23.11.1961
Neðri deild: 24. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 389 í C-deild Alþingistíðinda. (2820)

58. mál, húsnæðismálastofnun

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Ég gerði ekki ráð fyrir því að taka þátt í þessum umr., en nafn mitt hefur verið nefnt í sambandi við þetta mál, sem til umr. er.

Frv. er að meginefni um það, að nú séu aðstæður svo breyttar að því er verðlag snertir í landinu og byggingarkostnað, að ástæða sé til þess að hækka það hámark, sem verið hefur um byggingarlán á íbúð, nálega um 100%, og hygg ég, að flestir hljóti að vera sammála um það, að til þess sé ærin ástæða og í raun og veru sé ekki verið að hækka með slíkri breytingu þau lán, sem veitt eru út á íbúð hverja, heldur aðeins að gefa lánsupphæðinni svipaðan kaupmátt og hin lægri upphæð hafði fyrir svo sem fimm árum.

Það var svo hv. 1. þm.. Vestf. (ÞK), sem sá tilefni til þess út af ummælum í grg. með frv. að vefengja það, að breyting sú, sem gerð var á húsnæðismálalöggjöfinni 1957, væri einn merkasti áfanginn, sem stiginn hefði verið í sambandi við úrlausn húsnæðismálanna. Að sjálfsögðu er alltaf hægt að deila um slíkar fullyrðingar, og ég skal engan veginn ætla mér neitt dómarasæti um það. En það er, sem betur fer, ekki neitt á huldu, hvaða breytingar voru gerðar á húsnæðismálalöggjöfinni 1957, og fyrir því hefur að verulegu leyti verið gerð grein af hv. flm., sem hér talaði nú rétt áðan. En eitt af því, sem gerðist með setningu þessara laga, var það, að húsnæðismálastofnuninni eða byggingarsjóði ríkisins var þá tryggt 118.2 millj. kr. stofnfé, og þess gleymdi hv. 1. þm.. Vestf. alveg að geta. hetta var þannig: Í fyrsta lagi var byggingarsjóði ríkisins tryggður sem eign varasjóður hins almenna veðlánakerfis, sem var 20.9 millj. kr., í öðru lagi lán ríkisins til lánadeildar smáíbúða, 32.8 millj., og í þriðja lagi A-flokkabréf ríkisins, sem keypt voru fyrir tekjuafgang ríkissjóðs árið 1955, að upphæð 11.3 millj., og svo 2/3 hlutar af væntanlegum stóreignaskatti, en sú upphæð skyldi nema 53.2 millj. kr., eða þetta samtals 118 millj. kr. Nú hefur það verið tekið fram hér alveg réttilega, að það er Sjálfstfl., sem hefur séð meiri ástæðu til þess að undanþiggja stórgróðamennina í landinu þeim stóreignaskatti, sem réttilega og sanngjarnlega var á þá lagður, heldur en að þessi upphæð færi til þess að hjálpa fátæku fólki í landinu til þess að leysa úr sínum húsnæðismálum, og þetta er kórónan hjá Sjálfstfl. í húsnæðismálunum, einn helzti gimsteinninn, sem glitrar í þeirri kórónu.

Auk tekna af þessu stofnfé sjóðsins, sem áætlað var að næmu árlega um 23 millj. kr., var svo gert ráð fyrir tekjuöflun til hans, sem nema mundi um 7–8 millj. kr., eftir áætlun þeirra manna, sem til þess voru fengnir, en það vorn einmitt trúnaðarmenn Landsbanka Íslands, og svo enn fremur tekjur af sparnaðarframlögum, hinum svokallaða skyldusparnaði, en árleg sparnaðarframlög voru áætluð um 15 millj. kr., og var gert ráð fyrir því, að meginhluti þess fjár hlyti að verða til útlána á hverjum tíma, og svo lengi sem ég fylgdist nákvæmlega með þessum málum, þá sýndi það sig, að þessi áætlun um skyldusparnaðinn, tekjurnar af honum, stóðst fyllilega og gerði betur. Hitt var svo alveg vitað mál, að þegar 5 árin væru liðin og greiðslur ættu að koma aftur til þeirra, sem höfðu sparað samkvæmt skyldusparnaðarlagaákvæðunum, þá yrði auðvitað að gera ráð fyrir því að afla byggingarsjóði ríkisins tekna í staðinn. Það var engin eilífðarlausn, sem hér hafði verið gerð, en hún hafði þó verið gerð þannig, að veruleg úrbót var að í bili og meira að segja um nokkur ár fram í tímann.

Samanlagt var áætlað, að eigið fé sjóðsins til útlána gæti á næstu árum orðið um 40 millj. kr. Samkvæmt áætlun, sem trúnaðarmenn Landsbankans gerðu svo og heimiluðu að birt væri sem fskj. með þessu frv., áttu eignir sjóðsins í árslok 1961 að vera orðnar 163 millj. 230 þús. kr. og lánsupphæð samtals á árinu 1961 af þessum föstu tekjustofnum 25 millj. 640 þús. kr. Í árslok 1966 áttu eignir sjóðsins að vera orðnar 292 millj. 170 þús. samkv. þessari töflu, sem starfsmenn Landsbankans sömdu, að ég hygg eftir beztu vitund. En það er ekki von, að svona áætlun standist, þegar liður upp á 53 millj. í stóreignaskatti hefur verið að litlu leyti innheimtur og að því er fregnir herma nú ákveðið að gefa stórgróðamönnunum hann algerlega eftir. Þá verður hann auðvitað ekki til tekna fyrir byggingarsjóð ríkisins. Nú má það merkilegt heita, að málsvari þess flokks, sem þetta er að framkvæma, skuli líta yfir svona þýðingarmikið atriði í sambandi við umr. um þetta mál.

Annars var skyldusparnaðurinn settur á í tvenns konar tilgangi. Hann var í fyrsta lagi tekjuöflun um visst árabil fyrir byggingarmálin í landinu, en hann var líka settur á til þess að tryggja unga fólkinu, sem hefði lagt þetta starfsfé húsnæðismálanna í té, forgangsrétt að lánum, þegar lánið væri fallið til endurgreiðslu á ný. Og það er það, sem ég vil a.m.k. vænta að núverandi stjórnarflokkar geri ekki, að svipta unga fólkið þeim rétti, sem því var með þessum lögum helgaður, að eiga forgangsrétt að lánum, þegar skyldusparnaðarfé þess hefði þjónað byggingarmálunum eins og verða mátti og átti að koma unga fólkinu til endurgreiðslu á ný. En að einu leyti held ég, að illa hafi verið farið með unga fólkið, sem lagt hefur fram fé í skyldusparnaðinn. Í lögunum segir, að það eigi að greiða því vexti eins og almennir útlánsvextir séu. En ég er hræddur um, að það hafi gleymzt að hækka vextina til unga fólksins, og það gæti e.t.v. verið ástæða til þess að athuga, hvort ekki hafi verið brotin á því lög, þegar vextirnir voru hækkaðir almennt. Og er það þá annar gimsteinninn í kórónu þessarar virðulegu hæstv. ríkisstj. í sambandi við húsnæðismálin að hafa líklega haft stórfé af unga fólkinu, sem hefur lagt húsnæðismálastofnuninni og byggingarsjóði ríkisins til stórfé á undanförnum árum.

En mér heyrist, að myndin af því, hvernig húsnæðismálin standi núna, sé ekkert sérlega glæsileg, þrátt, fyrir það, þó að hinn virðulegi Sjálfstfl. sitji nú við stjórnvöl. Ég veit ekki betur en það sé staðreynd, að það hafi dregið mjög úr byggingu íbúðarhúsnæðis í landinu á undanförnum árum. Og orsökin til þess afturkipps er versnandi efnahagsafkoma í landinu. En þegar færri íbúðir eru byggðar, þá hefði átt að verða auðveldara fyrir húsnæðismálastofnun ríkisins að fullnægja þeim umsóknum um lán, sem bærust. En það er siður en svo. Það var upplýst hér áðan af hv. flm. málsins, að um 2000 umsóknir biðu nú að mestu leyti óafgreiddar eða algerlega óafgreiddar, og mun sjaldan hafa staðið verr í þeim efnum. Þó er upphæðin, sem nú er veitt á íbúð, aðeins að verðgildi um það bil helmingur á við það, sem var, þegar húsnæðismálalöggjöfin var seinast endurskoðuð, og hygg ég því, að öllum megi ljóst vera, að í óefni er komið um þessi mál og hefur sjaldan horft verr en nú.