21.11.1961
Efri deild: 20. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 504 í C-deild Alþingistíðinda. (2939)

85. mál, orlof

Flm. (Björn Jónsson):

Herra forseti. Frv. það, sem ég flyt hér um breyt. á l. um orlof frá 1943, felur í sér tvenns konar breytingar á ákvæðum þeirra laga. Fyrri breytingin er sú, að niður verði felld 2. mgr. 4. gr. 1., en þar er svo ákveðið, að þeir, sem lögin taka til og ekki eru í föstu starfi, skulu fá greitt orlofsfé af því kaupi, sem þeir vinna fyrir í eftir-, nætur og helgidagavinnu, sem sú vinna hefði verið innt af hendi við dagvinnukaupi. Þetta þýðir, að orlofsfé á eftirvinnu, eins og laun verkafólks eru nú almennt fyrir hana samkvæmt almennum kjarasamningum, verður innan við 4% af eftirvinnunni og aðeins 3%, ef um næturvinnu eða helgidagavinnu er að ræða. Á undanförnum árum hafa þessi ákvæði verið í samræmi við kjarasamninga stéttarfélaga og verkafólks og atvinnurekenda, en eru nú orðin úrelt, eftir að flest þeirra, jafnvel öll verkalýðsfélög hafa fengið inn í kjarasamninga sína þau ákvæði, að fullt orlof skuli greitt á öll vinnulaun, á hvaða tíma sólarhrings eða hvaða vikudegi sem þeirra er aflað, En þessi ákvæði voru, eins og kunnugt er, eitt samningsatriða eftir vinnudeilurnar á s.l. sumri. Eftir að þessi ákvæði hafa nú hlotið almenna viðurkenningu, virðist eðlilegt og sjálfsagt, að lögunum sé breytt í samræmi við þá viðurkenningu, en þau ákveði ekki minni rétt að þessu leyti en allur þorri lausráðins verkafólks hefur aflað sér með samningum.

Það hefur verið venja að breyta ákvæðum orlofslaganna í samræmi við það, sem verkalýðssamtökin hafa almennt samið um, og þegar þau voru upphaflega sett 1943, var meginefni þeirra miðað við þær réttarbætur, sem verkalýðssamtökin þá höfðu náð með samningum. 1957 var lögunum breytt í samræmi við það, að verkalýðsfélögin höfðu þá fengið orlofsféð hækkað tír 4% í 6%, og þá var einnig lögfest sú réttarbót fyrir hlutarsjómenn, að þeir fengju orlof af öllum launum sínum eða öllum aflahlut sínum, en áður höfðu þeir aðeins fengið orlof af hálfum aflahlut. Þessi síðasttalda breyting var ekki gerð vegna þess, að um hana hefði verið samið áður, heldur var löggjafarvaldið í því tilfelli að ryðja nýrri skipan braut. Og 1957 var svo einnig orlofstíminn lengdur úr tveimur vikum í þrjár vikur sem lágmark, í samræmi við þá hækkun, sem orðið hafði á orlofsfénu. Ég nefni þessa breytingu, sem var gerð 1957, til þess að sýna það, að löggjafarvaldið hefur lítið svo á, að því bæri nokkur skylda til að fylgjast með þeirri þróun, sem orlofsrétturinn hefur tekið með samningum, og í sumum tilfellum ekki látið sitja við það, heldur tekið að sumu leyti frumkvæðið um eflingu þessa réttar í sínar hendur. En orlofslögin taka ekki aðeins til þeirra, sem skipa verkalýðsfélögin og geta beitt samtökum sinum til þess að auka rétt sinn á þessu sviði, heldur ákveða þau almenn lágmarksréttindi fyrir alla, sem vinna í þjónustu annarra, rétt til árlegrar hvíldar frá störfum. Og jafnvel er svo ástatt, að sumir þeirra, sem eru ekki í verkalýðssamtökunum, hafa ekki lagalegan rétt til þess að semja um kjör sín, má þar t.d. nefna opinbera starfsmenn og iðnnema, og svo aftur aðrir, sem hafa litla eða enga möguleika til þess að ná rétti sinum eða skapa sér réttindi eftir öðrum leiðum en löggjafarleiðum. Þess vegna er nauðsynlegt og eðlilegt, að löggjöfin leitist við að halda þessum almennu réttindum í horfinu og auka þau, eftir því sem nauðsynlegt getur talizt.

Allt frá því að orlofslögin voru sett, hafa þau ákvæði verið í lögunum varðandi fasta starfsmenn, hvort sem þeir vinna í þjónustu hins opinbera eða í annarra þágu, að þeir eigi að fá greidd laun fyrir orlofsdagana, jafnhá og þeir hefðu borið úr býtum, ef þeir hefðu unnið venjulegan vinnutíma. Í þessu ákvæði felst það, að engir fastir starfsmenn eiga í krafti laganna rétt til neinnar greiðslu orlofsfjár fyrir þá vinnu, sem þeir kunna að hafa unnið utan venjulegs vinnutíma næsta orlofsár áður en orlof er tekið. Það má segja, að þetta ákvæði hafi í rauninni alltaf verið í nokkru ósamræmi við réttindi lausráðins fólks, en nú tel ég, að það sé orðið algerlega óviðunandi, eftir að almenn viðurkenning hefur í reynd fengizt á þeirri reglu til handa þeim, sem eru ekki í föstu starfi, að þeir skuli fá fullt orlofsfé af öllum vinnulaunum sinum. Þess vegna legg ég til, að sú breyting verði gerð á ákvæðum laganna, að öllum þeim, sem eru í föstu starfi, verði tryggt fullt orlofsfé af öllum launum sínum.

Um báðar þessar breytingar, sem frv. fjallar um, er það að segja, að þær stefna að því, að öllum þeim, sem lögin taka til, verði tryggð jafnhá laun yfir orlofstímann eins og þeir hafa notið að meðaltali næsta orlofsár á undan. Ég tel, að það sé lágmark, að þeirri reglu verði komið á varðandi alla starfsmenn, og það er í raun og veru auðsætt hverjum manni, að orlofstíminn er sá tími á árinu, sem krefst ekki minni, heldur miklu fremur meiri útgjalda hjá þeim, sem taka orlof, heldur en aðrir árstímar að öllum jafnaði. Þess ber að gæta, að menn eiga ekki aðeins rétt til orlofs, heldur ber mönnum lagaleg skylda til þess að nota þennan rétt. En til þess að það sé unnt og til þess að orlofsrétturinn nái tilgangi sínum, verða menn að geta veitt sér fulla hvíld frá störfum og helzt um leið einhverja tilbreytingu frá daglegu umhverfi, t.d. með ferðalagi eða dvöl á friðsælum stöðum eða á hvíldarheimilum. En þetta er mörgum ekki auðið, nema þau laun, sem menn fá orlofsdagana, séu nægilega há. Víða um lönd og þar á meðal á öllum Norðurlöndum hefur verið litið nokkuð á þá nauðsyn, að starfsfólk hefði meiri laun fyrir orlofsdagana heldur en endranær, og orlofsréttur veittur í samræmi við það. Þannig er nú orlofsréttur verkafólks á öllum Norðurlöndum, að ég held, nema á Íslandi, 61/2%, og uppi hafa verið mjög sterkar kröfur um það, að orlofsfé væri aukið, jafnvei þótt orlofstíminn sjálfur yrði ekki lengdur. T.d. man ég það, að dönsku verkalýðssamtökin settu þá kröfu fram við síðustu samningsgerð sína, — ég held, að það muni samt ekki hafa orðið breyting á því, — að orlofið hækkaði í 7%. Hér er þó aðeins lagt til, að starfsfólk fái sömu laun og ella á jafnlöngum tíma, og vænti ég, að það verði ekki talið ósanngjarnt.

Að lokum vil ég segja það, að réttur til nægjanlegrar hvildar frá störfum verður að skoðast meðal mikilvægustu og sjálfsögðustu mannréttinda, og réttur til árlegs orlofs er annar meginþáttur þess réttar. Góðu heilli hefur verið viðurkennt í framkvæmd, að löggjafarvaldinu beri nokkrar skyldur til þess að tryggja öllum starfandi mönnum þennan rétt og hafa bein afskipti í samræmi við það. En sé sú skylda á annað borð viðurkennd, fylgir henni óhjákvæmilega sú kvið að fylgjast með þeirri þróun, sem þessi réttur tekur, og haga lagasetningu í samræmi við það. En það er einmitt efni þessa frv., að svo verði gert, og vænti ég greiðrar afgreiðslu málsins, bæði í nefnd og í hv. þingdeild.

Ég vil svo leyfa mér að leggja til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. heilbr.- og félmn.