27.10.1961
Sameinað þing: 10. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 5 í D-deild Alþingistíðinda. (2964)

48. mál, mótmæli gegn risasprengju Sovétríkjanna

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Ég vil segja hér nokkur orð um þessa till. til að lýsa stuðningi við hana.

Það er ekki vafi, að það vakti mikinn fögnuð í heiminum, þegar ljóst varð, að kjarnorkuveldin höfðu hætt kjarnorkusprengingum og kjarnorkutilraunum í hernaðarskyni. Menn gerðu sér vonir um, að þegar þessu hefði verið hætt, þá kæmi ekki til mála að taka þessa vitfirringu upp aftur. Og þótt Frakkar brytu af sér og kæmu með sprengingu, eftir að hinir höfðu hætt, held ég, að engum hafi dottið í hug, að slíkt yrði notað að skálkaskjóli til þess að byrja þennan leik að nýju, því að sú sprenging, sem Frakkar gerðu, gat ekki talizt til nýjunga, þagar hún var borin saman við það, sem áður hafði skeð, og í henni var þess vegna ekkert nýtt, sem gaf nokkrum tilefni til að byrja aftur á þessum voðalega leik.

Ég býst við því, að fjöldi manna hafi gert sér vonir um, að það yrðu alger þáttaskil í þessum málum, þegar sprengingum hafði verið hætt, og áreiðanlega gerðu margir sér vonir um, að það mundi verða upphaf þess, að samkomulag næðist á milli kjarnorkuveldanna og þjóða heimsins yfirleitt að banna framvegis allar slíkar tilraunir. Það er alveg áreiðanlegt, að mikill þorri manna í öllum löndum gerði sér beinlínis vonir um þetta — og meira. Menn hugsuðu sér margir, að þetta gæti orðið upphaf þess, að samkomulag næðist með tímanum um afvopnun, þetta yrði upphaf þess, að samkomulag næðist um afvopnun. Öllum var vitanlega ljóst, að allt tal um afvopnun var og er gersamlega út í hött, meðan kjarnorkusprengingum er áfram haldið.

Nú hafa allar þessar vonir manna verið gersamlega gerðar að engu, þar sem Sovétlýðveldin hafa nú tekið til að sprengja, alveg upp úr þurru, sprengja kjarnorkusprengjur í miklu stærri mæli en áður hefur þekkst. Kemur það nú í ljós, að forráðamenn Sovétlýðveldanna hafa notað það hlé, sem varð á þessum ósköpum, til að undirbúa af mikilli lævísi stórkostlegri voðasprengingar en nokkru sinni hafa áður koniið til greina. — Hafa þeir sprengt nær daglega nú undanfarið slíkar sprengjur, og meðal þeirra er ein sú stærsta og hættulegasta, sem nokkru sinni hefur verið reynd.

Þetta er svo gersamlega óafsakanlegt með illu, að það er alveg furðulegt, að nokkur skuli ljá sig til þess að mæla því bót. Hér er alveg að ástæðu- og tilefnislausu gert að engu allt það starf, sem unnið hefur verið í skynsamlega stefnu í þessum málum og menn voru farnir að vona að mundi geta borið einhvern árangur.

Mig skortir tæknilega þekkingu til þess að ræða tæknilega hlið þessara mála og leiða nokkrar getur að því, hver hætta getur af þessu stafað fyrir þá, sem nú lifa, og óborna. En engum dylst, að háskinn er gífurlegur, og fróðustu menn telja, að jafnvel þeir, sem fyrir þessu standa, viti ekki, hvað þeir eru að gera. En það eitt vita menn, að háskinn er mikill og að íslenzka þjóðin er þannig í sveit sett, ef svo mætti segja, að hún er háskanum mjög nærri, eins og raunar hér hefur verið gerð grein fyrir.

Ekki skal ég leiða getum að því, hvernig á því stendur, að Sovétmenn taka upp á þessum ósköpum og hefja þessar ógnarráðstafanir á nýjan leik. Má vera, að þeir ætli með þessu að ógna frjálsum þjóðum heimsins, sem vilja ekki beygja sig undir vilja þeirra Sovétmanna í einu og öllu. Það er eiginlega varla hugsanleg önnur skýring á þessu en að þeim detti í hug, að þetta sé aðferðin til þess, að þeir fái einir öllu að ráða.

En það er vafalaust mikill misskilningur, ef þeir halda, að svona lagaðar ógnarráðstafanir séu til þess fallnar að beggja alla undir þeirra vilja. Og ég er ekki í nokkrum vafa um, að frjálst fólk í öllum löndum mun þannig bregðast við þessu máli, að það mun ekki verða til ávinnings þeim, sem upp hafa tekið, heldur þvert á móti til þess að herða menn í að standa saman gegn þeim yfirgangi og þeirri yfirgangshugsun, sem hlýtur að liggja að baki þessu.

Það mætti margt um það segja, hvað þetta minnir á af því, sem við höfum áður lifað, en ég skal ekki fara út í það nú við þetta tækifæri. Ég mun láta þessi fáu orð nægja til þess að lýsa stuðningi við till.