11.12.1961
Neðri deild: 35. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 243 í B-deild Alþingistíðinda. (289)

107. mál, verðlagsráð sjávarútvegsins

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Ég vil lýsa yfir vonbrigðum mínum yfir því, að mér sýnist, að meiri hl. hv. sjútvn., fulltrúar þeir í n., sem styðja ríkisstj., hafi sýnt lítinn vilja til þess að ganga til móts við þær skoðanir, sem hér höfðu komið fram í umr. um þetta mál frá minni hálfu og ýmissa annarra og miðuðu að því að reyna að styrkja grundvöllinn undir þessari lagasetningu, þannig að telja mætti einhverjar líkur til þess, að lög um þetta efni gætu komið að því gagni, sem tilætlunin er. Það er augljóst, að það hefur verið lítið gert að því að reyna að ná samkomulagi um ágreiningsefnið. Sjútvn. hefur aðeins haldið einn stuttan fund um málið, og þó að það liggi fyrir, að málið hefur legið svo skamman tíma fyrir þinginu, að þm. hafa haft sáralítinn tíma til þess að kynna sér málið og ég ætla þingflokkarnir varla nokkurn tíma til þess að ræða það, þá virðast ekki hafa verið tök á því að fá n. til þess að eyða nema hluta úr einum degi í það að athuga þessi ágreiningsefni, en það virðist vera aðalatriðið að strunsa hér áfram og reyna að berja eitthvað það í gegn í málinu, sem menn mega þó alveg reikna með, að ekki komi að haldi, því að það er alveg gefið mál, að þegar á að semja um jafnstórkostlegt hagsmunamál eins og það, sem hér er um að ræða, þá gengur það ekki, — það hefur reynslan kennt mönnum, — það gengur ekki með því að reyna að spyrna einhverju í gegn með ofbeldi. Hér er um sterka hagsmunaaðila að ræða, sem eiga hlut að máli. Hér er verið að fjalla um launakjör í stórum stíl, og það er ofur eðlilegt, að þeir aðilar, sem hér eiga hlut að máli, vilji láta taka nokkurt tillit til sinna sjónarmiða, ef þeir eiga að una því skipulagi, sem á raunverulega að úrskurða um það, hver kjör þeirra eiga að verða.

Það þarf ekki að rekja það hér fyrir mönnum, hvernig aðdragandi málsins hefur verið hér í þinginu. 1. umr. fór fram á mjög óvenjulegan hátt. Mönnum hafði hreinlega ekki gefizt kostur á því að lesa frv. yfir, þegar það var tekið fyrir í skyndi og drifið í gegnum 1. umr. til nefndar. En við það var þó unað, þó að nokkrar aths. kæmu fram út af þessu. En þá var líka þeim mun meiri þörf á því, að reynt yrði í n. þeirri, sem fjallaði um málið, að komast að samkomulagi um ágreiningsefnin. En það hefur ekki orðið, þrátt fyrir það, hvernig málið kom inn í þingið og 1. umr. um málið var. Og 2. umr. er svo tekin hér fyrir með svo miklum hraða, að nál, eru ekki öll komin fram, og þær till., sem boðaðar eru, eru ekki komnar fram, þegar málið er rætt.

Ég hafði sagt það hér við 1. umr. málsins, að ég teldi afar eðlilegt, að hæstv. ríkisstj. vildi leggja áherzlu á að fá þetta mál afgreitt, og ég vil fyrir mitt leyti ekki koma í veg fyrir það, að málið verði afgr. nú á þessum dögum fyrir jólin. En það er líka reynsla, sem menn hafa kynnzt hér á Alþingi, að það gengur ekkert fljótar að fá mál hér í gegn með því að brúka þjösnaskap heldur en að leita eftir eðlilegu samkomulagi. En mér sýnist, að vinnubrögðin öll í þessu máli séu með því marki, að á mjög tillitslausan hátt skal reyna að spyrna málinu í gegn án þess eiginlega að hlusta á aðra en þá, sem þykjast skipa hér öruggan meiri hluta á þinginu.

Það er alveg augljóst, að meiri hl. sjútvn. hefur ekki fengizt til þess að leggja til breyt. á frv. nema þær, sem eru í sjálfu sér mjög veigalitlar, breyta sáralitlu frá því, sem er í frv., eins og það liggur fyrir. Þar er að vísu ákvæði sem nokkurs virði er, en ekki er það þó nema mjög takmarkað, um það, að þess skuli þó reynt að gæta, að fulltrúar þeir, sem skipaðir eru í yfirnefndina innan verðlagsráðsins og eiga að vera fulltrúar frá Landssambandi íslenzkra útvegsmanna sem fiskseljenda, hafi ekki andstæðra hagsmuna að gæta og fái ekki að koma þarna fram sem fulltrúar fiskseljenda, þótt þeir séu í raun og veru kannske meira sem fiskkaupendur. Þetta atriði er tekið upp í till. meiri hl. sjútvn., og er það að vísu til bóta. En svo takmarkað er þetta ákvæði, að það er ekki einu sinni látið ná til þess, að sams konar regla skuli gilda um fulltrúana frá Landssambandi íslenzkra útvegsmanna, sem koma fram sem fulltrúar seljenda einnig í sjálfu verðlagsráðinu. Virðist ekkert vera við það að athuga, þó að þeir fulltrúar, sem mæta í verðlagsráði sem fulltrúar fiskseljenda frá Landssambandi íslenzkra útvegsmanna, hafi meiri hagsmuna að gæta sem fiskkaupendur. En í yfirnefndinni er þó ekki ætlazt til þess, að þessir fulltrúar geti verið.

Mér sýnist, að einmitt þetta atriði sýni það og sanni bezt, sem reyndar mátti lesa auðveldlega út úr þessu frv., að sjálft verðlagsráðið, eins og það er hugsað samkvæmt þessu frv., er raunverulega ekki hugsað sem samningsaðili um verðlagninguna á nýjum fiski. Það er varla gert ráð fyrir því, þegar svona er staðið að málinu, að það verði þetta 14 manna ráð, 7 fulltrúar frá hálfu fiskseljenda og 7 frá hálfu fiskkaupenda, — það er varla gert ráð fyrir því, að þeir eigi raunverulega að semja um fiskverðið, þegar menn vilja ekki einu sinni taka það fram, að þessir 7 fulltrúar fiskseljenda skuli örugglega hafa hagsmuni seljenda, en ekki kaupenda. Aðalatriðið er sýnilega það, að þetta verðlagsráð á að hafa valdið til þess að skipa aðra nefnd, svonefnda yfirnefnd 5 manna, þar sem 2 fulltrúar eru frá hvorum aðila, fiskseljendum og fiskkaupendum, og síðan oddamaður frá hæstarétti, — til þess er beinlínis ætlazt, að það sé þessi yfirnefnd, sem á að semja um eða ákveða fiskverðið. Verðlagsráðið virðist bara vera rammi utan um allt saman, án þess að ætlazt sé raunverulega til þess, að það vinni sjálft samkomulagsverkið. Og einmitt þegar svona er að málinu staðið, eins og var auðvitað veruleg hætta á að yrði samkvæmt því, sem frv. hljóðar sjálft, þá sjá menn, hversu áríðandi það er að búa þannig um hnútana, að þessi yfirnefnd sé raunverulega frambærilegur aðili fyrir þá, sem á að semja fyrir.

En hvernig er svo hugsað að skipa þessa yfirnefnd? Jú, það er hugsað að skipa hana þannig, að í henni eiga að vera 2 fulltrúar frá hálfu fiskseljenda. Annar þeirra á að vera fulltrúi frá Landssambandi ísl. útvegsmanna, en hinn á að vera úr hópi fulltrúa sjómanna. Hvaða aðilar geta þar komið til greina? þar getur komið til greina fulltrúi frá Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, eða yfirmönnunum á fiskibátunum og fiskiskipunum, þar getur einnig komið til greina fulltrúi frá Sjómannasambandi Íslands og svo í þriðja lagi fulltrúi frá Alþýðusambandi Íslands. En hvað er Sjómannasamband Íslands og hvað er Alþýðusamband Íslands í þessum tilfellum? Sjómannasamband Íslands, sem þarna er lagt að jöfnu við Alþýðusamband Íslands, er aðeins hluti stéttar innan Alþýðusambandsins og lítill hluti innan Alþýðusambandsins sem heildar. Í Sjómannasambandinu er að vísu Sjómannafélagið hér í Reykjavík og nokkur önnur félög hér á Suðvesturlandi, sjómannadeildirnar á Akranesi, í Keflavík og Grindavík. Þetta eru aðilarnir, sem standa að Sjómannasambandi Íslands. En hins vegar eru öll félögin á Austurlandi, á Norðurlandi og Vestfjörðum og þeir, sem fara með umboð meira en helmingsins af fulltrúunum hér á Suðvesturlandi. Þeir eru innan Alþýðusambands Íslands, og Alþýðusambandið verður að koma fram fyrir þeirra hönd. Það er því alveg eins líklegt, að svo geti farið, að í þessari yfirnefnd verði t.d. fulltrúi frá Sjómannasambandi Íslands eða frá Farmanna- og fiskimannasambandinu, þessi fulltrúi af hálfu sjómanna, eða m.ö.o., að örfá félög hér á suðvesturhorninu eigi fulltrúann í þeirri endanlegu samninganefnd, sem fyrir hönd sjómanna víða um landið á að semja um fiskverðið. Það er auðvitað alveg augljóst mál, að sjómannafélögin á Austurlandi, Norðurlandi, Vestfjörðum og í Vestmannaeyjum, svo að við tökum þessi dæmi, mundu hiklaust telja, að hér væri komin á laggirnar nefnd, sem ætti að semja um fiskverðið, stóran hluta af kjaramálum þeirra, án þess að þau eigi nokkra hlutdeild í þessum fulltrúum.

Svo virðist hæstv. sjútvmrh. halda, að það sé hægt að setja upp stofnun eins og þessa og tala um, að hér sé verið að koma á laggirnar stofnun, sem eigi að semja um fiskverð á milli aðila þeirra, sem hlut eiga að máli, sjómanna annars vegar og fiskkaupenda hins vegar. Sannleikurinn er sá, að annar aðilinn fær ekki að koma fram að samningaborðinu. Hann er útilokaður.

Það eru vitanlega með öllu haldlaus rök, sem komu fram hjá hv. frsm. meiri hl. sjútvn., að telja, að ef í þessari yfirnefnd lenti fulltrúi Sjómannasambandsins, þá sé það um leið fulltrúi Alþýðusambands Íslands, vegna þess að Sjómannasambandið sé innan Alþýðusambandsins. Vitanlega mundu sjómannafélögin á Austurlandi aldrei geta snúið sér sérstaklega til þess fulltrúa, sem væri frá Sjómannasambandi Íslands, því að þau hafa ekkert með það samband að gera. Það samband getur vitanlega aldrei komið fram nema fyrir meðlimi sína. Það er ekki fullgildur aðili fyrir félögin innan Alþýðusambands Íslands.

Hefði meiri hl. sjútvn. gengið þó inn á það, þegar vald yfirnefndarinnar er hugsað svona mikið, að það er raunverulega yfirnefndin, sem á að ákveða um fiskverðið, en ekki verðlagsráðið sjálft, — hefði meiri hl. sjútvn. gengið inn á það, að fulltrúi sjómanna í yfirnefndinni hefði átt að vera fulltrúi frá Alþýðusambandi Íslands, langsamlega stærsta aðilanum, sem hér á hlut að máli, sem er auðvitað einnig ábyrgur fyrir Sjómannasambandið, því að Sjómannasambandið getur leitað til fulltrúa Alþýðusambands Íslands, því að Sjómannasambandið er innan Alþýðusambandsins, þá hefði þó meiri hl. sjútvn. sýnt nokkurn lit á því að vilja gefa þeim aðilum kost á því að sitja við samningsborðið, sem hér á að semja fyrir. En meiri hl. sjútvn. virðist ekki hafa skilið, að þess sé þörf.

Á það hefur réttilega verið bent hér áður, að ákvörðun fiskverðs í þessum efnum er á margan hátt mjög flókið málefni, því að aðstæður eru mjög mismunandi á hinum ýmsu stöðum við landið. Það eru ekki sömu sjónarmið, sem koma fram í þessum efnum hjá sjómönnum og reyndar ekki heldur fiskkaupendum t.d. á Austurlandi og Vestfjörðum eins og koma fram hér við Suðurlandið eða Suðvesturlandið. Samsetningur aflans er með allt öðrum hætti, þess afla, sem dreginn er á land aðallega á sumrin, og hins, sem dreginn er á land á veturna. Og við höfum oft orðið varir við, að það er full nauðsyn á því að hlusta á sérstöðu þeirra víða úti á landi í þessum efnum, en fara ekki einvörðungu eftir því, sem forustumenn heildarsamtakanna hér syðra oft og tíðum segja um þessi mál. Ég álít af þessum ástæðum þeim mun meiri nauðsyn á því, að það sé alveg tryggt, að við hið eiginlega samningaborð í þessum efnum sé einmitt fulltrúi frá Alþýðusambandinu, sem getur komið þar fram sem fullgildur aðili fyrir félögin úti um allt land, en ekki þeir aðilar, sem koma hér fram miklu takmarkaðra, eins og Sjómannasambandið og reyndar einnig Farmanna- og fiskimannasambandið, því að þar er ekki heldur um að ræða, að þar séu félagsbundnir yfirleitt nema yfirmennirnir á stærri fiskiskipunum. Mikill hluti yfirmanna á hinum smærri fiskibátum, miðlungs og smærri, stendur fyrir utan þau samtök.

Mér finnst bæði þetta atriði og önnur í frv. bera þess mjög vott, að tilhneigingin til þess að halla raunverulega á hlut sjómannanna er mjög áberandi í uppbyggingu þessa verðlagsráðs. Og tilhneigingin til þess raunverulega að búa þannig um hnútana, að fiskkaupendur hafi hér miklu sterkari aðstöðu og betri aðstöðu, skín út úr allri uppbyggingunni. Nú er það einmitt vitað, að málið hefur verið þannig á undanförnum árum, að í félagssamtökum íslenzkra útgerðarmanna, Landssambandi ísl. útvegsmanna, hafa einmitt verið hörkudeilur um það, að fiskseljendurnir innan þeirra samtaka hafa talið sinn hlut fyrir borð borinn þar af of miklum áhrifum fiskkaupenda. Því þurfti einmitt að búa vel um hnútana, að í öllu þessu væri þess vandlega gætt, að fulltrúar útgerðarmanna, sem eiga að teljast fulltrúar fiskseljenda, hefðu hér hreinna hagsmuna að gæta sem fulltrúar fiskseljenda, en þetta er vanrækt í öllum aðalatriðum í sambandi við uppbygginguna á þessu kerfi.

Nú er annað atriði varðandi skipun þessarar yfirnefndar, sem mér þykir vera mjög óákveðið, eins og tillögur koma hér fram um. Þar segir, að tveir fulltrúar fiskseljenda, sem eiga að vera í yfirnefndinni, skuli vera tilnefndir af fulltrúum fiskseljenda í verðlagsráðinu. Hvað þýðir það? það þýðir, að fulltrúi sjómanna á að tilnefnast af þeim 7 mönnum í verðlagsráðinu, sem eru fulltrúar fiskseljendanna. M.ö.o.: útgerðarmennirnir fjórir í verðlagsráðinu eiga að geta haft atkvæði um það, hvaða fulltrúi sjómanna lendir í yfirnefndinni. Á sama hátt er það, að fulltrúar sjómanna í verðlagsráðinu eiga að geta haft áhrif á það, hvaða fulltrúar frá L.Í.Ú. eru í yfirnefndinni. Þetta tel ég mjög óheppilegt, því að það er ekkert um að villast, að það er ekki hér fullkomin samstaða að öllu leyti á milli fulltrúa sjómanna annars vegar og fulltrúa Landssambands ísl. útvegsmanna hins vegar, allra sízt ef í þeim hópi mega líka vera menn, sem hafa hagsmuni fiskkaupenda. Ég tel, að þessu þyrfti að breyta.

Í brtt. þeim, sem 1. minni hl. sjútvn., hv. 3. þm. Norðurl. e., flytur, koma fram ýmsar breytingar, sem mundu vera mjög til bóta. Í tillögum beggja minni hlutanna, 1. minni hl. og 2. minni hl., er lagt til, að í sjálfu verðlagsráðinu verði fjölgað um tvo menn, einn af hálfu fiskseljenda og einn af hálfu fiskkaupenda, og þar er gert ráð fyrir því, að Alþýðusamband Íslands fái að velja tvo menn í verðlagsráðið í staðinn fyrir einn áður. Þessa tillögu tel ég til bóta, því að ég tel, að það sé réttmætt, að hlutur sjómanna og útgerðarmanna sé jafn í þessari nefnd, en ekki misjafn, eins og hann var settur upp í frv. Þá gerir 1. minni hl. ráð fyrir því í sinni brtt., að reynt verði að koma í veg fyrir, að inn í verðlagsnefndina slæðist menn frá hálfu útgerðarmanna og reyndar af hálfu beggja aðila, sem hafi andstæða hagsmuni við þá, sem þeir eru fulltrúar fyrir í nefndinni, og ég tel, að það sé líka verulega til bóta. Þessar tillögur ná ekki aðeins til yfirnefndarinnar, heldur einnig til verðlagsráðsins sjálfs, sem er eðlilegt að verði hér hugsað sem raunverulegur samningsaðili, en ekki bara sem einhver undirnefnd, sem á að kjósa aðra raunverulega samninganefnd.

Þá gerir 1. minni hl. sjútvn. ráð fyrir því í sínum tillögum, að samtök fiskkaupenda á Austur- og Norðurlandi og fiskkaupenda á Vestfjörðum fái að eiga fulltrúa í verðlagsráðinu, þegar samið er um fiskverðið, og þá alveg sérstaklega fyrir þau veiðitímabil, sem við koma þessum svæðum. Ég tel, að þetta sé réttmætt og eðlilegt og beri að samþykkja þessa tillögu. Það er rétt að athuga það, að fiskkaupendur á Austurlandi og Norðurlandi hafa myndað með sér samtök, — frystihúsaeigendurnir í þessum landshlutum, á Austur- og Norðurlandi, og aðrir þeir, sem kaupa fisk, hafa myndað með sér samtök, sem hafa það yfirlýsta markmið að vera samningsaðilar við þá, sem selja fisk á þessu svæði. Ég álít, að það sé réttmætt að ganga ekki fram hjá þessum samtökum. Þó að hægt sé að segja, að Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna eða önnur landssamtök geti komið fram fyrir þeirra hönd, þá sé ég enga ástæðu til þess, að stjórn Sölumiðstöðvarinnar, sem situr í Reykjavík, sé að tilnefna þar 3 menn, en hún gæti vel sætt sig við að skipa þar nokkru færri, en taka aftur tillit til þessara samtaka, sem eru þegar stofnuð og mundu án efa geta látið koma fram í sambandi við þessa samninga ýmislegt varðandi sérstöðu fiskkaupenda á þessum svæðum.

Þá verð ég einnig að segja það um till. 1. minni hl., hv. 3. þm. Norðurl. e., um skipun yfirnefndar og um þau tilfelli, þegar grípa þyrfti til oddamanns í yfirnefndinni, að ég álít, að þar sé þó reynt að finna samningaleið, sem vel ætti að vera hægt að sameinast um, þó að ég fyrir mitt leyti kysi miklu fremur þá tillögu, sem 2. minni hl. leggur fram og fram hafði komið í áliti Tryggva Helgasonar í undirbúningsnefndinni, þar sem gert er ráð fyrir því, að það verði raunverulega verðlagsráðið sjálft, sem eigi að ganga til samninga og eigi að hafa samningaskylduna í þessum efnum og samningaábyrgðina og aðeins þegar verðlagsráðið er komið í þröng, þá geti það leitað til sáttasemjara, sem verði milligönguaðili í verðlagsráðinu, og að sáttasemjari, ef allt um þrýtur, hafi sama vald og hann hefur nú í almennum vinnudeilum til þess að leggja fram sáttatillögu. Ég fyrir mitt leyti hefði kunnað bezt við þetta og tel, að þessi skipan hefði tryggt það bezt, að aðilarnir hefðu skilið það, að á þeim hvíldi sú skylda að reyna að semja um málið, því að það er einmitt aðalatriðið að reyna að knýja fram samninga, sem síðan geta staðið, á milli aðila. En fáist menn ekki til þess að fallast á þá leið, þá álít ég, að sú skipan, sem kemur fram í till. 1. minni hl. sjútvn., komi vel til greina sem samningsgrundvöllur, því að þar er þó ekki gert ráð fyrir því, að gripið verði til oddamanns í yfirnefndinni, nema meiri hluti beggja aðila, sem ganga til samninga, hafi fallizt á það að kalla til oddamann. Hafi meiri hluti fiskseljenda og meiri hluti fiskkaupenda fallizt á að kalla til oddamann, þá er þó óneitanlega orðinn verulega mikill grundvöllur fyrir því að hlíta úrskurði oddamanns. Ég álít, að meiri hl. sjútvn. hefði vissulega átt að reyna að taka þessa tillögu og íhuga hana, og ég vil alveg sérstaklega beina því til hæstv. sjútvmrh., hvort hann treystir sér ekki til þess að athuga einmitt um samkomulagsmöguleika í sambandi við afgreiðslu þessa máls á grundvelli þessarar tillögu.

Þá koma fram brtt. til viðbótar við það, sem hér hefur verið greint frá, frá 2. minni hl., þar sem er lagt til, að birta skuli alla útreikninga, sem úrskurður um verðlagningu er byggður á. Ég tel þetta mjög eðlilegt og sanngjarnt. Ef kallaður hefur verið til oddamaður í yfirnefnd og upp hefur verið kveðinn úrskurður um verðlagninguna, þá er eðlilegt, að rökstuðningur sé birtur fyrir úrskurðinum, og sanngjarnt að sýna aðilum, á hverju hin endanlega ákvörðun hefur verið byggð, alveg talnalega séð. Ég tel þessa tillögu mjög til bóta.

Þá er einnig þar um að ræða tillögu, sem gerir ráð fyrir því, að verði um gengisbreytingu að ræða á verðlagstímabili, þá breytist fiskverðið á verðlagstímabilinu í samræmi við gengisbreytingu, sem kann að verða. Þetta er líka mjög eðlilegt og alveg hliðstætt því í raun og veru, sem ýmsir aðrir aðilar búa við. Því er haldið fram, að grundvöllur þess, hvert fiskverðið skuli vera á hverjum tíma, eigi að vera markaðsverðið erlendis, það er beinlínis tekið fram, og ef markaðsverðið erlendis breytist skyndilega, vegna þess að verðgildi krónunnar breytist, þá er sanngjarnt að breyta líka fiskverðinu á viðkomandi tímabili. Ég held, að slíka tillögu eigi að samþykkja, hún sé aðeins í fullu samræmi við yfirlýstan vilja í þessum efnum.

Eins og hefur komið fram í þessum umræðum, er nú alveg augljóst, að frjálsa leiðin, sem hæstv. ríkisstj. ætlaði að byggja stefnu sína á í þessum efnum, hefur farið út um þúfur. Það er alveg greinilegt, að sú yfirlýsing ríkisstj., sem hún gaf, þegar hún tók fyrst við völdum, að hún ætlaði ekki að skipta sér af samningum á milli útgerðarmanna og sjómanna varðandi kjör þeirra almennt séð, — það er greinilegt, að ríkisstj. hefur sannfærzt um það, að þetta hefur ekki getað gengið, enda er auðvitað reynslan ólygnust í þessum efnum. Hún hefur sýnt, að það hefur ríkt, síðan þessi stefna ríkisstj. var tekin upp, hreint öngþveitisástand varðandi þessi mál. En það er rétt, sem hér hefur verið bent á, að á tímum vinstri stjórnarinnar urðu aldrei stöðvanir í sjávarútvegi okkar vegna þess, að ekki hefðu verið gerðir samningar á milli þessara aðila í tæka tíð. En þá var þetta einmitt leyst á þann hátt, að ríkisstj. tók að vísu upp milligöngu, en hún leitaðist við að fá rétta aðila að málinu til þess að semja. Þá var samið um fiskverð, sem gilda skyldi á milli sjómanna annars vegar og útgerðarmanna hins vegar og á milli útgerðarmanna og fiskkaupenda að öðru leyti. Það var reynt að semja við rétta aðila í þessum efnum og ekkert skorazt undan því að semja jöfnum höndum við fulltrúa Farmanna- og fiskimannasambandsins, við fulltrúa frá Sjómannasambandinu, við fulltrúa frá Alþýðusambandinu og fulltrúa frá hinum ýmsu aðilum, sem komu fram fyrir hönd útgerðarmanna og fiskkaupenda. Þá leystist málið með því, að menn horfðust í augu við staðreyndir í þessum efnum, og það var reynt að leita samninga á milli þeirra, sem semja þurftu. En það var ekki gengið að málinu eins og nú er hugsað samkvæmt þessu frv., því að það er ætlazt til að setja upp nefnd manna, sem á að ákveða verð, án þess að þeir aðilar, sem eiga beinan hlut að máli, komi fram í þeirri nefnd sem samningsaðilar.

Ég benti á það við 1. umr. þessa máls, að það væri hætta á því, ef sjómenn teldu rétt sinn fyrir borð borinn í sambandi við þessa samningagerð, að þá gripu þeir til þess að segja upp sínum almennu kjarasamningum og knýja þá fram breytingar, jafnvel með vinnustöðvun, ef til hennar þyrfti að grípa, knýja þá fram breytingar á hlutaskiptakjörunum. Ég veit, að ein ástæðan til þess, að hæstv. ríkisstj. er nú að reka á eftir því, að þetta mál verði afgreitt fyrir jól, er sú, að hún vill reyna að draga úr hættunni á því, að það komi til rekstrarstöðvunar í upphafi næstu vertíðar. En hefur þá hæstv. ríkisstj. athugað það, að sjómannafélögin í landinu eru öll búin að segja upp kjarasamningum sínum nú? Hlutaskiptakjarasamningarnir eru lausir í dag, um það á eftir að semja, m.a. vegna þess, að sjómenn töldu, að þeir fengju ekki það verð fyrir fiskinn, sem þeir hefðu átt að fá. Það er því alveg gefið mál, að ríkisstj. losnar ekki undan hættunni af rekstrarstöðvun á komandi vertíð með því að ætla að þjösna þessu máli í gegnum þingið. Ef það verður afgreitt í því formi, að sjómannafélögin í landinu geti yfirleitt ekki sætt sig við það, þá liggur það opið fyrir á borðinu hjá þeim, að þau geta gripið til stöðvunar, þar sem þau eru búin að segja upp sínum almennu kjarasamningum, og reyna þá að knýja fram breytingar á hlutaskiptakjörunum. En mér sýnist, að vinnubrögð hæstv. ríkisstj. í þessum efnum hafi einmitt borið þess vitni, að hún hafi ekki áttað sig á, hvernig þessi mál liggja fyrir í raun og veru.

Með brbl. þeim, sem ríkisstj, setti nú í sumar varðandi ýmsar fylgiráðstafanir með gengislækkuninni, var ákveðið, að þá skyldi stórhækka útflutningsgjöld á sjávarafurðum. Þau voru hækkuð með brbl. úr 2.9% upp í 7.4%. Þar var ákveðið, að þessari hækkun útflutningsgjaldanna skyldi m.a. varið til þess að borga vátryggingar fiskiskipanna í landinu, og að öðru leyti átti hækkunin að renna í sérstaka stofnsjóði vegna sjávarútvegsins. Það er enginn vafi á því, að ein meginástæðan til þess, að sjómannafélögin í landinu sögðu upp kjarasamningunum í haust, var einmitt sú, að þessi brbl. ásamt með gengislækkuninni röskuðu þeim samningsgrundvelli, sem byggt var á í seinustu samningum á milli útgerðarmanna og sjómanna. Þar var ákveðið, að sjómenn skyldu fá rétt fiskverð, eins og það var orðað, eða sama fiskverð í sinn hlut og eigendur bátanna fengju, og þá var mjög fagurlega um það talað, að á þann hátt fengju eigendur bátanna, eigendur fiskiskipanna og sjómenn sameiginlega hagsmuni varðandi fiskverðið, báðir vildu vinna að því að fá sem hæst fiskverð. En svo grípur hæstv. ríkisstj. þannig inn í málið, að hún byrjar á því með brbl. að taka nokkra útgjaldaliði hjá útgerðinni sjálfri og taka þá fyrst af óskiptu, leggja á sérstök útflutningsgjöld, sem vitanlega verða til þess, að fiskverð í landinu hlýtur að lækka. Sjómenn fá ekki það fiskverð, sem þeir eiga að fá og áttu að fá samkv. samkomulagi við útgerðarmenn, og það er það, sem rekur þá til þess að fara að segja upp sínum kjarasamningum, hafa allt laust, því að þeir vitanlega vilja ekki una við það að búa við ranglátt fiskverð miðað við þann samningsgrundvöll, sem þeir hafa lagt. Þetta sýnir, að það þarf að fara að með allri varúð í þessum efnum, það þarf að reyna að búa þannig um hnútana, að fiskverðið sé ákveðið sem réttlátast, án þess að áður sé búið að skekkja það með því að taka fyrst tiltekna kostnaðarliði t.d. hjá öðrum aðilanum og leggja á óskiptan hlut. Og það þarf að búa þannig um hnútana, að þeir aðilar, sem hér eiga raunverulega hlut að máli, séu beinir samningsaðilar að því að ákveða fiskverðið, þeir séu ásáttir um það, hvernig það hefur verið ákveðið.

Frv., eins og það liggur hér fyrir, þar sem til viðbótar við brbl. frá því í sumar, sem raunverulega röskuðu grundvellinum, er á ný ákveðið, að bera skuli fyrir borð hagsmunaaðstöðu sjómanna, það vitanlega framkallar beinar vinnustöðvanir í þessum efnum. Það leysir engan vanda, en framkallar stöðvanir. Ég held því, að það gæti vel farið svo, eins og á málinu hefur verið haldið, bæði varðandi setningu brbl. frá því í sumar og eins í sambandi við uppbyggingu verðlagsráðsins, að þá sé veruleg hætta á því, að þó að verðlagsráðið að vísu geti ákveðið eitthvert fiskverð, þá komi almennar vinnustöðvanir eftir sem áður. Ég held því, að hæstv. ríkisstj. ætti að athuga það vandlega, áður en hún afgreiðir þetta mál endanlega, að það muni vera heillavænlegast fyrir hana að reyna að vinna að því að taka sanngjarnt tillit til hagsmuna sjómanna varðandi uppbyggingu verðlagsráðsins og einmitt reyna að standa þannig að málunum, að sem mestur friður geti verið um sjálfa kjarasamningana á milli sjómanna og útgerðarmanna og síðan sé hægt að leysa viðbótarvandann við samningaborðið varðandi sjálft fiskverðið.

Ég skal ekki hafa þessi orð mín öllu fleiri, en vildi enn beina því að lokum til sjútvn., að hún taki þær tillögur, sem hér eru fram komnar, til nýrrar athugunar og þær ábendingar, sem hér hafa komið fram, til þess að athuga um það, hvort ekki eru einhverjar líkur til þess, að skapa megi a.m.k. meiri samstöðu um afgreiðslu málsins en virðist vera eins og málið liggur fyrir nú.