13.11.1961
Efri deild: 14. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 39 í B-deild Alþingistíðinda. (29)

74. mál, lækkun aðflutningsgjalda

Björn Jónsson:

Herra forseti. Eins og hv. 9. þm. Reykv. tók fram hér áðan, hefur ekki verið mikill tími til þess að athuga þetta frv., því að efni þess virðist hafa komið síðar í hendur okkar þm. hér í d. en Mánudagsblaðsins, svo að það kann nú að vera, að ýmislegt í sambandi við þetta mál kunni að skýrast betur og það verði betra tækifæri til þess að kryfja málið að ýmsu leyti til mergjar, þegar það hefur hlotið athugun í nefnd. En ég vildi þó nú þegar við 1. umr. málsins gera nokkur atriði frv. að umræðuefni, eins og þau koma mér fyrir sjónir við mjög lauslega athugun.

Það hefur komið fram, bæði í grg. með frv. og í ræðu hæstv. fjmrh., að megintilgangur frv. sé af hálfu ríkisstj. sá að draga stórlega úr ólöglegum innflutningi á vissum hátollavörum, sem talið er að sé nú mjög mikill. Og það virðist vera skoðun hæstv. ríkisstj. og hæstv. ráðh., að eina leiðin til þess að vinna bug á þessum ósóma, sem hann nefnir svo réttilega, sé að draga úr ágóðavon smyglarans með því að minnka verðmismuninn á vörunni heima og erlendis. Það kann að vísu að vera eitthvað til í þessari kenningu, en þó finnst mér hún að ýmsu leyti töluvert vafasöm. Mér finnst það vera mjög vafasöm kenning, að sá, sem vill hagnast með ólögmætum hætti, láti af þeirri tilhneigingu, ef hagnaðurinn minnkaði eitthvað. Mér þykir t.d. ekki sennilegt, að sá, sem nú kynni að hagnast um 200% með smygli, láti af því, þó að hagnaðurinn minnki niður í 100%. Ég held, að hann mundi halda því áfram, ef hann gæti, og ég vil þess vegna segja það, að af þeim tveimur leiðum, sem hæstv. ráðh. nefndi hér áðan í sinni ræðu um varnir gegn smygli, mundi ég hallast að því frekar, að síðari leiðin, þ.e.a.s. að endurbæta tollgæzluna, hefði veruleg áhrif. Mér þykir líka ákaflega ósennilegt, að áhafnir skipa og báta og flugvéla, sem sérstaklega eru tilgreindar í frv. sem hættulegir smyglarar — (Gripið fram í.) Það stendur í grg. Það eru sérstaklega nefndir farþegar og áhafnarmeðlimir sem þátttakendur í smyglinu, á bls. 7 efst, ef hæstv. ráðh. hefur ekki lesið þá grg., sem hann hefur sent með frv. Ég held, að þeir og reyndar aðrir, sem ferðast á milli landa, muni undir öllum kringumstæðum halda áfram að nota þann gjaldeyri, sem þeir fá annaðhvort sem laun eða afla sér með öðrum hætti, til þess að flytja einhverja vöru til landsins og leitast við að koma henni undan álagningu aðflutningsgjalda, eftir því sem þeim frekast er unnt. Ég held, að á þessu verði engin breyting, jafnvel þó að breytingar á aðflutningsgjöldum á vissum tegundum geti orkað í þá átt að beina smyglhættunni inn á aðrar brautir, það viðurkenni ég að muni vel geta átt sér stað.

En við skulum sleppa þessu og jafnvel gera ráð fyrir því, að eitthvert verulegt hald sé í þessari aðalkenningu, sem mér virðist frv. vera byggt á. Þá hlýtur það þó að ráða mestu um það, hvort þessi aðferð er virk í þeim tilgangi, sem henni er ætlað að vinna, að um það verði að ræða, að raunverulegar verðlækkanir verði í fullu samræmi við þá lækkun á aðflutningsgjöldunum, sem lögð er til, því að ef endanlegt verð á vörunum til neytendanna verður lítið breytt frá því, sem áður var, þá get ég ekki séð, að þetta komi að neinu haldi. Nú er það auðvitað svo, að það eru ekki aðflutningsgjöldin ein, sem ákveða endanlegt verð vörunnar eða gera út um það, hvernig sú vara, sem löglega er fengin, stendur sig í samkeppni við ólöglegan innflutning. Þar kemur vitanlega fleira til og þá alveg sérstaklega álagningin á vörurnar. Mér sýnist því, að það sé vel hugsanlegt, að lækkun á aðflutningsgjöldum komi ekki fram nema þá að mjög litlu leyti, og mér virðist engin trygging fyrir því, að hún geri það að nokkru leyti, — engin fullkomin trygging, — ef ekki er sett fyrir þann leka, að álagningin hækki að sama skapi og aðflutningsgjöldin eru lækkuð. Ef sú yrði raunin, þá sé ég ekki, hvert gagn er að þessari aðferð hæstv. ríkisstj. til þess að draga úr smyglinu.

Og þá er ég nú kominn að því, sem ég tel raunverulega vera aðalatriðið í þessu máli, þ.e.a.s. hverjum komi lækkun aðflutningsgjaldanna, eins og að henni er staðið, fyrst og fremst til góða. Kemur hún almenningi, sem kaupir vörurnar að síðustu, til góða, eða beinast þessar lækkanir og sá mismunur, sem þarna kemur fram, inn á aðrar leiðir? Ég vil taka undir það með hv. 9. þm. Reykv., að auðvitað væri það mikið fagnaðarefni, ef þessi hæstv. ríkisstj., sem nú fer með völd og hefur ekki gengið eins hart fram í neinu í sinni valdatíð og að hækka verð erlendrar vöru með því að hækka aðflutningsgjöld stórkostlega, líka á þessum vörum, sem hér er rætt um, væri allt í einu snúin við á þeirri braut dýrtíðar, sem hún hefur gengið, og hygðist nú fara að lækka vöruverð almennt í landinu aftur. Þetta væri auðvitað mikið fagnaðarefni, og því bæri líka að fagna, jafnvel þótt ekki væri nú byrjað á meira en því að lækka nokkuð aðflutningsgjöld á þeim vörum, sem síður verða taldar til brýnustu lífsnauðsynja, en ekki almennt á þeim vörum, sem allra nauðsynlegastar eru. Það bæri að sjálfsögðu að fagna því einnig. En þá kemur þessi spurning: Hefur verið staðið þannig að þessari tillögugerð, sem hér er á ferðinni, að það sé tryggt, að lækkanirnar á gjöldunum komi fram í vöruverðinu, eða hafa einhverjar sérstakar ráðstafanir verið gerðar í þá átt? Ég held, að ef svo hefði verið, þá hefði bæði í grg. frv. og eins í ræðu hæstv. ráðherra verið lögð miklu meiri áherzla á það atriði, að þessar ráðstafanir kæmu almenningi til góða. En í grg. er alls ekki minnzt á þetta, hins vegar gerði hæstv. ráðh. þá hlið málsins að nokkru að umtalsefni, og kem ég að því síðar, en þó ekki að neinu aðalatriði í málinu.

Í þessu sambandi verður ekki komizt fram hjá því að minna á þá staðreynd, sem kann að vísu að vera dálítið óþægileg fyrir hæstv. ráðh. og fyrir ríkisstj., sem er að hæla sér af þessum aðgerðum, sem hún hér er að leggja til, að hún beitti sér fyrir því á s.l. hausti, að nýjar reglur voru settar um verðlagningu, og með tilkynningu verðlagsyfirvaldanna, frá 31. ágúst s.l. ætla ég það sé, sem ég hef hér í höndunum, er saminn mjög langur listi yfir vörur, sem hér eftir skulu vera undanþegnar öllum verðlagsákvæðum. Ég hef ekki haft tíma til að bera þennan lista tilkynningar verðlagsnefndar frá 31. ágúst frá orði til orðs saman við þær vörur, sem nú eru taldar upp í frv. og á að lækka aðflutningsgjöldin af, en ég hygg, að það skeiki a.m.k. sáralitlu, að þessi tilkynningalisti verðlagsyfirvaldanna sé nákvæmlega þræddur í þessu frv., sem hér er lagt fyrir þingmenn. Það virðist því, að það vöruval, sem þarna hefur verið, hafi alls ekki verið valið með tilliti til þess, að þarna væri um vörur að ræða, sem mikil hætta væri á að væru smyglaðar, þó að það séu að vísu mjög margar þeirra, heldur svo að segja 100% eða kannske alveg, — ég skal ekki alveg fullyrða það, — verið þræddur þessi listi yfir þær vörur, sem verzlunarstéttin hefur ótakmarkaða heimild til að verðleggja eftir sínum geðþótta. Ég býst t.d. við því, að það verði frekar erfitt að fá menn til að trúa því, að það sé sérstök hætta á því, að t.d. hlutum eins og baðkerum, salernisskálum, ljósakrónum, jólatrjám og öðru slíku sé smyglað til landsins. Þetta val á þessum tegundum til þess að lækka aðflutningsgjöldin getur því ekki staðið í sambandi við þá meginröksemdafærslu, sem færð hefur verið fram fyrir frv. Eða hafa kannske verið brögð að því, að þessum vörum væri smyglað í stórum stíl til landsins? Mér finnst það afar ólíklegt.

Auðvitað ber ekki að skoða þessi orð mín svo, að ég sé andvígur því, að aðflutningsgjöld séu lækkuð á þessum vörum fremur en hinum, því að á því er auðvitað brýn nauðsyn. En þetta sannar hins vegar ekkert annað en það, að það er önnur meginregla, sem hefur verið höfð í huga, þegar verið var að velja vörurnar til að lækka á þeim aðflutningsgjöldin, heldur en það, sem hæstv. ráðh. vildi vera láta að hafi verið eina eða a.m.k. aðalástæðan. Ég hygg, að það fari ekki á milli mála og sé alveg opinbert leyndarmál, að með þessu frv. sínu er ríkisstj. fyrst og fremst að efna loforð, sem hún hefur gefið verzlunarstéttinni um aukinn hagnað og hún gaf í viðræðum sínum við heildsala og samtök kaupmanna í ágúst s.l. og að þar sé höfuðástæðuna og höfuðrökin að finna fyrir flutningi þessa frv. Þetta hálfopinbera samkomulag, sem ríkisstj. gerði þá við verzlunarstéttina um það, að hún fengi takmarkalausa álagningarheimild á vissar vörutegundir, var gert á sama tíma og álagning var einnig stórhækkuð almennt á þeim vörum, sem verðlagsákvæðin voru þá ekki numin af og sannanlegt er að nam miklu meira en sá aukni tilkostnaður, sem verzlunin hafði af kauphækkununum í sumar. En kröfur verzlunarstéttarinnar gengu lengra en að fá almennum álagningarreglum breytt. Þær gengu einnig í þá átt að fá miklu meira en áður hafði verið af vörum undanþegið öllum verðlagsákvæðum, þannig að hún gæti aukið hagnað sinn af þeim mjög verulega frá því, sem áður var. Og þegar böndin bárust sérstaklega að þessum vörutegundum, sem í þessu frv. felast, kom sú mótbára frá hálfu verzlunarstéttarinnar, að aðflutningsgjöldin væru svo há á þessum vörum, að það væri ekki unnt að hækka álagninguna, nema aðflutningsgjöldin yrðu lækkuð. Og það er það, sem verið er að gera núna. Það er verið að rýma til fyrir verzlunarstéttinni, lækka aðflutningsgjöldin, til þess að verzlunarstéttin geti aukið sína álagningu. Og til þess hefur hún ótakmarkaða heimild samkv. ákvörðun ríkisstj., sem hún tók í ágúst s.l.

Hæstv. ráðh. nefndi hér nokkur dæmi þess, að verðlag mundi lækka á ákveðnum vörutegundum, og sumt af því virtist vera allverulegt. En hvar hefur hæstv. ráðh. tryggingu fyrir því, að lækkunin verði þessi, þegar afnumin hafa verið öll verðlagsákvæði? Getur það ekki verið hvenær sem er, að heildsalar og smásalar telji sér hagkvæmt að hækka álagninguna og jafnvel svo mikið, að ekkert verði eftir handa neytendum? Ég get ekki séð, að gegn þessu sé nokkur trygging til. Eða ef það var alveg öruggt, að verðið mundi lækka á öllum þessum vörutegundum, hvers vegna máttu þær þá ekki vera undir verðlagsákvæðum áfram? Hvers vegna mátti það ekki vera tryggt, að a.m.k. einhver hluti af lækkun aðflutningsgjaldanna kæmi neytendum til góða? Við skulum segja, að það hafi verið nauðsynlegt að hækka eitthvað álagninguna, sem ég reyndar dreg mikið í efa, — en því í ósköpunum mátti þá ekki halda einhverju eftir af verðlagsákvæðunum sem tryggingu fyrir neytendur? (Fjmrh.: Má ég aðeins segja til skýringar, að það er svolítill misskilningur í þessu. Mikill meiri hluti þeirra vara, sem frv. fjallar um, er enn undir verðlagsákvæðum! Ég mun ganga úr skugga um það síðar, hvað hæft er í þessari síðustu fullyrðingu hæstv. ráðh., sem hann gerir úr sæti sínu, en ég get til glöggvunar á því, hvað hér er um að ræða, tekið nokkur dæmi um það, hvaða vörur eru taldar upp í tilkynningu verðlagsyfirvaldanna frá 31. ágúst. Það eru þær matvörur, sem um er að ræða í frv., að ég held, niðursoðnir ávextir og skyldar vörur, sem frekar er þar talið upp og ég ætla að passi algerlega við frv. Það eru fatnaðarvörur, yfirleitt allur ytri fatnaður og allur tilbúinn fatnaður, sem er vitanlega eitt af því þýðingarmesta í frv. Það er skófatnaður, kvenskór, — það er kannske tilviljun, að það er eina skótegundin, sem er lækkuð samkv. frv., og eina skótegundin, sem er undanþegin verðlagsákvæðum. Það eru þær byggingarvörur, sem upp eru taldar í frv., það eru þær rafmagnsvörur, sem upp eru taldar í frv., það eru þau ritföng, sjálfblekungar, skrúfblýantar o.s.frv. Skrifstofuvélar munu að vísu ekki vera þarna. Það er það eina, sem ég kem auga á í flýti, sem er ekki upp talið af þeim vörutegundum, sem hámarksálagning hefur verið numin af. En það kann að vera fleira, ég hef ekki haft nægan tíma til að kanna það. En ég held, að það sé fráleitt, að þessi fullyrðing standist, að þarna sé um meiri hlutann að ræða. En það kemur að sjálfsögðu í ljós síðar, hvor okkar hæstv. ráðh. hefur á réttara að standa í því efni.

Ég held þess vegna, að ef það hefur verið aðaltilgangurinn með þessu frv, að hindra ólöglegan innflutning, eins og fært er fram sem aðalröksemd fyrir frv., þá hefði verið alveg nauðsynlegt, um leið og aðflutningsgjöldin voru lækkuð, að tryggja það, að sú lækkun kæmi fram í verðlaginu. En það er einmitt það, sem hefur verið látið hjá líða. Það má kannske segja, að það hafi verið stíflað fyrir einn smygllækinn og hindraðar orsakir þess að einhverju leyti þannig, en það hefur þá verið tekin stíflan úr á öðrum stað, og mér sýnist tvísýnt, hvort rennslið í nýja farveginum verður ekki eins mikið og í þeim fyrri. En þarna er sem sagt verið að leyna því, hver sá tilgangur var, sem fyrir hæstv. ríkisstj. vakti og eins og ég hef rakið er opinbert leyndarmál, að það er samningur við heildsalastéttina, sem verið er að halda með þessu, og ekkert annað. Og það er a.m.k. engin trygging fyrir því, að þetta komi neytendum að nokkru teljandi gagni, og ekki heldur fyrir því, að það hafi neitt að segja viðvíkjandi heildarmagni smyglvarnings til landsins.

Þetta var það, sem ég vildi segja um frv. sjálft. En í sambandi við það, að í grg. frv. er boðað, að nú standi yfir allsherjarendurskoðun á lögum um tollskrá, og það hefur reyndar verið boðað áður af hæstv. fjmrh., og að þessari athugun eigi að vera lokið fyrir árslok 1962, þá vil ég segja það, að ég tel það þess vert, að það sé gagnrýnt, bæði í sambandi við þessa sérstöku heildarendurskoðun á tollalögum og eins í sambandi við þetta krafs í tollskrárlögin, sem þetta frv. er, því að annað er það ekki, að slík endurskoðun á svo mikilvægu og flóknu löggjafaratriði sem hér er um að ræða fari fram án þess, að nokkrir aðrir fái að koma þar nærri en þeir, sem beint starfa í þágu ríkisstj., embættismenn hennar eða tilkvaddir pólitískir fulltrúar. Ég held, að þegar um svo flókin mál og margþætt er að ræða eins og þessi, sé í raun og veru alveg óverjandi annað en að stjórnarandstaðan fái á hverjum tíma að fylgjast með í slíkum rannsóknum og eiga sína fulltrúa í þeim nefndum, sem að slíkri endurskoðun vinna. Ég tel, að það sé bæði ólýðræðislegt og óheppilegt fyrir alla aðila og líka fyrir hæstv. ríkisstj. að viðhafa þá aðferð að leyna stjórnarandstöðuna öllu, sem verið er að gera í þessum efnum, þangað til fullbúnum frumvörpum er skellt á borðið og hv. þm. er ætlað að afgreiða þau jafnvel á nokkrum klukkutímum, en a.m.k. í bezta falli á nokkrum sólarhringum, og það um löggjafaratriði, sem sérfræðingar og nefndir hafa glímt við jafnvel svo að árum skiptir. Ég held, að slíkt sé ekki í samræmi við kröfur þingræðisins og geri það í raun og veru í þessu tilfelli að hálfgildings skrípaleik. Ég held, að slíkar endurskoðanir á allra flóknustu löggjafaratriðum ættu að jafnaði að fara fram á vegum milliþinganefnda, sem til þess væru sérstaklega kjörnar af hv. Alþingi. En núv. hæstv. ríkisstj. virðist hafa alveg sérstaka andúð á slíkum vinnubrögðum, bæði í þessu sérstaka efni, sem ég hef gert hér að umtalsefni, og öðru, að nokkrir komi nálægt slíkum löggjafarundirbúningi aðrir en þeir, sem hún hefur beint í sinni þjónustu. Ég held, að þau vinnubrögð séu ekki fallin til þess að auka á traust, hvorki þingmanna né almennings, á þeim aðgerðum og þeirri löggjöf, sem um er að ræða hverju sinni. Og það væri betur, að hæstv. ríkisstj. sæi að sér og tæki upp önnur vinnubrögð í þessum efnum.