09.11.1961
Efri deild: 12. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 496 í C-deild Alþingistíðinda. (2934)

64. mál, réttur verkafólks til uppsagnarfrests og launa vegna sjúkdóms- og slysaforfalla

Björn Jónsson:

Herra forseti. Með setningu laganna um rétt verkafólks til uppsagnarfrests frá störfum og um rétt þess og fastra starfsmanna til launa vegna sjúkdóms- og slysaforfalla, sem voru sett í marz eða apríl 1958, var ráðizt að því viðfangsefni í fyrsta lagi að finna form fyrir nokkurri vinnutryggingu til handa því fólki, sem minnsts öryggis nýtur um atvinnu sína, og í öðru lagi að tryggja nokkrar sjúkra- og slysabætur til handa þessu fólki í veikindatilfellum og þá í hverju tilfelli allt að 14 dögum, eða á því tímabili, sem almennar slysatryggingar taka ekki til.

Það má segja, að þessi lög hafi verið frumsmíð um mjög flókið og margþætt efni, sem tæplega verða sett ákvæði um, svo að sé að öllu leyti greinilegt, í mjög stuttri og tiltölulega einfaldri lagasetningu eins og þarna var um að ræða. Það var þess vegna valinn sá kostur af þeim, sem undirbjuggu þessi lög, að hafa lagaákvæðin í upphafi fá og tiltölulega einföld, þótt það yrði nokkuð á kostnað nákvæmninnar um einstök atriði í mjög breytilegum tilvikum, sem að sjálfsögðu eiga sér stað á okkar ótrygga og oft og tíðum stopulla vinnumarkaði.

Í annan stað var horfið að því að miða réttarbæturnar við þá vinnuhópa, sem eru einna fastastir í sessi, án þess þó að um fast starf þeirra væri að ræða, auðvitað ekki vegna þess, að þörfin væri minni fyrir það fólk, sem enn þá oftar þarf að breyta um vinnustað, heldur vegna augljósra erfiðleika á því að jafna þeim skyldum, sem réttarbæturnar hlytu að hafa haft í för með sér, eðlilega og réttlátlega á atvinnurekendur. Þetta voru auðvitað bagalegir annmarkar á lagasetningunni, þó að það þætti eftir atvikum rétt að sætta sig við þá, á meðan byrjunarreynsla væri að fást um löggjöfina. En að sjálfsögðu báru verkamenn og verkalýðssamtökin þær vonir í brjósti, að síðar yrði hægt, þegar reynsla væri fengin, að fá á þessu nokkrar úrbætur og þá að sjálfsögðu aukin réttindi. Það er líka svo, að þegar löggjöf er sett um sambúðarvandamál tveggja aðila, hlýtur slik lagasetning og framkvæmd hennar að markast nokkur af því, hvern skilning aðilarnir leggja í lagaákvæðin og hvernig þeir vilja rýma til varðandi t.d. ýmis atriði, sem eru ekki fyllilega augljós eftir lagasetningunni. Það stóðu því vissulega vonir til í þessu tilfelli, að í framkvæmdinni mundu ýmis augljós atriði mótast og sú reynsla, sem fengist, gæti þannig orðið undirstaða undir þessum breytingum.

Nú höfum við haft um 31/2 árs reynslu af þessum lögum, og ég hygg, að það sé almennt viðurkennt, að þau hafi komið að verulegu gagni, sérstaklega þó að því er viðvíkur sjúkra- og slysabótunum, en áreiðanlega að tiltölulega mikið minna gagni til að skapa atvinnuöryggi, og eins og hv. frsm, þessa frv. tók réttilega fram, þar er fyrst og fremst því um að kenna, hvað undantekningarákvæði 3. gr. eru viðtæk. Það hefur gert það að verkum, að miklu minna gagn hefur orðið af uppsagnarákvæðum, a.m.k. þegar vinnustöðum hér í Reykjavík sleppir, heldur en jafnvel vonir manna stóðu til. Það er líka svo, að það er auðsætt á lögunum, að menn geta í ýmsum tilvikum notið sjúkrabóta, þó að þeir njóti ekki vinnutryggingarinnar, sem stafar einfaldlega af því, að undantekningarákvæðin í 3. gr. varða ekki sjúkrabæturnar, þannig að þótt atvinnurekandi sé ekki skyldugur til þess samkvæmt lögunum að skapa verkafólki sínu vinnu upp tí hvern dag, er hann þrátt fyrir það skyldugur til þess að gjalda því kaup í sjúkratilfellum, þ.e.a.s. ef um er að ræða fólk, sem fellur undir 2. málsgr. 1. gr. Ég get því verið hv. flm. fyllilega sammála um það, að eftir að lögin hafa verið í framkvæmd þetta langan tíma, 31/2 ár, og eftir að veruleg reynsla hefur fengizt af framkvæmdinni, þá sé kominn tími til þess að athuga ýmis ákvæði í lögunum og reyna að bæta þar um. Enn þá eru mörg deiluatriði í sambandi við framkvæmd laganna, sem full þörf er á að kveðið sé skýrar á um í lögum, og að öðru leyti hafa framkvæmdaratriði skýrzt og þess vegna ástæða til þess að taka ýmsa hluti þar greinilegar fram en nú er. Auk þess er ég þeirrar skoðunar, að það beri að athuga lögin sérstaklega með tilliti til þess að auka atvinnuöryggið og einnig með tilliti til þess, að t.d. sjúkrabætur nái til fleiri en nú er. Og ég er líka sammála flm. um það, að undantekningarákvæðum þurfi að fækka og þá alveg sérstaklega í fiskiðnaðinum og einnig varðandi hafnarvinnuna, en um það fjallar þetta frv. að verulegu leyti. Ég tel, að það kæmi mjög til greina að fara meira inn á það, en sú hugmynd skýtur að nokkru upp kollinum í sambandi við þetta frv., að athuga enn þá frekar um vikulega vinnutryggingu, þannig að það verði í vaxandi mæli sá háttur hafður á, að vinna sé seld í vikueiningum frekar en í dagvinnu eða tímalaunum. Að sjálfsögðu komu til greina í sambandi við þetta jöfnum höndum bæði samningar á milli stéttarfélaganna og atvinnurekenda og hins vegar lagabreytingar. Það er þess vegna mikil nauðsyn á því, að um allar breytingar á lögunum sé haft samráð eða leitað álits bæði stéttarfélaganna og einnig atvinnurekenda, því að að sjálfsögðu vita þeir gerst, hver reynslan hefur orðið af lögunum, og óútkljáð deiluatriði eru þar enn á döfinni.

Ég er þess vegna þeirrar skoðunar, að það sé gott eitt um það að segja, að þessu máli hefur verið hreyft hér, ef það gæti orðið til þess, að endurbætur yrðu gerðar á einstökum atriðum, eða þá að það yrði tilefni þess, að ýtt yrði undir heildarendurskoðun á lögunum. Og ég fyrir mitt leyti gagnrýni það alls ekki hjá hv. flm., að hér er aðeins tekið fyrir eitt eða tvö atriði laganna, þó að ástæða gæti verið til að taka mörg fleiri. Slíkt getur vitanlega átt fullan rétt á sér. En mér virðist á hinn bóginn, að í fyrsta lagi byggi flm. frv. á háskalegum misskilningi á vissum ákvæðum laganna, — misskilningi, sem væri mjög bagalegt að hlyti viðurkenningu af hálfu löggjafarvaldsins og mundi að mínu viti rýra rétt verkamanna frá því, sem hann nú er eða hefur a.m.k. verið í framkvæmd. Í öðru lagi virðist mér, að það sé mjög vafasamt, að brtt., sem lagðar eru til. séu alfarið til bóta, en geti, eins og ég áður sagói, orðið í sumum tilfetlum til hins verra fyrir hlutaðeigandi verkamann. En slíkt er þó alveg vafalaust ekki meining flm.

Mér sýnist á frv., að hv. flm, hafi alveg látið hjá líða eða ekki talið þess þörf að kynna sér það mikilvæga atriði, hvernig lagaákvæðin hafa verið skilin og hvernig þau hafa verið framkvæmd. Ég hlýt þó á hinn bóginn að viðurkenna það, að hv. flm. hafa þarna miklar afsakanir varðandi misskilning sinn, þar sem þau ákvæði, sem þarna er um að ræða, eru mörg óljóslega orðuð í lögunum. Mér virðist, að hv. flm. byggi sínar till. almennt og fyrst og fremst á alveg sérstökum skilningi, sem ég verð að viðurkenna að ég hef aldrei heyrt áður, á lokaorðum í 1. málsgr. 3. gr., en til þess að hv. dm. geti áttað sig á, hvað þarna er um að ræða, verð ég að byrja á því að vísa til 1. gr. laganna, 2, málsgr., þar sem segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Tíma- eða vikukaupsmaður telst hafa unnið hjá sama atvinnurekanda í eitt ár, ef hann hefur unnið hjá honum samtals a.m.k. 1800 klst. á síðustu 12 mánuðum, þar af að minnsta kosti 150 stundir síðasta mánuðinn fyrir uppsögn: Síðan kemur 3. gr., og þar segir: „Nú fellur niður atvinna hjá atvinnurekanda, svo sem vegna þess að hráefni er ekki fyrir hendi hjá fiskiðjuveri, upp- og útskipunarvinna er ekki fyrir hendi hjá skipaafgreiðslu, fyrirtæki verður fyrir ófyrirsjáanlegu áfalli, svo sem vegna bruna eða skiptapa, og verður atvinnurekanda þá eigi gert að greiða bætur til launþega sinna, þó að vinna þeirra nemi eigi 150 klst. á mánuði.“ Þessi síðasti setningarhluti hefur verið skilinn þannig, að hann vísaði til þess, sem ég áður las í 1. gr., þ.e.a.s. til þess, að verkamaður eða verkakona missi ekki rétt sinn til uppsagnar, þó að vinnan hafi ekki numið 150 klst. á mánuði. En hins vegar hefur alls ekki verið um það að ræða, að þetta þýddi það, að þeir, sem á annað borð teljast fastráðnir menn samkvæmt lögunum, ættu ekki að njóta nema 150 klst., enda hygg ég, að það sjái hver maður glöggt, sem les lögin með athygli, að á það er hvergi minnzt.

Það er sem sagt skilningur hv. flm., að samkvæmt lögunum sé engum verkamanni tryggður réttur til nema 6 klst. á dag að meðaltali eða 150 klst. á mánuði hverjum, þ.e.a.s. ekki einu sinni 6 klst. á hverjum degi, því að samkvæmt þessum skilningi gætu menn verið vikum saman atvinnulausir, þó að þeir ættu fyllsta rétt til uppsagnar og án þess að fá nokkrar bætur fyrir það. Þá er það enn fremur skilningur hv, flm., að til þess að ná þessum 6 klst. á dag að meðaltali sé heimilt að taka einnig inn í þann útreikning bæði eftirvinnu og næturvinnu, svo að það fer nú samkv. þessum skilningi frekar að kortast um það, að réttur þeirra, sem eiga að teljast fastráðnir starfsmenn samkv. 1. gr. frv., sé nokkuð verulegur til venjulegrar dagvinnu, því að að sjálfsögðu væri alveg eins hugsanlegt, að verulegur hluti af þessum 6 klst. á dag væri unninn í næturvinnu eða eftirvinnu. En í lögunum er hvergi minnsti stafur fyrir því, að hægt sé að taka eftirvinnu eða næturvinnu inn í þessa vinnutryggingu. Að vísu má segja, að það gagnstæða sé ekki heldur tekið fram, en þess ber þó að gæta, að 8 stunda vinnudagur er viðurkenndur í samningum að nafninu til og út frá því er gengið að sjálfsögðu ævinlega, þegar um fastráðna menn er að ræða, að þeir hafi sinn fulla 8 stunda vinnudag í dagvinnu. Út frá þessu draga flutningsmenn svo m.a. þá ályktun, að breyting á 1., sem fæli í sér 8 klst. vinnutryggingu að meðaltati á dag, mundi auka réttindi hins fastráðna fólks samkvæmt skilningi 1. gr. frá því, sem nú er.

Ég vil í fyrsta lagi segja það um þetta, að þessi skilningur flutningsmanna stangast algerlega á við framkvæmdina, eins og hún hefur verið. Þekki ég það vel varðandi mitt stéttarfélag, að þar hefur þessi skilningur aldrei komið til greina af hálfu atvinnurekenda. Ég hef einnig borið þetta undir stjórnarmenn í Dagsbrún, og þeim ber saman um það, að lögin hafi verið framkvæmd samkv, þeim skilningi, sem ég hef hér lýst. Ég hef enn fremur átt tal um þetta, strax þegar lögin voru sett, af því að mér þóttu þessi ákvæði óljós, við annan aðalhöfund laganna, og hann taldi engan vafa leika á því, að þessi skilningur, sem ég nú hef lýst, væri réttur. Ég hef einnig núna, síðan þetta frv. kom fram, borið mig saman við lögfræðing, sem oft hefur unnið í þágu atvinnurekenda, og hann sagði, að á engan hátt væri mögulegt að skilja þessa setningu, sem ég visaði til í 3. gr. um 150 klukkustundirnar, svo, að réttur verkamanna væri bundinn við það. Ég tel því, að það leiki enginn vafi á því, að allir, sem falla ekki undir undantekningarákvæði 3. gr., eigi rétt á 8 klst. dagvinnu á hverjum virkum degi, og að ekki komi til mála, að inn í þá vinnutryggingu eigi að blanda eftirvinnu eða næturvinnu. Ég held þess vegna, að það sé ekki vafi á því, að ákvæði, sem tækju gildi samkv. frv. og um leið væri af hendi löggjafarvaldsins gefin önnur skýring á gildi laganna en hefur verið í framkvæmd, þá mundi þetta rýra stórkostlega rétt sumra þeirra, sem lögin taka til, ef þetta frv. yrði samþykkt. Hitt teldi ég þó enn þá háskalegra, ef tekið yrði mark á skilningi lm. flm. án þess að gera má á lögunum nauðsynlegar breytingar, þannig að réttur verkamanna samkv. lögunum rýrnaði ekki í framkvæmd frá því, sem hann er nú. Og ég get endurtekið það, að þessi skilningur hv. flm. er mér algerlega nýr, og ég hygg, að ef fleiri væru um hann og ef það væri almenn sú skoðun og þessi skilningur ætti almennu fylgi að fagna hér á Alþ., þá held ég, að það mundi enga gleðja nema þá atvinnurekendur, því að að sjálfsögðu mundi það spara þeim allverulegar skyldur.

Þetta er um frv., að svo miklu leyti sem það varðar almenna framkvæmd á lögunum. En að hinu leytinu fjallar frv. sérstaklega um hafnarverkamenn í Reykjavík. Um það, að breytingar á ákvæðum um hafnarverkamenn hefðu einhver áhrif á stöðu verkamanna eða þeirra réttindi, þá er það um það að segja, að hafnarverkamenn eru hvergi á landinu í svo fastri vinnu, að þeir komi til greina með að eiga rétt samkv. tögunum, eða a.m.k. er það alveg hverfandi, ef það er nokkurs staðar til, þannig að þessi ákvæði mundu eingöngu snerta Reykjavík. Og ég þykist vita, að að nokkru leyti a.m.k. sé tilefni til flutnings frv. það, að nú stendur yfir deila milli hafnarverkamanna í Reykjavík og atvinnurekenda. En ég held, eftir því sem minn litli kunnugleiki nær á þeirri deilu, að þá muni þessi breyting, sem hér er lögð til á þessum lögum, ekki snerta þá deilu á nokkurn hátt, því að hún er um allt annað atriði, eftir því sem ég bezt veit.

Ég held líka, að það sé ekkí meginatriði fyrir þá hafnarverkamenn hér í Reykjavík, sem á annað borð hafa unnið í 1800 klst. á síðustu 12 mánuðum hjá sama atvinnurekanda, hvort þeim sé tryggt það að fá laun, sem svöruðu til 48 klst. vinnu á viku, ef eftirvinna og næturvinna er tekin inn í þann útreikning, því að ég hygg, að hvað sem annars má segja um kjör hafnarverkamanna, sé því ekki til að dreifa, að þeir almennt hafi ekki þær tekjur. Hitt er svo annað mál, að þeirra deila nú snýst að nokkrum þræði um það, hvort þeir eigi að hafa rétt til 8 stunda dagvinnu á hverjum degi, en ekki um það, hvort þeir skuli eiga rétt til launa fyrir 48 klst. á viku, ef öll þeirra vinna, bæði dagvinna, eftirvinna og næturvinna, er þar talin i. Sem betur fer held ég, að það sé ekki almennt vandamál, a.m.k. ekki hjá þeim mönnum, sem þessi lög kynnu að geta tekið til.

Ég held þess vegna og í samræmi við það, sem ég hef nú sagt, að þá yrði þetta frv. allt annað og betra um þetta einstaka atriði, ef flm. hefðu einskorðað sig aðeins við þá breytingu að fella niður undantekningarákvæðin um hafnarvinnuna í 3. gr. Með því móti hefði öllum hafnarverkamönnum, sem á annað borð lögin taka til, verið tryggð samkvæmt þeim skilningi, sem verið hefur á lögunum í praksís, 8 stunda vinna á dag, og ég tel líka alveg vafalaust, að þá mundi sú breyting geta haft einhver áhrif á þá deilu, sem nú er milli hafnarverkamanna og skipaeigenda.

Ég vil svo að lokum aðeins segja það, að ég ætla hv. flm. ekki á nokkurn hátt, að þeir hafi viljað vísvitandi skemma fyrir verkamönnum eða rýra rétt þeirra. Það sé fjarri mér að halda slíku fram. En einmitt vegna þess, að ég hef þá trú, að þetta frv. sé þrátt fyrir þá galla, sem ég hef bent á, borið fram í góðum tilgangi, þá vonast ég til þess, að þeir stuðli að gagngerðum breytingum á því, sem eru nauðsynlegar, annaðhvort í þeirri hv. nefnd, sem frv. fær til meðferðar, eða með öðrum hætti, og einnig, að þeir stuðli við fyrsta tækifæri að þeirri endurskoðun, sem ég tel að sé nauðsynleg á lögunum í heild, m.a. til þess að taka af tvímæli og óljóst orðalag og þó sérstaklega til þess að auka atvinnuöryggi verkamanna og annars þess fólks, sem við minnst atvinnuöryggi á að búa.