27.10.1961
Sameinað þing: 10. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 35 í D-deild Alþingistíðinda. (2968)

48. mál, mótmæli gegn risasprengju Sovétríkjanna

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Það er vissulega stórmál, sem hér er til umr., og því finnst mér, að það sé engin ástæða til þess, hvorki af hæstv. forsrh. né öðrum, að tala um á þessu stigi máls, að gerðar séu hér tilraunir til þess að vefja mál og tefja, þó að nokkurra klukkustunda umr. fari fram um það. Enn þá er a.m.k. algerlega ástæðulaust að vera með slík brigzl. Hér hafa engar tilraunir farið fram í þá átt að vefja þetta mál eða tefja.

Í framsögu fyrra flm. í dag kom það fram, að hann teldi þetta mál þannig vaxið, að ástæðulaust væri að láta það sæta þeirri venjulegu þinglegu meðferð stórmála, að því væri að lokinni umr. vísað til nefndar til nánari íhugunar og athugunar þar, eins og eðlilegt er. Mér kom þetta undarlega fyrir sjónir. Ég gat ekki fallizt á það og get það ekki enn, að þetta mál sé svo lítilsvert, að það eigi ekki erindi til n. til athugunar. Ég get ekki heldur séð, að þær ógnir, sem vofa yfir heiminum í dag vegna kjarnorkustyrjaldarmættu, séu slíkt augnabliksfyrirbæri, að neins sé misst, þótt Alþingi gefi sér tóm til að athuga málið og flaustra ekki af afgreiðslu þess. Ekki get ég fundið, að það séu rök fyrir því, að málið skuli ekki fara til n. Ég hefði talið á allan hátt bezt viðeigandi, að þetta mál hefði sætt í hvívetna þinglegri meðferð og að Alþ. hefði gefið sér eðlilegt tóm, án alls dráttar, til þess að afgr. það með virðulegum hætti. Ég vil því leyfa mér að fara fram á það við hv. flm., að þeir fallist á, að málið verði athugað í n., og sé ég ekki annað en það hljóti að vera hægt að afgr. málið að nefndarathugun lokinni á morgun. Það má vel vera, að við þessari ósk verði ekki orðið, en hún er eðlileg, hún er réttmæt, hún er þingleg.

Hæstv. forsrh. vék að því áðan, að fyrir Alþ. hefði legið till. árið 1953 eða 1954, þar sem var skorað á Bandaríki Norður-Ameríku að hætta kjarnorkutilraunum, sem það kjarnorkuveldi var þá að framkvæma. Hæstv. ráðherra upplýsti, að þá hefði verið á það fallizt að láta till. fara til n., og það þýðir, að einmitt Sjálfstfl. hefur þá staðið að þeirri meðferð málsins. Tel ég þetta styðja að því, að hann ætti enn að hafa þá hina sömu afstöðu og ekki nú öndverða afstöðu við það. Nú er sams konar mál hér á dagskrá. Eini munurinn er, að nú er um að ræða kjarnorkusprengingar, sem Sovétríkin eru að framkvæma. Þá var um að ræða kjarnorkusprengingar, sem Bandaríki Norður-Ameríku voru að framkvæma. En það á vissulega ekki að valda gerólíkri meðferð á málinu á Alþingi. Hvers vegna á þá að hraða málinu? Jú, hæstv. forsrh. sagði, að því lægi á, því að landsfundur Krjústjoffs væri ekki enn þá búinn. Hann er svo lengi að því, hann Krjústjoff, að halda sinn landsfund. Hæstv. forsrh. er löngu búinn með sinn, til hans verður því ekki skotið neinum tilmælum héðan af. En það er hægt að koma þessum tilmælum frá Alþingi Íslendinga á landsfund Krústjoffs, og hæstv. ráðh. gerir sér miklar vonir um það, að ef afgreiðsla Alþingis sé eindregin og einróma í málinu, þá sé ekki alveg vonlaust um, að það ráði afgreiðslu málsins þar austur frá. Þetta fundust mér vera þau rök, sem hæstv. ráðh. kom upp í ræðustólinn áðan til þess að flytja. En mér finnst þau ekki veigamikil í alvarlegu máli og áreiðanlega meira flutt af gamansemi hæstv. forsrh. heldur en af hinu, að hann telji þetta vera þungamiðju málsins og þess vegna verði að hraða því og láta það ganga fram hjá n. og nefndarathugun.

Menn hafa verið að víkja að því nokkuð hér í dag að rekja sögu kjarnorkusprenginga, og það gera flm. líka í grg. sinnar till. Þar víkja þeir að því, að Bandaríkin, Stóra-Bretland og Sovétríkin hafi hafið slíkar tilraunir m~eð kjarnorkusprengingar og hafi fengið fordæmingu almenningsálitsins í heiminum fyrir, svo hafi verið komið hlé á, þar til Sovétríkin nú rufu þessa samstöðu og hófu á ný kjarnorkusprengingar. Af hverju munaði flm. um að hoppa þarna yfir Frakkland? Úr því að þeir fóru að rekja sögu, af hverju voru þeir að sýna þá hlutdrægni að nefna ekki Frakkland, sem varð fyrst til að rjúfa það hlé, sem orðið var á um kjarnorkusprengingar? Það er ekki góðs viti. Þar er mér úlfs von, sem ég eyrun sé. Slík hlutdrægni er eins og fangamark, hún er eins og eyrnamark á till. Úr því að menn eru að rekja þessa sögu, sem ég álít ekkert aðalatriði í dag, hví er þá ekki staldrað við það, að Bandaríki Norður-Ameríku eru það veldi í veröldinni, sem hóf kjarnorkusprengingar og drap hundruð þúsunda, ef ekki milljónir manna? Sá veldur þó miklu, sem upphafinu veldur, eða svo hefur löngum verið sagt á Íslandi. Nei, það er ekki minnzt á það. Hins vegar kom það fram í ræðu hjá einhverjum ræðumanni í dag, að þannig stæðu nú sakir, að Bandaríki Norður-Ameríku mundu hafa sprengt um það bil helmingi fleiri helsprengjur en Sovétríkin. Það kemur ekki heldur fram í grg. till., og er það þó allathyglisverð söguleg staðreynd. En eins og ég sagði, þetta er ekki aðalatriðið, hversu nákvæmlega menn rekja þessa sögu. En illa fer á því, þegar Alþingi tekur svona alvarlegt stórmál fyrir, að áberandi hlutdrægni sé beitt í sögulegri túlkun till. eða með fskj., sem með henni er. Á þetta vildi ég benda, þó að ég telji það ekkert aðalatriði, vegna þeirra viðhorfa, sem Alþingi hlýtur að taka út af þeim atburðum, sem hafa verið að gerast undanfarnar vikur. En skemmd er það á till. og vekur grun um, að allt sé ekki af heilindum um flutning hennar.

Frá mínu sjónarmiði er það svo, að þeir ræðumenn, sem fordæma kjarnorkusprengingar sem glæp gagnvart mannkyninu, eiga ekki að hafa á milli tannanna eitt stórveldið öðrum fremur.

Þeir eiga að bendla Bandaríki Norður-Ameríku, Stóra-Bretland, Frakkland og Sovétríkin í einni bendu við þessa glæpastarfsemi gegn mannkyninu og hika ekki við. Þá fyrst þora þeir af óhlutdrægni að ræða um þessi mál. En það hefur ekki verið gert hér í dag sem skyldi. Ég finn enga afsökun fyrir því, að þessi glæpastarfsemi gegn mannkyninu var hafin, né heldur fyrir því, að eftir að hún hafði verið stöðvuð, skuli hún vera tekin upp á ný. Hins vegar eru það mannlegt, að menn þreytist, þegar menn t.d. eru; eins og einhver nefndi hér í dag, búnir að sitja 338 fundi til þess að fjalla um bann gegn kjarnorkusprengingum og um allsherjarafvopnun í veröldinni og ekkert gengur eða rekur, eingöngu fögur orð á báða bóga, en engin alvara um að leysa málið. Þá gera samningamenn það stundum að gera sig reiða og slá í borðið og vita, hvort ekki er með því móti hægt að fá andstæðinginn við samningaborðið til þess að taka með meiri alvöru á viðfangsefninu. En fullharkalegt er það og ábyrgðarlítið að reka hnefann í borðið á þann hátt að hefja slíkan leik sem kjarnorkusprengingar, sem vissulega er enginn leikur. Hafi þær verið hugsaðar þannig, þá tel ég jafnvel eftir 338 funda þóf, eins og einhver sögufróður hefur sagt í dag, að það sé engan veginn réttlætanlegt.

En nú vil ég víkja að því: til hvers tekur Alþingi Íslendinga slíkt mál eins og þetta til umræðu? Hvers vegna er það tekið hér fyrir? Er það til þess, að það verði augljóst heiminum, að Alþingi Íslendinga og íslenzka þjóðin dragi sig sjálf í dilk með annarri hvorri fylkingu stórveldanna, sem mannkyninu stafar hætta af? Á tillöguflutningurinn að miðast við það? Á hann að setja það mark á Ísland? Nei, það á hann ekki að gera. Þá væri betur, að tillagan væri ekki flutt. Ef hún er í því formi, að hún sé af slíkri hlutdrægni fram borin og beri það með sér, þá er verr farið, að hún sé flutt. Það er hamingju Íslands til hinnar mestu óþurfar, það gæti verið örlagaríkt fyrir íslenzku þjóðina, ef Alþingi Íslendinga léti ályktun um þetta mál frá sér fara í slíku formi. Ég tel hins vegar fullkomlega réttlætanlegt og eðlilegt, að Alþingi Íslendinga láti til sín heyra um kjarnorkumálin. Það er engri þjóð sjálfsagðara en hinni litlu vopnlausu, friðsömu íslenzku þjóð. En hún á að gera það að mínu áliti á þann hátt að tjá sig sem einlægan og eindreginn andstæðing allra kjarnorkusprenginga í veröldinni, hvar sem þær séu framkvæmdar og hjá hvaða stórveldi sem það er gert. Ef tillagan er þannig, þá er hún Íslandi til sóma og þá er hún líkleg til að verða íslenzkri þjóð til blessunar og gagns.

Ég vil því segja, að ef við viljum, að okkar ályktun, sem fer frá Alþingi í nótt eða á morgun, hafi áhrif og sé Íslandi til sæmdar, þá á þessi áskorun að mínu áliti að vera mótmæli gegn kjarnorkusprengingum Rússa, kjarnorkusprengingum Sovétríkjanna, sem hér eru efst í hugum manna, og gegn hvers konar tilraunum stórveldanna með kjarnorkusprengjur, — það er leikur að eldi, sem getur tært upp mannkynið og heiminn, — hún á að vera mótmæli gegn kjarnorkustyrjöldum allra kjarnorkuvelda og áskorun um allsherjarafvopnun. Og ég get ekki séð, að nokkur íslenzku þingflokkanna hafi gilda ástæðu til þess að láta nokkuð af þessu undan falla.

Ég held, að það hafi verið hv. 5. þm. Vesturl. (BGr), sem viðurkenndi að vísu í dag í ræðu sinni, að hv. 4. þm. Austf. hefði margoft í ræðu sinni lýst því yfir, að hann væri á móti kjarnorkusprengingum, hvort sem þær væru framkvæmdar í austri eða vestri. En hann fullyrti í ræðu sinni, að hv. 4. þm. Austf, hefði ekki mátt heyra það, að Sovétríkin væru nefnd í ályktuninni. Þetta er misskilningur frá hans hendi. Það þola allir þm. Alþb., það er alveg ákveðin afstaða Alþb., að það megi án nokkurrar feimni nefna það í ályktuninni, að við séum að mótmæla kjarnorkusprengingum Sovétríkjanna. Þarna hefur því hv. 5. þm. Vesturl. verið í bardaga við vindmyllur, og vona ég, að hann fallist á það, að það var engin ástæða til að brigzla hv. 4. þm. Austf. um þjónkun við Sovétríkin, þegar hann hafði gefið þá yfirlýsingu, að hann og Alþb. væru á móti kjarnorkusprengingum, hvar sem þær væru sprengdar, hvort sem það væri í austri eða vestri. Ég vil hins vegar vænta þess, að það standi á engum í liði hv. stjórnarflokka að láta mótmæli sín ná til allra kjarnorkuvelda, að Sovétríkjunum nefndum.

Vafalaust er það svo, að heiminum stendur ekki fyrst nú í dag eða á þessum seinustu vikum ógn af kjarnorkusprengjum stórveldanna. Sú hætta hefur vafalaust verið fyrir hendi, frá því að Bandaríkin sprengdu sína fyrstu sprengju, og síðan minnt á sig í hvert skipti, sem eitthvert stórveldið sprengdi kjarnorkusprengju. En svo mikið er víst, að skilningurinn á háskanum hefur ekki verið almennur í þessu landi, hann hefur ekki verið túlkaður í málgögnum hv. Sjálfstfl. og Alþfl. í löngu og átakanlegu máli fyrr en nú, að sterku sprengingarnar hjá Sovétríkjunum gátu vakið þennan skilning hjá þeim, og það er líklega það einasta góða, sem af þessum bölsprengjum getur leitt. En það er líka nokkuð, ef þær hafa vakið skilning ýmissa Íslendinga og kannske sams konar skilning víða um heim á því, að mannkyninu væri háski búinn af kjarnorkusprengingum, og tel ég það þá vel.

Ég tel, að tillagan, sem hér liggur fyrir til umr. og afgreiðslu, taki ekki hlutdrægnislaust á öllum þáttum þessa stóra og örlagaríka máls. Ég tel, að í henni séu þrír meginþættir: Í fyrsta lagi eindregin mótmæli gegn sprengingum Sovétríkjanna á risakjarnorkusprengju, og þessum mótmælum fylgir áskorun um, að þau hætti nú þegar kjarnorkusprengingum sínum vegna þeirrar hættu, sem af þeim stafi. Þetta er gott, þetta er skýrt, það sem það nær, og má að mínu áliti samþykkjast. En þarna vildi ég mælast til þess, að bætt væri við, þar sem við eru komin að punktinum þarna, þar sem segir: „ og þar með íslenzku þjóðarinnar í voða.” — þar kæmi ný málsgrein, eitthvað á þessa leið: Jafnframt mótmælir Alþingi og fordæmir kjarnorkusprengingar allra annarra kjarnorkuvelda. — Og hví skyldu ekki þeir, sem hiklaust og eindregið mótmæla og fordæma hinar ægilegu kjarnorkusprengingar Rússa nú að undanförnu, einnig beina máli sínu í ályktuninni frá Alþingi til þeirra kjarnorkuvelda, sem alls ekki er óhugsandi að næstu daga, eftir að við höfum afgreitt þetta mál, hefji kjarnorkusprengingar í jafnstórum eða kannske enn ægilegri stíl en Sovétríkin? Það er ekki heldur verið að gera slíkum veldum neinar getsakir, þetta eru allt veldi, Bandaríkin, Bretland og Frakkland, sem hvað eftir annað hafa sprengt ægilegar kjarnorkusprengjur, sem vissulega eru ekki fremur en þær sovézku hættulausar mannkyninu og veröldinni. Ég hef enga ástæðu til að ætla, að hv. stjórnarflokkar setji sig á móti því, að slík viðbót væri þarna tekin inn, þegar á engan hátt væri verið að draga úr upphafi tillögunnar sem mótmælum og fordæmingu á kjarnorkusprengingum Sovétríkjanna, sem tekið er fyrst og þannig augljóslega sett sem aðalorsök tillöguflutningsins. Ég fellst einnig fyllilega á framhald till., þar sem sérstaklega er mótmælt neðansjávarsprengingum, vegna þess að það getur stofnað afkomumöguleikum Íslendinga í hættu. Fyrir því voru í framsöguræðu hv. fyrra fim. flutt að minni hyggju gild rök, að af straumum hafsins frá norðurströndum Síberíu, sem gætu borizt hingað til lands, mætti ætla, að sjávarlífinu hér við Ísland gæti verið háski búinn, og er því full ástæða til þess, að Íslendingar mótmæli því sérstaklega.

Þegar Frakkar framkvæmdu sínar kjarnorkusprengingar í Sahara-eyðimörkinni, var víða mótmælum hreyft. En mesta athygli vöktu mótmæli Afríkuþjóðanna, sem voru í bersýnilegum háska vegna þessara sprenginga og áttu ef til vill líf sitt fremur í hættu en nokkrir aðrir á jarðarkringlunni. Þeirra mótmæli voru því hin eðlilegustu. Og alveg eins væri þetta með okkur. Það er hið stóra mál, sem okkur snertir og okkar líf í landi okkar fyrst og fremst.

Tillöguna til enda gæti ég vei hugsað mér svo sem hún er, en ég tel, að við hana ætti að bæta yfirlýsingu Alþingis um það, að það muni aldrei sætta sig við kjarnorkustöðvar hér á landi og ekki leyfa, að kjarnorkuvopnum verði beitt héðan frá okkar landi. Ég tók eftir því í dag, að hv. 5. þm. Vesturl. sagði, að hér væru engin slík vopn, hér væru heldur engar slíkar flugvélar, sem gætu flutt þessi vopn. En flugvélar af þessari gerð eru ekki lengi að berast til landsins. — Það hefur áður verið sagt: Hér er þetta ekki. — En það liggur ekki fyrir nein yfirlýsing frá hv. Alþingi um það, að Alþingi muni aldrei undir neinum kringumstæðum sætta sig við, að hér séu kjarnorkubirgðir eða kjarnorkuvopn, sem væri beitt héðan til árása á aðrar þjóðir. Teldi ég því vera, þegar Alþingi væri að lýsa afstöðu sinni fyrir alheimi um þessi mál, fullviðeigandi, að lýst væri yfir því jafnframt, og vænti þess, að enginn setji sig á móti því.

Ég skal nú draga saman það, sem er þá niðurstaða míns máls. Ég vil í fyrsta lagi fyllilega, að sú ályktun, sem Alþingi gerir í þessu máli, sé mótmæli og fordæming gegn stórsprengju Sovétríkjanna. Í öðru lagi, að í till. séu mótmæli og fordæming á kjarnorkusprengingum allra kjarnorkuvelda. Í þriðja lagi séu í till. mótmæli vegna hættu á eitrun sjávar, með sérstöku tilliti til þess, hvað við Íslendingar eigum þar í húfi. Í fjórða lagi, að áskorunin taki til stórvelda um það að koma sér saman um bann við kjarnorkusprengjum undir ströngu og öruggu eftirliti með því, að bannið sé virt og haldið. Og í fimmta lagi, að í ályktuninni sé yfirlýsing Alþingis um það, að það mundi aldrei sætta sig við, að land okkar verði nota;i sem atómstöð, þ.e.a.s. til þess að hafa hér birgðir kjarnorkuvopna, né að slíkum vopnum verði beitt héðan í átökum milli þjóða.

Ég hef ekki að fullu mótað þessa tillögu, en efnislega liggur hún skýrt fyrir, og ég hefði haldið, að það væri ekki aðeins eðlilegt, að málið færi til nefndar til þess að athuga þessi sjónarmið, sem nú hefur verið gerð grein fyrir af hendi Alþb., bæði af mér og formanni þingflokksins, heldur teldi ég það einnig vera þinglegra, að hv. meiri hluti á Alþingi gæfi einnig tóm til þess að athuga fram komna brtt. við jafnþýðingarmikið mál, þegar við leggjum fram brtt. í þessa átt. Ég vil vænta alls réttlætis og allrar sanngirni af hv. meiri hluta þingsins við afgreiðslu þessa máls og að allir vilji leggja sig fram um það, að málið sé afgreitt á þann veg, að við verðum ekki sakaðir um hlutdrægni í málinu, heldur höfum við lýst almennt afstöðu Íslands og Alþingis Íslendinga gegn kjarnorkusprengingum í veröldinni, hvar sem þær eru framkvæmdar og af hverjum. Og þá fyrst er afgreiðsla málsins innlegg af okkar hendi, sem sé Alþingi og Íslandi til sóma.