæstv. forseti. Á síðasta þingi var borið fram frv. til laga um síldarútvegsnefnd, útflutning á síld, hagnýtingu markaða o.fl., sem í fólust talsvert miklar breytingar á núgildandi lögum. Þetta frv. náði ekki afgreiðslu, en á síðasta stigi eða síðustu dögum þingsins var það afgr. með rökstuddri dagskrá, sem er svo hljóðandi:

„Í trausti þess, að ríkisstj. láti endurskoða lög nr. 74 29. des. 1934, um síldarútvegsnefnd, útflutning á síld, hagnýtingu markaða o.fl., og að sú endurskoðun verði framkvæmd í samráði við síldarútvegsnefnd, Landssamband íslenzkra útvegsmanna, Alþýðusamband Íslands og félög síldarsaltenda, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.“

En við þessa dagskrártill. kom fram brtt. frá hv. 3. þm.. Reykn., sem, með leyfi hæstv. forseta, er svo hljóðandi:

.,Á eftir orðunum „félög síldarsaltenda“ í till. bætist: enda geri ríkisstj. ráðstafanir til að koma sem fyrst á þeim endurbótum, sem þingmeirihluti er örugglega fyrir:

Eitt af aðalatriðunum, er óhætt að segja, í þessu frv., sem náði ekki afgreiðslu, var að fjölga í síldarútvegsnefnd um tvo menn, þ.e.a.s. taka inn í n. einn fulltrúa fyrir félög síldarsaltenda á Norðurlandi og Austurlandi og annan fulltrúa fyrir félög síldarsaltenda á Suðvesturlandi, Um þetta var talið að væri fullt samkomulag, þó að ekki næðist samkomulag um nokkur önnur atriði í frv. Það var þess vegna talið vera í samræmi við vilja Alþingis, að gefin yrðu til brbl., sem ákvæðu, að fulltrúar þessara félaga yrðu teknir upp í nefndina, áður en síldarsöltun hæfist á s.l. sumri. Þess vegna voru gefin út brbl. 9. maí s.l., sem fólu þetta í sér og annað ekki. Endurskoðun laganna í heild bíður þess vegna, eða réttara sagt, það verður unnið að henni, en þetta atriði þótti rétt að leiðrétta strax og vera í samræmi við fram kominn vilja Alþingis við afgreiðslu málsins.

Þetta frv., sem hér er lagt fyrir, er til staðfestingar á þeim brbl. Ég vil leyfa mér að leggja til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. sjútvn.