08.12.1961
Neðri deild: 34. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 220 í B-deild Alþingistíðinda. (280)

107. mál, verðlagsráð sjávarútvegsins

Björn Pálsson:

Herra forseti. Ég skal ekki vera langorður. Það er ekki ástæða til þess. Það eru aðeins örfá atriði, sem ég vil minnast á, sem að nokkru leyti hafa komið fram hjá hv. 4. þm. Austf.

Það er þá í fyrsta lagi, að það eiga að vera fulltrúar frá Landssambandi ísl. útvegsmanna, en það er ekkert talað um, hvort á að velja þá úr hópi þeirra manna, sem selja fiskafurðir eða kaupa. En það er um það bil 80% af fiskaflanum, sem er nýtt í eigin fiskvinnslustöðvum, þannig að ef engin ákvæði eiga að vera um þetta í lögunum og L.Í.Ú. setur ekki nein ákvæði um þetta, getur svo farið, að engir af þeim, sem selja fiskafurðir, komist í þessa fjögurra manna nefnd, það verði eingöngu þeir, sem eiga fiskvinnslustöðvar eða síldarsöltunarstöðvar og kaupa aflann. En þegar sjómennirnir fá sitt kaup af brúttóverði aflans, er það hagur fyrir þá útgerðarmenn, sem vinna úr aflanum, að verðið sé sem lægst, þannig að á þennan hátt er hægt að gera sjómenn og þá útgerðarmenn, sem selja aflann, algerlega réttlausa. Ég er ekki að segja, að þetta verði gert, en það eru engin ákvæði í frv., sem fyrirbyggja, að hægt sé að gera þetta. Þarna er um stórt atriði að ræða fyrir útgerðarmennina, sem vinna úr eigin afla. Eftir því sem aflinn er metinn lægra til skipta við sjómannasamtökin, eftir því græða þeir meira. Ég er ekkert hissa á því, þó að sjómennirnir verði ekki ánægðir með, að þetta sé ekki tryggt. Þetta er höfuðatriði málsins. Það er óþolandi fyrir þá menn, sem afla fisksins og síldarinnar, að vera ekki tryggir að eiga annan fulltrúann af þeim tveimur fulltrúum, sem valdir eru í 5 manna nefndina. Einnig álít ég, að það þyrfti að setja ákvæði um, að það yrði fulltrúi frá Alþýðusambandinu, sem mætti fyrir hönd sjómannanna, því að það eru vitanlega fyrst og fremst þeir, sem draga fiskinn úr sjónum, sem hafa hagsmuna þarna að gæta. Það eru þessi tvö atriði, sem ég vildi alveg sérstaklega vekja eftirtekt á.

Ég er ekki í sjútvn. og vil þess vegna vekja sérstaka athygli á þessu, að ef frv. er samþ. óbreytt, getur svo farið, að sjómennirnir, sem draga fiskinn úr sjónum, hafi engan fulltrúa í þeirri endanlegu nefnd, sem sennilega í mörgum tilfellum kemur til með að ákveða þetta. Það þarf einnig að tryggja, að þeir menn, sem verða að selja síld og fisk, en eiga ekki sínar sérstöku fiskvinnslustöðvar eða síldarbræðslustöðvar, eigi sína fulltrúa. Það er engin trygging, að hlutur þessara manna verði ekki algerlega fyrir borð borinn, og þetta er höfuðatriði.

Viðvíkjandi því, að þarna sé í raun og veru samningsréttur að nokkru leyti tekinn af sjómönnunum og geti kostað vinnustöðvanir og deilur, aukadeilur, eins og kom fram hjá hv. 4. þm. Austf., þá má það vel vera. En þessi aðferð er nú notuð gagnvart bændunum, og ég hygg, að það stefni allt að því, að það verði farið að nota þetta í okkar þjóðfélagi almennt, þetta verði tekið næst upp gagnvart verkalýðsfélögunum og öllu kerfinu, hugmyndin verði að nokkru leyti sótt til Rússlands, að banna algerlega verkföll og vinnudeilur. Það er slæmt fyrir þjóðfélagið, þó að við göngum náttúrlega ekki eins langt í því og það verði aldrei eins mikill munur á kaupi og hjá Stalín. Hann tók upp nýtt kerfi viðvíkjandi því, sem var nokkurs konar ákvæðisvinna. En mér virðist allt stefna að því hjá þessari hæstv. ríkisstj., að hún vilji ráða hlutunum og þá verði þetta allt saman ákveðið með nokkurs konar gerðardómum, bæði kaupupphæð og önnur atriði í okkar þjóðfélagi, og skal ég ekki fara út í það. Þetta hefur sína kosti og vafalaust sína galla líka. En við, sem stundum landbúnaðinn, höfum orðið að búa við þessa verðlagsákvörðun. Og satt að segja get ég alveg eins sætt mig við það gagnvart sjávarafurðum og gagnvart landbúnaðarafurðum, en út í það skal ég ekki fara. Mér virðist stefna að því, að þetta muni ganga í gegn gagnvart öllum launakjörum í landinu fyrr og síðar, þetta sé bara einn liður í kerfi, sem á að koma. Það verður þá að deila um það allt í heild. En hitt álít ég að sé óhyggilegt, að taka það ekki fram nú þegar, að það sé ekki hægt að bera hlut þeirra útgerðarmanna fyrir borð, sem þurfa að selja sjávaraflann, og sjómannanna. Það þarf að tryggja, að þeir hafi sinn rétt. Ef það er ekki gert strax, þá getur það kostað deilur síðar, og þær hefjast e.t.v. mjög fljótlega. Við eigum að unna þeim jafnréttis, tryggja það, að þeir hafi sinn rétt jafnt og þeir, sem kaupa sjávarafurðirnar. Það er ekki viturlegt að gera það ekki, og þess vegna hef ég viljað benda á þetta atriði.