13.11.1961
Efri deild: 14. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 35 í B-deild Alþingistíðinda. (28)

74. mál, lækkun aðflutningsgjalda

Alfreð Gíslason læknir:

Herra forseti. Þetta frv. mun hafa verið sent öllum alþm. síðdegis í gær, á sunnudegi. Það hefur því ekki verið mikill tími fyrir alþm. að athuga þetta frv. í einstökum atriðum, og það, sem ég vildi segja hér nú, eru aðeins nokkur almenn orð um þetta frv. og ástæðurnar fyrir flutningi þess.

Hér er um að ræða frv. til laga um lækkun aðflutningsgjalda á nokkrum vörutegundum. Þær vörutegundir, sem um er að ræða, eru allar í flokki hátollaðra vara. En annars sýnist mér kenna ýmissa grasa í þessu frv. hvað vörutegundir snertir. Þar er um að ræða nauðsynjavörur eins og fatnað, einkum kvenfatnað, og þar er um að ræða skrautmuni og prjál úr ódýrum efnum, kveikjara og reykjarpípur og annað þess háttar, sem verður að teljast hrein munaðarvara. Ég verð að taka það fram, að ég fagna því sérstaklega að sjá í þessu frv. til laga um lækkun á aðflutningsgjöldum þær nauðsynlegu vörutegundir, sem ég gat um, sérstaklega kvenfatnað, kvenskó og kvensokka, því að vitanlegt er, að þessar vörur eru engin munaðarvara, þótt þær til þessa hafi verið tollaðar með þeim. Annars eru í stórum dráttum þær vörur, sem hér er um að ræða, að því er mér sýnist ávextir, krydd og snyrtivörur, viss fatnaður, eins og ég tók fram, einkum kvenfatnaður, gólfteppi og hreinlætistæki, lampar og myndavélar, íþróttatæki og hljóðfæri og loks lindarpennar og kveikjarar og annað þess háttar.

Það leiðir af því, að tollar eru lækkaðir, að vöruverð lækkar frá því, sem var, og nefndi hæstv. fjmrh. í sinni ræðu nokkur fróðleg dæmi slíks. Ég vil nú segja, að þessu beri að fagna og að ekki sé vanþörf á, að eitthvað sé flutt þess efnis að lækka vöruverðið í landinu. Að þessu leyti ber að fagna þessu frv. það, sem mér þykir þó leiðinlegt í sambandi við þetta frv., er, að hæstv. ríkisstj. flytur þetta frv. alls ekki af neinni umhyggjusemi fyrir kaupendum þeirra vara, sem hér er um að ræða, það er síður en svo. Tilgangurinn með flutningi frv. er allt annað en að bæta kjör almennings. Að vísu leiðir það af þeirri breytingu, sem hér er fyrirhuguð, en eins og hæstv. ráðherra tók fram áðan fylgir hér nokkur kjarabót, og hann sagði það líkt og það væri algert aukaatriði eða jafnvel nokkuð, sem nánast bæri að harma. Nei, frv. er ekki flutt af umhyggju fyrir notendum þessara vara, heldur er tilgangurinn annar. Það var ekki heldur við því að búast, að ríkisstj., sem hingað til hefur gert allt til þess að skerða kaupmátt launanna, færi nú allt í einu að stíga spor í gagnstæða átt. Tilgangurinn með þessu frv. er, að því er mér skilst, einvörðungu sá að bæta aðstöðu ríkissjóðs, bæta aðstöðu ríkisvaldsins í samkeppni við smyglara. Með þessu frv. á að rétta hlut ríkisvaldsins í samkeppni, sem stendur á milli þess annars vegar og smyglara hins vegar og ríkisvaldið hefur farið halloka í. Þankagangur ríkisstj. virðist vera þessi: Miklu magni af smávarningi er smyglað inn í landið og seldur þar í stórum stíl á svörtum markaði. Smyglarar og milliliðir þeirra stórgræða á þessu, en ríkissjóður tapar að sama skapi. Tollgæzlan í landinu stendur algerlega magnþrota gagnvart þessu fyrirbæri. Í stað þess að hefjast þegar handa um að efla tollgæzluna og grípa smyglarana, er leitað annarra úrræða. Til þess að draga úr smyglinu og rétta þannig við hag ríkissjóðs eru hátollar lækkaðir á þeim vörutegundum, sem mest er smyglað af í dag. Af þessari ástæðu og henni einni er þetta frv. flutt. Með því á, eins og ég sagði, að bæta aðstöðu ríkisvaldsins í viðureign þess við smyglarana.

Í þessu sambandi er ekki úr vegi að athuga, hverjir það eru, sem stunda smygl. Í greinargerð frv. er sagt, að 30–40 þús. manns komi árlega til landsins. Að sjálfsögðu eru smyglararnir í þessum hópi. Mér hefur dottið í hug, að þessum þúsundum manna, sem koma til landsins árlega, megi með tilliti til smyglstarfsemi skipta í þrjá flokka. í fyrsta flokknum yrðu þá venjulegir ferðalangar, erlendir og innlendir, fólk, sem fer landa á milli sér til skemmtunar og hvíldar, til náms eða kynningar erlendis, til lækninga eða þá í ýmiss konar opinberum eða hálfopinberum erindrekstri. Þetta er fyrsti flokkurinn. Annar flokkurinn eru áhafnir flugvéla og skipa, sem fara á milli landa. Og loks yrðu í þriðja flokkinum atvinnumenn á sviði verzlunar og viðskipta.

Ef við lítum nú á hvern þessara flokka örlítið, þá er fyrsti flokkurinn, hinir almennu ferðalangar, langfjölmennastur. Þetta fólk hefur ekki ráð á að smygla í stórum stíl. Þetta fólk hefur ekki ráð á að flytja neins konar varning inn í landið í stórum stíl eða til þess að hagnast á því. Því er skammtaður gjaldeyrir, og sá gjaldeyrir gerir ekki betur en duga til brýnustu nauðsynja, á meðan dvalizt er erlendis, eins og gildi krónunnar er nú háttað. Það má því ganga út frá því, að það séu ekki mikil brögð að smygli hjá mönnum í þessum hópi.

Í öðrum flokknum eru áhafnir flugvéla og skipa. Hvað er um þennan flokk að segja? Það helzt, að áhafnir flugvéla og skipa fá hluta af launum sínum greiddan í erlendum gjaldeyri. Hvers vegna er þetta gert? Þetta er gert til þess, að þetta fólk, sem hér um ræðir, geti drýgt laun, sem annars væru ófullnægjandi. Ég heyrði það fyrir fáum árum, að það væri gert ráð fyrir því, að áhafnir skipa og flugvéla notuðu sinn erlenda gjaldeyri til að drýgja kaupið með því að kaupa erlendar vörur og flytja inn í landið. Ég tel vafalaust, þó að ég þekki ekki vel til þessara mála, að orsakir til smyglunar smávarnings inn í landið eigi að nokkru leyti rætur sínar að rekja til þessa fyrirkomulags í launagreiðslum. Og ég vil segja, að ef þetta atriði er rétt, þá á hið opinbera, þá á ríkisvaldið ekki svo litla sök á þessu smygli, sem nú er kvartað svo mjög um.

Þriðji flokkurinn, sem ég nefndi, er sá hópur kaupsýslumanna, sem ferðast landa á milli í atvinnulegum erindum. Það liggur nærri að ætla, að í þeim hópi gætu fyrir fundizt einstaklingar, sem í ábataskyni reyndu og iðkuðu smyglleiðina. Þessir menn munu hafa gjaldeyri og hann í ríkum mæli, ef sannur er sá almannarómur, sem allir kannast við, almannarómurinn um stöðug og stórfelld gjaldeyrissvik vöruútflytjenda og vöruinnflytjenda. Þá lægi nærri að mínum dómi í þessu sambandi að líta betur eftir, skerpa eftirlitið með gjaldeyristilfærslum þessara aðila, bæði útflytjenda og innflytjenda.

Ef þetta er rétt skipting á þeim mönnum, sem fara á milli landa, og þeirra hlutdeild í smyglinu, þá eru það aðallega áhafnir skipa og flugvéla og auk þess einstakir óprúttnir kaupsýslumenn, sem löggæzlan á í höggi við með svo lélegum árangri eins og hér hefur verið lýst af hæstv. ráðh. Ég geri þetta að umtalsefni af því, að mér finnst ástæða til að athuga, hvaða leiðir eru til þess að draga úr smygli, aðrar en þær að hopa á hæli og lækka tolla eingöngu af tilliti til smyglaranna.

Mér dettur í hug, hvort það væri ekki rétt af hæstv. ríkisstj. að taka í þessu sambandi til náinnar athugunar að beita sér fyrir breytingu á launakjörum áhafna flugvéla og skipa, beita sér fyrir því að koma þeim launakjörum í það horf, að það yrði ekki beinlínis ætlazt til þess, að hluti launanna fengist með smyglstarfseminni. Hæstv. ríkisstj. ætti einnig í sambandi við baráttu við smyglstarfsemina að íhuga, hvort ekki væri kominn tími til að ganga á milli bols og höfuðs á gjaldeyrissvikum á sviði útflutnings og innflutnings. Væri það ekki nær en stíga spor eins og nú skal stigið, að draga í land, lækka tolla á vörutegundum, sem mest er smyglað af, í því skyni einu að bæta aðstöðu sína við keppinautinn mikla, smyglarana? Mér finnst næstum því, að segja megi, að hæstv. ríkisstj. líti á smyglarana nánast sem hættulegan, en heiðarlegan keppinaut, og það beri nauðsyn til að taka upp samkeppnisbaráttuna, og þetta er gert á þennan hátt. Í aðgerð eins og hér er gert ráð fyrir í þessu frv., lækkun hátolla í því skyni að draga úr ólöglegum innflutningi, — í þessu felst uppgjöf tollgæzlunnar í landinu. Það er vegna vanmáttar hennar, að hæstv. ríkisstj. neyðist til að lækka þessa tolla.

Ég skal taka það fram, eins og ég gerði raunar í upphafi máls míns, að ég er fylgjandi frv. í heild og sérstaklega fylgjandi því, að ýmiss konar nauðsynjavörur í hátollaflokknum skuli lækkaðar. En það eru innan um hlutir, sem engin ástæða er til að lækka tolla á, eins og ég raunar drap á áðan. Þessi uppgjöf hæstv. ríkisstj. minnir mig á aðra uppgjöf, sem sömu hæstv. ríkisstj. henti á síðasta ári. (Fjmrh: Það væri fróðlegt að vita, hvaða vörutegund það er, sem hv. þm. vill ekki lækka tolla á.) Munaðarvörur, glysvarningur. (Fjmrh.: Munaðarvörur?) Já, kveikjarar, reykjarpípur, skartgripir, prjál úr gleri og ódýrum málmum, eins og þarna er tekið fram.

Þessi uppgjöf minnir á aðra uppgjöf hæstv. ríkisstj., sem átti sér stað á síðasta ári. Þá stóð þessi sama hæstv. ríkisstj. ráðþrota andspænis skattframtölum borgaranna. Hún taldi þá svíkja skatt í stórum stíl, og gagnvart því vandamáli sá hún ekkert annað úrræði en að lækka skattana. Henni var bent á aðrar leiðir, eins og t.d. aukið eftirlit með skattframtölum, líkt og tíðkast víða erlendis. En á slíkt vildi hún ekki hlusta. Hún vildi draga úr skattsvikum með því einu að lækka beinu skattana og þá einkum skattana á hátekjumönnunum, sem auðvitað munaði mest um skattsvik hjá. Og til þess að bæta upp það tjón, sem ríkissjóður varð fyrir með þeirri skattalækkun, varð að grípa til söluskattsins illræmda og bæta ríkissjóði þannig upp tapið, sem skattsvikin höfðu til leiðar komið. Eins er um það, sem hér liggur fyrir. Í stað þess að styrkja tollgæzluna eru tollar lækkaðir. Það er sama undanhaldsleiðin.

Tilgreindur tilgangur með þessu frv. er, eins og ég hef margsagt, sá að draga úr ólöglegum innflutningi. Mér dettur í hug, að til viðbótar kynni að liggja á bak við dálítið annað. Hæstv. fjmrh. hefur áður opinberlega lýst því sem sinni skoðun og stefnu, að tollar almennt verði lækkaðir og að í stað þeirra lækkana komi hækkanir á söluskatti, eftir því sem á þurfi að halda. Ég hygg því, að hér sé um byrjun að ræða þessarar stefnu hæstv. ráðh., að lækka tolla almennt. Og ég hygg, að þessi stefna sé miðuð við þá viðleitni að keyra þjóðina síðan með góðu eða illu inn í Efnahagsbandalag auðvaldsríkjanna í Mið- og Suður-Evrópu. En eitt er víst, og það er, að þetta tollalækkunarfrv. er ekki komið til af góðu. Það er ekki flutt í þeim tilgangi að bæta kjör almennings, og svo kann að fara, um það er lýkur, að þetta frv. boði allt annað en kjarabætur fyrir almenning. Má raunar ganga að því vísu, að eitthvað komi hér í staðinn, hækkun söluskatts eða annað, áður en langt um líður, enda er það í fullu samræmi við stjórnarstefnuna hingað til.

Ég stóð hér upp fyrst og fremst til þess að ræða um höfuðtilganginn með þessu frv., smyglstarfsemina í landinu og hvernig mætti draga úr henni. Nú vil ég leyfa mér að benda hæstv. ráðh. á, að ekki verður smygl upprætt með aðgerðum eins og hér eru fyrirhugaðar. Það má e.t.v. draga eitthvað úr ólöglegum innflutningi þeirra vara, sem um er getið í þessu frv. En lengra nær ekki árangurinn af þessari baráttu. Smyglið getur haldið áfram í jafnstórum stíl og áður og gerir það áreiðanlega að öllu öðru óbreyttu. Er ekki tóbak og áfengi flutt inn ólöglega í stórum stíl — eða hvað segir hin rækilega athugun hæstv. fjmrh. um það? Hann segir í grg. frv., að hann hafi látið framkvæma rækilega athugun á smyglstarfseminni og hinu vonlausa verki tollgæzlunnar. Þess vegna langar mig til að spyrja hæstv. fjmrh. Þessara spurninga: Hve mikil brögð eru nú að ólöglegum innflutningi áfengis og tóbaks? Í öðru lagi: Telur ekki tollgæzlan líkur á, að sá innflutningur aukist eftir þá tollalækkun, sem fyrirhuguð er nú? Í þriðja lagi: Hvað hefur athugun hæstv. ráðh. leitt í ljós varðandi ólöglegan innflutning annarra eiturefna en tóbaks og áfengis, nautnalyfjanna svokölluðu? Eru mikil brögð að slíku smygli nú þegar, og eru líkur fyrir, að það aukist vegna þverrandi eftirspurnar á nælonsokkum og brjóstahöldum?

Þessar spurningar varða almenning og það væri mjög fróðlegt, ef hæstv. ráðh. sæi sér fært að svara þeim. Það væri almenningi hollt að fá vitneskju um niðurstöður þeirrar rækilegu athugunar, sem hæstv. ráðh. hefur látið gera í sambandi við tollsvik og smyglstarfsemi. Því miður er ég ekki í miklum vafa um gagnsleysi þeirrar viðleitni, sem felst í þessu frv. Smyglið heldur áfram, það finnur sér að einhverju leyti nýjan farveg, það er allt og sumt, sem gerist. Það er enginn vafi á, að smyglarar finna einhver úrræði í þessari frjálsu samkeppni við ríkisvaldið. Aðalatriðið fyrir smyglara er, að tollgæzlan verði framvegis jafnvanmáttug og hún hefur verið til þessa, en úr þeim vanmætti bætir þetta frv. ekki hætishót. Ég fer um þetta svo mörgum orðum af því, að í grg. fyrir frv. hæstv. ráðh. er það sagt berum orðum, að í frv., efni frv. felist öruggasta leiðin til þess að vinna bug á þessum ósóma. Ég hygg, að það þurfi allt annað til að vinna bug á þeim ósóma, sem hér er um að ræða. Það þarf fyrst og fremst að bæta aðstöðu tollgæzlunnar. Á þá þörf minntist raunar hæstv. ráðh. í sinni ræðu, en það er sú þörf, sem mest knýjandi er nú og hefði þurft að byrja á.

Ég vil svo að lokum aðeins endurtaka ósk mína um, að hæstv. ráðh. svari þeim fyrirspurnum, sem ég beindi til hans nú. Ég tel það skipta miklu máli. Það er vitað, að miklu er smyglað af áfengi og tóbaki. Margfaldast ekki sá ólöglegi innflutningur að sama skapi og dregur úr öðrum innflutningi?