02.02.1962
Neðri deild: 40. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 409 í C-deild Alþingistíðinda. (2835)

60. mál, hefting sandfoks

Flm. (Björn Fr. Björnsson):

Herra forseti. Það frv., sem við flytjum hér til laga um heftingu sandfoks og græðslu lands, ég og hv. 3. þm.. Norðurl. e., er gamall kunningi hér í deildinni. Við fluttum sams konar frv. á síðasta þingi, sem rætt var ýtarlega við 1. umr. og vísað til nefndar, en fékk svo ekki afgreiðslu úr nefnd. Ég sé ekki ástæðu til að ræða frv. á þessu stigi svo mjög sem ég gerði í fyrra, en víst er um það, að það hefur fengið alveg einstaklega nákvæma athugun hjá sérfræðingum í ræktunarmálum og landgræðsluefnum, þannig að ég geri ráð fyrir því, að fá mál hafi verið betur undirbúin til meðferðar í Alþingi.

1957 skipaði þáv. landbrh., Hermann Jónasson, 5 manna nefnd til þess að athuga um þessi mál, og skilaði nefndin eftir mjög ýtarlega yfirvegun og rannsókn nál. Þetta er í fjórða skipti, sem þetta mál kemur til meðferðar hér í Nd., og í þriðja sinn, sem við berum það fram, þessir tveir samflutningsmenn. Í þeirri mynd, sem við berum það fram núna, var það einnig borið fram í fyrra, en var nokkuð breytt frá því, sem áður var. Eins og við berum það fram núna, er það öldungis samhljóða till. nefndarinnar, sem hafði tekið málið til endurskoðunar fyrir áeggjan og skipan núv. hæstv. landbrh. Voru gerðar nokkrar breytingar á, að áliti mínu og okkar flm. til bóta. Hefur í raun og veru algerlega verið brotið við blað í ræktunarmátum þjóðarinnar, ef frv. nær fram að ganga og verður framkvæmt í þá stefnu, sem það fer.

Það er engum vafa undirorpið, að okkur Íslendingum er mikil nauðsyn þess, ef við ætlum að halda áfram þeirri landbúnaðarstarfsemi, því starfi bænda, sem unnið hefur verið í ræktunarmálum, halda því uppi í framtíðinni, að auka mjög á gróðurlendi landsins. Síðustu áratugi — tvo til þrjá — hefur verið mikið unnið að ræktun, í raun og veru byltingarkennd þróun átt sér stað, og má segja, að það sé ekki mjög mikið eftir af landi, sem er verulega haganlegt til ræktunar, þó að það sé nokkuð. Þá er næst að taka fyrir það land, sem er litt eða alls ekki gróið. Og það er einmitt út á það svið, sem þetta frv., sem hér liggur fyrir til umr., gengur. Það er kunnara en frá þurfi að segja, hversu mjög landið okkar hefur eyðzt fyrir ýmis atvik allt frá upphafi byggðar landsins og má segja fram til síðustu ára. Orsakir þess eru, svo sem kunnugt er, af margvíslegu tagi: eldgos og jökulhlaup, ágangur vatna og sandfokið, bæði af landi og eins frá sjávarströnd, og ýmiss konar harðindi á margri tíð. Og svo hafa sjálfsagt landsmenn sjálfir oft og tíðum átt nokkurn hlut að.

Á landnámstíð mun landið hafa verið gróið mjög fram yfir það, sem nú er, og væntanlega aldrei eins gróið og það var þá, og þó að umsögn Ara hins fróða, að landið hafi allt verið viði vaxið frá fjöru til fjalla, sé kannske nokkuð ýkt, þá er það vitað, að gróður hefur verið mikill. Á seinni öldum, alveg sérstaklega á 18. og 19. öld, hefur gróður eyðzt á stóru svæði í mörgum héruðum. Sérstaklega hefur eyðing lands þó verið átakanleg í Rangárvaltasýslu og Þingeyjarsýslu, og var svo komið, að beztu menn sáu, að svo mátti ekki til ganga, að mjög hélt til landauðnar, og nú yrði að hefjast handa um landvarnir. Árið 1906 var svo samþykkt frá Alþingi löggjöf um sandgræðslu, og færðist þá sandgræðslan smám saman mjög í aukana og sandsvæði viða um land tekin til sérstakrar vörzlu og uppgræðslu. Og nú er svo komið eftir liðlega 50 ára gildi sandgræðslulaganna, að á annað hundrað þúsund hektarar munu vera innan sandgræðslugirðinga í landinu. En langstærsta átakið hefur þó verið í þessum efnum gert í Gunnarsholti á Rangárvöllum. Þessi ágæta jörð var árið 1923 svo að segja algerlega komin í eyði, en hafði þó verið áður mjög góð bújörð. Þarna í Gunnarsholti er eitt stærsta og áþreifanlegasta landvarnarátak, sem gert hefur verið. Þarna hefur svörtum sandi verið breytt í hinar gróðursælustu lendur. Landið var fyrst girt, síðan var það grætt, þar hafin túnrækt, og nú er rekinn þar mikill landbúskapur, þannig að þessi jörð er í dag vafalaust ein stærsta og bezta bújörð á landi hér. En víða um land hefur á liðnum áratugum verið unnið hið mikilvægasta sandgræðslustarf.

Í sambandi við 50 ára afmæli sandgræðslunnar var gefin út bók mikil, rituð af sérfræðingum í þessum efnum, og þar eru allir á einu máli um það, að í sandgræðslumálum hafi verið unnið eitt hið mesta nytjastarf og starfið unnið af hinum ágætustu mönnum frá fyrstu tíð og allt til þessa dags, — af mönnum, sem hafa lagt sig alla fram til að ná sem mestum árangri á hverri tíð. Svo hefur komið til, sérstaklega á síðustu árum, aukin tækni, aukin þekking og reynsla, sem hefur orðið mikilsverður aflgjafi í viðureign við enn þá stærri verkefni, og starfssviðið þannig færzt út með hverju ári, sem hefur liðið. Í upphafi var að sjálfsögðu við margvíslegustu erfiðleika að etja, bæði að sjálfsögðu vegna fjármagnsskorts, eins og er enn í dag og ekkert miður en áður var, og auk þess hvers kyns fordóma, og eru margar sögur til um það. En þetta starf, sem sandgræðslumenn með hjálp alþjóðar hafa unnið, hefur fært þjóðinni heim sanninn um það, að gera má mikið í þessum efnum, ef vel er á verði staðið og áhugi, þrek og þekking er til staðar. Ótrú á sandgræðslustarfi er að segja má alveg horfin, en í staðinn vakinn stórhugur og vilji til stærri og glæsilegri landvinninga í þágu gróðurs og aukin trú á lifsmátt lands og þjóðar.

Eins og ég sagði í upphafi, þá má segja, að fyrstu sóknarlotu bændanna í landinu með tilstyrk alþjóðar sé lokið og nú hefst önnur, þar sem farið er út fyrir það land, sem er auðræktað. yfir á land, sem er ýmist svartur sandur eða mjög lítt gróið og stendur auk þess hátt uppi í hálendinu.

Það er ekki vafi á því, ef Íslendingar eiga framtíð fyrir höndum í sínu landi, sem við öll vonum, að þjóðinni mun fjölga ört, svo sem hún hefur gert nú á síðustu tímum. Fróðir menn telja, að mannfjöldinn hér í landi gefi aukizt með áframhaldi í hlutfalli við það, sem verið hefur, um 2–3 og jafnvel 4% á hverju ári, þannig að um næstu aldamót geti mannfjöldinn orðið allt að 400 þúsund manns, og það má hver segja sér sjálfur, að það þarf mikið átak að gera í landbúnaðarmálefnum frá því, sem nú er, til þess að hægt sé að brauðfæða þjóðina, þ.e.a.s. hægt að framleiða búvörur, svo að verði nægilegt til neyzlu innanlands. Ég veit, að hæstv. landbrh. er að sjálfsögðu mjög inni á þessu og lætur sér mjög umhugað að koma fram ræktunarmálum, til þess að ekki strandi á búvöruframleiðslu, þegar þjóðinni fjölgar. Það er ekki nokkur vafi á því, að til þess að framleiðslan geti aukizt nokkurn veginn a.m.k. samstíga við neyzluþörf þjóðarinnar í framtíðinni, þarf að leggja ofurkapp á að hagnýta það land, sem hægt er að nýta á annað borð. Þessi landsvæði, sem verður að nýta í framtíðinni, eru sams konar auðlindir og sjórinn við strendur tandsins. Og þá er það jafnauðsætt; að þessi ræktun og þetta ræktunarstarf þarf að eiga sér stað mjög fljótt og samtímis því, sem þörf neyzlunnar eykst, og alls ekki verða á eftir. Þannig sjáum við, að þetta mál, græðsla sanda og annarra ógróinna lendna, er eitt þýðingarmesta framtíðarmál þjóðarinnar. Og það er þess vegna, sem við flm. gerum fyllilega ráð fyrir því og erum enda þess fullvissir, að Alþingi taki mjög í sama streng og við, þar sem við segjum í grg., að þetta mál þurfi að vinnast fram hér á þingi og verða bundið með löggjöf. Í fyrra urðu umræður allmiklar og í raun og veru að mér fannst fyrir mína parta lærdómsríkar. Kom m.a. fram hjá hæstv. landbrh., að hann var fyllilega inni á öllum höfuðþáttum þessa máls. Og ég átti líka von þess, því að hann er eins og ég úr því héraði, þar sem sandurinn hefur einna fastast sorfið að landsmönnum, og ég hef oft verið með hæstv. landbrh. á fundum eystra, þar sem þessi mál hefur borið á góma og verið mjög umrædd og hann haft fyllilega auga á því, hversu miklir hagsmunir eru hér í húfi, og ég er viss um það, að hans hugur hefur í engu breytzt.

Ég hef rætt um, að við þyrftum að auka á búvöruframleiðslu landbúnaðarins og gerðum það bezt með þeim hætti, er segir í frv., en öðrum hætti varla eða ekki. En það eru margir, sem telja, að við gætum, ef vel væri á haldið, framleitt af slíkum varningi meira en þyrfti til þjóðarneyzlu, við gætum flutt út landbúnaðarvörur. Og víst er um það, að ef í ræktunarmálefnum tekst vel til, þá mun ekki standa á bændastéttinni að vinna að sínum hlut. Hennar hlutur yrði vafalaust ekki eftir, enda hefur starf bænda á liðnum árum og áratugum leitt það í ljós, að þar hefur verið unnið hvert stórvirkið á fætur öðru, og þeir hafa, sem taka má fram og undirstrika, fengið oft og tíðum drjúgan liðstyrk frá Alþjóð gegnum löggjöf og fjárframlög.

Það er auðsætt, að það þarf að stórfjölga bústofni hér á næstunni, og hann gerir það að vísu, honum fjölgar. Bæði kúm og sauðfé fjölgar nokkuð ört, og framleiðslan hefur aukizt nú á tveimur undanförnum árum, sem fyrst og fremst er að sjálfsögðu því að þakka, að annað eins góðæri og ríkt hefur undanfarin tvö ár er mjög til undantekningar síðustu áratugi. Það þarf að fjölga væntanlega á næstu 30 árum sauðfé og kúm um a.m.k. helming og kannske mun meira, og ýmsar aðrar búgreinar þarf að færa út samsvarandi. Þetta kostar allt mikið fé, bæði að auka bústofninn og jafnframt ræktunina, til þess að geta staðið undir honum eðlilega. En eins og ég gat um áður, þá er það auðsætt, að án opinberra ráðstafana geta landbúnaðarmenn ekki lagt í þær stóru og mikilsverðu aðgerðir, sem þörfin krefur. Þess vegna er, að þetta frv., sem hér liggur fyrir og samið er af okkar helztu sérfræðingum í þessum efnum, gerir ráð fyrir því, að ríkið styrki á ýmsa lund það framtíðarstarf, sem verður unnið á vegum sandgræðslu og uppgræðslu lands yfirleitt.

Um efni frv. get ég verið fáorður. Ég veit það, að hv. dm. eru kunnugir þessu máli, og þarf ekki mjög að ræða um það. Tilgangurinn er fyrst og fremst að hindra eyðingu gróðurs, því að vissulega fram á þennan dag er eyðing gróðurs nokkur í þessu landi, og er auðsætt hverjum þeim, sem um landið fer. Auk þess á að græða upp samkvæmt ákvæðum frv. sanda, mela og aura til aukinna landsnytja í heimalöndum og á afréttum. Uppgræðsla afréttanna er fullkomið nýmæli. Ég var á ferð uppi við Veiðivötn á s.l. sumri, Veiðivötn á Landmannaafrétti, og þar varð mér litið til eins fjalls, sem er þó nokkuð hátt yfir sjávarmáli og þakið sandi, þ.e.a.s. ógróið, nema hvað ræktunarmenn frá Búnaðarfélagi Íslands höfðu tekið smárein undir til athugunar, hvernig gengi um gróður, og var þar hvanngrænn blettur nokkuð stór. Þessir ræktunarmenn halda því fram, að uppi í 300–400 m hæð frá sjávarmáli megi nokkurn veginn rækta nauðsynlegt fóður, ekki aðeins fyrir sauðfé, heldur og jafnvel fyrir kýr. Og þarna er landflæmi alveg geysilegt. Sýnist það mjög rökstutt að leggja út í ræktun á þessum slóðum, þegar undirstaðan er nokkuð trygg, að mér skilst, með rannsóknum sérfræðinga í ræktunarmálum. Það hafa víðar verið gerðar tilraunir til ræktunar uppi í hálendinu, m.a. í Árnessýslu, og eftir því sem ég bezt veit með góðum árangri.

Það er gert ráð fyrir því, að sandgræðsla yfirleitt fari fram á vegum ríkisins, þ.e.a.s. undir forustu starfsmanna ríkisins, sérfræðinga þess í þessum efnum, en þó komi til sandgræðsla enn fremur á vegum hreppa og félaga, þó undir forstjórn sandgræðslustjórnar ríkisins. En eins og ég gat um áðan, þá er það afréttauppgræðslan, sem er eitt stærsta nýmælið í þessu frv. Gert er ráð fyrir því, að heimamenn, þ.e. hreppar, sýslufélög, fjallskilafétög og félög einstakra bænda, taki nokkurn þátt í þeirri uppgræðslu við hliðina á Sandgræðslu Íslands.

Í 20. gr. frv. er gert ráð fyrir, að Sandgræðslan, í samráði við Búnaðarfélagið og jarðvegsrannsóknadeild búnaðardeildar atvinnudeilda. háskólans, geri tíu ára áætlun um framkvæmdir í sambandi við afréttauppgræðslu. Hér í frv. er gert ráð fyrir því, að þessir menn ljúki þessari áætlun fyrir árslok 1961, en því verður að sjálfsögðu að breyta og er hægast í nefnd.

Þá eru nýmæli nokkur í þessum lögum, þótt ekki séu eins stórfelld og uppgræðsla afrétta og ógróins lands. Geta má þess, að þegar gerð verða ýmis mannvirki, svo sem vegir, brýr, stíflugarðar, hafnir og fyrirhleðslur, þá ber að haga framkvæmdum þannig, að gróðri verði sem allra minnst spillt á hverjum stað og komið í veg fyrir uppblástur. Þetta er mjög mikilsvert nýmæli. Má sjá jarðrask vegna mannvirkjagerðar víða um landið og hefur valdið áframhaldandi spjöllum vegna uppblásturs á þeim stöðum.

Þá kem ég lítillega að því atriðinu, sem um er deilt og um hefur verið deilt á undanförnum árum, þ.e. kostnaðarhlið framkvæmda í þessum efnum. Nú síðast hefur nefndin, sem fjallaði um þetta mál, gert tillögu um það, að gjald verði ekki tekið af búfénaði, eins og gert var ráð fyrir í upphafstillögum nefndarinnar, heldur verði ríkissjóður látinu standa undir útgjöldum með því, að lagður verði nokkur skattur á áfengi, þannig að 5 kr. komi á hvern lítra selds áfengis. Og ég held, að ég megi segja, að nefndin hafi komizt að þessari niðurstöðu fyrir áeggjan og í samráði við hæstv. landbrh., og ég vit þakka hæstv. landbrh. fyrir að hafa komið einmitt með slíka till. Það má a.m.k. slá því föstu, að þetta er nokkuð öruggur tekjuliður, ekki sízt ef litið er til þeirrar skýrslu, sem liggur fyrir frá Áfengisverzlun ríkisins um sölu á s.l. ári. En eins og ég segi, þá má lengi deila um það, hvernig á að afla fjár í þessu efni sem og fjölmörgum öðrum, og í raun og veru ekkert við það að athuga. Höfuðatriðið er, að menn komi sér saman um, hverjar leiðir skuli fara í því efni því að það er alls ekki undankomu auðið. Það verður að afla fjár í þessu skyni. Það má líka hugsa sér, að það verði ákveðin fjárhæð lögð til þessara mála á fjárlögum hverju sinni. En það er fordæmi um það að leggja aukinn skatt á nautna- og munaðarvörur, t.d. fær Skógrækt ríkisins fé af vindlingasölu og virðist vera ekkí óheppileg leið. Og sjálfsagt er þessi tillaga komin fram, áfengisskattstillagan, með hliðsjón af því, hvernig gefizt hefur að því er varðar Skógrækt ríkisins. En sem sagt, þessi hlið málsins, kostnaðarhliðin, sem er í raun og veru sú stærsta, hún er umtalsverðust um leið. En við flutningsmenn gerum fastlega ráð fyrir því, að þegar þetta atriði er nánar íhugað, þá verði hægt að finna útgöngudyr. Og ég vil treysta því, að hæstv. landbrh. og hæstv. ríkisstj. sjái einhverja fjáröflunarleið, sem betri þætti, ef eigi er samkomulag um þá, sem í frv. getur. En sem sagt, úrlausn í þessu máli má auðsæilega ekki dragast öllu meir en orðíð er. Og þess vegna flytjum við fim, þetta frv., að við höfum ekki einungis áhuga á því, að þetta mál komist fram, heldur komist sem fyrst á leiðarenda, þannig að megi hefja af nýju og með enn þá róttækari aðgerðum uppgræðslustarfið.

Til stuðnings málinu vil ég leyfa mér að lokum að vísa til grg. mþn. í þessu máli og enn fremur til hins veigamikla rits um Sandgræðslu Íslands 50 ára, sem var gefið út á árinu 1956.

Í fyrra varð nokkurt karp um framburð þessa máts, og hæstv. landbrh. taldi, að við flm. hefðum eiginlega tekið málið frá honum. Þetta karp endaði í bróðerni, og allir urðu sammáta um það, að þetta er ekki mál einstakra þingmanna út af fyrir sig. Þetta er alþjóðarmál, og við fim. töldum, að það mætti ekki draga að flytja málið í hv. Alþingi og engin ástæða til þess. Við eignum okkur það ekki fremur en aðrir þm.. geta eignað sér það, en við teljum okkur hafa nokkra skyldu á hendi um að bera slík hagsmunamál fram, þegar dregizt hefur úr hömlu af hálfu þeirra, sem skylduna hafa ríkasta að bera þau fram.

Ég leyfi mér svo að óska þess, að máli þessu verði vísað til 2. umr. og landbn. að lokinni þessari umr. málsins.