14.11.1961
Neðri deild: 18. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 369 í C-deild Alþingistíðinda. (2798)

24. mál, landsútsvör

Flm. (Karl Guðjónsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér ásamt tveim öðrum þingmönnum að flytja hér frv. til laga um landsútsvör. Efni þess er alþingismönnum áður kunnugt, þar eð frv. efnislega samhljóða þessu lá hér fyrir síðasta þingi, þótt ekki fengi það afgreiðslu þá. Efni frv. er í skemmstu máli sagt það, að þan fyrirtæki, sem hafa samskipti við landsmenn alla, eigi að greiða útsvar, ekki í sveitarsjóð, eins og nú tíðkast, heldur í sameiginlegan sjóð allra sveitarfélaganna á Íslandi, jöfnunarsjóð, og þaðan eigi útsvörin að renna til hinna einstöku sveitarfélaga í réttu hlutfalli við fólksfjölda í hverju þeirra. Þau félög, sem undir þetta mundu falla, væru fyrst og fremst þau félög, sem reka viðskipti við landsmenn í heild, eins og t.d. skipafélög, heildsölufyrirtæki, sem verzla við landið vítt og breitt, útflutningssamtök, eins og t.d. Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, Sölusamband ísl. fiskframleiðenda og Skreiðarsamlagið o.s.frv., tryggingafélög, sem reka tryggingastarfsemi fyrir landið allt, og undir þetta mundu einnig heyra verzlunarstofnanir ríkisins og þá fyrst og fremst Áfengis- og tóbaksverzlun ríkisins, en hún greiðir nú útsvar samkvæmt sérstökum lögum um aukaútsvör ríkisstofnana, en ekki útsvör, sem skiptast á sveitarfélögin eftir viðskiptum þeirra.

Fyrirkomulagið á útsvarsálagningu þessari er í frv. lagt til að verði með þeim hætti, að skipuð verði 5 manna niðurjöfnunarnefnd. landsútsvara, og er Sambandi ísl. sveitarfélaga ætlað að leggja til eða ráðstafa mönnum í þessa niðurjöfnunarnefnd. Landsútsvörin eiga síðan að innheimtast af félmrn., þ.e.a.s. þau mundu í framkvæmd sjálfsagt verða innheimt af starfsmönnum jöfnunarsjóðs, en jöfnunarsjóður heyrir, svo sem kunnugt er, undir félmrn. Þá er gert ráð fyrir því, að réttindi útsvarsgreiðenda í jöfnunarsjóð yrðu metin með svipuðum hætti og greiðenda annarra útsvara, þannig að þeir ættu þess kost að kæra álögð útsvör, fyrst til þeirrar nefndar, sem leggur þau á, en síðan, vilji þeir ekki hlíta þeim úrskurði, þá eigi þeir rétt á að skjóta máli sínu til ríkisskattanefndar. Og þá gerir frv. ráð fyrir því, að þau fyrirtæki, sem greiða landsútsvör, megi ekki skattleggja af sömu veltu eða af sömu viðskiptum með venjulegu sveitarútsvari.

Um útsvör þeirra stofnana, sem ræðir um í þessu frv., gilda tvær reglur: Annars vegar lög um útsvör, sem samþykkt voru hér á Alþingi í hittiðfyrra, og hins vegar gildir um ríkisstofnanir regla, sem felst í lögunum um aukaútsvar ríkisstofnana. Varðandi ríkisstofnanirnar má geta þess, að þær greiða nú í útsvör um það bil 15 millj. kr. Í fjárlagaáætlun fyrir árið 1962 er gert ráð fyrir, að útsvarsgreiðslur þessara fyrirtækja, — eða það væri kannske réttara að segja nú, eins og málum er háttað, þessa fyrirtækis, því að áður var um að ræða tóbakseinkasöluna og áfengisverzlunina, sem nú eru orðin eitt fyrirtæki, eins og hv. alþm.. munu bezt vita, þessu fyrirtæki er áætlað samkvæmt fjárlögum 1962 að greiða nokkuð á 16. millj. kr. í útsvar. Allir vita, að þetta fyrirtæki, sem verzlar á vegum ríkisins með áfengi og tóbak, selur öllum landsmönnum varning sinn. Hér er því um hreina landsverzlun að ræða. Á hinn bóginn hefur ekkert sveitarfélag í landinu neina aðstöðu til þess að leggja neitt útsvar á tóbaksverzlunina. En á þeim örfáu stöðum úti á landinu, þar sem áfengisverzlunin hefur útsölur, er lagt útsvar á útibú hennar, og er mér ekki fullkunnugt um hve hárri upphæð af þeim 15 millj., sem fyrirtæki þessi greiða í útsvar í ár, það nemur, sem fellur til útsvara utan Reykjavíkur, en mér er nær að halda, að það muni vera um 1 millj., máske nokkuð á aðra millj. kr., sem önnur sveitarfélög en Reykjavík fá af þessu 15 millj, kr. útsvari. Það sjá auðvitað allir menn, sem vilja líta með sanngirni á þetta mál, að það er með öllu óeðlilegt, að fyrirtæki eins, og áfengisog tóbaksverzlunin, sem að verulegu leyti er skattheimtufyrirtæki ríkisins, greiði útsvar, sem næstum að öllu leyti rennur til eins sveitarfélags í landinu og ekki til annarra, eins og ég hef hér sýnt fram á, að raun ber vitni um. Það hefur að sjálfsögðu mætt mikilli andstöðu þeirra, sem eru á Alþingi í forsvari fyrir þetta sveitarfélag, sem nýtur þessara réttinda, — það hefur mætt andstöðu þingmanna Reykjavíkur að breyta þessu. En ég vil vekja athygli á því, að þó að þessu yrði breytt í það horf, sem gert er ráð fyrir í þessu frv., mundi Reykjavík eftir sem áður verða stærsti aðilinn að þessum tekjustofni sem fjölmennasta sveitarfélag landsins. Þá mundi hún njóta sinna réttinda sem slík, en ekki umfram það.

Um önnur þau fyrirtæki, sem eru talin í frv. og reka viðskipti við landsmenn í heild og ættu samkvæmt þessu frv. að greiða landsútsvar, er það að segja, að það verður með engu móti talið ranglátt, að þau greiði útsvar, sem verði lyftistöng fleiri en því eina sveitarfélagi, sem nú nýtur þeirra útsvara, — ég segi: fleiri en því eina sveitarfélagi, sem nú nýtur þeirra útsvara, enda þótt það sé máske ekki fullkomlega nákvæmt, þar eð einhver þau fyrirtæki, sem hér undir mundu falla, greiða máske einhver útsvör nú til annarra sveitarfélaga en Reykjavíkur, en það er áreiðanlega í svo litlum mæli, að ekki er orð á því gerandi. Raunin er því sú, að útsvör allra slíkra fyrirtækja renna til Reykjavíkur, en ekki til annarra sveitarfélaga í landinu.

Það mundi nú einhver máske segja, að þær vörur, sem heildsölufyrirtæki selja, þær vörur, sem skipafélög flytja, fari flestar í gegnum, Reykjavík og þar af leiðandi sé ekki nema eðlilegt, að útsvör komi á þau í Reykjavík. Þar er því til að svara, að það er alls ekki meiningin að svipta Reykjavík neinu af sínum réttmæta rétti í þessu, heldur aðeins að hún njóti hans í hlutfalli við það, sem aðrir landsmenn einnig fá. En um nokkur önnur fyrirtæki, eins og t.d. útflutningssamtökin, er það að segja, að þar er ranglætið svo hrópandi, að ég held, að það þurfi býsna mikla hörku, jafnvel fyrir þá, sem eru sérstaklega til þess valdir að vera í forsvari fyrir Reykjavík á Alþingi, að neita því, að það sé ranglátlega að farið, eins og nú er háttað. Ég skal taka dæmi: Það er fiskur, sem veiddur er úti í Vestmannaeyjum, verkaður þar, settur í skip þar og seldur síðan til útlanda á erlendan markað. Þegar á að fara að greiða útsvar af veitu þeirri, sem verður af þessari verzlun, kemur í ljós, að þessi fisksala er bókuð hjá Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna í Reykjavík, því að þar eru aðalstöðvar Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna, og þar kemur útsvarið á þessa vörusölu. Það sjá allir menn, að vara, sem er framleidd úti á landsbyggðinni, seld þaðan til útlanda, unnið þar að henni á allan hátt, hún kemur aldrei til Reykjavíkur öðruvísi en sem tala í dálkum í einni stofnun, sem hefur að vísu kontór í Reykjavík.

Það er með öllu ranglátt, að allt útsvar af þessari verzlun renni til Reykjavíkur, en ekki að neinu leyti til þess staðar, þar sem varan var framleidd og unnin og þaðan sem hún var seld að lokum. En svo er þetta nú. Það gefur enda auga leið, að með þeirri skipan útsvarsmála, sem nú er, hefur Reykjavík möguleika umfram öll önnur byggðarlög landsins til þess að ná til sin óeðlilega háum tekjum af útsvörum, vegna þess að hún hefur nú samkvæmt lögum rétt til þess að skattleggja ýmiss konar verzlun fólks, sem er ekki innan vébanda Reykjavíkur, hefur þar máske aldrei komið. Það sýndi sig líka, að þegar ríkisstj. lét á sínum tíma undirbúa og síðan setja ný lög um útsvör, varð raunin sú, að það þótti þurfa að hafa í þeim lögum þrenns konar útsvarsstiga, þegar um var að ræða persónuútsvör á fólkið í landinu. Einn út svarsstiginn var fyrir það fólk, sem býr í kaupstöðum landsins utan Reykjavíkur, og hann var hæstur. Með lögum er heimilt að leggja á það fólk hærri útsvör en nokkra aðra þegna þessa lands. Í öðrum stiganum og þeim næsthæsta var það fólk, sem býr í sveitum landsins, þ.e.a.s. í sveitarfélögum, sem hvorki eru Reykjavík né heldur kaupstaðir utan Reykjavíkur. Á það fólk er heimilt að leggja nokkru lægri útsvör en fólkið í kaupstöðum utan Reykjavíkur. En þriðji útsvarsstiginn er fyrir það fólk, sem býr í Reykjavík, og er hann lægstur. Það verður skiljanlegt út frá því, að Reykjavík hefur, áður en hún þarf að jafna niður útsvörum á þær persónur, á það fólk persónulega, sem í höfuðborg landsins býr, aðstöðu til þess að ná til sin útsvörum af svo fjöldamörgu öðru, sem landsbyggðin hefur ekki neitt svipaða aðstöðu til þess að ná og í sumum tilfellum enga.

Ég ætla því, að þegar þetta mál er skoðað niður í kjölinn, muni öllum réttsýnum mönnum finnast sem hér sé leiðréttinga þörf, og ég mælist sérstaklega til þess við þá hv. þingnefnd, sem væntanlega fær þetta mál til meðferðar, að hún hugleiði réttmæti þess og geri síðan tillögur sínar um það, hvort hún vill láta frv. falla eða hvort hún vili gera það að lögum. En ég mælist eindregið undan því, að hún hafi þann hátt á, sem stundum vilt við brenna hér, að hún afgreiði málið alls ekki.

Herra forseti. Ég óska eftir því og legg það til, að þegar þessari umr. lýkur, verði málinu vísað til 2. umr. og til hv. heilbr.- og félmn. Ég ætla, að ég muni það rétt, að þar hafi útsvarsmál verið á undanförnum árum.