21.11.1961
Neðri deild: 23. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 425 í C-deild Alþingistíðinda. (2854)

75. mál, byggingar íbúðarhúsa í kaupstöðum og kauptúnum

Jón Pálmason:

Herra forseti. Samkvæmt þessu frv., sem hér liggur fyrir, er ráðgert að gera byggingum í kaupstöðum miklu hærra undir höfði með lánsfé en þekkist í sveitum. Hér er farið fram á að lána hvorki meira né minna en 65% af kostnaðarverði húsanna og að ríkissjóður leggi árlega fram 5 millj. kr. í þennan sjóð.

Nú er það svo, að til íbúðarhúsa í sveitum voru lengi veittar 60 þús. kr. á hús, og er nú alveg nýlega búið að samþykkja af stjórn Búnaðarbankans að færa lánshæðina upp í 100 þús. kr. Hún var á tímabili 75 þús. og svo nokkur ár 90 þús. og fer núna upp í 100 þús., og það mun aldrei verða meira en sem svarar 30% af kostnaðarverði húsanna. Ég vildi aðeins vekja athygli á þessu í sambandi við þetta frv. Ef það er ætlun manna að samþykkja þetta frv., verður það að fylgjast með að hækka stórlega lánsfé til íbúðarhúsa í sveitunum, því að sannleikurinn er sá, að það er miklu meiri þörf á að styrkja byggingu þeirra húsa heldur en í kaupstöðum, vegna þess að kostnaðarverð húsa nú er orðið svo hátt, að það er útilokað, að það komi fram í verði jarðarinnar. Í kaupstöðum hefur fram að þessu hins vegar verið svo, að það hefur verið hægt að selja húsin á kostnaðarverði og oft miklu meira en það. Hér verður að tryggja, að það sé nokkurn veginn samræmi á milli, ef farið er að breyta frá því, sem verið hefur.