20.10.1961
Efri deild: 6. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 491 í C-deild Alþingistíðinda. (2930)

33. mál, vegalög

Flm. (Sigurvin Einarsson):

Samgöngumálin eru meðal hinna mikilsverðustu mála í hverju byggðarlagi. Afkoma fólksins og skilyrði til atvinnu og framleiðslustarfa eru oft mjög undir því komin, hversu greið og örugg samskipti geta verið milli manna, milli héraða og milli landshluta. Það fer varla á milli mála, að vegaleysi hefur lagt marga bújörðina í eyði, og þannig hafa ýmis sveitarfélög orðið að gjalda mikið afhroð, en þó tekur steininn úr, þar sem svo er ástatt um heil sveitarfélög, að ekki er unnt að koma þangað nauðsynlegum landbúnaðarvélum vegna vegaleysis. Það má jafnvel segja, að það sé furðulegt, að í slíkum byggðarlögum skuli nokkur bóndi haldast við til lengdar, því að svo ómissandi eru þessi tæki í búskapnum, svo nauðsynlegt er, að þau séu á hverju einasta heimili, að maður ekki tali um það, að útilokuð er ræktun og þar með stækkun búanna, þar sem svo er ástatt, að þangað er ekki hægt að koma stórvirkum vélum.

Með þessu frv., sem hér er til umr. og við flytjum, hv. 2. þm.. Vestf. og ég, er lagt til, að nokkrir vegakaflar á Vestfjörðum verði teknir upp í þjóðvegatölu. Ég mun ekki fjölyrða að þessu sinni um vegamál Vestfirðinga út af fyrir sig né fara út í samanburð í þessum málum um Vestfirði annars vegar og aðra landshluta hins vegar. Ég hef gert það áður hér á hæstv. Alþingi, og ég hygg, að flestir þingmenn muni vera sammála mér um það, að í þessum efnum séu Vestfirðir allra byggðarlaga lakast settir. En það er ekki nóg að viðurkenna slíkar staðreyndir, heldur verður að bæta úr ástandinu. Okkur flm. er það að vísu ljóst, að vegirnir koma ekki með því einu saman, að þeir séu teknir í tölu þjóðvega. Til þess að byggja vegi þarf að sjálfsögðu fjárveitingar, en til þeirra kasta kemur við afgreiðslu fjárlaga, og skal ég því ekki ræða um það sérstaklega að þessu sinni. En hitt er víst, að fjárveiting frá Alþingi kemur ekki í þann veg, sem er ekki í tölu þjóðvega, og sýsluvegasjóðir eru lítils megnugir í þessum efnum. Eigi að bæta ástandið í vegamálum, verður því að byrja á byrjuninni, þ.e. að taka þá vegi í tölu þjóðvega, sem mest kallar að að leggja.

Stundum er þeim andmælum hreyft gegn opnun vegalaga, að svo og svo mikið sé ólagt af þjóðvegum, það sé að bera í bakkafullan lækinn að bæta nýjum þjóðvegum við. Þetta eru haldlaus andmæli: Það getur verið meiri nauðsyn á að leggja nú veg, sem er ekki í þjóðvegatölu, heldur en að leggja annan veg, sem hefur kallazt þjóðvegur um margra ára skeið, en er ekki farið að leggja. Ég skal nefna raunverulegt dæmi úr einni sýslu á Vestfjörðum. Fyrir allmörgum árum var vegakafli tekinn upp í þjóðvegatölu þar til að tengja einn bæ við þjóðvegakerfið. Vegurinn hefur ekki verið lagður, af því að jörðin er komin í eyði, en auðvitað er hann í þjóðvegatölu eftir sem áður. Annar vegur í sömu sýslu á að tengja fimm bæi við þjóðvegakerfið, og um þann veg er tillaga á þessu þingskjali. Hvor vegurinn ætti nú frekar að vera í þjóðvegatölu, eins og nú er komið? Ég held, að þetta dæmi og mörg önnur af svipuðu tagi, sem ég gæti nefnt, sé nóg til að sýna fram á það, að á þessum sex árum, sem eru liðin, síðan vegalögum var breytt, hafa breytzt aðstæður í ýmsum héruðum þessa lands, svo að í einstaka byggðarlögum er full nauðsyn á að taka upp vegi í þjóðvegatölu, sem ekki var gert 1955, og jafnframt er óþarft sums staðar að leggja vegi, sem þá voru teknir í þjóðvegatölu.

Öll árin frá 1955 hafa verið flutt frv. hér á hv. Alþingi um nýja þjóðvegi, líka árið 1956, ári eftir að vegalögunum var breytt. Á því ári fluttu þeir Jón Sigurðsson og Steingrímur Steinþórsson slíkt frv. í Nd., en Sigurður Bjarnason hér í Ed. Árið eftir, 1957, flytja sömu menn í háðum þingdeildum frv. til breyt. á vegalögum. 1958 flytja þeir Eiríkur Þorsteinsson í Nd. og Sigurður Bjarnason í Ed. vegalagafrv. 1959 flytja þeir Gunnar Gíslason í Nd. og Bjartmar Guðmundsson í Ed. vegalagafrv. Á síðasta þingi, 1960, flytja þeir vegalagafrv. í Nd., Garðar Halldórsson, Gísli Guðmundsson og Jónas G. Rafnar, en í Ed. Sigurvin Einarsson, Kjartan J. Jóhannsson og Hermann Jónasson. Og loks eru komin fram á þessu þingi tvö vegalagafrv., sitt í hvorri deild. Þessar sífelldu tillögur hv. þingmanna úr þremur þingflokkum um nýja þjóðvegi geta ekki verið fluttar að ástæðulausu. Þetta er auðvitað gert, að flytja slík frv., fyrir þrýsting heiman að úr héruðunum. Fólkið, sem býr við óviðunandi samgöngur, gerir kröfu til þess, að þingmenn flytji slíkar tillögur, og þess vegna koma þessi frv. fram. En svo nauðsynlegt sem það kann að hafa verið að opna vegalög 1956, 1957 og 1958, einu, tveimur og þremur árum eftir að vegalögunum var breytt, þá er þó því meiri nauðsyn á að breyta vegalögunum nú, þegar sex ár eru liðin frá síðustu breytingu, því að auðvitað verður nauðsynin því meiri á þessari vegalagabreytingu sem lengra líður frá þeirri síðustu og því skiljanlegt, að eftir sex ár sé þessi þörf orðin sýnu meiri en hún var fyrstu árin eftir 1955, og hafa þó verið fluttar tillögur hér á hv. Alþingi um slíka breytingu, eins og ég nefndi áðan, á öllum þessum þingum.

Ég vænti þess fastlega, að allir hv. þm.. fallist nú á að þessu sinni, að opnuð verði vegalög. Ég sé ekki ástæðu til að ræða við þessa umræðu einstakar tillögur í þessu frv., en legg til, að málinu verði nú vísað til 2. umr. og hv. samgmn.