27.11.1961
Neðri deild: 26. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 406 í C-deild Alþingistíðinda. (2828)

58. mál, húsnæðismálastofnun

Geir Gunnarsson:

Hv. forseti. Umr. um það mál, sem hér liggur fyrir, eru orðnar alllangar, og mun ég því ekki fara um það mörgum orðum. Af ræðum hv. 1. þm.. Vestf. (ÞK) á dögunum var að heyra, að aðstaða húsbyggjenda væri betri í dag en verið hefði í tíð vinstri stjórnarinnar. Það má heita bíræfni, að þessu skuli haldið fram, og ég veit naumast, hverjum eru ætlaðar þær upplýsingar hv. þm.. Að vísu hétu núverandi ríkisstjórnarflokkar engum aðilum meira fyrir kosningar en einmitt húsbyggjendum, en það er mikil dirfska að halda því fram, að þær ráðstafanir ríkisstj., sem sérstaklega varða húsbyggjendur, hafi bætt aðstöðu þeirra frá því, sem áður var. Það liggur líka í augum uppi, að þeim ráðstöfunum var aldrei ætlað að auðvelda almenningi byggingu íbúðarhúsa, öðru nær. Þeir sérfræðingar í efnahagsmálum, sem mótuðu þá stefnu, sem ríkisstj. beitir sér fyrir, viðreisnarstefnuna, voru ásáttir um það, að fjárfesting í íbúðarhúsabyggingum hefði verið allt of mikil á tímabilinu næst áður en núv. ríkisstj. tók við, þ.e.a.s. á tíma vinstri stjórnarinnar, og gera yrði sérstakar ráðstafanir til þess að draga ör þeim framkvæmdum. Eitt stærsta spor ríkisstj. í þá átt að tryggja þá stefnu að draga úr íbúðabyggingum var að skera niður kaupgetu almennings, en til þess að almenningur geti lagt í íbúðabyggingar eða kaup á nýjum íbúðum, þarf lífsafkoma fólks að vera á þann veg, að launin nægi fyrir meira en brýnustu daglegum neyzluvörum. Til þess að svipta almenning allri aðstöðu í þessu efni gripu Alþfl. og Sjálfstfl. til þess að lækka kaupið, banna vísitöluuppbætur á laun og hækka stórlega verð á öllum neyzluvörum með stórfelldri gengislækkun. Jafnhliða hækkaði að sjálfsögðu allt byggingarefni í verði að miklum mun. Og þær ráðstafanir, sem núv. ríkisstj. hefur gert varðandi byggingarsjóði og lánamál almennt, stefna vitaskuld í sömu átt. Þær eru beinlínis gerðar til þess að draga úr fjárfestingu í íbúðabyggingum, sem sérfræðingar ríkisstj, töldu allt of mikla.

Það er því dæmalaus bjartsýni um, að málgögnum ríkisstj. hafi tekizt að rugla dómgreind almennings, að ætla að halda því fram, að ráðstafanir, sem samkvæmt uppskrift sérfræðinga ríkisstj. eru blákalt og beinlínis gerðar til þess að draga úr byggingu íbúðarhúsa, hafi bætt aðstöðu húsbyggjenda og að hún hafi verið lakari á tíma vinstri stjórnarinnar, þegar íbúðarhús voru byggð í svo ríkum mæli, að viðreisnarsérfræðingarnir töldu þá fjárfestingu allt of mikla. Ráðstafanir vinstri stjórnarinnar í húsnæðismálum voru gerðar til þess að bæta hag húsbyggjenda, enda jukust þá íbúðabyggingar. Ráðstafanir núv. ríkisstj. í húsnæðismálum eru hins vegar gerðar til þess að skerða hag húsbyggjenda, enda dregur úr íbúðarhúsabyggingum. Þetta er ósköp einfalt mál. Það mætti jafnvel snúa þessu við og segja, að ráðstafanir vinstri stjórnarinnar í húsnæðismálum hafi verið gerðar til þess að auka íbúðarhúsabyggingar, þess vegna hafi verið gripið til þess að bæta hag húsbyggjenda, en stefna núv. ríkisstj. sé að draga úr húsbyggingum og þess vegna hafi verið gripið til þess ráðs að skerða hag húsbyggjenda.

Þótt miklar deilur standi um það, hver árangur hafi orðið af uppskrift sérfræðinganna og af ráðstöfunum ríkisstj. til þess að ná öðrum markmiðum, t.d. að draga úr skuldasöfnun erlendis, að auka sparifjársöfnun og draga úr verðbólgunni o.fl., þá held ég, að allir geti verið sammála um, að þær aðgerðir, sem sérfræðingar ríkisstj. ráðlögðu og hún framkvæmdi til þess að draga úr íbúðarhúsabyggingum, hafi verið árangursríkar. Um það verður ekki deilt. Aðferðunum til þess að ná þessu marki hafa allir húsbyggjendur kynnzt, stórhækkun á verðlagi lífsnauðsynja til þess að skerða kaupmáttinn, stórhækkun vaxta, stytting lánstíma og a.m.k. hlutfallslegur samdráttur á lánum til húsbygginga og gífurleg hækkun byggingarefnis. Það má t.d. geta þess, að tvær útihurðarskrár kosta nú í dag rífleg vikulaun verkamanns. Hvenær er honum ætlað að eignast eina íbúð? Þeir, sem eru að byggja, geta auðveldlega borið saman aðstöðuna nú og fyrir valdatöku núv. ríkisstjórnarflokka. Þeir eru margir hverjir svo lengi í byggingarbaslinu, að þeir hafa af eigin raun kynnzt báðum tímabilunum. Og það þarf ekki að lýsa mismuninum fyrir þeim eða skýra fyrir þeim efndir ríkisstjórnarflokkanna á kosningaloforðunum.

Í ræðum þeim, sem hér hafa verið fluttar, hafa þessi mái verið rakin svo, að ekki er ústæða til að tína hér allt til. Á það var m.a. minnzt, að hluti af samanlagðri úthlutun úr byggingarsjóði ríkisins s.l. ár hafi verið víxlar, sem breytt var í föst lán. Sú upphæð hefur síðan hjá hlutaðeigandi einstaklingi verið dregin frá áður væntanlegu láni. Orð hafa um það fallið, að yfirtaka víxlanna hafi verið til hagsbóta fyrir lántakendur. En í þeirri ályktun eru borin saman tilvik á tímabili núv. ríkisstj. En hvernig lítur dæmið út, sé þetta atriði borið saman við það, sem að þessum víxilskuldurum sneri fyrir efnahagsmálaráðstafanir ríkisstj.? Áður höfðu húsbyggjendur þessa víxla á 7% vöxtum. Aðstoðin, ef svo mætti kalla það, var sú að hækka alla vexti og breyta síðan þessum víxlum, sem áður voru á 7 % vöxtum, í lán með 9 % bundnum vöxtum. Það má e.t.v. segja, að skárra hafi verið að breyta víxlunum í föst lán, eftir að ríkisstj. var búin að hækka víxilvextina. En stórum eru skuldararnir verr settir nú en áður en núv. ríkisstj. lét til sín taka í þessum efnum.

Nei, það er fráleitt að halda því fram, að ráðstafanir, sem vitandi vits eru gerðar til þess að draga úr íbúðarhúsabyggingum, bæti aðstöðu húsbyggjenda frá því, sem var á tíma vinstri stjórnarinnar. Í því felst alger mótsögn. Hvernig horfa þessi mál við í augum hins almenna húsbyggjanda í dag? Sannleikurinn er sá, að í augum hins almenna húsbyggjanda hefur veðlánakerfið í rauninni verið lagt niður, miðað við það, sem var, þegar núv. ríkisstj. tók við völdum. Þau lán, sem byggingarsjóður ríkisins veitir nú, nema aðeins því, sem svarar til hækkunar á byggingarkostnaði á stjórnartímum núv. ríkisstjórnarflokka, og kannske ekki einu sinni það. Hámarkslán úr byggingarsjóði ríkisins nema 100 þús. kr., og svo hátt lán fá ekki allir. En hækkun á byggingarkostnaði vísitöluíbúðarinnar nemur um 110 þús. kr. á tímabili núv. ríkisstj., sé miðað við 26% hækkun á byggingarkostnaði, sem forsvarsmenn hennar hafa sjálfir haldið sig við í þessum umr. Upp í þann byggingarkostnað, sem fyrir var, er ekkert lánað, ekki einn eyrir. Ekkert er lánað til að mæta byggingarkostnaði, eins og hann var fyrir 2–3 árum. Lán upp í þann kostnað hafa verið felld niður, en einungis lánaðar með okurvöxtum — er óhætt að segja — þær hækkanir, sem núv. stjórnarflokkar hafa sjálfir stofnað til. Auk hækkunar á byggingarefninu sjálfu og vaxtahækkananna koma svo til stórfelldar hækkanir á neyzluvörum almennings, svo að þótt eitthvað kunni að hafa verið afgangs áður af launum manna til greiðslu á byggingarkostnaði, afborgunum og vöxtum, þá er það naumast fyrir hendi eftir aðgerðir núv. ríkisstj., enda hefur í rauninni tekið fyrir, að almennir launþegar geti hafizt handa um byggingar, svo að sérfræðingarnir og ríkisstj. geta verið ánægð með árangurinn af ráðstöfunum sínum í húsnæðismálum. hær hafa vissulega borið þann árangur, sem þeim var ætlað. Sá árangur er tryggasti dómurinn um frammistöðu núv. ríkisstjórnarflokka gagnvart húsbyggjendum. Ég held, að enginn húsbyggjandi sé í vafa um, hvort ástandið hefur batnað eða versnað síðan vinstri stjórnin fór frá. Þeir þurfa engar tölur um það, hvorki frá hv. 1. þm.. Vestf. né neinum öðrum.

Með því frv., sem hér liggur fyrir, er lagt til, að lán til húsbyggjenda séu hækkað, án þess að eitthvað a.m.k. komi upp í þann byggingarkostnað, sem var fyrir hendi, þegar núv. ríkisstj. tók við, en ekki sé látið nægja að lána hækkanirnar einar, og er sannarlega ekki vanþörf á því, þótt betur þurfi að gera í öðrum atriðum. Jafnvel þótt hærri lán stæðu til boða, dugir ekki það eitt, því að almenningur á erfitt með að standa skil á háum lánum í þeirri óðadýrtíð, sem nú hefur verið dembt yfir. Fleira þarf að koma til í húsnæðismálum, einkum aðgerðir til lækkunar á byggingarkostnaði, með tollaeftirgjöf eða öðru og með aðgerðum til lækkunar á vöxtum. En lítil von er til þess, að úrbætur fáist í þessum efnum, meðan við völd situr ríkisstj., sem hefur það að markmiði að draga úr byggingu íbúðarhúsa.