13.11.1961
Neðri deild: 17. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 421 í C-deild Alþingistíðinda. (2846)

68. mál, verslunaratvinna

Flm. (Einar Sigurðsson):

Hæstv. forseti. Frv. það á þskj. 86, sem ég hef leyft mér að flytja, felur í sér rýmkun á leyfi til verzlunarrekstrar í sveit. Nú er kveðið svo á í lögum nr. 52 27. júní 1925, að meðmæli sýslunefndar þurfi til að fá leyfi til verzlunarrekstrar í sveit. Í fyrrnefndum lögum um verzlunaratvinnu segir svo í 2. og 3. gr., með leyfi hæstv. forseta:

„Enginn má reka verzlun á Íslandi eða í íslenzkri landhelgi, nema hann hafi fengið til þess leyfi lögum þessum samkvæmt.”

Hver maður, karl eða kona, giftur sem ógiftur, getur fengið leyfi til verzlunar, enda hafi réttur til verzlunar ekki verið af honum dæmdur, ef hann:

1) Er heimilisfastur á Íslandi, þegar leyfi er veitt, og hefur verið það síðasta árið.

2) Er fjárráður.

3) Hefur forræði á búi sínu og hefur haft það síðasta árið. Ekki má veita þeim verzlunarleyfi, sem tvisvar hefur orðið gjaldþrota, nema komizt hafi á löglegir samningar um skuldagreiðslur milli hans og lánardrottna hans.

4) Hefur ekki verið dæmdur sekur um verk, sem er svívirðilegt að almenningsáliti. Ekki má veita manni verzlunarleyfi, ef ráðin hefur verið höfðun opinbers máls á hendur honum fyrir verk, sem er svívirðilegt að almenningsáliti, fyrr en hann hefur verið sýknaður með dómi.

5) Sannar, að hann hafi þá þekkingu á bókhaldi og vörum, sem telja má nauðsynlegt til þess að reka verzlun. Ráðherra setur nánari fyrirmæli um það, er hér að lýtur, eftir að hafa leitað álits verzlunarráðsins og Sambands íslenzkra samvinnufélaga. Fyrirmæli þessa töluliðs taka ekki til sveitaverzlana.

6) Fullnægir að öðru leyti þeim skilyrðum, sem eru sett eða sett kunna að verða í lögum til þess að mega reka verzlun:

Þetta sýnist vera æði nóg skilyrði til þess, að maður geti fengið leyfi til verzlunarrekstrar, og er óeðlilegt að mínu áliti, að það sé bundið nokkrum frekari skilyrðum. En þegar umsækjandi uppfyllir þessi skilyrði, sem honum eru sett í lögum, virðist ekki þurfa frekari meðmæli sýslunefndar, en svo er ákveðið í þessum lögum, ef hann hyggst reka verzlun í sveit, en þess er hins vegar ekki krafizt, ef umsækjandi hyggst opna verzlun eða reka verzlun í kaupstað eða bæ.

Hér skal ekki farið út í neinar hugleiðingar um þægindin fyrir hinn almenna neytanda, að hann eigi sem stytzt að sækja í verzlun. Þetta var meira atriði áður en nú, þegar bílarnir eru komnir til sögunnar. En alltaf hlýtur það að vera kostur, að ekki sé allt of langt milli verzlunarstaða. Hitt er svo annað mál, hvort umsækjandi um verzlunarleyfi sér sér ábata í því að starfrækja verzlunina með tilliti til afkomumöguleika, og það verður að vera eftir hans mati.

Hér er gert ráð fyrir því, að þetta ákvæði í lögum, sem lagt er til að fellt verði niður, hafi í einstaka tilfellum reynzt fjötur um fót þeirra, sem hafa viljað hefja verzlun, og er með tilliti til þess, sem hér hefur verið sagt, eðlilegt að ryðja því úr vegi. Því er þetta frv. flutt. En það, sem lagt er til að verði fellt úr lögum, er í 11. gr. laganna og er á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Leyfi til sveitaverzlunar má ekki af hendi láta, nema sýslunefnd telji heppilegt, að verzlun sé í þeirri sveit, enda sé umsækjandi þar heimilisfastur og að hennar dómi hæfur til að reka verzlun.”

Ég legg að svo mæltu til, að frv. verði vísað til 2. umr. að lokinni þessari umr. og til allshn.