09.11.1961
Efri deild: 12. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 503 í C-deild Alþingistíðinda. (2936)

64. mál, réttur verkafólks til uppsagnarfrests og launa vegna sjúkdóms- og slysaforfalla

Björn Jónason:

Herra forseti. Ég vil lýsa ánægju minni yfir því, að hv. 9. landsk. þm.., fyrri flm. frv., hefur lýst því yfir hér í áheyrn þdm., sem síðar verður skjalfast í þingtíðindum, að hann er í vafa um það, að skilningur hans á lögunum, sá skilningur, sem hann byggir sitt frv. á, sé réttur. Ég álít þetta þýðingarmikið, að hann skuli hafa gefið þessa yfirlýsingu, og mitt ómak hér í ræðustólinn sé í raun og veru fulllaunað með þessu, því að að sjálfsögðu hefði það verið mjög slæmt og bagalegt, ef sá skilningur, sem hann hélt fram, hefði komið fram hér og honum hefði ekki verið mótmælt. A.m.k. hefur það þá áunnizt í málinu, að þessar umr. verða ekki notaðar síðar í t.d. málatilfellum, dómum, til þess að styðja þá skoðun, að verkamenn eigi miklu minni rétt en þeir hafa fengið í praksis út úr lögunum. En það fer þá líka að verða mér og kannske fleiri vaxandi undrunarefni, að frv. skuli vera flutt um það, að þeir, sem lögin taka til, skuli njóta 8 klst. launa að meðaltali á mánuði, ef það er vafamál, eins og hv. flm. sagði, að þessir menn eigi ekki rétt á því að fá full laun fyrir 8 klst. dagvinnu, því að á þessu tvennu er alveg reginmunur, eins og ég tók fram í minni fyrri ræðu. Þó að ég skilji það að sjálfsögðu jafnvel og hv. flm., að það sé betra að hafa tryggingu fyrir 8 klst. meðalvinnu á dag heldur en 6 klst., þá skiljum við líka hitt alveg jafnvel, að það er betra að hafa tryggingu fyrir 8 klst. dagvinnu. Og ég hefði getað vænzt þess af hv. flm., að hann útbyggi frv. sitt þannig, að það væri alveg tryggt, að verkamenn og aðrir, sem þessara laga eiga að njóta, misstu ekki rétt, sem þeir hefðu áunnið sér núna, jafnvei þó að sá réttur væri ekki fulltryggður með lögum, ef hann hefði verið fulltryggður í framkvæmd, sem ég hygg að hafi verið. Þetta er að sjálfsögðu aðalatriði þess, sem okkur ber á milli.

Ég held, að það hljóti að vera auðvelt, — ég vil a.m.k. ekki trúa öðru, — að fá lögfest hér á hv. Alþingi ákvæði, sem hafa verið viðurkennd bæði af samtökum verkafólks og af samtökum atvinnurekenda, a.m.k. í framkvæmd. Ég skal ekki fullyrða um það, ég er ekki viss um, að það liggi fyrir skjalleg viðurkenning á því, að t.d. aðilar eins og Vinnuveitendasamband Íslands viðurkenni mínu skilning á lögunum, og það er alveg rétt, sem hv. 9. landsk. þm.. sagði, að það hafa ekki heldur fallið dómar um þetta, sem taki af öll tvímæli. En hitt hygg ég að sé ekki mjög torvelt að afla sér upplýsinga um, að framkvæmdin hefur verið þessi. Og ég vil ekki, eins og ég sagði áðan, trúa því, að hv. þm.. vilji rýra rétt verkamanna frá því, sem hann er nú í praksis, hvað sem öllum lagaskýringum líður. Hitt er ég honum svo alveg sammála um, eins og ég tók skýrt fram áður, að ég tel, að það væri til verulegra bóta, ef tekin yrðu af öll tvímæli um óljós og óskýr ákvæði, og það skal ekki standa á mér að styðja þær tillögur, sem í þá átt ganga, hvaðan sem þær koma.