11.12.1961
Neðri deild: 35. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 273 í B-deild Alþingistíðinda. (296)

107. mál, verðlagsráð sjávarútvegsins

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Það er aðeins örstutt aths. og þá sérstaklega til þess að svara þeirri spurningu, sem hv. 4. þm. Austf. (LJós) og raunar fleiri hafa borið hér fram, um það, hvernig kjósa beri í yfirnefndina. Mér láðist að svara þessu, það féll úr huga mínum, þegar ég talaði áðan, annars hefði ég alveg eins getað svarað því þá og ég get nú, að mér hefur aldrei dottið annað í hug en að sjómannafulltrúarnir ættu einir hlut að því, hvaða sjómaður yrði kosinn í yfirnefndina, og útgerðarmennirnir einir að tilnefna sinn fulltrúa þar. Ef það er talið eðlilegt eða nauðsynlegt, að þetta komi skýrar fram en í frv. felst, þá tel ég, að það mætti að sjálfsögðu gera, en mér finnst það óeðlilegt að hugsa sér þetta öðruvísi. Með yfirlýsingum hér ætti þetta að vera nokkurn veginn tryggt, en ef það er talið, að betur færi á því að taka af öll tvímæli um þetta í lögunum, hef ég síður en svo neitt á móti því. — Ég vænti, að með þessu sé fsp. hv. þm. fullsvarað.

En þá vildi ég líka, úr því að ég kem hér aftur, fara nokkrum orðum um röksemdafærslur hv. þm. um val útgerðarmanns í yfirnefndina og hvaða skilyrði hann verði að uppfylla, sem tæki ekki til fulltrúanna í verðlagsráði. Hv. þm. taldi óeðlilegt, að ekki yrði gerð sama krafa til fulltrúa útgerðarmanna í verðlagsráði og gerð er í yfirnefndinni, þ.e.a.s. þessi fulltrúi hafi enga kaupendahagsmuni. En þetta er, finnst mér, allt annars eðlis, hvernig málin eru afgreidd í verðlagsráði og hvernig þau eru afgreidd í yfirnefndinni. Ákvæðið um það, að útgerðarmaður skuli ekki hafa kaupendahagsmuna að gæta, er miklu óþarfara og að mínu viti alveg óþarft í verðlagsráðinu, en alveg sjálfsagt í yfirnefndinni. Það kemur til af því, að í verðlagsráði eru mál ekki afgreidd með atkvgr., þau eru því aðeins afgreidd í verðlagsráði, að um þau sé fullt samkomulag. Hins vegar eru í yfirnefndinni málin afgreidd með atkvgr., og meiri hluti atkvæða ræður þar úrslitum, og verður þess vegna þar að gera miklu strangari kröfur en í sjálfu verðlagsráði. Hver einasti aðili í verðlagsráðinu getur stöðvað afgreiðslu máls og þá náttúrlega alveg eins, þó að einhver af útgerðarmönnunum í ráðinu hefði einhverra annarra hagsmuna að gæta en sjómennirnir, og er það þess vegna alveg á valdi þeirra að stöðva afgreiðsluna, en það er ekki hægt í yfirnefndinni. Þess vegna eru það að mínu áliti aðrar kröfur, sem þarf að gera í yfirnefnd en í verðlagsráðinu sjálfu.

Um það, hvernig þessi mál verða afgreidd skv. frv., hvort það verður verðlagsráðið eða yfirnefndin, sem kemur til með að ráða málinu til lykta, það er náttúrlega ákaflega erfitt að segja á þessu stigi málsins. Getur reynslan ein skorið úr um það. Ég lét í ljós þá skoðun og þá trú, að langsamlega mestar líkur væru til þess, að verðlagsráðið gæti komið sér saman um afgreiðsluna og þyrfti ekki að vísa málinu til yfirnefndar, m.a. vegna þess, að áfrýjun til yfirnefndar fylgir nokkur áhætta fyrir báða aðila og þess vegna sé til allmikils að vinna fyrir þá báða að fá málunum ráðið til lykta í sjálfu verðlagsráðinu án þess að áfrýja því til yfirnefndar. Þannig hefur reynslan orðið í verðlagsráði landbúnaðarafurða að langsamlega mestu leyti, með þeim fáu frávikum, sem ég nefndi áðan, og ég hef enga ástæðu til þess að ætla annað en það sama geti orðið í verðlagsráði sjávarútvegsins, þannig að málin verði að mestu leyti afgreidd þar, en ekki hjá yfirnefnd. — Annað held ég að hafi ekki verið, sem ég þurfti að svara hv. þm.