12.02.1962
Neðri deild: 47. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 447 í C-deild Alþingistíðinda. (2888)

127. mál, áætlunarráð ríkisins

Flm. (Einar Olgeirsson):

Forseti. Ég hef leyft mér að flytja hér á þskj. 256 frv. til laga um áætlunarráð ríkisins. Ég hef flutt svipað frv. áður, en í þetta skipti breytt þessu frv. mikið, m.a. með tilliti til þess, að mér virðist svo sem þessi spurning um áætlunarráð hjá ríkinu og jafnvel áætlunarbúskapur sé að koma svo miklu meira á dagskrá hjá okkur, að það sé rétt fyrir okkur að reyna að gera okkur nokkra hugmynd um, hvernig við gætum við núverandi þjóðfélagsskipulag framkvæmt slíka stórbreytingu eins og það er að hverfa til þess að búa til áætlanir um þjóðfélagsþróunina og reyna að framfylgja þeim.

Ég vil þá í fyrsta lagi taka það fram í sambandi við þetta frv., — sem ég mun nú ekki fara mjög rækilega í, heldur hins vegar reyna að gera sjálfum mér og öðrum nokkra grein fyrir þeim forsendum, sem ég álit fyrir því, að við gætum eins og nú standa sakir á Íslandi framkvæmt slíkt, — hverjar eru þær pólitísku forsendur fyrir framkvæmd svona áætlunarráðs. Ég held, að það sé óhætt að fullyrða, að skilningur á því, hve nauðsynlegt það væri í þjóðfélagi að hafa áætlunarbúskap að meira eða minna leyti, hafi farið mjög vaxandi. Alls staðar, þar sem menn vilja knýja fram tiltölulega örar framfarir, bæði í atvinnulífi og í lífskjörum manna, komast menn að þeirri niðurstöðu, að það þurfi til þess að skapa sér ákveðnar hugmyndir um, hvernig þróunin skuli gerast, sem sé menn hverfi meira og meira burt frá því að láta atvinnulífið afskiptalaust og til þess að reyna að skapa sér ákveðnar hugmyndir um, hvernig maðurinn eigi sjálfur að þróa sitt atvinnulíf. Það, sem hefur hreytt mjög skoðunum manna í þessu efni, er, að sósíalisminn, þann tíma sem hann hefur nú verið framkvæmdur í heiminum, hefur sýnt mönnum og sannað, að það er hægt að skapa hjá tiltölulega frumstæðum þjóðum mjög miklar framfarir á tiltölulega skömmum tíma, séð frá sjónarhóli mannkynssögunnar, og þetta hefur orðið til þess, að líka í auðvaldsskipulaginu hafa menn meira og meira farið að taka upp þær aðferðir að reyna, þótt erfitt sé að ýmsu leyti við venjulegt auðvaldsskipulag að framkvæma það, þá hafa menn reynt meira og meira að taka upp þær aðferðir að koma á hjá sér áætlunum um þróun þjóðarbúskaparins, og ég álít, að undir vissum kringumstæðum sé mögulegt í einu þjóðfélagi, þótt ekki sé sósíalistískt, að koma þar við áætlunarbúskap að meira eða minna leyti. Skilyrðin til þess eru í fyrsta lagi, að viðkomandi ríki hafi yfirstjórn á utanríkisverzluninni og þar með það eftirlit, sem í því felst. Í öðru lagi, að það sé yfirstjórn ríkisins á bönkunum og þar með á fjárfestingarpólitíkinni. Og eins og menn vita, hafa þessar forsendur að mjög miklu leyti verið til staðar hér hjá okkur á Íslandi um alllangan tíma. M.ö.o.: undir svona kringumstæðum sé hægt að framkvæma að meira eða minna leyti áætlunarbúskap og það þó að einkaatvinnurekstur sé allmikill, einkum þó þegar bankarnir eru ríkiseign og þegar ríkið sjálft og bæirnir hafa við hliðina á einkaatvinnurekstrinum með allmikinn atvinnurekstur að gera. Hins vegar er það nokkurn veginn gefið, að til þess að svona áætlunarbúskapur sé framkvæmanlegur, þurfa auk þessa fyrirkomulags að vera þær pólitísku forsendur fyrir hendi, annaðhvort áhrif verkalýðshreyfingarinnar á ríkisvaldið og verkalýðsstéttarinnar yfirleitt að vera mjög sterk og skilningur annarra stétta í þjóðfélaginu á nauðsyn svona áætlunarbúskapar allríkur, eða þá ef um er að ræða land, sem er nýlosnað úr nýlendufjötrum, þannig að stéttirnar í því landi, bændastétt, verkamannastétt og borgarastétt, hafa allar meira eða minna hagsmuni af því að byggja upp hjá sér tiltölulega sterkt, nýtt atvinnulíf og geti þess vegna sameinazt um að koma á hjá sér hröðum framförum. Við þekkjum dæmin um þetta hvort tveggja, annars vegar í Noregi, þar sem þeir um alllangt skeið hafa með nokkrum árangri búið út áætlanir á hverju ári fyrir þróun þjóðarbúskaparins og með því megnað að halda Noregi nokkurn veginn utan við atvinnuleysi, og dæmi um hið síðara höfum við í fjölmörgum af þeim nýlendum, sem nýlega hafa verið að verða frjáls ríki, þar sem menn eiga miklar auðlindir og stéttirnar hafa að meira eða minna leyti komið sér saman um að reyna að þróa atvinnulifið á grundvelli þessara auðlinda sem fyrst. Þess vegna er það engin tilviljun, að eitt eða annað form af áætlunarbúskap hefur verið tekið upp í ákaflega mörgum ríkjum Afríku og Asíu, þeim sem öðlazt hafa frelsi á síðustu tveim áratugum.

Eins og ég veit að menn kannast við, þegar þeir heyra þessar skoðanir, þá sjá menn, að að nokkru leyti hefur þetta líka verið til staðar hér hjá okkur á Íslandi á undanförnum tveim áratugum og þess vegna verið gerðar hér um tíma slíkar tilraunir og verið barizt fyrir því að koma hér á áætlunarbúskap. En það, sem þar hefur aftur á móti truflað, eru þau útlendu áhrif, sem vissar stéttir hér innanlands hafa orðið fyrir. Þingflokkur Alþb. og þingflokkur Sósfl. voru ætíð fylgjandi því að koma hér á áætlunarbúskap. Og Alþfl. var á sínum tíma mjög eindregið fylgjandi því og barðist fyrir því í þeirri fyrstu stjórn, sem hann tók þátt í, og hefur mér vitanlega aldrei horfið frá því fyrirkomulagi sem kenningu, þannig að þessir tveir flokkar verkalýðshreyfingarinnar, sem hér er um að ræða, hafa á undanförnum þrem áratugum á einn eða annan hátt staðið með því og jafnvel reynt að knýja fram tilraunir til þess að koma hér á áætlunarbúskap. Báðir borgaraflokkarnir á Íslandi, Sjálfstfl. og Framsfl., hafa á ýmsum tímum tekið að vísu nokkuð mismunandi afstöðu til þessa, en þó á vissum tímum báðir að meira eða minna leyti, ýmist í orði eða verki, tekið þátt í því eða lýst sig fylgjandi slíku. Sjálfstfl. eða meiri hluta hans gerði það 1944 með þeirri tilraun, sem þá var gerð í sambandi við nýbyggingarráð, og Framsfl. lýsti sig 1956 fylgjandi því, að slíkt væri gert, er vinstri stjórnin var mynduð, þó að ekki yrði úr framkvæmdum, og eftir því sem ég hef heyrt af siðasta miðstjórnarfundi Framsfl. eða landsfundi hans, þá mun þar hafa verið ákveðið að beita sér fyrir framkvæmdaáætlun hér á Íslandi. Hins vegar hefur það orðið svo, að í hvert skipti, sem verulega rík hafa orðið áhrif ameríska auðvaldsins hér á Íslandi, þá hafa þessir borgaraflokkar haft tilhneigingu til þess að hörfa frá þessu. 1947, þegar amerísku áhrifin brjótast hér í gegn og sú sjálfstæða íslenzka atvinnupólitík, sem áður hafði verið rekin, var brotin niður, þá gerðu menn sér vonir um að geta kannske þróað Ísland og íslenzkt atvinnulíf með svokallaðri frjálsri samkeppni. Og við urðum í upp undir 10 ár að bíta í það súra epli að sjá okkar framfarir meira eða minna stöðvast hér á landi þess vegna á vissum sviðum. 1959 komu aftur upp samsvarandi tálvonir, þegar þeir sömu menn, sem í dag ákalla hvað mest hjálp ríkisins, voru að boða það, að eingöngu með frjálsri samkeppni og með því að hörfa aftur til þeirra gömlu góðu daga kringum 1920 væri hægt að skapa framfarir í íslenzku atvinnulífi. Menn sjá nú þegar, hvernig það hefur gersamlega misheppnazt.

Það hefur þess vegna verið til staðar á undanförnum 20 árum nokkur skilningur á vissum tímabilum, líka hjá borgaraflokkunum á Íslandi, fyrir því, að Ísland ætti að meira eða minna leyti að taka upp áætlunarbúskap, án þess þó, — og það hefur verkalýðshreyfingin ekki heldur haldið fram að þyrfti að gera, — að útrýma með því einkaframtakinu, heldur ætla einkaframtakinu sitt vissa svið í þjóðfélaginu við hliðina á samvinnufyrirtækjum, bæjarfyrirtækjum og ríkisfyrirtækjum, og það, sem þetta frv. mitt gengur út frá, er, að það sé reynt að koma á samstarfi á milli hinna ýmsu stjórnmálaflokka á Íslandi án tillits til þess, hvort þeir eru á hverjum tíma í ríkisstj. eða í stjórnarandstöðu, um það að koma á og viðhalda áætlunarbúskap á Íslandi. Þess vegna breytti ég þannig því frv., sem ég hef áður flutt hér, að ég legg til, að Alþingi kjósi að loknum hverjum alþingiskosningum fimm manna nefnd, sem sé áætlunarráð ríkisins, ríkisstj. skipi formann úr hópi nm. og ríkisstj, skipi líka framkvæmdastjóra. Áður hafði ég lagt til, eins og var venjulega hér hjá okkur áður, þegar við gerðum slíkar tilraunir, að ríkisstj skipaði sjálf áætlunarráð. Ástæðan til þess, að ég legg þetta til, er sumpart sú, að ég sé, að a.m.k. ýmsir menn úr öllum flokkum viðurkenna að meira eða minna leyti nauðsynina á þessu, og hins vegar er alveg gefið, að ef við ætlum að gera af alvöru tilraun til þess að framkvæma svona áætlunarbúskap á Íslandi, í þjóðfélaginu, eins og það er nú, þá verður að vera hjá meiri hluta Alþingis á öllum tímum meira eða minna samstarf og helzt líka við viðkomandi stjórnarandstöðu um þetta. Það liggur einfaldlega í því, að a.m.k. þegar við ætlum að fara að leggja hér í einhverjar stærri framkvæmdir, við skulum segja að virkja okkar helztu fossa, virkja Þjórsá og virkja Jökulsá og koma upp í sambandi við það máske einhverri stóriðju, þá verður þetta fyrirtæki, sem getur tekið 5–6 ár að koma upp, og áætlanirnar, sem verða að miðast við slíka þróun þjóðarbúskaparins, verða ekki bara eins árs og fimm ára áætlanir, heldur jafnvel allt upp í 10 ár, þannig að með fjögurra ára kjörtímabili er óhugsandi að ætla að gera þessa hluti, án þess að þingflokkarnir standi meira eða minna saman um þetta, eða a.m.k. svo öruggur og stór meiri hluti, að um þetta náist verulegt samstarf, þannig að þó að ein ríkisstj. byrji á svona áætlunarbúskap á einum tíma og hún síðan fari frá, verði í minni hluta, við næstu kosningar og önnur ríkisstj. taki við, þá hafi verið það mikið samræmi og samstarf í því að ákveða þessa hluti, að allar þær fyrirætlanir og áætlanir, sem fráfarandi ríkisstj. hafi gert, séu ekki þar með meira eða minna eyðilagðar og það verði að byrja alveg frá nýju. Við verðum að gá að því, að með hinni gífurlegu tækniþróun nútímans á okkar litla þjóðfélag svo mikið í húfi. þegar það leggur út í einhverja stóriðju, að það getur eiginlega sporðreist þjóðfélagíð, ef grundvöllurinn að slíku hefur ekki verið athugaður vel og menn komizt að sameiginlegri niðurstöðu um það, að án tillits til þess, hverjir það eru, sem fara með völdin á hverjum tíma, þá sé þessum stórvirkjunum, sem um er að ræða, haldið áfram, sem sé að sjálf heildarstefnan í sambandi við uppbyggingu atvinnulífsins, ákvörðun og framkvæmd áætlunarinnar, haldist, þó að skipti um ríkisstj. Það er sú hugmynd, sem fyrst og fremst liggur á bak við þær breytingar, sem ég hef gert á þessu frv. Og einmitt vegna þess, að núv. ríkisstj. er nokkuð að tala um áætlunarbúskap, áætlun til allmargra ára, þá held ég, að það sé því þýðingarmeira að undirstrika, að það verður að vera sem allra viðtækast samkomulag í íslenzka þjóðfélaginu um að leggja í slíkt. Það er svo mikið átak, sem við gerum með því, það krefst svo mikils skilnings af öllum aðilum, það krefst svo mikils samstarfs á milli atvinnurekenda, verkamanna, bænda og annarra, að það er svo að segja óhjákvæmilegt, að stéttir þjóðfélagsins séu sem allra mest sammála um það, sem út í er lagt. Við verðum að gá að því, að við stöndum hér í mjög svipuðum kringumstæðum og margar þær þjóðir, sem nú hafa verið síðustu árin að öðlast frelsi, standa svo að segja með ónumið land, að við verðum frá upphafi að reyna að tryggja, að það, sem við gerum í þessum efnum, sé rétt, það sé skynsamlegt og það verði helzt gert með því, að menn beri ráð sín saman um það sem allra mest. Ég hef satt að segja ekki mjög mikla trú á, að þeir útlendu sérfræðingar, sem hingað eru kallaðir, leiði okkur í allan sannleika um slíkt með nokkurra mánaða dvöl hér í hvert skipti. Ég held, að við verðum fyrst og fremst að rannsaka þetta sjálfir, en vera þó alveg óhræddir við að nýta ráð erlendu sérfræðinganna, hvaðan sem þau koma, en fyrst og fremst verðum við að reyna að hafa vald á þessum málum sjálfir.

Þá vil ég alveg sérstaklega undirstrika það í sambandi við þetta frv. nú, að ég álit, eins og málum er komið hér í Vestur- og Norður-Evrópu, að þá eigum við raunverulega bara tveggja kosta vill. Ef við ætlum að reyna að halda Íslandi sem sjálfstæðu landi, þá verðum við að fara inn á meira eða minna áætlunarbúskap. Valið stendur raunverulega á milli þess að innlimast í það mikla Vestur-Evrópubandalag, sem nú er í uppsiglingu, Efnahagsbandalagið svokallaða, og missa þar með raunverulega alla stjórn á þróun okkar atvinnulífs og þar með grundvöllinn að okkar sjálfstæði, eða hins vegar að reyna að koma hér á áætlunarbúskap. Og hvað er það, sem knýr okkur til þess? Það, sem knýr okkur til þess, er sú tæknilega þróun í þjóðfélaginu. Öll tæknileg þróun þessarar aldar hefur gengið í þá átt að skapa stærri og stærri heildir, og það er þróun þessi í stærri og stærri heildir, sem nú er að skapa þau risavöxnu ríki, sem eru að rísa upp í kringum okkur, eins og Efnahagsbandalagið, og ef við ætlum þess vegna að reyna að lifa sem lítið sjálfstætt ríki, þá verðum við a.m.k. sjálfir að standa sameinaðir. Það þýðir, að við verðum þá sjálfir í þessu litla landi að skipuleggja okkar þjóðarbúskap sem eina þjóðfélagslega heild og stjórna henni þannig, jafnvel þó að við höfum mismunandi skipulagsform innan þeirrar þjóðfélagsheildar hvað rekstur snertir. Hér á Íslandi voru við síðasta aðalmanntal, 1950, taldir 38 þús. verkamenn. Það er nokkurn veginn sama tala og vinnur hjá stærsta fyrirtæki Svíþjóðar, rafmagnshringnum sænska. Við sjáum bezt á slíku, að ef við ættum að reyna að tryggja sæmileg lífskjör fyrir okkar alþýðu, þá verðum við að geta fullnægt kröfum þeim, sem nútíminn gerir í þeim tæknilegu efnum, og það verður ekki gert nema með því að reka hluti í jafnstórum stíl og reka þá með því móti að geta hagnýtt yfirburði stórrekstrar yfir smárekstur, eftir því sem frekast er mögulegt. Og þó er það hjá þjóð eins og okkar alltaf mjög takmarkað, hvað mikið maður þorir að leggja í stóran rekstur, en a.m.k. þá, ef um smárekstur er að ræða, að þar sé sem allra mest samstarf og sem allra bezt skipulagning. Ég held þess vegna, að það sé alveg ótvírætt, að ef við eigum að reyna að halda Íslandi sem sjálfstæðu landi, þá þurfum við í vaxandi mæli; í ríkari og ríkari mæli að taka upp hjá okkur áætlunarbúskap.

Menn vilja nú kannske spyrja, hvernig þessi boðskapur, ekki sízt um slíkt samstarf á milli atvinnurekenda, verkamanna, bænda og annarra stétta, samrýmist þeirri stéttabaráttu, sem háð er í þjóðfélaginu. Ég vil taka það fram í því sambandi, að ef hér tækist að koma á áætlunarbúskap og það áætlunarbúskap, sem einkenndist af þeirri dirfsku og stórhug, sem nauðsyn væri á, og þar með af þeirri hröðu aukningu í atvinnulífinu, sem hægt væri að skapa hér, þá verða raunverulega atvinnurekendur og verkamenn, baendur og aðrar stéttir þjóðfélagsins aðeins að koma sér saman um það, svo að ég noti orð, sem okkar hagfræðingar vilja gjarnan nota oft núna, — þeir verða að koma sér saman um það að gera kökuna, sem ætti að skipta, sem stærsta. Um það ættu menn að geta orðið sammála, að því ættu menn að geta staðið sameiginlega að auka þjóðarframleiðsluna sem mest og sem hraðast og sem skynsamlegast. Síðan verður stéttabaráttan að segja til um og valdahlutföllin í henni, hvernig kakan skiptist, alveg eins og hún gerir það nú. Því sterkari sem verkamenn og aðrar alþýðustéttir eru og því betur sem þær halda saman, því meira réttlæti geta þær knúið fram í því, að þær fái sinn rétta hluta úr þessari þjóðarframleiðslu og auðvaldið rifi það ekki til sín í sinum venjulega vargaskap. En hins vegar er það nokkurn veginn gefið, að um það verða nokkuð skiptar skoðanir, hve hratt sé hægt að auka þjóðarframleiðsluna. Og þar hef ég tekið upp í þetta frv. till., sem, ef að lögum yrði, fælust í nokkurs konar fyrirmæli Alþingis til þessa áætlunarráðs um, hve hratt skuli reyna að auka þjóðarframleiðsluna. Og ég hef lagt til, að það sé reynt að auka hana um 10% á ári. Mér er ljóst, að það er allmikið.

Þjóðarframleiðsluaukningin hjá hinum borgaralegu löndum, hjá auðvaldslöndunum, hefur á síðasta áratug orðið að meðaltali frá 3% upp í 91/2 %. Það hæsta, 91/2 %, er hjá Vestur-Þýzkalandi, sem, eins og menn vita, hefur aukið sitt atvinnulíf mjög hratt á þessum áratug, 1950–60. Sósíalistísku löndin hafa aukið sína iðnaðarframleiðslu allmiklu meira, að meðaltali um 13%. Það er vafalaust einna hægast að auka hratt framleiðslu í þeim löndum, sem eru að taka upp iðnað, láta iðnaðinn vaxa hjá sér, og ég álít, að við Íslendingar ættum að miða við það, að við reyndum að skapa í fyrsta lagi á grundvelli okkar sjávarútvegs og landbúnaðar miklu meiri iðnað en við gerum nú og enn fremur að leggja drög að því að koma upp öðrum iðnaði, sem ef til vill byggðist á innfluttum efnum. Ég álít, að það væri engan veginn óhugsandi, ef rétt væri áætlað frá upphafi hjá okkur, að auka þjóðarframleiðsluna á ári um 10%. Ég vil vekja athygli á því, að hvað fjárfestingu snertir höfum við Íslendingar á undanförnum 15 árum verið með einna hæsta fjárfestingartölu allra þjóða í Evrópu, um 30%. M.ö.o.: við höfum tekið upp undir þriðjunginn af því, sem hver maður vinnur, og sett það fast, í ýmis framleiðslutæki, hús eða annað slíkt. En við höfum verið minna framsýnir, ef ég má nota vægt orð, en flestar aðrar þjóðir Evrópu í þessum efnum. Fjárfestingu hjá einni þjóð er í hagfræðinni venjulega skipt í tvennt: annars vegar í neyzlufjárfestingu, hins vegar í framleiðslufjárfestingu, sem sé, annars vegar í þá fjárfestingu, sem tekur yfir við skulum segja hús og einkabíla og annað slíkt, og hins vegar í þá fjárfestingu, sem fer í verksmiðjur, skip og önnur framleiðslutæki. Norðmenn t.d., sem hafa skipulagt þetta allvel hjá sér, hafa sett 75% af sinni fjárfestingu í framleiðslutæki, en 2.5% af sinni fjárfestingu í neyzlufjárfestingu. Við Íslendingar höfum yfirleitt verið með um 50—56% í neyzlufjárfestingu, meiri hlutann, einir allra þjóða í Evrópu líklega. Að sumu leyti hefur staðið sérstaklega á hjá okkur, því ber ekki að neita. Við höfum varið meira til húsbygginga á undanförnum tveim áratugum en líklega, — ja, ég skal ekki segja um þær þjóðir Evrópu, sem hafa verið að byggja sig upp eftir styrjöldina, en af þeim, sem ekki urðu fyrir verulegu tjóni, þá höfum við vafalaust varið mestu, enda var okkar land illa húsað um aldamótin. 10% af allri okkar þjóðarframleiðslu hefur farið í íhúsbyggingar, þriðji parturinn af allri fjárfestingunni hefur farið í húsbyggingar. Við höfum byggt óhagkvæmt, og við hefðum vafalaust getað byggt álíka mikið af íbúðum, kannske heldur minni, heldur hagkvæmari, fyrir jafnvel helmingi eða 1/3 minna fé en gert hefur verið.

Það hefur verið mikil óstjórn á okkar fjárfestingu, eins mikið og við höfum fjárfest þessa tvo áratugi, og þá fyrst og fremst vegna þess, að við höfum aldrei tekið okkur fram um það að reyna að stjórna þessu öllu sem einni heild, en það er það, sem við þurfum að gera. Enn fremur er því ekki að neita, að það hefur margt mistekizt hjá okkur, líka í sambandi við okkar iðnaðarfjárfestingu. Við höfum ekki athugað nægilega grundvöllinn að slíku. Við höfum stundum staðsett verksmiðjur skakkt, sem við höfum reist, og með lítilli fyrirhyggju. Það út af fyrir sig er ekkert óeðlilegt, slíkt kemur fyrir hjá flestum þjóðum, sem eru að byggja sig upp, ef ég má svo að orði komast. Það, sem hins vegar er aðalatriði fyrir okkur, er að læra af þessu. Ef við undirbúum okkur vel með þá miklu fjárfestingu, sem vafalaust er í vændum hjá okkur á næstu áratugum, lærum af okkar gömlu mistökum, þá ættum við að geta, ef við höldum áfram að verja eins miklu og við gerum nú, um 30% af okkar þjóðarframleiðslu, til fjárfestingar, skapað svo örar framfarir, að um 10 % framleiðsluaukning yrði á ári. Það er að vísu rétt að minna á það, að meðan við erum fyrst og fremst veiðiþjóð, sem horfir bara á aflamagnið og gæftirnar, yrði slíkt náttúrlega alltaf miklum sveiflum háð hjá okkur. En því meir sem við verðum iðnaðarþjóð og ekki sízt fiskiðnaðarþjóð, því öruggari verður slík framleiðsla. Ef við setjum okkur það að verða slík fiskiðnaðarþjóð og iðnaðarþjóð að fleira leyti, þá eigum við áreiðanlega að geta staðið við slíkar áætlanir, þó að þær séu hins vegar alltaf erfiðar, á meðan þjóðin er bara hráefnaframleiðandi. 10% aukning þjóðarframleiðslu á ári mundi þýða, svo framarlega sem réttlátlega væri skipt slíkri framleiðslu, og hað þó að við héldum áfram að taka 30% af öllu saman til fjárfestingar, þá mundi það þýða milli 7 og 8% lífskjarabætur á ári; hvort sem það kemur fram í aukinni kaupgetu tímakaups eða öðrum formum. Það mundi þýða m.ö.o., að á einum áratug væri hægt að tvöfalda þau lífskjör, sem almenningur í landinu býr við. Það er þess vegna engum efa bundið, að ef hægt er að koma á samstarfi um áætlunarbúskap, ef hægt er að leggjast á eitt og skapa áhuga hjá öllum aðilum fyrir þessu, ef hægt væri að framkvæma eins djarfa áætlun og það er að auka um 10% þjóðarframleiðsluna á ári, þá gætum við í staðinn fyrir að hjakka allmikið í sama farinu, eins og hefur viljað brenna við oft undanfarið hjá okkur, lyft Grettistaki í endurbótum á lífskjörum almennings á næstu áratugum.

Að vísu verðum við alltaf að muna það, að sjálf aukning þjóðarframleiðslunnar er ekki einhlít í þessu efni. Það er tvennt annað, sem þarf að gerast um leið: í fyrsta lagi réttlát skipting á þjóðartekjunum. Um það er auðvitað deilt, um það eru átök, og samt væri, ef hér væri rækileg rannsókn á þjóðarbúskapnum, hægt að ganga úr skugga um það, hvernig réttlátt væri að skipta þessum þjóðartekjum. Það hefur því miður aldrei fengizt rannsakað. Í öðru lagi er það forsenda fyrir slíku, að skynsamleg skipulagning sé á þjóðarbúskapnum. Það er náttúrlega hægt, þótt þjóðarframleiðslan aukist, að stjórna þjóðfélaginu svo vitlaust, að það fari meira eða minna í súginn hjá okkur. Þótt við ykjum þjóðarframleiðsluna, væri kannske ekki hægt að selja nema lítinn hluta af henni, það yrði ekki unnið það úr afurðunum, sem praktískast og skynsamlegast væri, eða menn bæru sig að við það af svo lítilli framsýni og kunnáttu, að þjóðfélagið hefði ekki full not af því. Það er ekki nóg eitt út af fyrir sig að auka þjóðarframleiðsluna, réttlát skipting þjóðarteknanna og skynsamleg skipulagning á þjóðarbúskapnum þarf að fylgja með.

En ef þessu væri hvoru tveggja fullnægt, eins og ég hef tekið fram áður, án þess að breyta núverandi þjóðfélagsástandi, með því að viðhalda núverandi einkarekstri við hliðina á samvinnurekstrinum, bæjarrekstrinum og ríkisrekstrinum, þá væri hægt að skapa slíkar framfarir á næsta áratug, að við tvöföldum þá lífsafkomu, sem fólk býr við nú. Ég álít, eins og raunar hefur komið fram áður í tillögum, sem hér hafa verið fluttar, að þær lífskjarabætur yrðu og þyrftu alveg sérstaklega og fyrst og fremst að koma fram í því, að vinnuþrældómnum væri að verulegu leyti létt af Íslendingum. Ég þarf ekki að fara nákvæmlega inn á það hér. Það hefur verið rætt í sambandi við umr. um átta tíma vinnudaginn, hvort þörf væri á því, að kjarabætur miðuðust fyrst og fremst við það, að vinnutíminn styttist a.m.k. niður í átta tíma á dag, en fyrir þá átta tíma yrði borgað svo mikið, að árskaupið yrði 75 þús. kr., sem mundi þýða um 50% hækkun á kaupgetu tímakaups, ef maður reiknaði með því, að allar lífskjarabætur kæmu fram í því, og gætu þær auðvitað komið fram í fleiri formum. Það er rétt að leggja áherzlu á, að það að létta af vinnuþrældómnum er að mínu áliti alveg óhjákvæmilegt. Það var ákaflega eðlilegt hjá okkur fyrst eftir stríðið, eftir að við höfðum gengið gegnum 10 ára atvinnuleysi og kreppur, að þegar menn allt í einu gátu fengið að vinna svo að segja eins lengi og þeir treystu sér til, þá gripu menn því fegins hendi, ekki sízt þegar eftirvinna og næturvinna var greidd 50–100% hærra verði. Það var svo margt, sem fólk þurfti til að bæta úr brýnustu þörfunum. Við, sem þekkjum gamla tímann, munum þann tíma, þegar fólk hér í Reykjavík borðaði tros sex sinnum í viku og gat varla veitt sér kjöt á sunnudögum. Við munum eftir þeirri breytingu, þegar menn fóru að geta borðað kjöt tvisvar í viku. Við, sem þekktum það hér, að menn ættu ekki sængurver utan um rúmfötin sín eða lök, að menn ættu ekki nein spariföt til að klæðast í, ekkert nema vinnugallann, við vitum, hvers konar lífskjarabylting það var, þegar menn fóru að geta veitt sér sæmilegan mat, góð föt eða jafnvel góð föt til skiptanna og þegar menn fór að dreyma um það að geta eignazt íbúðir sjálfir, og hvernig menn þess vegna hafa tekið á þessi 20 ár við að umskapa alveg sitt lífsumhverfi, eins og líka sér hér á, þar sem ég býst við, að meiri hluti t.d. af verkalýðnum hér í Reykjavík og jafnvel enn þá frekar úti á landi muni eiga íbúðir, þó að margir berjist þungri baráttu, vinni og þræli mikið fyrir því og eigi sérstaklega um sárt að binda vegna þeirra miklu vaxta, sem nú eru á lánum. En nú er þessi vinnuþrældómur, t.d. hér í Reykjavík, búinn að standa í um 20 ár, að vísu með tveggja ára millibili, sem atvinnuleysi var, 1951–52, og þá er þetta orðið svo mikið, að sú kynslóð, sem svona hefur þrælað út, bíður þess ekki bætur. Sú kynslóð, sem vinnur 11 og 12 tíma á hverjum degi og vinnur svo að segja alla sunnudaga og flest sín svokölluðu sumarfrí, verður að fara á mis við svo margt, ekki sízt menningarlega og félagslega, að hún bíður þess ekki bætur, ef slíkum vinnuþrældóm léttir ekki. Og margir hafa þegar beðið af því heilsutjón. Þess vegna held ég, að það sé enginn efi á því, að þær lífskjarabætur, sem við eigum að skapa á Íslandi á næstunni, eiga fyrst og fremst að koma fram í því, að menn fái sæmilegan vinnudag, 7–8 tíma, geti fengið góða afkomu með því og hafi mikinn tíma afgangs til sinna hugðarefna, til sinna áhugamála, til sinna menningar- og félagsþarfa. Og um þetta átak ætti vissulega að vera hægt að skapa samstarf í þjóðfétaginu, bæði hjá vinnandi stéttum til sjávar og sveita og jafnvel skilning hjá atvinnurekendum, vegna þess að maður á satt að segja erfitt með að skilja, hvaða hagsmuni atvinnurekandi, ef hann hugsar um að lifa í tiltölulega stöðugu þjóðfélagi og ekki bara verðbólguþjóðfélagi, hefur af því að vilja endilega láta vinna 2—3 eftir- og næturvinnutíma á hverjum degi, sem hann borgar með tvöföldu kaupi, þar sem hann þó ekki einu sinni getur fengið eins mikið út úr verkamönnunum á þeim tveim tímum og hann fær með 8 tímum í staðinn fyrir 10–11, ef mönnunum er ekki ofþjakað.

Það er þess vegna, ef samstaða gæti orðið um að skapa slíka áætlun, þjóðin legðist á eitt um framkvæmd hennar, reisti sér svo hátt mark sem 10% aukningu þjóðarframleiðslunnar á ári og kæmi svo miklu réttlæti á hjá sér í þjóðfélaginu, að verkalýðurinn gæti bætt sin kjör um 7—-8% á ári, þá mundi það þýða um leið að gerbreyta lífskjörunum. Við tölum oft um, að við hjökkum í sama farinu hvað kaupgetu tímakaupsins snertir, og það er rétt. En við skulum gera okkur grein fyrir því hins vegar, að það hafa verið unnin stórvirki með þessum gífurlega vinnuþrældómi, sem hér hefur verið framkvæmdur. Það þarf ekki nema líta hér á Reykjavík, sem á þessum 20 árum hefur verið meira en tvöfölduð hvað snertir ekki aðeins íbúatölu, heldur og húsbyggingar, og jafnvel meira en það: það eru íbúðarhús, sem mönnum hefðu þótt, líka jafnvel sjálfar verkamannaíbúðinar, lúxusíbúðir fyrir 30 árum. Ef hins vegar samstarf gæti náðst um að koma á að meira eða minna leyti áætlunarbúskap hér á Íslandi og leggja í einhverja svipaða áætlun og talað er um í þessu frv., 7. gr., þá veltur óskaplega mikið á því og máske allt, að það sé vísindalega rétt undirstaða fundin um aðferðirnar við þetta. Eins og getur nærri, er áætlunarbúskapur eða áætlunarráð eða hver slík áætlun ekki nema hið ytra form, sem beitt er. Spurningin, sem allt veltur á um, hvort þetta leiðir til raunverulegra lífskjarabóta og verður meira en hvert annað pappírsgagn eða þá misheppnaðar framkvæmdir, það er, að maður hafi lagt í þetta réttilega. Og þar verða menn aldrei of varkárir. Og til þess, — ef menn vildu taka þessa hluti alvarlega, eins og þeir verðskulda, — að Alþingi geti nokkuð rætt um þetta, þá hef ég í 7. gr. lagt til, að Alþingi ákvæði höfuðatriðin í þróun næstu 10 ára, mælti fyrir við áætlunarráð, hvernig sú þróun skyldi vera, skipt í tvö 5 ára tímabil. Á fyrsta fimm ára tímabilinu legg ég til, að við byggjum algerlega á okkar gömlu atvinnuvegum, sjávarútveginum og landbúnaðinum, og leggjum höfuðáherzluna á að koma upp iðnaði á grundvelti beggja. Ástæðan til þess er, að áður en við færum að ráðast í t.d. stóriðju úr innfluttu efni, þá álít ég, að við þurfum að hafa notað þetta næsta fimm ára tímabil til rannsókna, til þess að afla sjálfum okkur þekkingar á þessu sviði. Við höfum allmikla þekkingu á sjávarútvegi og landbúnaði, og á grundvelli þeirra atvinnugreina getum við gert hluti, sem ég mundi ekki vera hræddur um að við gerðum neina vitleysu með. Þess vegna legg ég til, að þarna einbeitum við okkur að t.d. niðurlagningu í sambandi við síld og fisk, niðursuðu og öðru þess háttar. Og ég veit, að við þurfum ekkert gífurlega fjárfestingu í þetta. Við getum með einum 10–20 verksmiðjum í sambandi við sjávarútveginn margfaldað framleiðsluna, sem þarna er um að ræða. Ég hef látið gera allýtarlegar rannsóknir á þessu, og ég skal taka það hér fram, svo að maður taki það bara sem dæmi og það um ýmsa hluti, sem menn þekkja nú þegar vel, bæði viðvíkjandi síld, fiski, humar, laxi og öðru slíku, að það, sem í dag er útflutningsverðmæti fyrir okkur upp á um 61/2 millj., það mundi með því að vera ýmist niðursoðið eða niðurlagt verða útflutningsverðmæti upp á um 43 millj. kr. Við getum sex- til sjöfaldað útflutningsverðmæti þeirra vara í sjávarútveginum með því að meðhöndla þær öðruvísi, með því að fullvinna þær í stað þess að flytja þær út sem hráefni. Ég efast ekki um, að með þeim nýtízkuaðferðum, sem nú eru farnar að tíðkast í sambandi við laxaklakið og annað slíkt, getum við bókstaflega komið upp stórum búum í sambandi við laxaframleiðslu, sem að meira eða minna leyti mundi vera bæði í sambandi við sjávarútveg og landbúnað. Og hvað landbúnaðarvörurnar snertir, þá höfum við bara séð það á einu litlu sviði nú þegar, í sambandi við ullina, að það er hægðarleikur fyrir okkur að þre- til fjórfalda, kannske fimmfalda verðmæti ullarinnar með því að vinna úr henni allri saman innanlands. Við sjáum það líka á því sviði, sem við höfum helzt verið eitthvað nærri fiskiðnaði, eins og með hraðfrystingunni, að það er hægt að margfalda verðmæti fisksins, og alveg sérstaklega á þetta þó við um síldina, því að þar höfum við hagað okkur alveg eins og barbarar, hvernig við köstum henni í bræðslurnar í staðinn fyrir að vinna úr henni tvítugfalt og þrítugfalt dýrmætara efni? Ég held þess vegna. að á næstu fimm árum mundum við geta margfaldað verðmæti okkar framleiðslu með því að einbeita okkur að fullvinnslu á þessum gömlu afurðum okkar.

Á þessum sama fimm ára tíma álít ég svo að ætti að undirbúa síðara fimm ára tímabilið. Til þess að virkja hér stóra fossa, hvort heldur væri Þjórsá, Jökulsá eða annars staðar, þurfum við a.m.k. 4–5 ár, og á þeim tíma verðum við að gera okkur ljóst, í hvað við ætlum að leggja með stóriðju, sem við kæmum þar upp. Og satt að segja höfum við enn þá, Íslendingar, svo að segja ekkert gert að því að undirbúa þetta raunverulega. Við tölum um þessar miklu auðlindir, sem við eigum, við tölum um öðru hvoru, á einhverjum nefndarfundum eða kannske ríkisstjórnarfundum eða annars staðar, hvaða möguleikar þarna séu, en við höfum sjálfir ekki framkvæmt sjálfstætt neinar raunverulegar rannsóknir í þessu efni. Og mér finnst, að flestir, sem maður talar við um þessi efni, vaði raunverulega í villu og svima um þetta, þess vegna komi í raun og veru upp sú hugmynd að kasta áhyggjunum upp á aðra, sem sé biðja bara aðra aðila um, hvort þeir vilji ekki taka þetta afl, sem við eigum, og hagnýta það og losa okkur við alla ábyrgð á því.

Ég er því miður enginn sérfræðingar í þessum efnum. Ég hef ofurlítið reynt að hugsa um þessi mál og nóg til þess a.m.k. að sjá, hver vandamál þau eru, Eitt sýnist mér nú þegar augljóst, að eitt af því, sem mikið var talað um hjá okkur fyrir nokkrum árum að reyna að vinna verulega að, að nota okkar rafmagn til áburðarframleiðslu, það sé ekki til að tala um, það sé svo ópraktískt. Þá hefur ákaflega mikið verið talað um alúminíumframleiðslu. Ókosturinn við alúminíumframleiðsluna er sá, að við verðum að flytja ákaflega mikið hráefni inn hálfunnið, fullvinna það hér og flytja það síðan út aftur. Og sjálfar verksmiðjurnar, sem þarna er um að ræða, eru gífurlega fjárfestingarfrekar. Ég skal ekki segja, að það sé neinn veg útilokað með alúminíum, en erfitt er það fyrir okkur og sérstaklega erfitt fyrir okkur, ef við ætlum að reyna að gera það sjálfir.

Það hráefni, sem ég held að við ættum a.m.k. alvarlega að athuga, áður en við leggjum í önnur útlend hráefni til úrvinnslu, er olía. Sú grein, sem tekur mestum framförum í iðnaði veraldarinnar núna, er framleiðsla á plastefnum og öðru slíku, þessum undraefnum efnafræðinnar, sem gera það að verkum, að maður getur búið til úr hráefnum eins og olíu hluti, sem eru sterkari en stál eða aðrir málmar, og það, sem menn fyrir 20–30 árum unnu mestmegnis úr kolum eða öðru slíku, og það, sem stóru kemísku hringarnir í Þýzkalandi og annars staðar byggðu sitt mikla vald á, það er nú unnið úr sjálfri olíunni, með því að kljúfa olíuna og vinna þannig úr henni öll þessi nýtízku efni, plastið, nælonið og allt mögulegt slíkt. Þessi kemíski stóriðnaður væri fyrir okkur Íslendinga ákaflega vel athugandi. Hann þarf rafmagn, að vísu ekkert afskaplegt, hann þarf oft jarðhita eða hita, og af öllum þeim útlendu hráefnum, sem kæmi til mála að flytja inn, er olían tvímælalaust eitt það praktískasta fyrir okkur, einmitt vegna þess, hve auðvelt er að flytja hana inn og hve auðvelt er að dæla henni. Það er ekki nema eins manns verk að dæla olíu úr heilu skipi í þær verksmiðjur, þar sem olían síðan væri klofin, þannig að við stöndum ákaflega þægilega að vígi til slíks. Við flytjum olíu inn núna til þess að brenna henni. Einn frægur prófessor sagði nýlega, að það væri álíka barbari að framleiða hita með því að brenna olíu eins og t.d. það væri líka hægt að framleiða hita með því að brenna peningaseðlum. Það, sem hefur gerzt í þessum efnum, eru slíkar byltingar í efnafræðinni, að þegar við ætlum, svona fáir eins og við erum og því miður vankunnandi á þessum sviðum, að fara að stjórna raunverulega sjálfir okkar efnahagslífi, allri okkar afkomu, þá þurfum við að hafa rannsakað þessa hluti. Við þurfum að hafa aflað okkur þekkingar á þessum hlutum, og við þurfum að sjá til þess, að við stöndum með þeim fremstu í heiminum til þess að afla okkur slíkrar þekkingar, vera óhræddir við að ná okkur í þá þekkingu, hvar sem hún er, hvort sem hún er í austri eða vestri, fá ráð sérfræðinga frá hinum ýmsu löndum, bera þau saman, tryggja okkur, að þeir sérfræðingar, sem kynnu að vera fulttrúar hringa og hafa hagsmuni sem slíkir, leiddu okkur ekki í neina viltu, hefðum sjálfir þekkingu til að endurskoða þær upplýsingar og ráðleggingar, sem við fáum, gætum hagnýtt okkur líka mikið af þeirri sérþekkingu, sem Sameinuðu þjóðirnar hafa að bjóða í þessum efnum, og hefðum sjálfir líka framsýni til þess að ala sjálfir upp vísindamenn í þessu. Við verðum að gá að því, að þróunin er hröð á þessum tímum. Einu merkur brezkur vísindamaður, sem ég var nýlega að lesa eftir, skrifaði, að það mundu vart líða nema nokkrir áratugir, þangað til meiri hlutinn af starfandi mönnum, a.m.k. með þeim þjóðum, sem framarlega stæðu, væri vísindamenn. Það að stjórna sjálfri framleiðslunni, þekkja hana, hafa valdið á að£erðunum fer að verða aðalatriðið. Rétt eins og við nú höfum okkar litlu Sogsvirkjunarstöð upp frá sjálfvirka, þannig að mennirnir, sem þar eru að fylgjast með, horfa bara á eitt lítið borð, fylgjast þar með vissum táknum, eins verður á næstu áratugum og er byrjað nú þegar víða að koma upp sjálfvirkum verksmiðjum, þar sem mennirnir bara hafa það hlutverk að vita hlutina, gera þá í krafti sinnar yfirburðaþekkingar og geta þannig framleitt margfalt meira en áður.

Við stöndum frammi fyrir gerbyltingu, miklu stórkostlegri en þeirri gömlu iðnaðarbyltingu, sem við einu sinni bárum svo mikla virðingu fyrir og máttum gera. Við stöndum hér vafalaust ekki aðeins frammi fyrir því að eiga eftir að rækta okkar land betur og uppskera af því, heldur líka að rækta okkar haf og vinna úr því efni. Við höfum ekkert nema fiskana úr því enn þá, og er þó dýrmætt. Hins vegar er gefið, að hafið sjálft er einhver stórkostlegasta hráefnalind, sem nokkur þjóð hefur aðgang að, líka hvað snertir að vinna öll þau föstu efni úr, sem notuð eru í stóriðju nútímans.

Það er þess vegna engum efa bundið, að það vinnandi fólk, sem fær hugmynd um allan þann undrakraft, sem feist í vísindum og þar með í framleiðslumöguleikum nútímans, það vinnandi fólk gerir kröfur til þess, að þessi þekking sé hagnýtt til þess að bæta kjör fólksins. Og sé að völdum yfirstétt, sem ber ekki skynbragð á þessa hluti, sem fylgist ekki með þessum hlutum, sem hagnýtir ekki þessa þekkingu mannkynsins, hlýtur sá dómur að verða kveðinn upp yfir henni af Alþýðustéttunum, að hún hafi ekkert með það að gera að sitja við völd. Áminning vísindanna í dag er til allra stétta í þjóðfélaginu og ekki síður til þeirra, sem voldugir eru, að viðkomandi þjóðfélag — og í þessu tilfelli okkar íslenzka þjóðfélag — sé allaf á tindi þekkingarinnar í þessum efnum, sé alltaf í broddi fylkingar í sókninni fram til meiri framleiðslu og réttlátari skiptingar. Og það, sem þetta frv. mitt miðar við, er að reyna að sameina krafta þjóðarinnar um það. Ég veit, að forsendur þess, að eitthvað svipað þessu væri framkvæmt, eru, að við höfum vit á að nota allar aðstæður okkar út á við til hins ytrasta. Takist okkur að auka okkar framleiðslu eins og hér er gert ráð fyrir, þá þurfum við, af því að við framleiðum hlutfallslega meira til útflutnings en nokkur önnur þjóð í heiminum, að reyna að tryggja okkur sem allra mest að geta selt fyrir fram sem allra mest af þessum vörum, sem við framleiðum. Ekki aðeins gildir það um það, sem við framleiðum nú, heldur líka ef við á næsta tíu ára tímabili færum að framleiða stóriðjuvöru, þá er það lífsspursmál fyrir okkur, ef við ætlum að eiga þetta sjálfir, ráða þessu sjálfir og njóta þess sjálfir, að geta a.m.k. samið um að borga þau framleiðslutæki, sem við komum upp, og hráefnið, sem við kaupum fyrir fram, í slíkum vörum allan þann tíma, sem við erum að borga það. Það er engum efa bundið, eins og reynslan hefur áður sýnt okkur, að okkar viðskipti við sósialistísku löndin eru svo að segja forsenda fyrir þessu.

Ég álít, að borgaraflokkarnir á Íslandi eigi ekki að reyna að skapa slíkan ótta við slík viðskipti eins og mikið hefur borið á í þeirra blöðum á undanförnum árum. 1958 höfum við þriðjunginn af okkar útflutningi til sósialistísku landanna, og það sýnir sig, að með slíkum útflutningi getum við svo að segja alltaf tryggt fulla atvinnu hér heima. Eins og við berjumst með helminginn eða meiri hlutann af okkar útflutningi á þeim frjálsu mörkuðum auðvaldsskipulagsins, eins eigum við að hagnýta okkur það, ef við getum, að fá aðgang að öruggum mörkuðum sósíalistísku ríkjanna með fyrirframsamningum við þau.

Þá er líka annað, sem er forsenda fyrir því, að við njótum sjálfir gæðanna af slíkum framkvæmdum í atvinnulífinu. Það er, að þegar við leggjum í verulega stóriðju á Íslandi, þá knýjum við fram lága vexti af því fé, sem við tökum að láni erlendis. Ef við ætlum að virkja fossana á Íslandi og ætlum að leggja í stóriðju, t.d. á öðru fimm ára tímabili héðan í frá, ef við samþykktum þetta nú, og ef við ætlum að fara að borga 5–6–7% í vexti af fénu, sem fer í raforkuver hér heima, þá er það vonlaust fyrirtæki fyrir okkur, þá erum við aðeins að verða þrælar fyrir erlent stórkapítal. Við þurfum að knýja það fram, að vextir af því fé, sem við fáum þannig lánað, verði ekki meira en 21/2 %. Við vitum það, að við höfum áður getað fengið slík lán hjá Sovétríkjunum, og vitum það af reynslu þeirra þjóða, bæði í Afríku og annars staðar, sem hafa tekið slík lán, að þegar slík lán eru tekin þar austur frá, þá tekst venjulega að knýja fram álíka lág lán líka í vesturlöndum. En það að geta losnað við vaxtaþrældóminn er frumskilyrði, ef þjóðin á sjálf að uppskera ávextina af sínu erfiði, einkanlega þó ef hún verður að leggja í fyrirtæki, sem krefst mikils fjár. Og einkennin á fyrirtækjum nútímans, þeim fyrirtækjum, sem byggjast á vísindalegri framleiðslu, eru, að hlutfallið á milli þess fasta kapítals, þess fasta fjármagns, sem í þau fer, og milli vinnuaflsins við þau er þannig, að það vex í sífellu sá hluti, sem nemur fjármagninu, um minnkar í sífellu sá hluti, sem nemur vinnuaflinu. Ef þetta yrði rétt hagnýtt, endar þetta með því, að mannkynið losnar við þrældóm vinnunnar og getur látið vélar vinna meginið af störfunum fyrir sig. Þetta er þannig rétt þróun. En það, sem aðeins þarf að sjá til um leið, er, að á meðan fyrrum fátækar þjóðir, eins og okkar þjóð, eru að ryðja sér braut í atvinnulífinu, verði þær ekki arðrændar af þeim, sem fjármagnið eiga.

Þá er það enn fremur forsenda fyrir því, að við getum borið gæfu til þess að koma upp slíku góðu atvinnulífi, sem gefi okkar þjóð mikið í aðra hönd, að við leggjum áherzlu og það miklu, miklu meiri en við höfum gert á að afla okkur þekkingar, vera óhræddir við að gera það bæði í vestri og austri, gera það hjá þeim þjóðum, sem fremst standa í veröldinni í tæknilegum efnum nú, bæði í Bandaríkjunum og Sovétríkjunum, reyna að fylgjast með bezt með í því, velja til þess okkar færustu ungu menn og kosta þá beinlínis af ríkinu til þess að reyna að setja sig inn í leyndardóma, ekki sízt efnafræðinnar og annarra tæknilegra vísinda, svo að við höfum í þjónustu íslenzka ríkisins á öllum tímum menn, sem vita það, sem hægt, er að vita í þessum efnum í heiminum. Hraðinn í þróun hvers þjóðfélags fer einmitt að miklu leyti eftir því, hve miklu mannvali það hefur á að skipa í þessum efnum. Þróunin á því vísindalega mannvali í þjónustu þjóðfélagsins er e.t.v. ein allra þýðingarmesta forsendan í þessum efnum. Við getum staðið uppi eins og þekkingarlausir menn, orðið aftur úr öllum, ef við kappkostum ekki að reyna að sérmennta nægilega mikið af okkar efnilegustu mönnum í þessum efnum, jafnvel þótt við vitum ekkert, hvað við ætlum að gera við þá núna, jafnvel þó að ríkisstjórnin verði að segja við þá: Far þú og lær þú þetta og vertu á launum hjá ríkinu bara til að kunna þetta, þá er sjálfsagt og nauðsynlegt fyrir okkur að gera þetta. Þekkingin á þessum sviðum er það, sem allt hyggist á í þessum efnum. Þetta þýðir, að til þess að Ísland geti lyft því Grettistaki, sem mundi felast í því að leggja út í svona áætlun og framkvæma hana, þurfum við að hafa gott samstarf, ekki aðeins hér heima, eins og ég gat um, á milli stéttanna hér, heldur einnig út á við, á meðal þeirra voldugustu aðila í heiminum nú, bæði í austri og vestri, hætta þeim hleypidómum, sem hafa skaðað mikið núna, gagnvart sósíalistísku ríkjunum og slíkum menningarlegum og viðskiptalegum tengslum við þau.

Ég vildi mega óska þess, að hv. deild vildi athuga þetta frv. vel, að hv. fjhn. taki þetta frv. til rækilegrar athugunar, e.t.v. berast henni líka einhverjar till. frá hæstv. ríkisstjórn. En höfuðatriðið álít ég það vera, að tekin sé upp sú stefna að stjórna þjóðarbúskap Íslendinga með svona áætlunarráði, en viðhalda um leið öllum rekstrarformum, sem við nú höfum, eins og t.d. hlutafélaga, samvinnufélaga, ríkis og bæja, en reyna að sameina krafta okkar um að skapa þær miklu atvinnulegu framfarir, sem með slíku væri hægt að skapa, og á grundvelli þeirra réttlátari skiptingu þjóðarteknanna en nú er og betri skipulagningu. Þær hröðu framfarir, eins og ég gat um áður, ættu að geta orðið til þess, ef rétt væri á haldið, að tvöfalda þau lífskjör, sem íslenzka þjóðin nú býr við, á næstu tíu árum.