08.12.1961
Neðri deild: 34. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 210 í B-deild Alþingistíðinda. (277)

107. mál, verðlagsráð sjávarútvegsins

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Hæstv. forseti. Á undanförnum árum hefur það oltið á ýmsu, hvernig verð á ferskum fiski og síld upp úr sjó hefur verið ákveðið til vinnslustöðvanna. Þess má t.d. geta, að verðákvörðun á síld til bræðslu um undanfarinn langan tíma hefur venjulega verið ákveðin á þann hátt, að stjórn síldarverksmiðja ríkisins hefur gert sínar rekstraráætlanir fyrir síldarverksmiðjurnar og ákveðið síldarverðið út frá þeim eða réttara sagt lagt til við ráðuneytið eða leitað samþykkis ráðuneytisins á því verði, sem sú rekstraráætlun hefur gefið tilefni til. Ráðuneytið hefur þess vegna í raun og veru ákveðið verðið á bræðslusíldinni, því að einkaverksmiðjurnar hafa venjulega fylgt alveg því bræðslusíldarverði, sem ríkisverksmiðjurnar hafa ákveðið. Verðið á saltsíld hefur til skamms tíma verið þannig ákveðið, að síldarútvegsnefnd hefur ákveðið það fram á árið 1958 a.m.k. Um aðrar fiskafurðir hefur gilt sú regla, allt frá því að útflutningssjóður var stofnaður 1956, að ráðherra sá, sem fer með sjávarútvegsmál, hefur getað sett það að skilyrði fyrir greiðslu bóta úr útflutningssjóði, að hann væri samþykkur því verði, sem greitt væri fyrir fiskinn. Þannig hafa það kannske að mestu leyti fram til ársins 1960 verið opinberir aðilar, bæði ríkisstj. með síldarverksmiðjunum fyrir bræðslusíldina, síldarútvegsnefnd fyrir saltsíldina og ráðuneytið sjálft fyrir annan fisk, sem ákváðu verðið.

Með lögunum um efnahagsmál frá því í ársbyrjun 1960 var út frá því gengið, að frjálsir samningar yrðu teknir upp í sambandi við fiskverð á milli þeirra, sem selja fiskinn, og hinna, sem kaupa hann. Þetta gekk þó ekki vel á árinu 1960, því að segja má, að liðið hafi verið nærri að vertíðarlokum, áður en samningar tókust um þetta fiskverð, og allt þangað til urðu menn að vera í óvissu um það, hvað verðið væri.

Um s.l. áramót voru kjarasamningar útvegsmanna við sjómannasamtökin í landinu miðaðir við það, að sjómenn tækju sinn hlut með því verði, sem útgerðarmenn fengju fyrir fiskinn, en ekki samið um sérstakt skiptaverð fyrir sjómennina, eins og áður hafði verið gert, Í sambandi við þessa samninga kom þá í ljós, að sjómenn óskuðu, eins og eðlilegt var, þegar málið var komið á þennan grundvöll, eftir því að fá að vera með í ákvörðun fiskverðsins. Þegar svona er komið, er vitaskuld — og hefur raunar áður verið um síldarverðið — kaup sjómanna vissulega háð því, hvað fiskverðið er eða hvernig fiskverðið verður ákveðið, og þess vegna ekki óeðlilegt, að þeir vildu fá að taka þátt í þeim ákvörðunum, sem leiddu til ákvörðunar fiskverðsins. Í ár hefur gengið svo langt í þeim erfiðleikum, sem við hefur verið að stríða um ákvörðun fiskverðsins, að hér var fyrir nokkrum vikum boðað verkfall á síldveiðibátunum, vegna þess að ekki hafði þá tekizt að ákveða verðið á síldinni, og leit út fyrir þá, að ef ekki hefði náðst samkomulag, hefði komið til stöðvunar síldveiðiflotans.

Það er þess vegna augljóst, að mikið veltur á því, að ákvörðun fiskverðsins geti gengið sem fljótast og snurðuminnst, þannig a.m.k. að dráttur á ákvörðun fiskverðsins þurfi ekki að verða til þess, að til stöðvunar á rekstri útvegsins þurfi að koma. Um þetta hefur verið rætt bæði í sjómannasamtökunum og sérstaklega í samtökum Landssambands ísl. útvegsmanna og þar komið fram óskir um það, að einhverjar reglur yrðu settar um þetta efni. Það var því af þessu gefna tilefni, að ég kvaddi til fundar fulltrúa frá öllum aðilum, sem hér eiga hlut að máli, sem ég gat fundið. Þar var kvaddur til fulltrúi frá Alþýðusambandi Íslands, frá Sjómannasambandi Íslands, frá Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, frá Sambandi ísl. samvinnufélaga, frá Samlagi skreiðarframleiðenda, frá Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, frá Sölusambandi ísl. fiskframleiðenda og frá Landssambandi ísl. útvegsmanna til þess að ræða þetta mál. Þessi fundur fór fram nú fyrir skömmu. Þessir menn allir voru á því, að reglur þyrfti að setja um verðákvörðunina, og ég held, að ég geti sagt það alveg hiklaust, að þar var enginn undan skilinn. Þetta varð þess vegna til þess, að fulltrúar frá þessum aðilum öllum voru kvaddir í nefnd til þess að gera till. um, hvernig með þessi mál skuli fara. Einn fulltrúi frá hverjum þessara aðila, þ.e.a.s. 4 frá þeim, sem fiskinn selja og 4 frá hinum, sem fiskinn kaupa, gengu saman til þess að reyna að finna hér eitthvert form á, sem duga mætti til þess að tryggja örugglega verðákvörðun fisksins. Þessi nefnd tók síðan til starfa og skilaði áliti mjög fljótt, eða um mánaðamótin síðustu, og hafði þá ekki haft til starfa nema tiltölulega stuttan tíma. Hún var skipuð um miðjan nóvember og hafði þess vegna unnið að þessu verkefni í hálfan mánuð, þegar hún skilaði sínu áliti.

Tillögur nefndarinnar, sem hér koma fram í frumvarpsformi, eru í stuttu máli þær, að sett verði á það sem þeir kalla verðlagsráð sjávarútvegsins, sem hafi á hendi það verkefni að ákveða verðlagið á fiskinum. Í þessu verðlagsráði eigi sæti hverju sinni 14 menn, 7 frá þeim, sem fiskinn selja, og aðrir 7 frá hinum, sem fiskinn kaupa, en nokkuð misjafnt þó af hálfu fiskkaupenda eftir því, um hvaða fisk er að ræða eða hvort um síld er að ræða, norðurlandssíld, suðurlandssíld eða þess háttar, þannig að fulltrúar fyrir kaupendurna verði nokkuð breytilegir eftir því, hvort um síld eða fisk, svo að maður noti þau orð, er að ræða, en ávallt 7 frá hvorum aðila og ávallt þeir sömu 7 frá fiskseljendunum. Síðan, þegar máli hefur verið til þessa verðlagsráðs vísað, taki það upp samninga sín á milli um verðið og leitist við að komast að niðurstöðu. Og ég legg áherzlu á, að það er til þess ætlazt, að það verði ekki gefizt upp við að reyna að ná fullu samkomulagi fyrr en í fulla hnefana og ekki fyrr en sýnilega er að komast í óefni, ef endanlegt verð verður ekki ákveðið. Fari þó svo, að samkomulag náist ekki í ráðinu, er gert ráð fyrir að vísa málinu til yfirnefndar, sem er skipuð 5 mönnum, þ.e.a.s. tveim frá fiskseljendum og tveim frá fiskkaupendum og oddamanni. Þá er fyrst gert ráð fyrir því, að þessir 4 menn, sem tilnefndir eru af aðilunum í yfirnefndina, reyni að koma sér saman um oddamanninn. Ef það tekst ekki, að samkomulag náist um hann, verði hæstiréttur beðinn að tilnefna hann, en þannig skipuð felli þessi yfirnefnd fullnaðarúrskurð um málið.

Ég held, að þetta sé nægileg greinargerð fyrir því, sem í frv. felst. Þetta er ósköp einfalt og auðskilið mál. Kjarni málsins er sá, má segja, að náist ekki samkomulag um verðákvörðunina á milli aðilanna, þá er gert ráð fyrir úrskurðaraðila, sem annaðhvort yfirnefndin kemur sér saman um eða hæstiréttur tilnefnir, og úrskurður yfirnefndarinnar þannig skipaðrar er bindandi.

Um þetta fyrirkomulag voru allir nefndarmennirnir 8, sem tilnefndir voru af aðilunum, sammála, nema einn, sem hefur skilað séráliti, sem prentað er sem sérstakt fylgiskjal með frv., eins og líka annað prentað fylgiskjal greinir frá yfirliti um störf nefndarinnar. Ágreiningsatriði þessa eina manns, fulltrúa Alþýðusambands Íslands, við hina nefndarmennina er um tvennt. Fyrra atriðið er, að hann vill láta skipa verðlagsráðið með nokkuð öðrum hætti en hér er lagt til, þ.e.a.s. fjölga nefndarmönnunum í verðlagsráðinu um einn, upp í 8 frá hvorum aðila, kaupendum og seljendum, í staðinn fyrir 7. Hitt ágreiningsatriðið er það, að hann leggur til, að í staðinn fyrir, að úrskurðaraðili komi til, náist ekki samkomulag, þá verði leitað til sáttasemjara og hann freisti að ná samkomulagi eins og í venjulegri vinnudeilu. En um það vil ég aðeins segja það, að þá eru litlu meiri líkur til, að samkomulag takist, heldur en verið hefur á milli aðilanna sáttasemjaralaust. Ég vil, að það komi fram hér, og vildi leggja á það nokkra áherzlu, að til þess er ætlazt, a.m.k. af minni hálfu, að sá maður, sem hér fær oddaaðstöðu til þess að skera úr, verði valinn á þann hátt, að hann sé hvort tveggja í senn dómbær um þessa hluti og algerlega hlutlaus. Kannske verður erfitt að fá slíkan mann, en vonandi verður það hægt, a.m.k. ætti ekki að vera erfiðara að sætta sig við úrskurð hans en þá verðákvörðun, sem átt hefur sér stað að undanförnu, annaðhvort af ráðherra, síldarútvegsnefnd, síldarverksmiðjustjórn eða öðrum aðilum, sem segja má að séu kannske ekkert meiri líkur til að séu hlutlausir í þessum málum en sá aðili, sem hæstiréttur tilnefnir eða aðilarnir koma sér saman um. En hér er ekki beint um neitt sáttasemjarasjónarmið að ræða, og það vildi ég líka leggja áherzlu á að kæmi fram, heldur eingöngu að finna það, sem réttast má telja, eftir þeim gögnum, sem fyrir liggja.

Það var af hálfu nefndarinnar nokkuð rætt um það, hver skyldi greiða þann kostnað, sem óumflýjanlega leiðir af þessu, en það varð niðurstaðan hjá ráðuneytinu að leggja til, að fiskimálasjóður greiddi þennan kostnað, sem ætti ekki að verða mjög mikill.

Ég skal svo ekki, að svo stöddu a.m.k., fara um þetta fleiri orðum. Ég tel, að í meginatriðum sé fullt samkomulag á milli flestra og eiginlega allra aðila, sem um þetta mál hafa fjallað. Þeir sjá allir nauðsynina á því, að þetta verði gert, og að finna form, sem samkomulag næst um betur en hér hefur orðið, efast ég um að verði auðvelt.

Ég leyfi mér svo, herra forseti, að leggja til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. sjútvn., en ég vildi leggja á það mjög verulega áherzlu við hv. sjútvn. að reyna að hraða afgreiðslu þessa máls og helzt, að 2. umr. gæti farið fram strax eftir helgina, vegna þess að ég tel það mjög þýðingarmikið, að frv. Þetta geti orðið að lögum fyrir þinghlé, svo að takast megi að koma þessu kerfi í framkvæmd til þess að ákveða verðið fyrir næstu vertíð, sem byrjar um áramótin.