11.12.1961
Neðri deild: 35. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 227 í B-deild Alþingistíðinda. (285)

107. mál, verðlagsráð sjávarútvegsins

Frsm. meiri hl. (Pétur Sigurðsson):

Hæstv. forseti. Sjútvn. hv. d. varð ekki sammála um afgreiðslu þessa máls. Meiri hl. telur óráðlegt að gera veigamiklar breytingar á þessu frv., sem er orðið til vegna samstöðu margra hagsmunahópa. Við gerum að vísu breytingu á einni gr. frv., 9. gr. Þar viljum við undirstrika betur en gert er í frv., að hver og einn í verðlagsráði hafi neitunarvald, og enn fremur, að í yfirnefndinni eigi fulltrúi Landssambands ísl. útvegsmanna engra þeirra hagsmuna að gæta, sem fallið gætu saman við hagsmuni fiskkaupenda. Með þessu má segja, að í sjálfu sér sé ástæðulaust að karpa um innbyrðisskiptingu í sjálft verðlagsráð. Hins vegar sagði ég við 1. umr., að sú skipting, sem frv. kveður á um, geti orðið ástæða fyrir tortryggni frá hendi sjómanna, sem eins og aðrir landsmenn vita, að Landssamband ísl. útvegsmanna er ekki eingöngu byggt upp af fiskseljendum, heldur fiskkaupendum líka. Hins vegar er það skoðun okkar í meiri hl. sjútvn., að við viljum ekki setja frv. í hættu fyrir þetta atriði vegna þess, hversu tryggilega er um búið, að í yfirnefndinni sé um raunverulega fiskseljendur að ræða, ef hún þarf að taka til starfa.

Ef frv. þetta verður að lögum, er hér um stórt og mikið hagsmunamál sjómannastéttarinnar að ræða og gamalt baráttumál hennar. Sjómenn verða með samþykkt þess nú í fyrsta sinn aðilar að samningum um fiskverð. En það má segja, að það sé ekki aðeins hagsmunamál íslenzkra sjómanna, heldur er það vissulega hagsmunamál íslenzku þjóðarinnar, sem verið er að tryggja með þessu frv., því ef það verður samþykkt, eru líkindi á því og miklar vonir við það bundnar, að komizt verði hjá ágreiningi, sem leitt getur til hins alvarlegasta ástands í útgerðarmálum þjóðarinnar, eins og við höfum því miður dæmi fyrir.

Meiri hl. sjútvn. mælir með, að frv. verði samþ. með þeirri breytingu, sem er á þskj. 180.