27.10.1961
Sameinað þing: 10. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 40 í D-deild Alþingistíðinda. (2969)

48. mál, mótmæli gegn risasprengju Sovétríkjanna

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Hv. 3. þm. Reykv. flutti langa ræðu um þetta mál, og hygg ég, að ýmsum hafi birzt í þeirri ræðu höfuðástæðan fyrir því, að hann er ekki lengur aðalforsvarsmaður hins alþjóðlega kommúnisma hér, heldur hefur yngri og harðari maður fengið það hlutverk. Að vanda hvessti þessi gamalreyndi og ágæti þm. sig öðru hverju, en þess á milli talaði hann af mikilli tilfinningu og einlægni, og hygg ég, að við höfum þá séð til botns í hans afstöðu í þessu máli. Það var augljóst, að hann varði alþjóðastefnu Sovétríkjanna, þ. á m. hinar síðustu sprengingar. Hann varði þetta algerlega. Þar var engan bilbug að finna, engar efasemdir um neitt smáatriði. Ég get vel trúað því, að þessi hv. þm., sem er gamall hugsjónamaður, trúi á forráðamenn heimskommúnismans á þann hátt, sem hann lýsti, trúi, að þetta séu góðir menn, sem ætli sér ekki neina misbeitingu á því mikla valdi, sem þeim er fengið, og hann trúi sjálfur þeim skýringum á síðustu kjarnorkusprengingum Sovétríkjanna, sem hann gaf.

Þessar umr. hafa borizt víða um heim, og hafa dregizt inn í þær ýmis atriði úr heimspólitík og sögu síðustu 15 ára. Það, sem ég sagði um þau efni, var að hverju atriði af beinu tilefni frá hv. 4. þm. Austf. í hans ræðu. Ef til vill er ekki tímabært að taka þessi atriði hvert fyrir sig og ræða þau. Það gætu orðið langar umr., og réttara er að halda sér við þá till. í þrengri merkingu, sem hér liggur fyrir. Þrátt fyrir það mundi ég engu síður en hv. 3. þm. Reykv. vera reiðubúinn til að ræða þau mál áfram, en mun ekki gera það nema í einstaka atriði.

Hin barnslega einlæga trú hv. þm. á afstöðu kommúnistablokkarinnar til heimsmála kom einna skýrast fram í því, sem hann sagði um Kóreustyrjöldina. Hann lýsti því, hvernig Dulles hefði farið austur þangað til að ganga úr skugga um, hvort vigbúnaðurinn væri í lagi og nægilega mikill, en svo hefði Suður-Kórea hafið árásina, sem líklega hefur átt að granda kommúnismanum í heiminum. Þó að Dulles hafi fundizt allt í lagi og nóg af vopnum, fór svo, að Norður-Kóreumenn óðu suður um allan skaga, þangað til ekki var eftir nema örlítið horn á landi Suður-Kóreu. Þessir viðburðir sjálfir sýna, að það er með ólíkindum, að Suður-Kóreumenn hafi byrjað þann leik með stuðningi alls heimskapitalismans og svona hefði farið, jafnvel þótt þeim herrum kunni að vera mislagðar hendur. Nú bið ég ekki hv. 3. þm. Reykv. eða neinn annan að taka mínu mati eða annarra þm. á því, hvað þarna gerðist raunverulega. Ég ætla aðeins að vísa til þess, að þessi mál komu fyrir Sameinuðu þjóðirnar, og þar var samþykkt með yfirgnæfandi meiri hluta þjóðanna, að kommúnistar hefðu í þessu tilfelli gerzt sekir um árás, um innrás í annað land samkvæmt sáttmála Sameinuðu þjóðanna. Það er því samhljóða dómur yfirgnæfandi meiri hluta Sameinuðu þjóðanna, að þessir viðburðir hafi gerzt eins og ég hef lýst þeim, en ekki eins og hv. 3. þm. Reykv. hefur lýst þeim. Er því hrein fjarstæða að tala um þessa ógæfustyrjöld sem einhverja heildaraðgerð gegn sósíalismanum á þessari jörð. Og þessi styrjöld breytir ekki því, sem ég benti á, að lýðræðisríkin notuðu ekki kjarnorkusprengjurnar, þegar þau höfðu þær ein, og má þar benda á sjálfa Kóreustyrjöldina, því að þessi sömu ríki stóðust þá freistingu að nota kjarnorkusprengjuna, jafnvel þegar þeim vegnaði verst. Við vitum það vel, að til voru menn á vesturlöndum, þ. á m. Douglas McArthur hershöfðingi, sem létu mjög hvarfla að sér að nota sprengjuna. En það var ekki gert, og McArthur hershöfðingja var vikið úr starfi. Það stendur því óhaggað, að lýðræðisríkin notuðu ekki þá yfirburði, sem þau höfðu um árabil er þau höfðu kjarnorkusprengjur í sínum höndum, til að gera út af við hið vaxandi kommúnistíska afl í heiminum, enda þótt kalda stríðið væri þegar hafið og augljóst, hvað fram undan væri.

Hv. 3. þm. Reykv. gaf okkur þá endanlegu skýringu á ógnarsprengingum Sovétríkjanna við Dumbshaf, að ríkisstjórn austur þar væri á þennan skemmtilega og heilbrigða hátt að tilkynna herforingjum Hitlers, sem nú eiga að stjórna Vestur-Þýzkalandi, Krupp og öðrum kapítalistum þar, að þeir skuli hafa sig hæga, því að Sovétríkin muni nota kjarnorkusprengjur sér til varnar. Þarna kom heimspólitísk skýring frá kommúnista, og hún er í eðli sínu staðfesting á því, sem við höfum sagt: að þessar sprengjur eru sprengdar í valdapólitísku skyni til að sýna mátt Sovétríkjanna og tilkynna okkur öllum, hvað í vændum sé, ef við höfum okkur ekki hæga. Kjarni málsins er staðfestur af hv. 3. þm. Reykv., þegar hann talar úr djúpi sinna dýpstu tilfinninga.

Nú vita þeir, sem hafa fylgzt með gangi heimsmála undanfarna mánuði, að vestur í Bandaríkjunum hafa menn miklar áhyggjur af því, að Sovétríkin kunni að efast um, að Bandaríkjamenn mundu beita kjarnorkuvopnum til varnar Vestur-Berlín. Það má lesa í fréttum viku eftir viku, að Bandaríkjamenn séu að gera þetta eða hitt til að reyna að sannfæra Sovétríkin um, að þeir mundu jafnvel láta koma til kjarnorkustyrjaldar frekar en hopa af þessum bletti.

Þá höfum við það báðum megin frá, að höfuðaðilar kalda stríðsins telja sig þurfa að sannfæra hinn aðilann um, að þeim sé alvara, þeir ætli ekki að hopa fyrir neinum ógnunum. Er þá jafnt á komið að því leyti, og stendur eftir, að aðeins annar aðilinn greip til þess örþrifaráðs að sprengja helsprengjur, með þeim afleiðingum, sem við höfum rætt.

Ýmislegt fleira var fróðlegt og athyglisvert í ræðu hv. 3, þm. Reykv. Ef það er rétt, sem hann gerði að miklu atriði í ræðu sinni, að Sovétríkin óttist, að Vestur-Þýzkaland fái aftur kjarnorkuvopn, og það skal ég ekki lá þeim, er þá ekki öruggasta leiðin til að fyrirbyggja það að ganga til samkomulags um að banna þessi vopn? Hví ekki að ganga nokkrum skrefum lengra en komið var í Genf, þar sem ekki skorti mikið á, að samið væri? Þær tillögur, sem síðast voru lagðar þar fram á árinu 1960 af hálfu vesturveldanna, voru, ef ég man þrjá fyrstu liðina rétt, í fyrsta lagi, að bannaðar skuli sprengingar í háloftunum, í öðru lagi, að bannaðar skuli sprengingar ofanjarðar, og í þriðja lagi, að bannaðar skuli sprengingar neðansjávar, og fjórða ákvæðið var um neðanjarðarsprengjur.

Hv. 3. þm. Reykv. má trúa því, að menn í hinum frjálsa heimi hafa ekki síður áhyggjur af því en hann og aðrir kommúnistar, ef kjarnorkuríkjunum fjölgar. Það er ekki sízt til þess að fyrirbyggja, að ýmis fleiri stórveldi og smærri veldi komist yfir þessi vopn, sem menn leggja slíka gífurlega áherzlu á það, að nú þegar sé byrjað á því að semja um bann við tilraunasprengingum með kjarnorku- eða vetnisvopn.

Menn taka skáldsögur ef til vill ekki alvarlega. En nýlega var gefin út hér á landi í íslenzkri þýðingu saga um gereyðingu mannkynsins í kjarnorkustyrjöld, sem vakti athygli margra og var raunar ógeðfelldur lestur. í þeirri skáldsögu byrjaði kjarnorkustríðið á því, að miðlungsríki, hvorki stór né smá, misbeittu vopninu. Það voru ekki stórveldin sjálf.

Ef þessi ótti ræður raunverulega framkomu Sovétríkjanna, þá eru þau á rangri braut. Þá er það hin leiðin, að semja og banna þessar tilraunir, sem mundi duga. Það getur eins farið svo, að áframhaldandi tilraunir eins og Sovétríkin gera sig nú sek um verði til að ýta undir önnur ríki að reyna að eignast þessi vopn. Hvað gera t.d. Svíar, sem við vitum að hafa sennilega bæði tæknikunnáttu og efnahagslegan mátt til að koma sér upp kjarnorkusprengjum? Hvað gera þeir, ef þessu heldur áfram rétt norðan við landamæri þeirra?

Einn kafli í ræðu hv. 3. þm. Reykv. var um hugsjónir hans, um það hlutverk, sem Ísland ætti að leika á jörðinni. Hann tiltók nokkur einkenni þjóðar okkar, sem hann taldi að gerðu okkur sérlega færa til að bera sáttarorð. Eitt höfuðeinkenni var, að við hefðum aldrei átt í stríði. Það er ekki hv. 3. þm. Reykv. að þakka, að við höfum aldrei átt í stríði, því að menn muna enn þá, að í styrjaldarlok áttum við þess kost að verða stofnmeðlimir Sameinuðu þjóðanna, ef við vildum segja möndulveldunum stríð á hendur. Og fáir menn hér á Íslandi vildu taka því boði, en þeir, sem börðust fyrir stríðsyfirlýsingu, voru forustumenn kommúnista.

Hv. þm. spurði: Hvað ætlast menn fyrir með Ísland í kjarnorkustríði? Hann hafði mörg orð um, að þetta mál væri ekki tekið alvarlega. En það er herfilegur misskilningur, ef hann heldur, að menn hafi ekki hugsað þetta mál og kynnt sér eins og kostur er.

Ég lít þannig á viðhorf Íslands til kjarnorkustyrjaldar, að við eigum að leggja okkar lóð á þá vogarskálina, sem styður að algeru banni gegn tilraunum með kjarnorkuvopn, sem er fyrsta og nauðsynlegasta skrefið til þess, að kjarnorkuvopnin verði bönnuð að fullu. Þó að illa gangi, trúi ég, að þetta muni takast. Það tókst með eiturgasið. Það var notað í einni styrjöld með hörmulegum afleiðingum, og menn voru að deyja af völdum þess mörg ár eftir stríðið. En það var ekki notað í seinni styrjöldinni og hefur ekki verið notað í neinum af þeim mörgu smástyrjöldum, sem háðar hafa verið síðan. Ef þetta tekst ekki og kjarnorkustríð þrátt fyrir allt brýzt út, er það mín skoðun og trú, að varnarlaust og óvarið Ísland mundi verða eins konar valdatóm, sem mundi draga til sín kjarnorkuveldin. Þetta er sama skoðun og ráðamenn Noregs hafa, sem ráðamenn Danmerkur hafa, sem ráðamenn Svíþjóðar hafa. Og á þessu sama byggja allar þessar þjóðir þá stefnu, að þær hafa landvarnir og verja til þess miklu fé, allt upp í fjórðung af ríkistekjum í Svíþjóð.

Með því að hafa hér nægar varnir, til þess að ekki sé algert valdatóm, tel ég, að við munum hafa mikla möguleika til að standa utan við sjálfar kjarnorkuárásirnar. Ég tel, nákvæmlega eins og Norðmenn og Danir hafa talið og Svíar á sinn hátt líka, að með nokkrum landvörnum sköpum við okkur langsamlega mesta möguleika friðar í landinu.

Það hefur verið gagnrýnt, að við höfum lagt til, að tillagan verði afgreidd án þess, að hún gangi til nefndar. Hér hefur verið bent á í umræðum, að hv. 3. þm. Reykv. hefur sjálfur lagt til um sambærileg mál, að þau fengju þá afgreiðslu, og er hann einn af okkar elztu og vönustu þingmönnum. Og hann viðurkenndi hér í ræðustól í dag, að þessi meðferð væri ekki andstæð þingsköpum á neinn hátt. Höfuðástæða til þess, að ég legg til, að þessi afgreiðsluháttur verði hafður á málinu, er sú, að á þeim tíma, sem það venjulega tekur okkur að afgreiða þáltill. á þessu þingi, væri hægt að sprengja aðrar tvær sprengjur. Þessi till. er í fyrsta lagi áskorun á ríkið, sem hefur sprengt 24 sprengjur undanfarið, að hætta því. Og sú áskorun verður auðvitað að koma fram strax. Hún er í öðru lagi að gefnu þessu tilefni áskorun um, að kjarnorkuveldi heims komi sér hið fyrsta saman um bann gegn tilraunum á kjarnorkuvopnum, en hver slík áskorun hlýtur að hafa því meira gildi, sem hún kemur fyrr fram, eftir þá hörmulegu atburði, sem nú síðast eru tilefni að slíkum umræðum, að slíkri ályktun og slíkri baráttu um allan heim sem. raun ber vitni. Það, sem hér er að gerast á Alþingi í dag, er ekkert einsdæmi, síður en svo.

Við höfum heyrt á ræðum þriggja hv. þm. kommúnista í dag, að þeir geta í hvorugan fótinn stigi í þessu máli. Þeir gefa stöðugt yfirlýsingu um, að þeir séu á móti óllum kjarnorkusprengingum, en svo koma skilyrðin, og þeir fara yfir í þetta og yfir í hitt og yfir í að afsaka sprengingarnar, sem nú síðast voru gerðar, reyna að skýra þær fyrir sjálfum sér og fyrir öðrum, og yfir í það að reyna að finna einhverja átyllu til að spilla fyrir þeim framgangi þessa máls, sem óskað hefur verið eftir við þingið.

Hér hefur verið lýst hugmyndum að till., sem að vísu hafa ekki verið lagðar fram. Ég hef hlustað á þessar tillögur og hugsað þær, síðan þær voru fram bornar í umræðunum, fyrir mitt leyti, og get ekki betur séð en þær séu algerlega óþarfar og til þess eins gerðar að reyna að spilla þessu máli.

Í sambandi við þær tillögur vil ég enn ítreka það, að fyrri hluti þáltill., sem liggur frammi, er um viðburði, sem hafa nú nýlega gerzt og eru því tilefni tillögunnar. Sé ég enga ástæðu til þess að breyta neinu um það. Það er skýrt í hugum allra. Við höfum heyrt mikið og hugsað mikið um þessa viðburði undanfarna daga, og þetta er ekki mál, sem kom okkur á óvart. Sumir flokkar fluttu tillögur um þessi mál fyrir tæpum áratug, svo að þeir koma varla af fjöllum í þessu máli.

Síðari hluti tillögunnar er ekki um það, sem hefur gerzt, eins og fyrri hlutinn, heldur um hitt, sem fram undan er. Við leggjum hreinlega til, að Alþingi skori á öll kjarnorkuveldi heims að gera hið fyrsta samkomulag um bann við öllum þessum tilraunum með eftirliti. Þar með eru allar sprengingar, hvar sem þær eru, í framtíðinni meðtaldar, og þetta ákvæði á nákvæmlega eins við öll núverandi kjarnorkuveldi og einnig við öli þau veldi, sem ætla sér að verða kjarnorkuveldi.

Ég sé enga ástæðu til að blanda landvörnum Íslands inn í þetta. Það er búið að lýsa hér alkunnum staðreyndum um, hvaða stefna hefur ríkt hér í þeim málum, og seinni hluti þessarar till. mun fjarlægja allar frekari áhyggjur af því í framtíðinni, ef fram næst, og nær því algerlega yfir það mál líka. Ég mæli því eindregið með því, að þessi till. verði samþykkt eins og hún liggur fyrir óbreytt og að hv. Alþingi afgreiði hana sem allra fyrst, svo að hún geti komið að sem mestu gagni.