23.11.1961
Neðri deild: 24. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 383 í C-deild Alþingistíðinda. (2818)

58. mál, húsnæðismálastofnun

Þorvaldur G. Kristjánason:

Hæstv. forseti. Hv. 1. flm. þessa frv. vék nokkuð að efni þeirrar grg., sem fylgir með frv. Þó saknaði ég eins atriðis, sem hann gerði ekki að umræðuefni í ræðu sinni, en ég tel þess eðlis, að það sé rétt að vekja athygli á því. í grg. segir, að híð opinbera hafi sýnt nokkra viðleitni til þess að stuðla að þeirri þróun hér á landi, að sem flestir einstaköngar byggi og eignist eigin íbúðir. Segir í grg., að að þessu hafi verið stutt með því að efla opinbert veðlánakerfi til húsbygginga og merkasta sporið hafi verið stigið á þeirri braut í tíð vinstri stjórnarinnar með setningu l. nr. 42 frá 1957, um húsnæðismálastofnun, byggingarsjóð ríkisins o.fl. Maður hlýtur að staldra við ,við þessa fullyrðingu, þó að oft hafi hún heyrzt fyrr af munni framsóknarmanna. Þeir láta jafnan ekkert tækifæri ónotað til að koma þessari skoðun sinni á framfæri í umr, um húsnæðismálin. Þeir segja, að það bezta, sem í þeim hafi verið gert, hafi verið framkvæmt af kommúnistum undir forustu núv. hv. 4. landsk. þm.., Hannibals Valdimarssonar. hað segja þeir að sé ólíkt merkilegra en það, sem gert var, þegar Steingrímur Steinþórsson fór með þessi mál í ríkisstj. Ólafs Thors frá 1953 til 1956.

Hv. 1. flm. frv. skýrði ekki, í hverju þetta liggur. Það finnst mér þó eðlilegt að komi hér fram. Hér liggur fyrir frv., sem varðar vissulega hin þýðingarmestu mál. Hver er stefna flm. þessa frv. í húsnæðismálunum? Á hvað leggja þeir áherzlu til að leysa meginvanda þessara mála, sem er lánsfjárskortur til íbúðalána? Svarið við þeirri spurningu virðist mér fást með því að gera sér grein fyrir, í hverju þetta merkasta spor er fólgið, sem stigið var í húsnæðismálunum undir leiðsögn kommúnista í vinstri stjórninni. Það er því eðlilegt að athuga strax á þessu stigi málsins, í hverju þessi merkilegheit eru fólgin.

Það eru nefnd lögin um húsnæðismálastofnun frá 1957, og þau lög eiga að vera merkilegri en lögin frá 1955, sem settu á stofn almenna veðlánakerfið. Þetta er nú því athyglisverðara sem lögin frá 1957 eru að meginstofni um almenna veðlánakerfið óbreytt frá því, sem áður var. En þó var gerð breyting, sem rétt er að hafa í huga. Með 1. frá 1957 var nafni breytt á varasjóði almenna veðlánakerfisins, sem stofnað var 1955. Varasjóðnum var gefið nafnið byggingarsjóður ríkisins og honum fenginn einn nýr tekjustofn. Var það 1 % álag, er innheimta skyldi aukalega á tekju- og eignarskatt og stríðsgróðaskatt og aðflutningsgjöld. Þessi tekjustofn hefur gefið byggingarsjóðnum um 5 millj. kr. á ári. En þá var ákveðið einnig, að til byggingarsjóðsins rynnu 2/3 stóreignaskattsins frá 1957. Hefur sjóðurinn fengið greitt fram til þessa 9.4 millj. kr. af þessum skatti.

Ég geri ekki ráð fyrir, að hv. flm. þessa frv. hafi fundizt svo mikið koma til þessara tekna byggingarsjóðs, að tilkoma þeirra sé merkilegra spor í húsnæðismálunum en sjálf stofnun sjóðsins og veðlánakerfisins 1955. Hinu gæti ég frekar átt von á, að hv. flm, fyndist skyldusparnaðurinn, sem lögfestur var með lögum nr. 42 frá 1957, merkasta sporið, sem stigið hefur verið í húsnæðismálunum. Ég verð að játa, að mér finnst þetta í sjálfu sér harla ósennileg skýring. En ef lögin frá 1957 eru merkust alls, sem gerzt hefur í húsnæðismálunum, þá hlýtur það að vera fyrir skyldusparnaðinn, sem er eina veigamikla nýjungin í þeim lögum frá því, sem var í húsnæðismálalögunum 1955.

Og auðvitað var það skyldusparnaðurinn, sem þótti svona merkilegur. Hér átti að vera fundinn árlegur tekjustofn, sem gæti aukið verulega það fjármagn, sem varið yrði til íbúðalána. Hér var til mikils að vinna. Til þess að bæta úr fjármagnsskortinum til íbúðalána þótti sjálfsagt að lögskylda ungt fólk á aldrinum 16–25 ára til að leggja til hliðar 6% af launum sínum, sem greiða skyldi svo viðkomandi, þegar hann hefði náð 26 ára aldri. En það var eins og þeir, sem að þessari lagasmið stóðu gerðu ekki ráð fyrir því, að unga fólkið yrði nokkurn tíma 26 ára gamalt, því að þá hefði ekki verið útbásúnuð svo sem raun varð á þýðing skyldusparnaðarins til frambúðarlausnar á húsnæðismálunum.

Þetta sparnaðarkerfi var engin varanleg lausn á lánamálunum. Að halda slíku fram var helber blekking alla tíð. Það mátti vera öllum ljóst frá byrjun. Þetta sparnaðarkerfi var þannig byggt upp, að ekki var til ráðstöfunar til útlána nema mismunurinn á innborguðu sparnaðarfé og endurgreiðslum til þeirra, er náð hafa 26 ára aldri. Þessi mismunur var mestur fyrsta árið, sem kerfið starfaði, en minnkar ört á hverju ári, eftir því sem endurgreiðslurnar aukast vegna aukinnar inneignar þeirra, sem undir kerfið heyra, með ári hverju. Þetta leitar jafnvægis þannig, að fé það, sem inn kemur vegna skyldusparnaðarins, verður ekki meira en endurgreiðslurnar, nema sem svarar því, hvað yngri árgangar, sem inn í kerfið koma, eru fjölmennari þeim eldri, sem ganga frá og taka út skyldusparnaðinn. Og þessi mismunur, sem liggur í fólksfjölguninni, gefur ekki mikið fjármagn, sem hægt er að ráðstafa til frambúðar til íbúðalána. Tala þeirra, sem eru á skyldusparnaðaraldri og jafnframt inna skyldusparnað af hendi, eykst á ári hverju um hér um bil 400 manns. Á árunum 1958 og 1959 mun skyldusparnaður á hvern einstakling hafa numið að meðaltali um 2600 kr. á ári. Þetta svarar til þess, að þegar jafnvægi er komið á í skyldusparnaðarkerfinu, eins og það verður til frambúðar, þá ættu innborganir umfram endurgreiðslur að nema árlega eitthvað um 1 millj. kr. Þessi upphæð, um 1 millj. kr., er því það, sem fæst út úr kerfinu árlega og hægt er að verja til útlána á vegum húsnæðismálastofnunar. Þetta er það, sem til frambúðar er samkvæmt skyldusparnaðarkerfinu. Þetta virðist manni þá að sé merkasta sporið, sem stigið hefur verið í húsnæðismálunum að dómi framsóknarmanna.

En það merkilegasta við þetta úrræði er þó kannske það, að samkv. því skipulagi, sem komið var á í tíð vinstri stjórnarinnar, kostaði 21/2 millj. kr. árlega framkvæmdin á skyldusparnaðarkerfinu, sem til frambúðar gat gefið 1 millj. kr. árlega til aukinna íbúðalána. Svo stórkostlega merkilegt var þetta spor, sem stigið var.

Ég held, að það verði að líta annað en til vinstri stjórnarinnar um úrræði í húsnæðismálunum. Það eru gróflega afskræmdar staðreyndir, þegar því er haldið fram, að merkasta sporið til úrlausnar þessu vandamáli hafi verið stigið, þegar kommúnistar fóru með þessi mál í ráðherratíð hv. núv. 4. landsk. þm.. Það er ekki hægt að láta slíkum fullyrðingum framsóknarmanna ómótmælt. Og ég get naumast trúað, að hv. 4. landsk. líki slíkt oflof, og það verður að segja eins og er, að það lýsir harla öllum skilningi á hinum mikilvægu málum, sem húsnæðismálin eru, að láta sér fara um munn slíkar fjarstæðukenndar fullyrðingar. Það kann að vera, að nokkra skýringu sé að finna á þessu í því gegndarlausa kommúnistadekri, sem framsóknarmenn leggja sig fram um um þessar mundir. En heldur sýnist þetta framferði óvænlegt til rétts skilnings á þeim mikla vanda, sem úrlausnar þarf.

Nei, spor vinstri stjórnarinnar vísa ekki veginn. Það verðum við að gera okkur ljóst. Fjármagnsskorturinn til íbúðalána leysist ekki nema með auknum sparnaði. Hann getur aðeins orðið með tvennum hætti. Annaðhvort getur verið um að ræða frjálsan sparnað eða lögbundinn, í formi skatta og gjalda til ríkisins. En engin ríkisstj. hefur á undanförnum árum treyst sér til að hækka skatta, sem nokkru nemur, til að ná inn fjármagni til eflingar lánasjóðanna og aukningar íbúðalána. Allar ríkisstjórnir virðast hafa tekið skatta þegar svo háa, að þær hafa ekki treyst sér til þess að hækka þá sem neinu verulegu nemur í þessu skyni. Þetta hefur því reynzt ófær leið til að leysa úr lánsfjárskortinum til íbúðarlána. En þá stöndum við líka frammi fyrir þeirri staðreynd, að úrræðið, sem við eigum, er aðeins það að efla hinn frjálsa sparnað, stuðla að aukningu sparifjármyndunar í landinu. Hvernig okkur tekst það, fer eftir ástandi peningamálanna og efnahagsmálanna almennt. Það fer eftir þeim skilyrðum, sem efnahagskerfið veitir til aukinnar sparifjármyndunar á hverjum tíma.

Þegar almenna veðlánakerfið var sett á stofn með lögum nr. 55 frá 1955, var það byggt á hinni frjálsu sparifjármyndun. Veðdeild Landsbankans var, svo sem kunnugt er, veitt heimild til að gefa út bankavaxtabréf, annars vegar svokallaða A-flokka, vaxtabréf með föstum vöxtum og afborgunum, hins vegar svokallaða B-flokka, vaxtabréf með vísitölukjörum, þannig að greiðsla afborgana og vaxta var bundin vísitölu framfærslukostnaðar. Fjár til íbúðalána skyldi afla með sölu þessara vaxtabréfa. Salan hlaut að fara eftir því, hver skilyrði væru á hverjum tíma fyrir aukningu sparifjármyndunar í landinu. Hin frjálsa sparifjármyndun kemur aðallega fram í aukningu sparönnlána bankanna. Þess vegna var í upphafi samið við bankana um kaup á þessum bankavaxtabréfum. Þau voru og í upphafi seld, svo að um munaði, á frjálsum markaði. Þannig fór almenna veðlánakerfið mjög vel af stað. En þegar vinstri stjórnin tók við og áhrifanna fór að gæta af stefnu hennar í efnahags- og peningamálum, fór þegar að síga á ógæfuhliðina. Aukning sparifjármyndunarinnar minnkaði, bankar og sparisjóðir höfðu minni möguleika en áður til að kaupa bankavaxtabréfin, og sala þeirra hvarf af frjálsum markaði. Á þessum tíma fór almenna veðlánakerfið úr skorðum. Það brast grundvöllurinn undir tekjuöflun þess. Það skeði, þegar kommúnistar fóru með yfirstjórn þessara mála. Þetta skeði, þegar merkasta sporið var stigið í húsnæðismálunum að dómi framsóknarmanna, hv, flm. þessa frv. En þetta markaði alla vega djúp spor, sem verða ekki afmáð nema eftir því sem áhrif efnahagsmálastefnu núv. hæstv. ríkisstj. koma fram í aukningu sparifjármyndunar í landinu. En þess sjáum við nú þegar glögg merki.

Á þeim tveim mánuðum, sem almenna veðlánakerfið starfaði á árinu 1955, var fjár aflað til þess með sölu bankavaxtabréfa að upphæð 25.5 millj. kr. Á árinu 1956 nam þessi sala 41.9 millj. kr. Á árinu 1957, þegar fer að gæta áhrifa vinstri stjórnarinnar, lækkar sala bankavaxtabréfanna strax niður í 32.3 millj. kr. Og enn versnar það svo stórkostlega, að lokaár vinstri stjórnarinnar, 1958, er salan komin niður í 15.4 millj. kr. eða 63% lækkun frá því, sem hún var árið 1956. Í tíð núv. hæstv. ríkisstj. tekur svo að rofa til. Árið 1960 nemur sala þessara bankavaxtabréfa 21.7 millj. kr. Og 15, ágúst í sumar var salan þá þegar orðin á þessu ári 30.7 millj. kr. eða 100% meiri en á öllu árinn 1958. Með því að efla þessa þróun byggjum við traustastan grundvilli undir almenna veðlánakerfið og lánastarfsemina til íbúðabygginga. Í raun og veru er þetta okkar eina leið, sem fær er til þess að ráða bót á miklu vandamáli. Þörfin er óumdeilanleg. Það þarf að fullnægja eftirspurninni eftir íbúðalánum, og ég er sammála hv. flm. þessa frv., sem hér liggur fyrir, um nauðsyn þess að hækka verulega lánsupphæð íbúðalánanna. En ég er þeim ekki sammála um, að í þeirri viðleitni eigi að hafa að leiðarljósi aðgerðir vinstri stjórnarinnar í þessum málum, því að þau spor hræða vissulega. En ég ann framsóknarmönnum hins vegar að ástunda gælur sínar og dekur við kommúnista, þótt mér þyki það lýsa helzt til miklu ábyrgðarleysi í svo alvarlegu máli sem hér er til umræðu.