19.10.1961
Efri deild: 5. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 481 í C-deild Alþingistíðinda. (2925)

29. mál, bústofnsaukning og vélakaup

Flm. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Frv. það á þskj. 29. sem liggur hér fyrir til 1. umr., var einnig flutt á síðasta Alþ., en fékkst þá ekki afgreitt. Flm. hefur þótt rétt að leggja það fram hér aftur, enda fjallar það um aðkallandi nauðsynjamál, sem varla verður daufheyrzt við til lengdar. Frv. fylgir allýtarleg grg., sem ég vænti að hv. þdm, hafi kynnt sér, og get ég af þeirri sök verið fáorðari í þessari framsöguræðu minni en ella.

Frv. fjallar um stuðning við þá bændur, sem lakasta aðstöðu hafa, frumbýlinga og fátæka bændur. Sá stuðningur er fólginn í hagstæðum lánum eða jafnvel í undantekningartilfellum beinum styrk til bústofnsaukningar, vélakaupa og til greiðslu þungbærra lausaskulda. Er með frv. stefnt að því að létta undir með þeim bændum og bændaefnum, sem erfiðasta aðstöðu hafa til búrekstrar og sérstaklega hafa orðið fyrir þungum búsifjum vegna efnahagsmálastefnu þeirrar, sem fylgt hefur verið í tíð núv. hæstv. ríkisstj. Það er stefnt að því að greiða fyrir og ýta undir bústofnsaukningu hjá frumbýlingum og ungum bændum og öðrum þeim bændum, sem hafa allt of lítinn bústofn og geta af þeim sökum alls ekki notið neitt sambærilegra kjara við aðra bændur, er betur eru settir. Það er stefnt að því að greiða fyrir búvélakaupum þeirra bænda, sem enn vantar nauðsynlegar vélar. Og það er stefnt að því að greiða fyrir því, að bændur með óbærilegar lausaskuldir geti fengið hagstæð lán eða stuðning til þess að geta haldið búrekstri áfram. Frv. gerir ráð fyrir því, að sett sé á fót föst stofnun, sjóður, til þess að annast þann stuðning og þá fyrirgreiðslu, sem fjallað er þar um. Um efni frv. skal ég annars taka þetta fram :

Samkv. 1. gr. frv, skal stofna sérstakan sjóð, sem nefnist bústofnslánasjóður. Hlutverk hans er að veita frumbýtingum og efnalitlum bændum lán eða styrk til bústofnsaukningar, vélakaupa og til greiðslu bráðabirgðalána og lausaskulda, eftir því sem nánar segir í lögunum.

Um stofnfé sjóðsins eru fyrirmæli í 2. gr. frv. Skal það vera 50 millj. Þar af er gert ráð fyrir því, að 20 millj. kr. séu óafturkræft framlag ríkissjóðs, sem greiða skal sjóðnum á næstu 4 árum, 5 millj. kr. framlag á ári, en hins vegar er gert ráð fyrir því, að 30 millj. kr. séu fengnar að láni gegn ríkisábyrgð. Okkur flm. þessa frv. er að sjálfsögðu ljóst, að vel getur svo farið og raunar má segja kannske eins og nú horfir fyrirsjáanlegt, að fé það, sem sjóðnum er hér ætlað, muni ekki reynast nægilegt. En við höfum á þessu stigi ekki talið ástæðu til að breyta þeirri upphæð, sem við settum í frv. í fyrra, að þessu leyti, en að sjálfsögðu verður þá síðar að bæta við fé sjóðsins, eftir því sem ástæður leyfa og reynslan sýnir að þörf er á.

Í 3. gr. frv. eru nánari fyrirmæli um það, hverjum bústofnslánasjóður getur veitt lán.

Í 4. gr. frv. eru rakin skilyrði fyrir lánveitingum, og sé ég ekki ástæðu til að rekja þau hér, en vísa til frv.

Í 5. gr. eru ákvæði um það, gegn hvaða tryggingum lán megi veita. Eru þau ákvæði nokkru frjálslegri eða rýmri, ef svo má segja, en venjulegast. er um lán hjá lánastofnunum, m.a. er gert ráð fyrir því, að lána megi út á vélar eða verkfæri og bústofn, sem sé þessar eignir, sem ég nefndi, geti verið veðhæfar í sambandi við þessi lán. Enn fremur er gert ráð fyrir því, að ábyrgð ábyrgðarmanna eða sveitarsjóðs geti verið nægileg trygging, en í þessu atriði er einmitt fólgið mikið hagræði fyrir lántakendur, þar sem það getur verið, að lántakandi eigi þess ekki kost að bjóða fram aðrar tryggingar en einmitt þessar, sem nefndar voru.

Sjóðsstjórninni er falið að meta. það í hverju falli, hverjar tryggingar hún metur gildar. Og sömuleiðis er það, að gert er ráð fyrir því, að fjárhæð láns hverju sinni fari eftir ákvörðun sjóðsstjórnarinnar, samkv. 7. gr.

Um vexti og lánstíma eru fyrirmæli í 8. gr. frv. Samkv. því ákvæði mega vextir aldrei vera hærri en 5% og lánstími aldrei lengri en 12 ár. Það hefur þótt nauðsynlegt einmitt vegna tilgangs þessa lánasjóðs að miða vextina við þetta hámark, sem þarna greinir, sem er allmiklu lægra en vextirnir almennt eru nú, vegna þess að ef vextirnir ættu að vera eitthvað nálægt því, sem nú er tíðast, mundu þeir menn, sem þessi lán eru hugsuð til hagræðis, ekki fá undir þeim risið að mati okkar flm. Á hinn bóginn má segja, að lánstíminn sé þarna nokkru styttri en oft á sér stað endranær, þegar um föst lán er að ræða, en það byggist á því, að tryggingin, sem gert er ráð fyrir að tekin verði þarna gild, er þess háttar, að ekki þykir fært að gera ráð fyrir lengri tíma en þessum, sem þarna segir. Enn fremur er það, að þar sem lánin eru ætluð til bústofnsaukningar, má gera ráð fyrir því, að sú aðstoð, sem í því felst, hafi borið árangur og mönnum sé kleift að endurgreiða lánin á þessu lánstímabili.

Samkv. 6. gr. er stjórn bústofnslánasjóðs heimilt að veita lánsumsækjanda styrk úr sjóðnum, allt að 30 þús. kr., ef búrekstri hans verður ekki að öðrum kosti komið á heilbrigðan grundvöll að mati sjóðsstjórnarinnar. Þessi upphæð, sem þarna er nefnd, er að vísu mjög lág, sérstaklega nú, þegar aðstæður sífellt eru að breytast og peningar stöðugt að verða verðminni, svo að það þarf sjálfsagt að koma til athugunar hjá n. þeirri, sem frv. þetta fær til meðferðar, hvort ekki væri ástæða til þess að hækka þetta hámark.

Bústofnslánasjóður skal vera í umsjá Búnaðarbankans, en lýtur sérstakri stjórn. Eru um stjórn sjóðsins fyrirmæli í 10. gr. frv. Hún á að vera skipuð fimm mönnum. Af þeim eiga fjórir að vera skipaðir samkvæmt tilnefningu þingflokkanna, einn frá hverjum, en sá fimmti, sem á að vera formaðurinn, skal skipaður samkvæmt tilnefningu Stéttarsambands bænda.

Ég mun svo ekki ræða frekar einstakar frumvarpsgreinar, nema tilefni gefist til þess síðar. Að því er varðar nauðsynina á slíkum lánum og þeirri fyrirgreiðslu, sem þetta frv. gerir ráð fyrir, get ég að mestu látið nægja að vísa til grg., svo og þess, er ég sagði um mál þetta í fyrra, þegar ég fylgdi samhljóða frv. úr hlaði í þessari hv. þd. Þó vil ég til viðbótar segja þetta:

Ég ætla, að það geti ekki verið skiptar skoðanir hjá, þeim, sem til þekkja, að efnahagsmálastefna núv. hæstv. ríkisstj, hafi komið sérstaklega harkalega við frumbýlinga og unga bændur. Kostnaður allur við bústofnun, hvort heldur eru bústofnskaup, byggingar, jarðræktarframkvæmdir eða véla- eða verkfærakaup, hefur stórkostlega hækkað á tveim undanförnum árum. Er nú svo komið, að sumar jarðræktarframkvæmdir, eins og t.d. framræsla, eru blátt áfram að stöðvast. Þessi tilkostnaðarhækkun kemur auðvitað fyrst og fremst niður á frumbýlingum, eins og ég sagði, en leggst einnig með vaxandi þunga og lamandi á hina, sem að vísu voru byrjaðir búskap, en þó nýlega og áttu að mestu eftir að koma fótum fyrir sig, áttu eftir að stækka bústofn sinn, áttu eftir að kaupa nauðsynlegar vélar og voru rétt í þann veginn að byrja á ræktunarframkvæmdum, hafa e.t.v. ekki haft aðstöðu til verulegrar jarðræktar fyrr en einmitt nú, t.d. vegna vegaleysis eða annarra samgönguvandræða eða þá skorts á vinnuvélum, og hafa þá ekki heldur fyrr en einmitt nú haft aðstöðu til þess að afla sér nauðsynlegra búvinnuvéla.

Það er mikið alvörumál og umhugsunarefni, hve fáir ungir menn byrja nú búskap í sveit. En það er, ef menn leiða hugann að því efni, ofur skiljanlegt. Kostnaðurinn við að stofna bú í sveit er orðinn svo ótrúlega mikill, að það er von, að mönnum hrjósi hugur við. En hitt ræður þó sjálfsagt meir, að mönnum er það mörgum hverjum blátt áfram ókleift. Þeir hafa hvorki ráð á nægu fé né eiga aðgang að lánum. Ég hef ekki beint tiltækar áreiðanlegar tölur um kostnað við bústofnun í sveit. En alveg er öruggt, að hann skiptir hundruðum þúsunda, og ég gæti trúað, að það væri ekki ofætlað að nefna 700–800 þús. kr. Hvar eiga ungir menn og efnalitlir að taka það fé? Hvar eiga þeir kost á lánum í því skyni?

Ég býst við því, að fleirum en mér, sem hafa farið um sveitir landsins, þyki það ískyggilegt og mikið umhugsunarefni, eins og ég sagði áðan, hvernig svo er komið á mörgum jörðum, að þar eru gömlu hjónin ein eftir. Hér þarf að koma til móts við unga fólkið og rétta því örvandi hönd. Það væri að mínum dómi gert með stofnun bústofnslánasjóðs. Það væri skref í rétta átt að gefa þessum aðilum, sem hér hefur verið rætt um, kost á hagkvæmum lánum til bústofns- og vélakaupa, svo sem gert er ráð fyrir í þessu frv.

Allt fram að því, að hin svokallaða „viðreisnarstefna“, að sjálfsögðu innan gæsalappa, var tekin upp, er óhætt að segja, að það hafi gætt mikillar og vaxandi bjartsýni hjá búendum þessa lands. Þeir stóðu í stórfelldum framkvæmdum, ræktuðu, byggðu, keyptu vélar og verkfæri, tóku síma og rafmagn á bæina o.s.frv., o.s.frv. Vegna þessara framkvæmda, sem sumar hverjar eru til gagns fyrir komandi kynslóðir, hafa margir bændur og þá sérstaklega ungir og efnalitlir bændur stofnað til mikilla lausaskulda, sem m.a. vegna vaxtahækkunar eru orðnar þeim lítt bærilegar eða jafnvel óbærilegar. Sjá sumir þeirra alls ekki útgöngudyr úr skuldabaslinu, nema þá helzt að selja bú og jörð og hverfa frá búskap. En með viðeigandi aðstoð hygg ég að möguleikar væru til, að þeir gætu rétt sinn hag. Þessar staðreyndir hafa í raun og veru verið þegar viðurkenndar af hæstv. ríkisstj., sem á s.l. sumri beitti sér fyrir útgáfu brbl. um heimild fyrir veðdeild Búnaðarbankans til að breyta tilteknum lausaskuldum bænda í föst lán. Það má vel vera, og ég skal ekkert gera lítið úr því hér, að einhverjir bændur geti notið aðstoðar og fyrirgreiðslu fyrir atbeina þessara lána. Og ef svo verður, er það að sjálfsögðu mikið fagnaðarefni. En um það efni get ég þó ekki rætt nánar í þessu sambandi, enda ekki viðeigandi, þar sem á ferðinni er frv. til staðfestingar þessum lögum og það verður rætt síðar. Ég vil þó aðeins á þessu stigi segja það, að eftir því sem mér er bezt kunnugt um, er enn svo margt óvíst í sambandi við þessi lán, að það er í raun og veru ákaflega erfitt að gera sér grein fyrir því nú, hver fyrirgreiðsla og hagnaður fyrir bændur verður fólginn í þeim lánveitingum, ef til kemur, auk þess sem mér skilst, að það sé gert ráð fyrir, að þau lán, sem kunna að verða veitt, verði allkostnaðarsöm og með tiltölulega háum vöxtum. Enn fremur er það, eftir því sem mér hefur skilizt, að nokkuð er óvíst um skyldur lánardrottna til þess að veita viðtöku þeim bréfum, sem ætlazt mun til, að þessi lán séu veitt í. En sem sagt, ég vil ekki í sambandi við þetta mál ræða frekar þær fyrirhuguðu lánveitingar, en vil aðeins undirstrika það, að eins og nú horfir, virðist mér þrátt fyrir þá ráðstöfun vera full þörf á þeim lánveitingum, sem þetta frv. gerir ráð fyrir til greiðslu lausaskulda, en vil þó jafnframt, eins og ég áðan sagði, benda á, að með þessari ráðstöfun sinni á s.l. sumri hefur hæstv. ríkisstj. viðurkennt þá þörf, sem fyrir hendi er í þessu efni, enda er það ekki að ófyrirsynju, því að vissulega væri vert að gefa því gaum, hverjar afleiðingar mundu verða af því, ef bændur flosnuðu upp, kannske í stórum stíl, vegna skulda, og það gerðist jafnhliða því, sem frumbýlingum fer fækkandi. Afleiðingin af því mundi auðvitað verða sú, að framteiðsla landbúnaðarafurða drægist saman, og það gæti jafnvel farið svo af þeim sökum, að innan tíðar fullnægði landbúnaðarframleiðslan hér innanlands ekki þörfum þjóðarinnar. Og þá hygg ég, að flestir mundu verða sammála um, að illa væri komið okkar hag, ef við værum ekki sjálfbjarga í þeim efnum.

Það er í stuttu máli að mínum dómi, og ég vænti, að þeir verði sem flestir, sem taka undir það, mjög hættulegt, ef sú framfarasókn, sem var mikil orðin í landbúnaðinum, stöðvast. Það verður þess vegna að mínum dómi að greiða fyrir því, að bændur geti stækkað bú sin, og í því efni verður það að vera lágmark, að búin hjá hverjum og einum svari til vísitölubús svokallaðs, og það verður að stuðla að því, að frumbýlingar og bændur, sem dregizt hafa aftur úr, geti keypt nauðsynlegar búvinnuvélar. Aðstöðumunur þeirra, sem vélarnar hafa, og hinna, sem engar eiga, er svo stórkostlegur, eins og allir vita, að búskaparaðstaða þeirra er ekki á nokkurn hátt sambærileg. Og þeir, sem engar vélar hafa, eru í raun og veru úr leik, þeir geta ekki búið það er alveg útilokað — í framtíðinni. En efnalítill bóndi hefur vissulega enga möguleika, eins og nú hagar til, til þess að kaupa t.d. dráttarvél, með því verði, sem nú er á því tæki.

Samfélagið má ekki loka augunum fyrir þörf þessara bænda. Það verður hér að hlaupa undir bagga. Það kemst blátt áfram ekki hjá því að sinna þessu máli. Ég ætla því að vona, að þetta frv. mæti skilningi hjá þeirri n., sem það fær til meðferðar, og að því verði vel tekið af hv. þdm. Ég fyrir mitt leyti er sannfærður um, að þetta er gott mál, að það er mikið nauðsynjamál, og það mun í framtíðinni í einni eða annarri mynd verða borið fram til sigurs.

Ég leyfi mér svo að leggja til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. fjhn.