30.10.1961
Neðri deild: 9. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 359 í C-deild Alþingistíðinda. (2775)

19. mál, síldarútvegsnefnd

Flm. (Eysteinn Jónsson):

Forseti. Við höfum leyft okkur tveir hv. þm.. að flytja þetta frv. um breyt. á 1. um síldarútvegsnefnd, útflutning á síld, hagnýtingu markaða o.fl.

Við teljum engan vafa á því, flm., að löggjöfin, sem sett var um síldarverkun og síldarsölu 1934, hafi gert stórfellt gagn, komið að mjög miklu liði og bjargað feiknamiklum verðmætum. Og raunar má kveða svo rammt að þessu, að síldarsöltun, sem áður var afar ótryggur atvinnuvegur, þannig að menn þorðu orðið varla nærri að koma, má nú teljast með hinum þýðingarmestu atvinnugreinum landsmanna og ekkert óvissari en margar aðrar. En það kom hér til, að þegar vel veiddist, var svo mikið saltað, að menn buðu niður verðið hver í kapp við annan, verðið féll og menn urðu fyrir stórtjóni. Á hinn bóginn fór auðvitað líka illa, ef mjög lítið veiddist nærri stappaði, að illa færi, hvernig sem gekk. Á þessu var bót ráðin með því, að ekki mætti salta meira af síld en síldarútvegsnefnd leyfði, og loks var þar við bætt, að síldarútvegsnefnd skyldi einnig annast um sölu á allri síldinni. Þó er að vísu hægt að hafa það öðruvísi samkvæmt lögunum. En það hefur aldrei orðið öðruvísi í framkvæmd en þannig, að síldarútvegsnefnd hefur fengið einkasölu á allri síld. Með þessu móti bjargaðist mikið, og það sköpuðust nokkuð öruggir markaðir fyrir helztu tegundir síldar, sem flutt hefur verið út í tunnum.

Á hinn bóginn held ég, að engum geti dulizt það, sem setur sig inn í þessi mál, að því fer alls fjarri, að ástandið í þeim sé eins og það þyrfti að vera. Það kemur nefnilega í ljós, að með þessu móti verður framleiðslan mjög einhæf og allt verður þetta reyrt í mjög rammar skorður, sem mörgu hafa bjargað, en eru líka á margan hátt háskalegar, þegar til lengdar lætur.

Og það er okkar skoðun, að nú væri rétt að breyta til í þessu efni, þó ekki þannig að afnema eftirlitið með framleiðslu á helztu gamalreyndum tegundum síldar, þ.e.a.s. stórsíld saltaðri í tunnur. Það er ekki okkar uppástunga, að þar verði afnumið eftirlitið með eða breytt til um sölufyrirkomulag á þeirri síld að svo stöddu að minnsta kosti. En við stingum upp á, að nú verði verkun á allri annarri síld gefin frjáls og líka sala út úr landinu, og rök okkar fyrir þessu eru í stuttu máli þau, sem ég skal greina.

Það þarf ekki lengi að kynnast síldarneyzlu og meðferð og verkun á síld í öðrum löndum til að sjá, hve þar er um geysilega margbrotnu vöru að ræða, margar tegundir síldar og óendanlega fjölbreytni í verkun og pakkningu og öllu slíku. Ef við svo berum alla þessa feiknarlegu fjölbreytni saman við síldarútflutning okkar, þá fer manni ekki að standa á sama og fer að leita að ástæðunni fyrir því, að svona sárafáar tegundir af síld, svona einhæf vara er boðin héðan. Hvers vegna er síldin t.d. ekki tekin hér og flökuð og skorin niður með ýmsu móti og pökkuð með öllu mögulegu móti, eins og gert er erlendis? Hvers vegna er t.d. ekki alveg eins hægt að taka hér síld úr tunnum og pakka hana í neytendapakkningar með margvíslegu móti eins og slíkt er gert erlendis við þessa sömu síld? En komi menn á slíkar stöðvar erlendis, þá sjá menn, að þar eru smáfyrirtæki, sem kaupa síld í tunnum og afhenda hana síðan aftur í margvíslegum neytendapakkningum og það þótt ekki sé um niðursuðu eða niðurlagningu að ræða, hagræða síldinni með ýmsu móti til sölu á viðeigandi markaði. Hvers vegna er þetta ekki gert á Íslandi?

Ef maður svo gengur um söltunarstöðvarnar og talar við þá menn, sem hafa haft og hafa þessi mál með höndum, rekið síldarsöltun árum saman og áratugum saman, og spyr þá: Hvers vegna gerið þið ekki þetta, hvers vegna seljið þið bara saltsíld í tunnum? — þá segja þeir yfir höfuð: Það er af því, að við höfum ekki leyfi til að reyna fyrir okkur með sölu út úr landinu á nokkurri síld. Þó að við kynnum að vilja verka síld og pakka með öðru móti, þá megum við ekki reyna fyrir okkur með að selja hana, megum ekki afla okkur sjálfir sambanda fyrir þessa vöru erlendis. — Og þó að þeir vilji ekkert ljótt segja að síldarútvegsnefnd, a.m.k. sumir, þá segja þeir sem svo: Það er ekki von, að fáir starfsmenn á vegum síldarútvegsnefndar geti fylgzt með öllum möguleikum, sem kunna að vera til í heiminum á því að selja mismunandi tegundir af síld í mismunandi pakkningum. Þeir segja: Hvernig geta fáir menn, hversu vel færir sem þeir eru og hversu sem þeir vildu leggja sig í líma, hvernig er hugsanlegt, að þeir geti fundið alla möguleika, sem eru á því að pakka og verka og selja síld? — Maður hlýtur að fallast á slíkt.

Og þá beinist hugurinn að því, hvernig væri hægt að fá fleiri áhugamenn í þetta. Við flm. sjáum ekki, að það muni vera hægt með öðru móti en því að losa þarna um og vita, hvort þá losni ekki úr læðingi ný öfl, hvort síldarverkunarstöðvarnar fara þá ekki að leggja fyrir sig að pakka síldinni með margvíslegu nýju móti og leita sér sambanda fyrir þá vöru erlendis, hvort þá bregði ekki þannig við, að fjöldi Íslendinga fari að kynna sér neyzluvenjur, óskir neytenda í öðrum löndum um þessa vöru, sem óhugsandi er, að fáir menn geti annazt, því að hér er um svo margbreytilega vöru að ræða.

Að vel athuguðu máli er það okkar till., að breytt verði síldarútvegsnefndarlögunum eins og hér er gert ráð fyrir að gefa frjálsa verkun og sölu á annarri síld en stórsíld í tunnum.

Nú eru dálítil vandkvæði á því að draga þarna línuna varðandi það, hvað skuli teljast stórsíld í þessu sambandi. Við settum þess vegna það ákvæði inn í frv., a.m.k. til að byrja með, það má þá athuga það nánar í nefnd, — að ráðh. væri ætlað að ákveða með reglugerð eða auglýsingu, hvar þessi mörk skuli liggja. Þetta er dálítið vandasamt. Ég hef talað um þetta við fjöldamarga menn, sem fást við síldarsöltun, og síldarmatsmenn og fleiri, og að athuguðu máli komumst við flm. að þeirri niðurstöðu, að hyggilegast væri í bili a.m.k. að ganga þannig frá þessu. Með því að hafa kunnuga menn sér við hlið á að vera hægt að draga þarna sæmilega glögga línu.

Nú telja kannske sumir óeðlilegt að gefa þetta frjálst. Við færum þessi rök, sem ég hef greint, og þau, sem er að finna í grg., fyrir okkar skoðun í því efni. Við teljum tímabært að gera þetta og það sé mikil nauðsyn að ræsa þannig fram í þessum málum og sjá, hvað gerist, hvort ekki er hugsanlegt, að þessi mál leysist þá eitthvað úr læðingi. Sumir segja kannske, að við hefðum átt að ganga lengra og leggja til að gefa alveg frjálsa síldarverzlunina. Það höfum við ekki viljað gera, vegna þess að það er okkar skoðun, að allvel hafi gefizt að hafa takmörkun og einkasölu á þeim þekktu síldartegundum, sem seldar eru í stórsölum. Þar er selt í stórum samningum og stórsölum. Það væri glannaskapur að okkar viti að slá öllu lausu. Hitt er að okkar dómi nálægt hyggilegri millileið, að halda í skipulagið, sem verið hefur, varðandi þessa síld og þessa aðalverkunaraðferð, en gefa hitt frjálst, í þeirri von, að það verði þá farið að framleiða fjölbreyttari vöru.

Ef við athugum, að síldin er þannig verkuð hjá okkur, að tekið er á móti henni og hún er sorteruð í blóðspreng í síldarhrotunum upp á akkorð, þá sjáum við, að það vantar auðvitað alla nákvæmni í meðferð á vörunni, og það þótt sumt af henni sé tekið upp úr tunnunum aftur og kastað úr. Auðvitað þyrfti að vera hægt að hagræða síldinni í pakkningar í ró og næði á síldarstöðvunum utan aðalannatímans. Það hafa ýmsir verið að gera tilraunir með að salta síld holt og bolt í pækil og taka hana síðan upp að haustinu, þegar minna er um að vera, og sortera hana. Ég er ekki í vafa um, að þetta mundi stóraukast, ef menn fengju frjálsari hendur til þess að finna sér markaði fyrir síld, sem pökkuð væri á annan hátt en söltuð í tunnur með gamla laginu.

Ég mun ekki hafa um þetta fleiri orð. En okkur flm. finnst, að hér gæti verið um allmikið mál að ræða.