16.03.1962
Efri deild: 65. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 356 í C-deild Alþingistíðinda. (2772)

173. mál, skipulagslög

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Lög um skipulag bæja, sem nú gilda, eru að stofni til frá árinu 1921 og því orðin yfir 40 ára gömul. Það er því ekki að undra, þótt nokkur áhugi hafi vaknað fyrir því og það meira að segja fyrir mörgum árum, að endurskoða þyrfti þessi lög. Ástæðurnar til endurskoðunarinnar eru margar. Í fyrsta lagi þær, að þéttbýlismyndun í landinu hefur verið mjög ör á síðustu áratugum og ýmis vandkvæði komið fram í því sambandi, sem nauðsynlegt er að skipulagslögin taki til. Í öðru lagi hefur lóðagjald eða lóðaverð á þessum stöðum hækkað mjög verulega, og á það raunar alveg sértaklega við um Reykjavík, þ.e.a.s. þann hluta lögsagnarumdæmisins, sem er í höndum einstakra manna. Það má í þriðja lagi nefna það, að með hinni mjög auknu bílaumferð og þá alveg sérstaklega í þéttbýlinu hafa skapazt vandamál, sem segja má að væru ekki til fyrir 40 árum, þegar lögin voru sett, og ekki heldur 1938, þegar sú eina endurbót á lögunum, sem teljandi er, var framkvæmd. En lögunum hefur verið lítils háttar breytt bæði 1926, 1932, 1938 og 1951. En af þeim er eiginlega breytingin 1938 sú eina, sem nemur nokkru, en þá var breytt samsetningu skipulagsnefndar, stofnað til möguleika til þess að fá sérstakan skipulagsstjóra og nokkur atriði fleiri tekin til meðferðar.

Síðan þetta gerðist, hefur, eins og menn vita, verið háð heil heimsstyrjöld og ýmislegt gerzt í okkar þjóðfélagi, sem kallar mjög á lagfæringu á þessum lögum. Það var gert tilhlaup til þessarar lagfæringar árin 1940 og 1948, raunar einnig 1958, og ýmislegt hefur verið gert til athugunar á þessu vandamáli. En frumvörp, sem um þetta hafa verið borin fram, hafa ekki náð fram að ganga. Það var þess vegna snemma árs 1960, að ég fól skipulagsnefnd ríkisins að endurskoða síðasta frv., sem hér var lagt fram áður á Alþingi, 1958, og leitast við að fá þannig frá frv. gengið, að líkur væru til, að það gæti náð fram að ganga. Það, sem sérstaklega var til hindrunar því, að málið næði að ganga fram 1958, skilst mér að hafi verið það, að þar var gert ráð fyrir verðhækkunarskatti allmiklum, sem bera átti uppi kostnað við skipulagsbreytingar, sem gerðar kynnu að vera eða skipulagsuppdrættir gerðu ráð fyrir. Um þetta atriði náðist ekki samkomulag, og var þess vegna tekinn upp sá háttur af nefndinni, sem nú endurskoðaði lögin, að skilja þessi tvö vandamát að, taka breytingarnar á skipulagslögunum út af fyrir sig og svo aftur fjáröflunina til þeirra út af fyrir sig síðar, þannig að vera mætti, að takast mætti á þennan hátt að koma fram öðru atriðinu, þó að hitt leysist ekki með alveg jafnmiklum hraða.

Skipalagsnefnd hefur nú í tvö ár haft þetta mál til meðferðar og fengið sér til aðstoðar Pál Líndal lögfræðing, sem hefur fært frv. í form og unnið að samningu þess með skipulagsnefndinni. há hafa einnig verið fengnir til sérfræðingar, bæði innlendir og erlendir, til þess að vera með í ákvörðun ýmissa sérstakra atriða í frv.

Ég held, að ég þurfi svo ekki að taka fram fleira um sjálfan aðdraganda málsins, en skal þess í stað fara í gegnum frv. og rétt minnast á einstakar greinar þess.

I. kafli frv. fjallar um stjórn skipulagsmála. Ég skal rétt aðeins geta þess, áður en ég fer út í einstakar greinar frv., að frv. er flutt nákvæmlega óbreytt eins og nefndin skildi við það og skilaði því í hendur ríkisstj. Ríkisstj. hefur ekki tekið afstöðu til einstakra atriða í frv., en vill eiga möguleika til að ræða þau og e.t.v. breyta nokkuð frá því, sem nefndin hefur lagt fram. Ég tek þetta fram að gefnu tilefni, því að það eru strax hér á eftir nokkur atriði, sem frá mínu sjónarmiði geta orkað tvímælis.

I. kafli frv. er, eins og ég sagði, um stjórn skipulagsmála. Þar er strax um eina breytingu að ræða, þar sem gert er ráð fyrir, að fjölgað verði í skipulagsnefndinni um tvo menn og breytt nafni á henni, þannig að hún verði kölluð skipulagsstjórn, til aðgreiningar frá öðrum skipulagsnefndum, sem gert er ráð fyrir að stofna annars staðar. Þessir tveir nýju menn, sem bætt er í skipulagsstjórnina, eru báðir tilnefndir af ráðherra, annar samkv. tilnefningu Sambands ísl. sveitarfélaga, en hinn án tilnefningar. Þetta mun vera gert til þess, að nánara samstarf og nánari tengsl fáist á milli sveitarstjórnanna, skipulagsstjórnar og ráðuneytisins, en það eru þessir þrír aðilar, sem um málið eiga að fjalla. Í síðari hluta 1. gr. er svo verkefni skipulagsstjórnarinnar nánar skilgreint. Það er að ganga frá skipulagsuppdráttum, er berast til staðfestingar, og eiga frumkvæði að skipulagningu og endurskipulagningu, þar sem hún telur þess þörf. Í 2. gr. er svo gert ráð fyrir, og það er nýmæli, að sett séu á laggirnar sérstök skipulagsumdæmi, þar sem talin er þörf fyrir slíkt, og að þessi skipulagsumdæmi falli alveg saman við kjördæmi til Alþingis, þannig að það verði átta skipulagssvæði eða skipulagsumdæmi, sem stofnað verði til á þennan hátt, og eins og í 3. gr. segir, að í hverju skipulagsumdæmi, sem þannig er stofnað til, verði skipulagsnefnd, sem skipuð verði 7 mönnum. Ég fyrir mitt leyti vil hafa allan fyrirvara um þessa aðferð, því að mér finnst, að það gæti a.m.k. orðið svo, að hún yrði nokkuð þung í vöfunum. Aðferðin áður hefur verið sú, að það hefur verið stofnað til skipulagsnefnda í ýmsum kauptúnum og þéttbýli, en ekki verið farið út í svona víðtæk skipulagssvæði eins og hér er gert. Síðan er gert ráð fyrir því í 4. gr., að ef talið er nauðsynlegt að taka fyrir sameiginlega hluta af þessum skipulagssvæðum, þá verði samvinnunefndir hafðar til þess að ráða fram úr því. Þá er í 5. gr. gert ráð fyrir vali skipulagsstjóra og því verkefni, sem honum er ætlað, þ.e.a.s. fyrst og fremst að sjá um mælingar og gerð skipulagsuppdrátta, þar sem ekki eru starfandi sérstakar skipulagsnefndir fyrir, sem annast þessi störf. Síðan skal skipulagsstjóri hafa umsjón með því, að hvarvetna sé farið eftir gildandi skipulagi. Hann skal fylgjast með störfum skipulagsnefnda og byggingarnefnda, og skipulagsstjóri skal sitja alla fundi skipulagsstjórnar og hefur þar málfrelsi og tillögurétt. Sem sagt, hann er framkvæmdastjóri skipulagsstjórnar.

Í II. kafla er svo kveðið á um skipulagsskyldu og eftirlit með framkvæmd hennar. Þar er sú breyting frá núgildandi lögum, að það er gert ráð fyrir, að allir staðir, sem hafa 100 íbúa eða fleiri, skuli nú skipulagsskyldir, en áður var þessi tala 200. Enn fremur er í greininni gert ráð fyrir því, að möguleiki sé til að taka fleiri staði til skipulagningar, þar sem sérstaklega stendur á, eins og t.d. hverfi, sem myndast í kringum ákveðna starfsemi, eins og jarðhitasvæði, orkuver, skólasetur, flugvelli eða annað slíkt, og meiningin, að þeir gætu orðið skipulagsskyldir eins og þeir staðir, sem hafa yfir 100 íbúa. Síðan er gert ráð fyrir því, að það sé haft mjög grannt eftirlit með því, að farið sé eftir skipulagsuppdráttunum og þeim fylgt að öllu leyti, og hvað gera skuli, ef út af er brugðið.

Þá er III. kafli um mælingu skipulagsskyldra staða. Þar er líka nýmæli frá því, sem er í gildandi lögum, þar sem í 11. gr. er gert ráð fyrir, að aðeins verði mælt það svæði, sem talið er að muni fullnægja eðlilegum vexti byggðarinnar næstu 25 ár, en var í eldri lögum 50 ár, sem náttúrlega er að heita má út í hött, þar sem enginn maður mennskur virðist geta séð svo langt fram í tímann og breytingarnar nú gerast svo fljótt, að það að binda sig við 25 ár er sjálfsagt miklu meira en nóg.

Þá er IV. kafli um gerð skipulagsuppdrátta, hvernig þeir skuli gerðir úr garði. Það eru ekki tekin upp í þetta frv. eins ýtarleg ákvæði og voru í gömlu lögunum um gerð uppdráttanna, heldur gert ráð fyrir, að það verði gert í reglugerð, sem síðar verði um þetta efni sett. Þá eru í 20. og 21. gr. ákvæði um, hvernig með þessa skipulagsuppdrætti skuli fara, þegar skipulagsstjórn hefur gengið frá þeim, hvaða frestir skuli gefnir sveitarstjórnum til umsagnar o.s.frv. og hvernig með skuli fara, ef athugasemdir sveitarstjórnarinnar verða svo miklar, að orkað geti tvímælis, hvort uppdrátturinn skuli lagður fram.

Nokkurt áframhald af þessu kemur svo fram í V. kafla, þar sem kveðið er á um framlagningu skipulagstillagna og samþykkt þeirra og staðfestingu og hvernig með skuli fara athugasemdir, sem frá sveitarstjórnunum og almenningi alveg sérstaklega koma.

Þá er VI. kafli alveg nýmæli. Þar er gert ráð fyrir því, að verði endurbyggður einhver byggingarreitur eða gamalt og úrelt skipulag verði numið úr gildi og nýjar byggingar upp teknar á svæðinu, gangist sveitarstjórnin fyrir félagsmyndun þeirra, sem lóðarréttindi eiga á svæðinu, og þeir komi sér síðan saman um, hvernig byggt skuli upp.

Þá er VII. kafli um forkaupsrétt, eignarnám og skaðabætur og VIII. kafli um lóðaskrá, sem gert, er ráð fyrir að stofna til á skipulagsskyldum stöðum, og IX. kafli um greiðslu kostnaðar við skipulagið, þar sem yfirleitt er gert ráð fyrir, að mælingar og skipulagsuppdrættir séu kostaðir að hálfu leyti af sveitarsjóðunum og að hálfu leyti af skipulagsstjórn eða ríkissjóði. En til þess að fá tekjur á móti handa ríkissjóði er gert ráð fyrir, að heimilt sé að leggja 3% gjald á brunabótaverði hverrar nýbyggingar, sem reist er á skipulagsskyldum stað, og fellur það gjald í gjalddaga, þegar brunabótavirðing hefur farið fram, og rennur til þessarar starfsemi.

Ýmislegt fleira mætti sjálfsagt taka upp og undirstrika, en það er mjög ýtarlega gerð grein fyrir öllu í grg. þessa frv., svo að ég sé ekki ástæðu til þess. En ég skal taka fram að lokum, að mér er ekki, eins og við önnur frumvörp, sem ég hef borið fram, sérstakt áhugamál, að þetta frv. verði samþykkt á þessu þingi. Ég hef miklu frekar borið það fram til þess, að hv. alþm.. gæfist kostur á að sjá það og sveitarstjórnir landsins og skipulagsskyldir staðir fengju tækifæri til þess að athuga það og gera um það sínar athugasemdir, áður en það verður samþ. á Alþingi. Ég held, að þetta sé skynsamlegur háttur á meðferð málsins, og vænti þess, að hv. þdm, geti verið mér sammála um það. Eigi að síður vildi ég mega leggja til, að þessu frv. yrði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og félmn.