21.11.1961
Neðri deild: 23. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 426 í C-deild Alþingistíðinda. (2857)

82. mál, gatnagerð á vegum bæjar- og sveitarfélaga

Flm. (Ingi R. Helgason):

Herra forseti. Háttvirtir þingdeildarmenn. Nokkrir þingmenn úr hópi þingflokks Alþýðubandatagsins flytja hér frv. til laga á þskj. 107 um opinbera aðstoð við varanlega gatnagerð á vegum bæjar- og sveitarfélaga. Af okkar hálfu er litið svo á, að hér sé um mikið nauðsynjamál að ræða., og ég vænti þess, að undirtektir hv. þingdeildar undir málið verði í samræmi við þá skoðun okkar, það fái skjóta og góða afgreiðslu í hv. d. Einnig leyfi ég mér að vonast til, að hæstv. ríkisstj. hafi sama skilning á þessu máli og reyni fyrir sitt leyti að hraða því, að það verði að lögum.

Efni þessa frv. er í sjálfu sér skýrt og augljóst, og enginn hv. þdm. fer í neinar grafgötur um þýðingu þess og nauðsyn. Enda þótt vegakerfi í landinu hafi lengzt að miklum mun á síðustu árum og batnað, þá búum við að mestu leyti við malarvegi, sem hafa mikla ókosti og ágalla. Kostnaður við viðhald á þessum vegum er mjög mikill, og maður þekkir ástand þeirra, þegar rigning er og þegar sólskin er, og sérstaklega í kauptúnum og í kaupstöðum et- gatnagerð af slíku tagi til mikils vansa.

Ég ætla rétt aðeins að hlaupa yfir greinar frv. í örstuttu máll.

Í 1. gr. segir, að stofna skuli sjóð, sem heiti gatnagerðarsjóður, og tilgangur þessa sjóðs er sá að stuðla að varanlegri gatnagerð í kaupstöðum og kauptúnum hér á landi. Í 2. mgr. þessarar 1. gr. er gefin skýring á því, hvað telst vera varanleg gatnagerð, en það er lagning nýrra vega og gangstétta með slitlagi úr steinsteypu eða hverju öðru efni, sem metið er jafngildi hennar, svo og lagning varanlegs slitlags á eldri götur og gangstéttir.

Í 2. gr. frv. segir um, hvaða tekjur skuli renna í gatnagerðarsjóð. Í gengislækkunarlögunum 19. febr. 1960 var lagt á sérstakt benzíngjald, innflutningsgjald af benzíni, sem nam 1.16 kr. á hvern lítra af benzíni. Þetta innflutningsgjald gefur ríkissjóði milljónatugi í tekjur á ári. Það má reikna með því, að 1 eyrir af þessu gjaldi gefi ríkissjóði um það bil 500 þús. kr. í tekjur á ári, miðað við notkunina á benzíni á árinu 1960. Nú er það svo, að aðeins notendur og eigendur farartækja í landinu, benzínfarartækja, greiða þetta gjald og standa undir þessum tekjum í ríkissjóð. Það er mikið hagsmunamál fyrir þá, að vegalagning sé slík, að reynt sé að forða óþarfaviðhaldi á farartækjum þeirra, og má segja, að um hagsmunamál þeirra sé að ræða, að eitthvað af þessu gjaldi fari til varanlegrar gatnagerðar. Það er hliðarsjónarmið í þessu máli. Hér er lagt til í frv. í 2. gr., að 40 aurar af innflutningsgjaldinu, eins og það var ákveðið í gengislækkunarlögunum frá 1960, gangi í gatnagerðarsjóð. Það þýðir, að gatnagerðarsjóður fær 20 millj. kr. á ári af þessu innflutningsgjaldi, sé miðað við notkun benzíns á árinu 1960. Einnig er lagt til, að í gatnagerðarsjóð renni einnig 20% af þungaskatti bifreiða, sem. er í raun og veru sérstakur skattur bifreiða, sem hafa dísilolíu fyrir orkugjafa. Þessi 20% þýða, miðað við þungaskatt bifreiða á árinu 1960, kringum 5 millj. kr. — 2. gr. frv., sem fjallar um tekjur í gatnagerðarsjóð, gerir þess vegna ráð fyrir, að gatnagerðarsjóður geti á fyrsta ári sínu ráðið yfir 25 millj. kr. til þess að stuðla að varanlegri gatnagerð á vegum bæjar- og sveitarfélaga.

Í 3. gr. eru ákvæði um, hvernig framlögum gatnagerðarsjóðs til sveitarfélaganna skuli háttað. Þau skulu ákvarðast af sérstakri sjóðsstjórn gatnagerðarsjóðs í samráði við Samband íslenzkra sveitarfélaga, og framlögin eiga í fyrsta lagi að miðast við rúmmetra slitlags og eiga líka að vera bundin við þá höfuðviðmiðun, að bæjarfélögin og sveitarfélögin leggi jafnháa fjárhæð á móti til þessara framkvæmda. Þó er gert ráð fyrir í 2. mgr. þessarar greinar, að hægt sé að hækka þetta hlutfall upp í 60%, þar sem um mjög slæmar aðstæður við vegagerð er að ræða.

4. gr. frv. fjallar um stjórn gatnagerðarsjóðs. Hún skal kosin hlutbundinni kosningu hér á hv. Alþingi og skipuð 5 mönnum.

5. gr. fjallar um það, að gatnagerðarsjóður sé undanþeginn tekjuskatti, útsvari, stimpilgjaldi og öðrum sköttum til ríkis og bæjar- og sveitarfélaga, og er þetta ákvæði hliðstætt ákvæði í lögunum um hafnarbótasjóð.

6. gr. frv. segir fyrir um það, hvernig bæjar- og sveitarstjórnir skuli sækja um framlög úr sjóðnum, og er reiknað með því, að þær sendi umsóknir sínar til stjórnar gatnagerðarsjóðs fyrir 1. des. ár hvert og láti þeim umsóknum fylgja áætlun um framkvæmdirnar og upplýsingar um, á hvern hátt — t.d. í fjárhagsáætlun — þeirra fjármuna verði aflað, sem koma sem hluti bæjarog sveitarfélags til þessarar gatnagerðar á móti framlagi gatnagerðarsjóðs. Síðan er ákveðið í þessu frv., að sjóðsstjórnin meti umsóknir og hafi lokið því mati sínu fyrir 1. febr. næsta á eftir, þannig að bæjar- og sveitarfélögunum sé kunnugt um það fyrir 1. febr. ár hvert, hvort þau fá framlag úr gatnagerðarsjóði fyrir yfirstandandi ár eða ekki.

7. gr. frv. fjallar um það, að ef fjárhagur gatnagerðarsjóðs leyfir, þá sé sjóðsstjórninni heimilt að lána bæjar- og sveitarfélögum hluta af þeirra framlagi til hinnar varanlegu gatnagerðar, og þó er tekið fram, að hvergi megi þær lántökur verða til þess að torvelda sjóðnum að fullnægja því, sem honum er ætlað í 1. gr. um bein framtög. Verða þess vegna vaxtakjör og lánstími að miðast við það, að sjóðurinn sé alltaf fullfær um að sinna sínum verkefnum eftir 1. gr. frv.

8. gr. og 9. gr. er óþarft að útskýra. Þar er reiknað með, að vegamálastjóri sé framkvæmdastjóri gatnagerðarsjóðs og sjái um vörzlu sjóðsins, bókhald og fjárreiður, og ég tel það eðlilega skipan mála, sem og hitt, að ráðherra sá, sem fer með samgöngumál, setji í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd þessara laga.

Ég tel óþarft að fjölyrða frekar um málið við þetta tækifæri, nema sérstakt tilefni gefist, og leyfi mér að óska eftir því, að málinu verði vísað til 2. umr. og til hv, heilbr: og félmn.